þriðjudagur, desember 30, 2003

Í gær var jólasaumó með skvísunum og mennirnir fengu að koma með ;) Það var ekkert smá gaman því að við erum svo sjaldan allar á landinu þannig að það var frábært að allir skyldu hafa tíma til að komast. Og svo var rosalega mikið spjallað og borðað og hlegið. Svo var rosalega mikið dáðst að nýju prinsunum í saumaklúbbnum, þeir eru algjörar dúllur.
Í dag var ég semsagt frekar þreytt í vinnunni því að við komum seint heim. Svo finnst mér líka frekar skrýtið að vera að fara að vinna á morgun (er að vinna til hádegis), ég er eiginlega ekki alveg að ná því að það séu að koma áramót. En það verður samt svo gaman á morgun, ég fer til mömmu og pabba og borða svið, nammi namm. Árna finnst þau hinsvegar vond (skil ekkert í honum) þannig að hann verður hjá mömmu sinni og pabba í mat.
En ég segi bara við alla núna af því að ég nenni örugglega ekkert að blogga á morgun:
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna!! Megi gæfan fylgja ykkur á nýju ári.

mánudagur, desember 29, 2003

Oh hvað þetta eru búin að vera yndisleg jól. Ég naut þess alveg að vera í fríi (er komin í vinnuna núna). Ég og Árni vorum heima hjá mömmu og pabba og fengum alveg frábæran mat. Ég og Árni fengum ekkert smá mikið, eiginlega of mikið til að ég nenni að telja það upp ;) Svo var bara legið og lesið og borðað nammi og haft það rosalega kósí.
Á jóladag voru tvö jólaboð, eitt hjá mömmu og pabba og eitt hjá tengdó þannig að við þurftum að skipta okkur en Árni kíkti reyndar aðeins við hjá mömmu og pabba. Eftir boðin var farið til Hrannar og Axels og spilað alveg til hálffimm um morguninn. Svo var afmælispartý hjá Karen 27. des og það var rosalega gaman. Reyndar var geðveikt kalt en það reddaðist nú allt.
Í gær fórum við svo á LOTR og oh my god, hvað hún er geðveikt. Ég ætla nú ekkert að segja neitt meira til að eyðileggja ekki fyrir neinum en það má enginn missa af henni.
Svo er ég búin að fá eina einkunn, fékk 6,5 í félagslegri sálfræði og ég var bara nokkuð ánægð með það, hæsta einkunnin var bara 8,5. Núna á ég bara eftir að fá út úr tveimur prófum.

miðvikudagur, desember 24, 2003

Þó að það séu ekki komin jól þá ætla ég samt að segja við alla:
Gleðileg jól elskurnar mínar og vonandi hafið þið það sem allra best um hátíðarnar.

mánudagur, desember 22, 2003

Ég og Árni fórum á Love actually á laugardagskvöldið og hún er ekkert smá góð. Ekta jólamynd, svo sæt. Ég mæli með henni fyrir alla. Bara svona að koma þessu á framfæri ;)
Annars er mest lítið að frétta, fór og keypti eina aukagjöf fyrir Árna í gær þannig að núna er ég alveg búin. Enda er ég að vinna í gær og í dag þannig að ég hef engan tíma fyrir jólagjafastúss.
Núna eru allar vinkonurnar komnar heim, ekkert smá gaman. Reyndar er ég ekkert búin að hitta þær en það gerist vonandi sem fyrst, jibbí.

laugardagur, desember 20, 2003

Yngsta frændsystkinið mitt á eins árs afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku Adam minn!! Við fórum í afmælið til hans í dag og maður var svo mikið krútt.
Annars er bara mest lítið að frétta, er bara búin að vera að slappa af og svo kláraði ég að pakka inn jólagjöfunum, allar búnar.
Mikið var ég annars sátt við úrslitin í Idol í gær, Helgi Rafn átti alveg skilið að vera rekinn út að mínu mati. Er eiginlega ekki búinn að standa sig neitt vel síðan að þau voru svona fá eftir.

föstudagur, desember 19, 2003

Jæja búin að vera tvo daga í vinnunni og það er bara fínt. Mjög góðir vinnufélagar og alltaf nóg að gera. Gaman að vera aftur komin fram í afgreiðslu í staðinn fyrir að vera alltaf í bakvinnslunni.
Svo fékk ég jólagjöf í dag frá Landsbankanum, allir fengu risastóra ostakörfu og það var líka graflax og reyktur lax. Svo var einn pakki sem var pakkaður inn og ég var svo forvitinn að ég opnaði hann og þá var það Heimur spendýranna eftir David Attenborough, ekkert smá flottar gjafir. Reyndar var Árni ekkert alltof sáttur því að hann var búinn að kaupa Heim spendýranna í jólagjöf handa mér þannig að hann þarf að kaupa eitthvað annað í staðinn :(
Árni fékk lokaeinkunnina sína í dag, fékk 9,0 í Fallaforritun (og er þá með 9,2 í meðaleinkunn) þannig að hann kemst á forsetalistann og fær skólagjöldin niðurfelld á næsta önn, ekkert smá flott hjá honum. Til hamingju krúsin mín.

miðvikudagur, desember 17, 2003

Jibbí, ég er búin í prófum. Oh það er svo frábært. Reyndar veit ég ekki alveg hvernig mér gekk, það voru nefnilega bara ritgerðarspurningar í prófinu og ég gat alveg skrifað eitthvað við allt en kannski sagði maður ekki nákvæmlega það sem kennarinn var að leita eftir o.s.frv. En það þýðir víst ekki að stressa sig á því, þetta er búið og maður gerði það besta sem maður gat.
Svo fór ég bara í strípur og ætla svo bara að slappa af í kvöld. Ég er nefnilega að deyja úr þreytu, fór að sofa klukkan tólf í gær en vaknaði um hálfþrjú og gat ekki sofnað aftur fyrr en fimm útaf stressi.
Vinur hans Árna fékk boðsmiða á LOTR í lúxussal og bauð Árna með sér í kvöld. Árni sagði auðvitað já sem ég skil mjög vel (en hann er samt að fara í próf á morgun) en mig langar líka að sjá hana í kvöld. Svo förum við bara aftur 28. Gaman gaman. Hinsvegar má Árni ekki segja mér neitt úr myndinni, þá verð ég alveg brjáluð.

þriðjudagur, desember 16, 2003

Mér líður mikið betur núna í hendinni, er allavega laus við fatlann og get byrjað að tjá mig aftur, jibbí.
En núna er bara eitt próf eftir (á morgun) og ég er frekar stressuð, frekar lítill tími miðað við hvað það er mikið efni fyrir prófið. Svo verða bara líka 5 spurningar í prófinu þannig að maður verður annaðhvort heppin eða óheppin, það er ekki fræðilegur að maður muni kunna allt jafnvel.
En svo á morgun klukkan tólf verð ég komin í jólafrí!! Reyndar ekkert mikið frí því að ég verð að vinna um jólin en samt þá allavega prófafrí.
Ætla bara að láta þetta nægja og líta enn einu sinni yfir glósurnar.

sunnudagur, desember 14, 2003

Ætlaði bara að láta vita að það verður ekki skrifað mikið á næstunni því að ég datt í hálku í gær, beint á vinstri olnbogann (sem betur fer er ég ekki brotin) og er núna með tvöfaldan olnboga af því að ég er svo bólgin. Þannig að núna er ég með hendina í fatla. Sem betur fer datt ég á vinstri því að ég er að fara í próf eftir 3 daga og þar sem ég er rétthent get ég alveg skrifað í prófinu. Þar sem að það er búið að taka mig ca. 5 mínútur að skrifa svona lítið ætla ég bara að láta þetta nægja.

laugardagur, desember 13, 2003

Jæja, annað próf búið og þá er bara eitt eftir. Mér gekk held ég bara ágætlega í dag, prófið var frekar stutt bara 80 krossar og ég var búin eftir 25 mínútur. En þar sem að maður má ekki fara fyrr en eftir klukkutíma þá fór ég fjórum sinnum yfir prófið!! Mér finnst svo hræðilegt að hafa svona langan tíma því að þá fer ég alltaf að breyta öllum svörunum mínum, reyndar breytti ég bara þrem en samt.
Svo var Idol í gær, mér fannst þau öll mjög góð, erfitt að reka einhvern burt. Ég var nú reyndar búin að sjá fyrir mér að Rannveig myndi vinna keppnina en það gekk víst ekki eftir.
Ég og Árni fórum í gær og keyptum miða í lúxussal á LOTR, 3 myndina. Við fórum þrem tímum eftir að byrjað var að selja miðana og samt var búið að selja upp fyrir tvo daga.
En núna eru bara 4 dagar eftir í próflok, jibbí. Ég get varla beðið.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Tveir dagar í næsta próf og ég get varla beðið. Ég hef semsagt fjóra daga fyrir þetta próf og það er bara of mikið, þetta er nefnilega valfag (bara 3 einingar) og það eru um 350 bls. í lesefni, sem er náttúrulega ekki neitt. Og þar sem að ég er að lesa bókina í þriðja skiptið þá er ég bara búin að vera að lesa um þrjá kafla á dag sem þýðir að ég er búin að sofa til ellefu og læra svo til svona fjögur og láta mér svo leiðast, vegna þess að ef ég myndi reyna að lesa bókina í fjórða skiptið myndi ég bara rugla öllu saman.
En svo í kvöld verður smá gaman, tengdamamma á nefnilega afmæli, til hamingju með afmælið Ingibjörg. Og hún er búin að baka kökur og svona þannig að ég fæ nammigott. Og svo koma nokkrir gestir þannig að maður getur spjallað við einhverja, maður einangrar sig alltaf svo mikið í prófum.

mánudagur, desember 08, 2003

Eitt próf búið og tvö eftir. Það gekk bara betur en ég hélt að myndi ganga í dag. Þetta voru samt 3 ritgerðir og ég gat alveg skrifað fullt um hvert efni en þetta er alltaf svo huglægt mat. En bara fínt að vera búin.
Svo fór ég í klippingu og er orðin rosa sæt, tíhí. Svo fórum ég og Árni og kláruðum að versla allar jólagjafirnar, jibbí. Ég fékk líka fyrirfram jólagjöf frá tengdó, af því að mig vantaði svo pils og skó fyrir jólin (á ekkert pils og enga spariskó) þá gáfu þau mér þannig í dag, ekkert smá flott. Þannig að ég er búin að fá tvær jólagjafir, gaman gaman.
Svo er ég bara núna að hlusta á jólalög og pakka inn nokkrum jólagjöfum. Reyndar verð ég frekar mikið pirruð á því, vegna þess að ég er svo mikill fullkomnunarsinni og svo rosalega smámunasöm þá fara böndin alltaf svo í taugarnar á mér því þau vilja aldrei tolla alveg eins og ég vil hafa þau, ég veit ég er pínku skrýtin.
Núna er Árni búinn að fá allar einkunnirnar sínar, hann var búinn að fá eina 9,5 í stærðfræði, í dag fékk hann að vita að hann er með 9,0 í málstofu, 9,0 í tölvugrafík og 9,5 í forritunarmálum. Ekkert smá flott hjá honum, til hamingju ástin mín. Þannig að þetta þýðir að hann þarf bara að fá 8 í faginu sem hann er í núna og þá er hann með 9 í meðaleinkunn, kemst á forsetalistann og fær skólagjöldin niðurfelld, jibbí.

Jæja hálftími í próf og ég er svo stressuð. Ekki bætti það úr að ég fór að sofa klukkan tólf í gær en vaknaði aftur um hálftvö og gat ekki sofnað aftur fyrr en hálffimm, þannig að ég er frekar þreytt.
En vonandi gengur þetta allt vel ;)
En svo á öðrum nótum, Helga vinkona átti afmæli í gær, til hamingju með afmælið elsku Helga mín. Hlakka svo til að sjá þig þegar að þú kemur frá Keele.

fimmtudagur, desember 04, 2003

Það er gjörsamlega ekkert að gerast hjá mér, kannski ekki skrýtið miðað við það að ég fer ekki út úr húsi vegna þess að ég er að læra. En á mánudaginn verður þetta próf búið og þá ætla ég í klippingu, jibbí. Maður verður nú að líta sómasamlega út um jólin.
En eins og ég segi þá er ekkert að frétta, ég sit og les allan daginn og svo þegar Árni kemur heim þá þarf hann að hlusta á allan pirringinn í mér vegna þess að ég held alltaf að ég kunni ekki neitt (sérstaklega þegar að maður hefur 11 daga fyrir eitt próf), eftir því sem ég læri meira því minna finnst mér ég kunna. Ekki alveg nógu gott en þetta hlýtur að reddast :s.
Svo er Árni búinn að fá út úr einu próf, fékk 9,5 í Stærðfræðilegri greiningu, ekkert smá flott hjá honum.
Ég fór og skrifaði undir ráðningarsamninginn hjá Landsbankanum í gær þannig að það er alveg klappað og klárt. Reyndar var ég nú ekkert sátt við það að ég þarf að vinna til hádegis á gamlársdag og líka á aðfangadag held ég. Veit einhver hvort að það er opið í bönkum á aðfangadag? (vá ég veit þetta ekki en er samt búin að vera að vinna í banka síðan árið 2000).

mánudagur, desember 01, 2003

Vá hvað ég er ekki alveg komin í stuðið fyrir upplestrarfríið, ég er alveg búin að vera dugleg að læra (mætti samt alveg vera duglegri) og svona en mér finnst ég ekki kunna neitt. Enda er líka vika í fyrsta prófið núna, ég held að ég sé bara ekki orðin nógu stressuð.
En núna er semsagt niðurtalningin í próflokin byrjuð og líka niðurtalningin í jólin, 16 dagar þangað til að ég verð búin í prófum og 23 dagar í jólin. Ég og Árni eigum bara eftir að versla 4 jólagjafir og ég er búin að kaupa allar jólagjafirnar handa honum þannig að það er ekki mikið eftir. Ég er rosalega ánægð með það, aðeins minna að gera í fríinu.

föstudagur, nóvember 28, 2003

Komin í upplestrarfrí!! Jibbí, seinasta próftörnin mín í HÍ er byrjuð, ekkert smá gaman.
Við erum semsagt komin með leigjendur að Laugateiginum, loksins. Þetta eru tvær ungar stúlkur og okkur leist bara vel á þær, þær fá afhent líklegast í kvöld þannig að það er bara fínt að vera loksins búin að leigja hana og þurfa ekki lengur að vera að sýna öllum hana.
Svo er ég komin með vinnu, byrja 18. desember (daginn eftir að ég er búin í prófum) á Bæjarhrauni í Landsbankanum. Þetta er alveg pínkupons útibú (bara 4 sem vinna þarna) þannig að maður verður svona allt í öllu, sem er fínt, þá lærir maður bara meira og fær meiri reynslu. Ég er semsagt að leysa eina konu af sem er að fara í barneignarleyfi og það gæti bara ekki hentað betur fyrir mig.
En jæja, þarf að halda áfram að læra.

þriðjudagur, nóvember 25, 2003

Oh það er svo jólalegt úti, ég elska þegar að það snjóar svona mikið. En ég er líka svo mikið fyrir kulda og veturinn þannig að það er kannski ekkert skrýtið.
Árni kláraði prófin í gær og honum gekk bara mjög vel. Strax eftir prófin fóru hann og einhverjir HR-ingar í sumarbústað og voru að djamma og svona. Og ég er ekki einu sinni byrjuð í prófum!! En svo strax á morgun byrjar hann í sérhæfðu námskeiði þannig að hann er ekki alveg búinn í skólanum.
Svo er bara einn dagur eftir og þá er komið upplestrarfrí, ég ætla reyndar að taka mér frí á morgun og versla jólagjafir en strax á fimmtudag verður byrjað að lesa.
Einar frændi sem er að gera við bílinn okkar hringdi í mig í dag og sagði að kostnaðaráætlunin væri komin í 120.000 krónur og það er bara það sem þeir sjá. Þetta getur hækkað geðveikt mikið þegar að þeir byrja að rífa allt í sundur og svona. Þannig að þetta verður nokkuð dýrt fyrir þessa verktaka.

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Voh, LOTR: TTT er bara alveg geðveik, þótt að hún sé tæpir fjórir tímar tekur maður ekkert eftir því. Ég get varla beðið eftir þriðju myndinni, hún verður frábær.
Svo fengum við að frétta á föstudaginn að verktakarnir eru 100% bótaskyldir, jibbí. Fyrst var TM reyndar eitthvað að nöldra um að þetta ætti að skiptast í helminga en Árni röflaði í þeim og þá skiptu þeir um skoðun enda kemur ekkert annað til greina. Myndirnar sem voru teknar af staðnum sýna alveg að þetta er stórhættulegt.
Nú svo er seinasta vikan í skólanum að byrja, seinasti kennsludagur á morgun og svo á þriðjudag og á miðvikudag eru svona upprifjunartímar og svo á fimmtudag byrjar maður að lesa, ekki gaman. En svo verður þetta búið 17. desember kl. 12.
Í gær hitti ég svo vinina á Ara í Ögri, fínt að komast aðeins út og spjalla, enda hittir maður vinina ekkert fyrr en prófin eru búin.

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Ég fór og keypti LOTR: Two Towers í gær og við ætlum að horfa á hana á morgun, ég get varla beðið!! Árni fer nefnilega í próf á morgun milli 9-12 en svo fer hann ekki í næsta próf fyrr en á mánudag þannig að hann getur tekið sér frí og horft á myndina. Hann er svo líka búinn í einu prófi og gekk bara mjög vel (eins og alltaf).
Fyrir utan þetta er nú mest lítið að frétta, frí í skólanum á morgun og ég hlakka ekkert smá til að sofa út. Svo er bara föstudagur og svo er komin seinasta helgi fyrir upplestrarfrí, enda er helgin alveg fullbókuð. Maður þarf að nýta allar stundir. Svo næsta þriðjudag ætlum við að fara að versla fleiri jólagjafir og reyna bara að klára sem flestar, nenni ekki að standa í þessu eftir próf, þá vil ég bara eiga frí. Við eigum reyndar eftir að kaupa 11 jólagjafir þannig að þær verða ekkert allar kláraðar en vonandi meirihlutinn.
Svo fór ég eftir skóla í dag að sækja um vinnu og sótti um vinnu á sex stöðum, vona bara að það komi eitthvað út úr því ;)

laugardagur, nóvember 15, 2003

Jæja, búin að flytja og líka búin að þrífa alla íbúðina, með hjálp frá systrunum og bestu mömmu í heimi!! Mamma og pabbi eru nefnilega búin að vera svo frábær í þessum flutningum, búin að koma á hverjum degi liggur við og hjálpa okkur.
Ekkert smá næs að vera búin að þessu öllu og geta byrjað að læra á ný. Við erum reyndar ekki komin með leigjendur, við hringdum í þau í dag (áttu að fá afhent í dag) og þau svara okkur bara ekki. Við erum búin að hringja svona 20 sinnum í þau, það er ekkert mál ef þau eru hætt við, við viljum bara vita það. Andskotans helvítis pakk sem kann sig ekki. Ég er alveg brjáluð.
Kynningin á fimmtudaginn gekk vel, allavega leið ekki yfir mig ;). Svo var ég að komast að því að það er önnur kynning í næstu viku sem á að vera í korter. Maður verður bara orðinn sjóaður í þessu fyrir rest. En þetta er mjög gott að gera svona, ættu að vera fleiri kennarar sem gerðu þetta.
Ég hlakka svo til 24. nóvember af því að þá ætlum við að horfa á Two Towers; extended edition. Hún kemur reyndar út 18. nóvember en Árni er í prófum þá þannig að ég ætla að geyma að horfa hana þangað til hann er búinn. Er ég ekki góð?
Svo er TM búið að komast að því að þessir verktakar eru bótaskyldir en þeir hafa 7 daga andmælarétt þannig að það er ekki ennþá byrjað að gera við bílinn og við erum ennþá á bílaleigubílnum, ef verktakarnir geta fundið einhverja smugu þannig að þeir séu ekki bótaskyldir þá verður það nokkuð dýrt að hafa bílinn :(

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Við fórum til löggunnar í dag og kærðum þessa verktaka og svo fórum við til TM og þeir ætla að láta okkur vita á morgun hvað kemur út úr þessu. Við náðum svo í bílaleigubíl í dag upp á von og óvon því ef að þeir eru bótaskyldir þurfa þeir að greiða bílaleigubílinn en annars þurfum við auðvitað að greiða hann. Það gengur bara ekki að vera bíllaus, pabbi var alveg frábær í dag að keyra mig og Árna í skólann og svo keyrði hann okkur líka til löggunnar og TM og líka til að ná í bílaleigubílinn. Takk pabbi ;).
Svo ætlum við að flytja á morgun, mamma kom og pakkaði niður í dag fyrir mig á meðan ég var í skólanum svo að það væri búið að pakka öllu, alveg frábær líka sko. Ég á bara yndislega foreldra.
En á morgun þarf ég að halda smá umræðu (fyrir 80 manns) um niðurstöður í tilrauninni minni þannig að allir verða að hugsa góðar hugsanir um 9.50 á morgun. Reyndar erum við tvær og við megum ekki vera lengur en 10 mínútur en ég kvíði samt frekar mikið fyrir.
En að vera á þessum bílaleigubíl er ekkert smá skrýtið, við fengum Yaris frá þeim, bara ársgamlan og það er svo skrýtið að keyra svona nýjan bíl miðað við 9 ára gamla bílinn okkar. Ég keyrði eins og 17 ára stelpa nýbúin að fá bílpróf, drap á bílnum á hverjum ljósum og svona. En þetta venst.

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Jæja, afmælið mitt búið og maður er orðin árinu eldri :=) Það var líka svo rosalega fínt að fá stelpurnar í heimsókn í gær og spjalla aðeins og slappa af. Fyrsta kvöldið í tvær vikur sem fer ekki í það að pakka. Ég fékk margt rosalega flott hjá þeim, þrjá boli og svo svona risastórar ilmkúlur sem maður setur í baðið. Þannig að tengdó á ekkert eftir að komast í bað fyrstu vikurnar sem við búum þarna.
Annars var stefnan sett á það að flytja á morgun en Árni á að skila tveim verkefnum þannig að við þurfum örugglega að fresta því fram á fimmtudag og þá hef ég bara einn dag til að þrífa, gúlp. Kannski fínt að það frestaðist af því að ég á ennþá eftir að pakka smá, verð að reyna að klára það í kvöld.
Svo erum við vonandi komin með leigjendur, þau ætla að tala betur við okkur í dag. Læt ykkur vita af því seinna.
En vá hvað það er ömurlegt að vera bíllaus, það tekur geðveikt langan tíma að komast allt, reyndar er fjölskyldan mín búin að vera rosalega dugleg við að keyra okkur en samt alveg hryllilegt. Löggan ætlar samt að koma að skoða bílinn í kvöld, Einar frændi sem er bifvélavirki er búinn að skoða bílinn og hann er bara rosalega mikið eyðilagður, stýrisdælan farin og olíupannan lekur og eitthvað meira held ég. Svo er búið að taka myndir af þessum stað sem Árni keyrði ofan í holuna og við látum lögguna fá þær og þá getum við kannski fengið bílaleigubíl út á trygginguna hjá þessum verktökum. Við fáum nefnilega ekki bílaleigubíl nema við notum kaskótrygginguna (þar sem sjálfsábyrgðin er 74.000) og við ætlum ekkert að borga neitt sjálf. Enda sagði maðurinn sem tók myndirnar að þetta væri bara stórhættulegt að skilja þetta eftir svona.

sunnudagur, nóvember 09, 2003

Vá hvað það gengur allt á afturfótunum hjá okkur. Árni var að keyra uppí HR og keyrði ofan í einhverja risastóra holu (sem var ekkert merkt) og bíllinn er bilaður. Einar frændi kom og kíkti á hann og við þurfum að láta draga hann upp á verkstæði á morgun og þar ætlar Einar að líta betur á hann (hann gat ekkert sagt hvað var að). Við ætlum að hringja í Gatnamálastjóra á morgun og heimta að þeir borgi alla viðgerðina, þeir eru að laga eitthvað og merkja ekki einu sinni neitt. Ekkert smá hallærislegt og ég er svo pirruð. Það gengur nefnilega ekkert að vera bíllaus og þá sérstaklega ekki þegar að maður er að flytja.

Ég og Sólveig héldum upp á afmælið okkar í gær heima hjá Sólveigu. Það var rosalega fínt, við buðum bara fjölskyldunni og svona og ég fékk ekkert smá mikið, 2 hálsmen, bol, peysu, loðna inniskó, handklæði og kisusokka frá sock shop.
Í dag fluttum við rosalega mikið heim til tengdó, Bergþór pabbi var í bænum á stóra vörubílnum sínum þannig að við nýttum tækifærið og fluttum allt sem við getum verið án. Ég vildi bara að ég hefði vitað fyrr að hann hefði verið í bænum því að þá hefðum við getað verið alveg tilbúin með allt og bara klárað að flytja. Það hefði þá sparað okkur að fá sendibíl á miðvikudaginn. En samt frábært að vera búin með geymsluna og alla kassa.
Eftir að við fluttum fórum við til mömmu og pabba með Snúð og ég er búin að vera hérna í tvo tíma og hann er búinn að vera undir rúmi allan tímann að deyja úr hræðslu. Greyið manns, ég vorkenni honum svo mikið.
Mamma og pabbi voru líka svo góð að leyfa mér að halda upp á afmælið mitt á morgun hjá þeim vegna þess að það eru engir stólar eftir í íbúðinni, bara einn sófi og það er ekki nóg fyrir vinkonurnar. Það er líka allt í drasli þannig að ég hefði ekki nennt að þrífa alla íbúðina fyrir þær ;).

föstudagur, nóvember 07, 2003

Jæja, við erum búin að auglýsa í fréttablaðinu og það eru nokkrir búnir að koma að skoða íbúðina en enginn sem hefur sagt neitt ákveðið. Ég er samt búin að vera rosalega dugleg að pakka þannig að við ætlum samt að flytja í næstu viku, bara til þess að vera búin áður en við byrjum í prófum og svona.
Svo fer Snúður til mömmu og pabba á sunnudaginn, ég kvíði ekkert smá fyrir að fara með hann og fara svo án hans. Ég vona bara að hann skilji að hann á að eiga heima þarna og fari ekki á neitt flakk, ég veit ekki hvað ég myndi gera ef hann myndi týnast :(.
Ég og Árni fórum svo á Matrix 3 í dag, hún er ekkert smá góð og Carrie-Ann Moss er bara frábær sem Trinity, hún er svo flott. Væri sko alveg til í að vera eins og hún.
Svo fór ég til Rakel vinkonu í kvöld, hún var að eiga lítinn strák fyrir 5 vikum og maður var svo sætur. Alveg eins og pabbi sinn og svo rólegur. Hann sofnaði meira að segja í fanginu á mér.

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Við erum búin að missa leigjandann, það kom upp smá misskiningur sem varð til af okkar hálfu og við hringdum í hana og sögðum henni frá þessum misskilningi (leigan myndi semsagt hækka um 2.000 kr á mánuði) og hún varð bara brjáluð og skellti tvisvar á okkur og sagði að við værum óheiðarleg og eitthvað þannig. Við ákváðum að segja henni að við værum búin að finna nýja leigjendur því að við viljum ekki leigja svona fólki sem skelllir á mann, er hún 5 ára?
Brjálað að gera í skólanum, er að skila skýrslu núna á fimmtudaginn í félagslegri sálfræði og við erum í geðveikt miklum vandræðum því að við vissum ekki hvort að við mættum nota eitt próf til að reikna út marktekt og þannig. Það er stundakennari í þessu fagi og við fórum að hitta hann og hann gat ekkert sagt okkur um þetta því að hann vissi það ekki!! Ekki alveg nógu gott finnst mér. Þannig að við þurfum að tala við kennarann á morgun og skrifa niðurstöður og túlka þær og skila bara svo daginn eftir. Reyndar eru þetta ekki lokaskil, kennarinn ætlar bara að lesa yfir og sjá svona hvernig þetta lítur út en maður verður nú samt að skrifa eitthvað í niðurstöður!!
Svo á ég afmæli eftir 6 daga, gaman gaman. Verð geðveikt gömul. Eftir eitt ár þá verð ég aldarfjórðungsgömul, vá. Ég og Sollý systir ætlum að halda saman upp á afmælin okkar á laugardagskvöldinu (þar sem að við eigum afmæli sama dag) heima hjá henni. Hún verður reyndar rosalega gömul eða fertug!! Við ætlum bara að bjóða fjölskyldunni og svona. Svo ætla ég að bjóða vinkonunum heim á afmælisdaginn, reyndar verður allt í kössum en þær verða bara að sætta sig við það. Reyndar finnst mér mest leiðinlegt að Árni þarf að skila tveim verkefnum fyrir klukkan tólf á miðnætti á afmælisdaginn minn þannig að hann getur ekkert verið heima á afmælisdaginn (og stjanað við mig) en hann ætlar samt að reyna að kíkja í partýið sem verður heima hjá Sollý.

sunnudagur, nóvember 02, 2003

Helgin var rosalega fín, ég og Árni tókum okkur frí frá lærdómi á laugardaginn og fórum og versluðum jólagjafir. Oh það var ekkert smá næs að læra ekkert og vera bara að dunda sér. Erum búin að kaupa jólagjafir fyrir öll frændsystkinin sem eru alveg 11 stykki þannig að það er mjög gott að vera búin með það. Svo á laugardagskvöldið var svona matarklúbbshittingur hjá vinum hans Árna. Það var ekkert smá gaman, rosalega góður matur og mikið spjallað og hlegið. Ekkert smá gaman að lyfta sér smá upp svona áður en flutningar og próflestur byrjar. Alveg nauðsynlegt.
Í dag erum við svo bara búin að vera að taka því rólega, systir hans Árna hún Laufey á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið Laufey. Við fórum til þeirra í dag og þvííkar kræsingar, það var eins og heill her væri að koma í afmælið ;).
Við erum líka búin að vera rosalega dugleg að pakka, allar styttur og allt svona brothætt smádót komið ofan í kassa sem og meirihlutinn af stellinu okkar og fínu glösunum. Mér finnst nefnilega leiðinlegast að pakka svona brothættu þannig að það er fínt að vera búin með það.

miðvikudagur, október 29, 2003

Oh my god, vikan hálfnuð og það eru akkúrat tvær vikur þangað til að við ætlum að flytja og ég sem er ekker byrjuð að pakka niður. Ég kem mér hreinlega bara ekki í þetta, svo hef ég heldur enga kassa þannig að það er nú heldur tilgangslaust að byrja. Ég er líka að reyna að læra sem mest núna því að ég get ekkert lært í svona viku meðan á þessu öllu stendur þannig að ég hef nú alveg ágæta afsökun.
Svo er týpískt að það er alveg brjálað að gera í skólanum núna, ekkert búið að vera að gera í tvo mánuði en svo eigum við að gera tvær tilraunir og skila skýrslu á sama tíma liggur við. Skil þessa kennara ekki alveg. Reyndar eru þetta voðalega skemmtilegar tilraunir, önnur er félagssálfræðitilraun og hin er minnistilraun en samt, vildi frekar dreifa þessu aðeins.
Svo snjóaði í dag, oh hvað ég var ánægð. Ég komst bara í geðveikt jólaskap, ég elska kulda og snjó. Reyndar var Snúður nú ekkert alveg að fíla þetta, hann nennti ekkert út í eitthvað sem er blautt og kalt.
En ætla að segja þetta gott núna, þarf að mæta upp í skóla kl. 9 til að skrifa skýrslu.

mánudagur, október 27, 2003

Við erum komin með leigjanda, ekkert smá gaman. Henni líst semsagt best á okkar íbúð og afhendingardagur er 15. nóv. Oh my god, þannig að það verður brjálað að gera hjá mér að pakka og svona, bara tvær og hálf vika til að pakka, svo þarf að flytja og svo að þrífa.

sunnudagur, október 26, 2003

Jæja helgin búin og ég var bara frekar busy. Á laugardaginn var afmæli hjá Hjörvari Þór frænda mínum sem var 9 ára. Ég gleymdi að óska honum til hamingju með afmælið en hann á afmæli 21. október. Til hamingju með afmælið krútt. Semsagt ég var í þessu afmæli alveg til að verða sjö en þá fór ég að sækja Árna og við borðuðum.
Ég, mamma og Sollý systir fórum í dag á kynjakattasýninguna, oh hvað maður var sætur. Þið verðið að kíkja á þessa heimasíðu
ég féll alveg fyrir þessu kyni, þeta eru Abbyssiniukisur, ekkert smá krúttlegar. Maður átti að velja þann kött sem manni fannst sætastur og ég valdi eina pínkulitla kisu sem er af þessu kyni.
Seinna um daginn kom svo kona í annað skiptið að skoða íbúðina, við erum alveg að vona að hún taki hana bara. Hún ætlar að skoða eina íbúð á morgun og láta okkur svo vita hvora hún ætlar að taka. Þannig að allir að krossleggja fingur.
Svo var tengdamamma búin að bjóða okkur í kvöldmat í kvöld og við fórum þangað og fengum rosalega góðan mat. Þannig að þetta var bara fín helgi.

föstudagur, október 24, 2003

Ég var hjá augnlækni áðan og sjónin er búin að versna. Ekki alveg nógu gott, sko. Á hægra auga er hún búin að versna um 1.0 en á vinstra auga um 0.75. Þannig að ég þarf að fá ný gler sem er rosalega dýrt. Ekki nógu ánægð með það. Ekki von að ég var byrjuð að píra augun þegar að ég var að lesa og svona.
Svo eru ég og Árni búin að ákveða að flytja aftur heim til tengdó og leigja íbúðina út, aðeins svona að safna pening áður en við förum út til Danmerkur. Það verður samt rosalega skrýtið að flytja aftur heim þegar að maður er búinn að búa bara tvö ein í tæp tvö ár. En það hlýtur að reddast, ég kemst allavega aftur í bað.
Núna er það semsagt bara að leita sér að leigjendum, vona bara að við finnum einhverja góða, það kemur einn að skoða íbúðina í dag og vonandi annar á morgun, þannig að það er fínt. Við viljum nefnilega helst flytja sem fyrst.

fimmtudagur, október 23, 2003

Saumóinn hjá Söru var ekkert smá fínn, rosalega gott allt sem hún bauð upp á og loksins fékk ég að sjá litla prinsinn, hann er rosalega líkur pabba sínum en samt víst ekki eins mikið og fyrst. Ekkert smá mikið krútt. Líka gaman að sjá loksins íbúðina þeirra, var nefnilega ekki búin að sjá hana áður.
Svo komu mamma og systurnar í saumó í gær og það var bara rosalega fínt, reyndar misheppnaðist eitthvað paprikurétturinn minn (keypti vitlausan ost) þannig að ég bjó bara til annan rétt sem heppnaðist alveg.
Núna er ég að passa Adam krúsídúllu. Er heima hjá Siggu og Drífu vegna þess að hann var sofandi þegar ég byrjaði að passa. En hann er vaknaður núna og vill að frænka sín fari að veita honum einhverja athygli.

mánudagur, október 20, 2003

Ég er að fara í saumó hjá Söru í kvöld, ég hlakka ekkert smá til því að ég er aldrei búin að sjá Aron. Hef samt heyrt að hann er alveg eins og pabbi sinn ;). Svo verður líka rosalega gaman að hitta vinkonurnar og spjalla saman og borða eitthvað nammigott.
Á miðvikudag held ég svo saumó fyrir mömmu og systurnar þannig að þetta verður bara kaloríuvika hjá mér. Ég ætla að hafa súkkulaðiköku, heitan paprikurétt og svo nachosrétt, umm nammi namm.
Ég náði í 14" tommu sjónvarpið til Bjarklindar í dag. Oh my god hvað það er lítið, allavega miðað við sjónvarpið okkar. En samt skárra en ekki neitt, núna missi ég ekki af Judging Amy og ER og fleiri þáttum :).
Loksins bætti ég inn link á Ívar, manninn hennar Ástu, hef alltaf gleymt því.

sunnudagur, október 19, 2003

Helgin að verða búin. Þetta er bara búin að vera ágætishelgi, ég var mjög dugleg að læra og saumaði líka rsoalega mikið í jóladúkinn minn. Reyndar bilaði sjónvarpið okkar og ég er ekkert voðalega sátt við það. Alltaf þegar við kveikjum á því heyrast bara einhver hljóð. Þannig að við þurfum að fara með það í viðgerð en það eru svo margir þættir sem ég missi þá af!! Gengur eiginlega ekki sko. Við eigum reyndar 14" sjónvarp en það er hjá systur minni, þarf semsagt að fá það aftur.
Í gær fór ég í heimsókn til Siggu og Drífu til að sjá fyrstu tönnina hans Adams, reyndar sést hún ekki en maður finnur alveg fyrir manni. Vá hvað maður er orðin stór, bara komin með fyrstu tönnina og svo verður maður eins árs eftir tvo mánuði. Þetta er svo fljótt að líða.
Ég fór líka í Hagkaup í gær og það er komið jóladót, oh ég var alveg sjúk, reyndar keypti ég ekkert en mig langaði samt rosalega til þess. Ætla samt að bíða og athuga hvort að það komi kannski eitthvað flottara.
En vikan bara framundan og bara þrír skóladagar og svo er aftur komin helgi, jibbí.

föstudagur, október 17, 2003

Ég er alltaf búin að gleyma að setja heimasíðu Arons (sem Sara og Valgeir eiga) inn í linkana mína en nú er það komið.

Jæja, búin að stjórna umræðutíma í Félagslegri sálfræði, oh hvað mér líður vel að vera búin með þetta. Umræðutíminn gekk bara alveg ágætlega, held ég. Kennarinn setti allavega ekki út á neitt og allt gekk bara vel.
Svo hitti ég Ingu og Rannveigu á kaffihúsi á miðvikudagskvöldið, fínt að komast aðeins út og tala við þær. Þurfum samt að gera þetta mikið oftar.
Helgin komin, alveg frábært. Ég ætla að reyna að vera dugleg að læra og svona. Gengur ekki annað. En svo er ekkert smá skemmtilegt að í næstu viku er ég bara í skólanum í þrjá daga, það er frí fimmtudag og föstudag, rosalega næs.

miðvikudagur, október 15, 2003

Það virðist vera rosalega vinsælt að skrifa 100 atriða lista um sjálfan sig á blogginu. Mér finnst þetta svo sniðugt að ég ætla að gera þetta um mig. Ætli ég geti fundið 100 atriði um sjálfa mig?

1. Ég er fædd í Reykjavík árið 1979.
2. Ég bý með Árna, unnustanum mínum.
3. Við ætlum að gifta okkur næsta sumar.
4. Árni er í tölvunarfræði.
5. Við útskrifumst bæði næsta ár.
6. Við eigum einn kött sem heitir Snúður.
7. Hann sefur stundum hjá okkur.
8. Ég hef átt tvo ketti á undan Snúði, Kela og Pjakk.
9. Mér leið rosalega illa þegar að þeir dóu.
10. Ég elska hunda og ketti.
11. Mig langar í annan kött og labradorhund.
12. Ég á æðislega foreldra.
13. Mig langar að búa í Hafnarfirði.
14. Við ætlum að flytja til Danmerkur eftir 10 mánuði í mastersnám.
15. Mér finnst rosalega gott að búa á Íslandi.
16. Ég er hrifin af köldu veðri.
17. Ég á fimm systkini.
18. Ég er hrædd við geitunga og býflugur.
19. Ég er rosalega mikið jólabarn.
20. Ég sauma mikið, sérstaklega jóladót.
21. Ég er bæði skírð og fermd.
22. Ég trúi á Guð.
23. Ég spilaði á þverflautu í 9 ár.
24. Mamma og pabbi voru rosalega fúl þegar að ég hætti að spila á þverflautu.
25. Ég æfði margar íþróttir þegar ég var yngri.
26. Ég var í MR.
27. Mér fannst rosalega skemmtilegt í MR.
28. Ég á bara 7 mánuði eftir í sálfræðináminu.
29. Ég á afmæli eftir 25 daga.
30. Ég verð 24 ára þá.
31. Elsta systir mín á afmæli sama dag og ég.
32. Hún er 16 árum eldri en ég.
33. Elsta systkinið mitt (bróðir minn) er 19 árum eldra en ég.
34. Ég á fáa en mjög góða vini.
35. Ég er rosalega feimin.
36. Ég þoli ekki hrossaflugur.
37. Mér finnst leiðinlegt að í íbúðinni okkar sé ekki bað, bara sturta.
38. Ég les mjög mikið.
39. Mér finnst gott að lesa í baði.
40. Mér finnst gaman að lesa ástar- og spennusögur.
41. Ég er langyngst af systkinum mínum.
42. Ég á 9 systkinabörn.
43. Við eigum Volkswagen Golf, árgerð 94
44. Mig langar í nýjan bíl.
45. Það gerist samt ekki á næstunni.
46. Ég er rosalega skipulögð, smámunasöm og samviskusöm.
47. Ég held með Val.
48. Mér finnst rosalega gaman að horfa á fimleika.
49. Þeir eru samt eiginlega aldrei sýndir í sjónvarpinu, ömurlegt.
50. Ég er hooked af rosalega mörgum sjónvarpsþáttum.
51. Mér finnst mýs rosalega sætar.
52. Við eigum ömurlega nágranna.
53. Ég vona að ég fái góða vinnu eftir áramót.
54. Ég er samt viss um að ég endi hjá Landsbankanum með ömurleg laun.
55. Mér finnst nammi rosalega gott.
56. Ég er samt að reyna að hætta að borða nammi.
57. Ég drekk sjaldan gos.
58. Sumir segja að ég sé með skrýtinn matarsmekk.
59. Mér finnst svið, slátur, kjötsúpa og allt þannig rosalega gott.
60. Mér finnst grillmatur vondur.
61. Mér finnst meðlætið yfirleitt alltaf betra en aðalmaturinn.
62. Mér finnst mjólk ekki góð eintóm.
63. Ég átti heima í Reykjavík þangað til ég varð 9 ára.
64. Þá flutti ég í Hafnarfjörð.
65. Ég er mjög lofthrædd.
66. Ég æfði fimleika en hætti vegna atriðis 59.
67. Ég var í dansi.
68. Mér finnst gaman að læra tungumál.
69. Mér finnst ekki gaman að læra sögu og efnafræði.
70. Ég þoli mjög takmarkað illa uppalin börn.
71. Mér finnst marengskökur rosalega góðar.
72. Ég er ekki hrifin af kexi.
73. Ég verð að setja sykur út á Cheerios og Kornflakes.
74. Ég fer út að labba svona fjórum sinnum í viku.
75. Það er rosalega frískandi.
76. Ég drekk ekki kaffi.
77. Ég ligg aldrei í sólbaði.
78. Ég verð ekki brún.
79. Ég er með mikið af freknum í andlitinu.
80. Ég nota gleraugu því ég er nærsýn.
81. Ég á erfitt með að leggja þversum í stæði.
82. Ég fer sjaldan í bíó.
83. Ég kaupi mér mjög sjaldan föt.
84. Ég nota skó nr. 35-36.
85. Ég á erfitt með að finna á mig skó.
86. Ég er með liðað hár.
87. Ég er með ljósar strípur.
88. Raunverulegi háraliturinn minn er dökk kopargylltur.
89. Ég stressa mig stundum of mikið yfir mjög litlum atriðum.
90. Ég er ekki með gott ímyndarafl.
91. Ég er ekki góð að teikna.
92. Þegar að ég er að lesa er ekki hægt að ná sambandi við mig.
93. Ég er rosalega lítil í mér.
94. Ég þori ekki í rússíbana, fallhlífastökk, teygjustökk o.fl.
95. Ég borða mikið popp
96. Þegar ég fer á kaffihús fæ ég mér oftast heitt súkkulaði.
97. Ég er sporðdreki.
98. Það besta sem ég veit er að vera með Árna.
99. Ég er myrkfælin.
100. Ég er hamingjusöm.

Vá, þetta var frekar erfitt fyrst en svo get ég fundið mikið fleiri atriði sem ég myndi vilja setja inn. Samt frekar tímafrekt.

sunnudagur, október 12, 2003

Jæja, skírnin búin og litli er búinn að fá nafnið Birkir Snær. Rosalega flott nafn. Til hamingju með nafnið og skírnina, krútt. Hann er orðinn svo stór að manni brá bara við að sjá hann. Það var bara mjög fínt að komast aðeins út og hitta vinkonurnar og spjalla aðeins saman, þurfum samt að gera mikið meira af því. Það er bara svo mikið að gera hjá öllum að það virðist aldrei vera neinn tími.
Svo er ég bara búin að vera að slappa af í dag og horfa á nokkra þætti í Stargate og nýjasta Friends, gaman. Árni fór auðvitað strax upp í skóla eftir skírnina til að læra fyrir prófið á morgun. Hann er kominn með svo mikið ógeð af því að læra, greyið en seinasta prófið er á morgun.

föstudagur, október 10, 2003

Vííí, próftaflan er komin og hún er rosalega góð. Ég byrja 8. des í Félagslegri sálfræði, fer svo 13. des í Klíníska barnasálfræði og svo enda ég 17. des í Hugfræði. Gaman gaman, þannig að ég er búin alveg viku fyrir jól.

Þá er komið helgarfrí, jibbí. Ég er nefnilega alltaf í svo löngu helgarfríi, búin í skólanum á föstudögum kl. 10 og þarf ekki að mæta aftur í skólann fyrr en kl. 1 á mánudögum. Voðalega næs.
Það er nú samt voðalega lítið planað um helgina, það er reyndar skírn hjá Ingu og Bigga á sunnudaginn, hlakka geðveikt til að vita hvað litli á að heita. Ég og Rannveig fórum einmitt að versla skírnargjöf fyrir hann í gær.
Fyrir utan þetta verður örugglega bara lært og slappað af. Svo er ég að bíða eftir að próftaflan hjá HÍ verði birt. Hún á að koma í dag, vona bara að hún verði fín hjá mér, nenni ekki að fara í próf 20. eða 22. desember.

miðvikudagur, október 08, 2003

Jæja mest lítið að gerast hjá mér núna. Árni er búinn með tvö miðannarpróf og á þar af leiðandi bara eitt eftir. Svo taka við alveg geðveikt mikið af verkefnum hjá honum þannig að ég á ekkert eftir að sjá hann.
Núna er líka að koma verkefnatímabil hjá mér, föstudaginn 17. október sé ég ein um umræðutíma í Félagslegri sálfræði og þarf líka að skila 700 orða úttekt í leiðinni. Svo á ég eftir að gera þrjár tilraunir og skrifa skýrslu um þær allar og fjalla líka um þær í tíma fyrir framan allan bekkinn. Reyndar eru þetta allt hóptilraunir þannig að það er skárra en að vera einn í þessu. En jæja, ætla að segja þetta gott, virðist ekkert vera neitt skemmtilegt blogg hjá mér hvort sem er ;)

sunnudagur, október 05, 2003

Ég og mamma fórum í Garðheima í dag vegna þess að það voru kattadagar. Oh þeir voru svo sætir, persneskir, síams, norskir skógarkettir, bengal, balinese og svo venjulegir húskettir frá Kattholti sem vantar heimili. Mig langaði að taka alla kettina með heim, ég var alveg sjúk.
En enn ein helgin búin sem er allt í lagi því að þá er styttra í jólafrí, jibbí. Ég er samt ekki alveg nógu ánægð með þessa menn í Háskólanum. Sko, seinasti kennsludagur er 28. nóvember en próftímabilið byrjar ekki fyrr en 10. desember og er til 20. desember. Rosalega hallærislegt, finnst mér. Ég væri mikið meira til í að byrja fyrr í prófum og vera þá búin fyrr. En það þýðir víst ekki að nöldra, seinasta próftörnin mín í HÍ bráðum búin, gaman gaman.

laugardagur, október 04, 2003

Jæja, búin að vera rosalega dugleg að læra í dag. Ég og Árni vorum semsagt að læra saman í dag, hann var heima að gera einhver dæmi í tölvugrafík en ég var að lesa í félagslegri sálfræði og hugfræði, geðveikt gaman. Svo tókum við það bara rólega í kvöld, vorum bara að glápa á video og svona. Árni er reyndar byrjaður í miðsvetrarprófum (búinn með eitt) og á tvö eftir þannig að hann þarf örugglega að læra rosalega mikið á morgun og hinn þannig að það var fínt að nýta daginn svona, aðeins að vera saman.
Við erum búin að ákveða að flytja til útlanda strax eftir að við útskrifumst og taka masterinn bara strax. Við erum nefnilega svo hrædd um að ef við förum að vinna þá förum við ekkert, best bara að fara strax þótt að það myndi vera gott að geta aðeins komið sér í betra stand svona peningalega en það hlýtur að reddast, hefur allavega gert það hingað til. Svo leigjum við íbúðina þannig að það hjálpar mikið til. Löndin sem koma til greina eru Danmörk og Írland, ekki alveg búin að ákveða en ætlum að fara að sækja um kollegi og svona. Allavega ef við förum til Kaupmannahafnar þá er geðveikt mikið húsnæðisleysi þar þannig að maður þarf að vera snemma í því. Reyndar erum við ekki viss hvort að við munum fara til Kaupmannahafnar eða Árósa (ef við förum til Danmerkur) þannig að við þurfum að sækja um á báðum stöðum. Kannski verðum við þá á sama stað Karen, gaman gaman!!
Það eina sem ég kvíði fyrir (fyrir utan að kveðja vini og fjölskyldu) er að skilja Snúðinn okkar eftir. Mamma og pabbi eru samt svo góð að ætla að taka hann, en samt tvö ár eru rosalega langur tími. Ég hlakka ekki til þess að kveðja hann.

miðvikudagur, október 01, 2003

Ég er komin með svo mikið ógeð af skólanum, ég nenni þessu hreinlega ekki lengur. Svona líður mér alltaf þegar að ég er alveg að vera búinn með einhvern áfanga, ég hætti auðvitað ekkert í skólanum en vá hvað mér finnst leiðinlegt.
Það var ekkert smá gaman að passa Adam á mánudaginn, hann var hjá mér í einn og hálfan tíma og var ekkert smá góður. Sat bara og talaði rosalega mikið. Algjör dúlla.
Svo er saumó í kvöld hjá mömmu, við systurnar og mamma hittumst alltaf reglulega, bara svona til að catch up. Umm nammi nammi, það verður brauðterta og marengsterta og brauð og pestó. Ég hlakka ekkert smá til.
En fyrir utan þetta er mest lítið að frétta. Skrifa meira seinna.

mánudagur, september 29, 2003

Ég er komin með alltof mikla samvisku fyrir skólann, mér leið svo illa seinasta fimmtudag að ég mætti ekki í Félagslega sálfræði (fjórfaldur tími by the way) og í dag á ég líka að vera í félagslegu klukkan eitt en Sigga systir hringdi og bað mig um að passa Adam litla frænka (mesta krútt í heimi) einmitt klukkan eitt og ég sagði auðvitað já en samt er ég með pínku samviskubit yfir því að mæta ekki, samt eru þetta einu tímarnir sem ég er ekki búin að mæta í þessa önn. Svo er auðvitað mikið skemmtilegra að passa Adam. Og ég er búin að vera rosalega dugleg að lesa þannig að ég á þetta bara alveg skilið (er að reyna að réttlæta þetta fyrir mér).
Við vorum rosalega dugleg um helgina, þrífum alla íbúðina og keyptum 9 jólagjafir, reyndar bara hluta af nokkrum en samt, komin vel á skrið. Oh ég er svo mikið jólabarn, er strax byrjuð að hlakka til jólanna.

föstudagur, september 26, 2003

Ég er búin að vera rosalega dugleg að sækja um vinnu í dag, fór á sex staði og þá bara eftir að fara á ca. sjö. Þannig að það er bara fínt.
Svo fór ég til læknisins í gær, hann var fljótur að taka mig af sýklalyfjunum út af öllum þessum aukaverkunum (ógleði, höfuðverkur og svo fæ ég útbrot á bringuna). Hann var alveg rosalega hissa á því að ég væri með þessar aukaverkanir, því að samkvæmt einhverri bók þá fylgir ógleði eiginlega bara lyfinu. Hann var bara frekar stressaður um mig meira að segja, ég á mæla mig tvisvar á dag og hringja strax í hann ef eitthvað versnar. Þannig að ég á ekki að vera á þessum lyfjum í þrjár vikur en þá á ég að koma aftur til hans og þá er hann að spá í að láta mig fara í lasermeðferð fyrir útbrotin á nefinu. En hvað ætli það kosti? Gleymdi alveg að spyrja að því.
En mér líður allavega mikið betur, hausverkurinn er strax búinn að minnka og það er bara æðislegt.
Svo ætlum ég og Árni að fara að versla jólagjafir á morgun og þrífa íbúðina okkar. Jibbí gaman (það að fara að kaupa jólagjafir, ekki að þrífa).

miðvikudagur, september 24, 2003

Núna er ég að fara að sækja um vinnu, þar sem að ég á bara eitt fag eftir eftir áramót þá verð ég að hafa eitthvað að gera. En þetta umsóknastand byrjar ekki svo vel. Ég fór í Íslandsbanka og skilaðii umsókninni inn og allt í lagi með það en þegar ég kom heim fattaði að ég hafði skilað inn vitlausri umsókn, það stendur nefnilega óvart á umsókninni að ég get byrjað strax en það get ég auðvitað ekki!!! Þannig að ég er að spá hvað ég eigi að gera, hringja í Íslandsbanka og láta þau vita af þessari vitleysu eða bara bíða og athuga hvort að verði hringt í mig. Oh ég er svo utan við mig stundum, gæti lamið sjálfa mig.

sunnudagur, september 21, 2003

Jæja enn ein helgin búin. Það gerðist nú eiginlega ekkert markvert um þessa helgi, ég var bara heima báða dagana og var að læra og sauma jóladúkinn minn. Svo var ég reyndar rosalega dugleg við að horfa á ER, er semsagt búin með fyrstu seríuna og get ekki beðið eftir að sjá númer 2. Það er svo langt síðan að maður hefur séð þetta. Ég held meira að segja að ég hafi ekki horft á fyrstu seríurnar þegar að þær voru í sjónvarpinu þannig að þetta er mjög gaman.
Árni var uppi í skóla alla helgina (hvað annað?), er að gera eitthvað verkefni með Sverri sem þeir eiga að skila á morgun. En ég er nú búin að panta hann til að vera eitthvað með mér í vikunni sem er að koma, bara svo að ég fái eitthvað að sjá hann.
Fyrir utan þetta er bara eiginlega ekkert að frétta, ég ákvað að halda áfram að taka sýklalyfin, mér er ekki eins flökurt lengur en ég er hinsvegar alltaf með þennan höfuðverk en ætli ég verði ekki bara að bíða fram á miðvikudag til að tala við lækninn um þetta.

föstudagur, september 19, 2003

Vá ég er búin að vera svo stressuð í allan dag. Kisinn okkar fór út klukkan fimm í nótt og það er ekkert óeðlilegt en hann var bara að koma inn rétt í þessu, hann var semsagt úti í 12 klukkutíma. Hann kemur venjulega inn svona um tólfleytið. Ég var búin að kalla á hann svona 20 sinnum og labbaði einn hring um hverfið til að vita hvort að ég myndi sjá hann. Svo var ég líka búin að hringja upp á Kattholt en sem betur fer er hann kominn heim.
Ég hitti Helgu og Ástu á kaffihúsi í dag. Helga kom semsagt óvænt heim frá Svíþjóð í seinustu viku og er svo að fara til Englands til að læra í næstu viku. Þannig að það var mjög gott að sjá hana aðeins og spjalla saman. Enda vorum við á kaffihúsinu í tvo tíma.
Ég átti líka að hitta Rannveigu og Önnu Heiðu á kaffihúsi í gær en ég treysti mér alls ekki því að ég var með höfuðverk og svima enn einu sinni. Ég prófaði að hringja í hjúkrunarfræðing og hún ráðlagði mér að taka ekki sýklalyfið í dag og tala við lækninn minn í dag. En nei, ég hringdi í ritarann hjá lækninum klukkan hálftíu og hún sagðist ætla að láta hann fá þessi skilaboð en hann er ekki ennþá búinn að hringja. Asnalegt. Fyrir hvað erum við að borga, má ég eiginlega spyrja. Þannig að núna er ég alveg lost yfir því hvort að ég eigi að taka lyfin eða láta þau eiga sig fram á miðvikudag en þá er læknirinn með símatíma. En málið er að þá koma útbrotin um leið aftur, þau eru strax búin að versna í dag. Vá hvað þetta er eitthvað mikið nöldur hjá mér, ætli ég hætti þessu bara ekki.

miðvikudagur, september 17, 2003

Ég hata að vera á sýklalyfjum, þau eru óþolandi. Mér er alltaf svo flökurt og ekki nóg með það að þegar að maður byrjar að taka sýklalyf þá aukast útbrotin alltaf fyrst þannig að útbrotin eru komin smá út á kinn, gjörsamlega hatandi. En maður verður víst bara að sætta sig við þetta, ég á reyndar eftir að vera á þessum lyfjum í að minnsta kosti 3 mánuði, ekki gaman.
Fyrir utan þetta er í raun voða lítið að gerast, ég er ekki alveg nógu dugleg að læra. Er ekkert komin eftir á, en mér finnst alltaf svo gott að vera nokkrum dögum fram yfir í lestri því þegar að maður byrjar að gera tilraunirnar þá fer allur tíminn í þær. Svo í næsta mánuði á ég að halda umræðutíma í Félagslegri sálfræði. Ég þarf semsagt að lesa einhverja grein og skila 700 orða útdrætti í byrjun tímans og tala svo um greinina í klukkutíma og þetta allt á ég að gera ein!!! Oh ég kvíði svo fyrir, reyndar erum við bara 5 í umræðutímanum og kennarinn er voða næs, en samt. Svo erum við að gera þrjár tilraunir samtals í fögunum mínum og við eigum alltaf að skila munnlegri greinargerð um allar tilraunirnar og það fyrir framan 80 manns. Það á örugglega eftir að líða yfir mig.

mánudagur, september 15, 2003

Það gengur allt á afturfótunum hjá mér núna, ég er með geðveikan höfuðverk og alveg rosalega flökurt. Af því að Árni var að fara upp í skóla með fartölvuna og það er svo vont að vera að horfa á þætti í tölvuherberginu, fluttum við einn stólinn okkar inn í tölvuherbergi svo að ég gæti haft það næs þar. Ég var búin að kaupa smá nammi og koma mér vel fyrir og ætlaði að horfa á ER. Það byrjaði á því að diskurinn festist í tölvunni og ég þurfti að restarta til að geta opnað drifið aftur. Nei nei, þá þarf að installa einhverju í tölvuna til að ég geti horft og Árni þarf að fixa það þegar að hann kemur heim. Þannig að ég ætlaði að horfa á Stargate en þá eru þrír þættir í röð þannig að hljóðið heyrist en engin mynd kemur. Arrrg parrrg, ekki sátt.

sunnudagur, september 14, 2003

Oh hvað það er gott að það sé helgi, ég er reyndar ekki búin að vera dugleg að læra og er með geðveikt samviskuvit yfir því. En það reddast.
Ég var bara að hafa það næs í gær, fór í klippingu og var svo hjá mömmu og pabba í einhverja þrjá tíma. Árni var nefnilega uppi í skóla í allan gærdag og kom ekki heim fyrr en klukkan fimm um nóttina, brjálað að gera hjá honum. Reyndar var hann nú ekki að læra allan tímann, var svona að horfa með öðru á boxið líka. En vá hvað ég gæti ekki haldið mér vakandi svona lengi, ég væri sofnuð fyrir framan tölvuna. Svo ætlar hann að fara aftur í dag, rosalega duglegur. Ég ætla hinsvegar að vera heima og reyna að læra ;)

fimmtudagur, september 11, 2003

Alltaf að bætast í bloggvinahópinn minn, Karen er komin með heimasíðu þannig að nú getum við fylgst með henni frá Danmörku.

miðvikudagur, september 10, 2003

Strax brjálað að gera í skólanum, það er geðveikt mikið að lesa. En þetta er samt seinasta önnin mín þannig að það er fínt. Árni er líka allan daginn uppi í skóla, kemur heim í kvöldmat og fer svo strax aftur þannig að ég hef ekkert mikið annað að gera en að lesa. Reyndar vorum við að fá fyrstu seríuna af ER þannig að ég er á fullu að horfa á hana og svo má maður ekki missa af Stargate, gaman gaman.
Útbrotin á nefinu eru strax byrjuð að minnka geðveikt mikið, mjög ánægð með það. En svo gleymi ég alltaf að bera áburðinn á handleggina á mér þannig að það gengur ekki alveg nógu vel.
Mamma og pabbi eru að koma heim úr sumarbústaðinum á föstudaginn og ég og Árni ætlum að fara á morgun og tengja sjónvarpið og videoið fyrir þau. Þau áttu nefnilega ekki nógu stórt borð undir þetta (hitt sjónvarpið var svo geðveikt lítið) þannig að þau keyptu sér sjónvarpsborð sama dag og þau fóru í sumarbústaðinn og við ætlum að setja þetta upp fyrir þau, svona surprise. Við erum svo góð!!

mánudagur, september 08, 2003

Mamma á sextugsafmæli í dag, til hamingju með daginn elsku mamma mín. Svo á laugardaginn áttu bæði tengdapabbi og Snúður afmæli, til hamingju báðir.
Það var bara fínt í sumarbústaðnum á laugardaginn, við komum um eittleytið og ég og mamma ætluðum að skella okkur í pottinn áður en systkinin kæmu með alla grislingana sína en þá var potturinn alltof heitur. Þannig að við þurftum að bíða nokkra stund og gátum ekki farið ofan í fyrr en grislingarnir voru komnir líka en það var samt allt í lagi. Svo var bara slappað af, spjallað, grillað og spilað. Svo lögðum ég og Árni af stað heim um tíuleytið. Við hefðum alveg verið til í að gista en Snúður var bara einn heima og enginn til að sjá um hann.
Svo var bara slappað af í gær, las dálítið fyrir skólann en svo fórum við til tengdó í smá afmæliskaffi og svo til frænku minnar þar sem að Árni var að laga tölvuna fyrir þau. En ég læt þetta duga í bili.

föstudagur, september 05, 2003

Jæja þá er komið í ljós hvað er að okkur! Ég er með rosacea á nefinu og ég þarf að taka einhverjar sýklatöflur í 3 mánuði út af því en þetta er samt svona húðvandamál að það hverfur í rauninni aldrei, gengur bara svona í bylgjum. Ekki nóg með það þá gaf læknirinn mér lista yfir það hvað ertir þennan sjúkdóm og það er: Áfengi, sterkt krydd, kaffi, te, mikil sól og mikill hiti. Ég segi bara eins gott að ég drekk voðalega lítið áfengi, krydda matinn minn voðalega sjaldan, drekk aldrei kaffi eða te og ég hata sól og hita. Voðalega er ég eitthvað heppin að hafa þennan sjúkdóm, hmmmm. Svo var ég líka með einhver útbrot á hendinni og ég fékk einhverjar ávaxtasýrur til að bera á það, læknirinn sagði að það tæki um hálft - eitt ár fyrir það að lagast. Ég vona bara að þetta verði farið fyrir brúðkaupið, ég finn reyndar ekkert fyrir þessum útbrotum en samt ekkert gaman að hafa þau.

Við systkinin fórum til mömmu og pabba í gær með afmælisgjöfina þeirra, 28" sjónvarp og video. Þau voru svo ánægð, æðislegt að sjá á þeim svipinn þegar að þau sáu kassana!! Það er svo gaman að gefa gjafir þegar að fólkið verður svona ánægt. Svo eru þau að fara í sumarbústað í viku en við systkinin + makar + barnabörn munum fara á morgun til þeirra í kaffi og svo grill seinna um kvöldið, nammi namm. Þannig að við verðum um 20 manns þarna, ég á nefnilega svo mörg systkini og systkinabörn.
Svo erum ég og Árni að fara til húðsjúkdómalæknis í dag, ég er nefnilega með einhver útbrot á nefinu (og maður verður svo meðvitaður um þannig, mér líður alltaf eins og allir séu að horfa á nefið á mér) og Árni er með einhverja flekki út um allt bak og bringu, ekki alveg nógu gott. Ég hringdi semsagt í lok júní til að panta tíma og fékk ekki tíma fyrr en í gær. En svo var hringt á miðvikudaginn og sagt að læknirinn væri veikur og við myndum bara fá næst tíma einhvern tíma í lok október!! Ég var brjáluð, búin að vera með útbrot í tvo mánuði og svo átti ég að bíða í tvo mánuði í viðbót af því að læknirinn varð veikur, nei takk. Ég reifst við konuna en hún vildi ekki gera neitt en svo lét ég pabba hringja og frekjast aðeins og það endaði með að við fengum tíma í dag, hjá öðrum lækni. Mér finnst bara svo fáránlegt að þeir sem áttu pantaðan tíma hjá Bárði (lækninum sem er veikur) eiga að bíða í tvo mánuði í viðbót, þeir eiga að fá einhvern forgang, þetta er ekki okkur að kenna.

fimmtudagur, september 04, 2003

Það er eiginlega bara ekkert að gerast hjá mér, fer bara í skólann og svo aftur heim. Þannig að ég hef voðalega lítið að segja, skrifa bara meira þegar að eitthvað markvert gerist.

miðvikudagur, september 03, 2003

Tveir skóladagar búnir og ég er búin að fara í tvö fög. Í gær fór ég í félagslega sálfræði en í dag var ég í klínískri barnasálfræði. Á morgun fer ég svo í hugfræði og þá er ég búin að fara í öll fögin sem ég er í á þessari önn. Ég er nefnilega bara í 13 einingum núna (hef aldrei verið í færri einingum en 15) þannig að þetta er frekar skrýtið fyrir mig að vera í svona fáum fögum. Svo á næstu önn verð ég í einu fagi og verð líka að skrifa ritgerðina þannig að þetta er bara rosalega flott. Ætla reyndar líka þá að vinna með skólanum, ég verð ekki 4 mánuði að skrifa B.A. ritgerðina mína ;).
Ég snéri sólarhringnum svo gjörsamlega við í þessu vikufríi mínu að það er ekki fyndið. Ég er bara orðin háð því að horfa á Stargate þættina seint á kvöldin og ég er einmitt að fara að gera það núna. Er komin alveg á 3. seríu og er núna á undan Árna, tíhí.

mánudagur, september 01, 2003

Jæja fyrsti skóladagurinn búinn og hann var bara fínn. Enda var í rauninni ekkert að gerast, mætti bara í einn tíma og við vorum bara að fá lesáætlun og þannig. Geðveikt mikið að lesa í einu fagi, maður þarf bara að byrja strax.
Við fórum með tölvuna í viðgerð í dag og hún þarf að vera í 3-5 daga hjá þeim, mér finnst það nú dálítið langur tími. En það verður víst bara að hafa það. Reyndar hefðum við getað borgað 6.000 krónur og þá hefðum við fengið einhverja flýtimeðferð en mér finnst það bara of mikill peningur fyrir eitthvað svona. Þannig að Árni þarf bara að vera uppi í skóla að læra. Fyrirlesturinn hjá honum og Sverri gekk bara vel í dag, greyið hann var svo stressaður. En það er þá allavega búið. En svo á Árni að skila verkefni bæði á miðvikudag og fimmtudag þannig að það er bara brjálað að gera hjá honum. Ég er bara að vona að næsta vika verði ekki svona brjáluð svo að hann geti komið upp í sumarbústað með góðri samvisku. Ekki gaman að fara eitthvað svona og þurfa að drífa sig heim.
Svo var Helga vinkona að byrja að blogga, set link inn á hana, reyndar er nú ekki mikið komið inn á síðuna en við skulum vona að það batni ;)

laugardagur, ágúst 30, 2003

Vá hvað það er strax mikið að gera í skólanum hjá Árna, ég er strax orðin grasekkja og það er bara ein vika búin af skólanum. Hann er semsagt búinn að vera í allan dag uppi í skóla að undirbúa einhvern fyrirlestur sem hann og hans hópur eiga að flytja á mánudag, ég öfunda þá ekki.
Ég er hinsvegar bara búin að hafa það næs í dag. Ég og mamma fórum í heimsókn til Siggu og vorum þar í tvo tíma, bara að spjalla og svona, voðalega kósí.
Svo erum við rosalega fúl yfir því að fartölvan okkar er biluð, skjárinn bara virkar ekki. Hún er ekki 8 mánaða gömul þannig að þetta er ekki alveg nógu gott. Hún er auðvitað enn í ábyrgð en samt vont fyrir Árna að missa hana því að hann á að skila einhverju verkefni á miðvikudag og allt sem hann er búinn að gera er í fartölvunni.
Svo eiga mamma og pabbi sextugsafmæli bráðum, reyndar varð pabbi sextugur í apríl en við krakkarnir ákváðum að geyma að gefa þeim gjöf þangað til að mamma yrði sextug líka. Hún verður sextug 8. september og þau ætla að bjóða öllum krökkunum í sumarbústað helgina áður. Þannig að við ætlum að gefa þeim gjöfina áður en þau fara í sumarbústaðinn og ég hlakka svo til að sjá á þeim svipinn þegar að þau sjá hvað þetta er ;) Geðveikt gaman, ég ætla samt ekki að segja hvað við gefum þeim hérna á blogginu, þið verðið bara að bíða eins og þau.

föstudagur, ágúst 29, 2003

Fríið mitt er alveg að verða búið, bara tveir og hálfur dagur eftir og þá byrjar skólinn aftur. Annars er lítið að gerast hjá manni, ég er bara búin að vera að horfa á Stargate þættina, rosalega góðir þættir, mæli alveg hiklaust með þeim. Árni byrjaði að horfa á þá á undan mér og var byrjaður á 2. seríu þegar að ég byrjaði að horfa á 1. seríu en af því að ég er búin að vera í fríi þá er ég næstum því búin að ná honum. Mér finnst nefnilega svo leiðinlegt að horfa á svona í sitthvoru herberginu, hann er að horfa í tölvuherberginu og ég í svefnherberginu. Hann hefði bara getað beðið eftir mér og þá gætum við horft á þetta saman, hrummphf.
En Karen og Grétar fóru út til Danmerkur í gær, ekki gaman. Maður er samt ekki alveg búin að ná því að þau séu farin, þótt að maður hafi farið í heimsókn til þeirra á miðvikudagskvöld og allir að kveðja þá er þetta ekki alveg búið að síast inn. En það gerir það :(
En ég ætla að fara að hafa mig til og fara í fyrsta skipti út fyrir tólf í sumarfríinu mínu.

þriðjudagur, ágúst 26, 2003

Búin að vera fjóra daga í sumarfríi og það er rosalega næs. Sef til hálfellefu á hverjum morgni. Árni þarf hinsvegar að mæta í skólann enda byrjaði HR í gær. Ég hlakka samt til að byrja í skólanum en samt líka fínt að fá smá frí.
Við fórum að skoða Sunnusal á Hótel Sögu í gær og erum að spá í að halda brúðkaupsveisluna okkar þar, vorum reyndar komin með annan sal en það er bara allt svo flott á Sögu, það eru auðvitað professional þjónar sem vinna þar og allt rosalega grand. Skoðuðum líka brúðarsvítuna hjá þeim og pöntuðum hana, jibbí.
Við fórum á föstudaginn og keyptum skólabækurnar, eyddum 40.000 krónum og ég á samt eftir að kaupa svona þrjár bækur, þetta er ekkert smá dýrt. En við viljum líka bara nýjar bækur því að við geymum allar bækurnar okkar og seljum þær ekki. Þannig að það er alveg hægt að sleppa með eitthvað ódýrara.

föstudagur, ágúst 22, 2003

Jæja seinasti dagurinn minn í greiðsluþjónustunni í dag, jibbí. Ég fæ meira að segja að hætta klukkan 12 þannig að það er rosalega fínt.
Eins og er búið að vera síðustu daga er bara ekkert að gerast hjá mér þessa dagana þannig að ég skrifa bara næst þegar að ég hef eitthvað að segja. Skemmtið ykkur bara vel um helgina öll.

mánudagur, ágúst 18, 2003

4 dagar eftir í vinnunni. Og bara 1 dagur eftir hjá Árna og svo byrjar seinasti veturinn okkar í skólanum, jibbí.
Annars er lítið að frétta, var að horfa á S.W.A.T með Colin Farrel og Samuel L. Jackson, hún er geðveikt góð. Og Colin Farrel er svo sætur í henni, alveg þess virði að horfa bara á myndina til að sjá hann ;)

sunnudagur, ágúst 17, 2003

Jæja þá er bara ein vika eftir í vinnunni, jibbí. Ég er ekkert smá ánægð með það.
Helgin er bara búin að vera mjög fín, á föstudaginn hittumst við heima hjá Rannveigu og elduðum kjúklinga fajitas handa Karen, svo spjölluðum við aðeins saman og fórum svo á Ara í Ögri og vorum þar í svona tvo tíma og fórum svo á Hverfisbarinn. Þetta var bara allt mjög fínt og Karen var rosalega ánægð með þetta allt saman.
Í gær fórum við svo í brúðkaup hjá Baldvin og Evu. Oh þau voru svo sæt, hann var í hvítum jakkafötum og það var svo sætt að sjá þau bæði í hvítum fötum upp við altarið og kjóllinn hennar var alveg geðveikur. Svo var haldið í safnaðarheimili Áskirkju og þar var boðið upp á ítalskt smáréttahlaðborð, um nammi nammi. En svo héldum við bara heim um klukkan tólf. Maður fékk alveg fiðring í magann að hugsa um það að við munum gera þetta eftir eitt ár, gaman gaman.
Í morgun vaknaði ég svo klukkan hálfellefu og fór að mála aðra umferð yfir gluggana hjá okkur, ég leyfði Árna hinsvegar bara að sofa áfram, er ég ekki góð?

fimmtudagur, ágúst 14, 2003

Núna er ég sko brjáluð á því að vera í vinnunni. Þannig er mál með vexti að ég er að vinna bakvinnslu fyrir þjónustufulltrúa sem er allt í lagi. Einn þjónustufulltrúinn sem ég er að vinna fyrir hringir í mig á þriðjudag og biður mig um að bakfæra eina greiðslu sem að ég geri. Svo fer þessi bakfærsla á skekkju og hún á auðvitað að leiðrétta samkvæmt verkferlum. En nei, af því að ég felldi niður þá segir hún að ég eigi að sjá um þetta. En hún bað mig um að fella niður!!!!! ARRRRRG PARRRRG.
Ég talaði um þetta við yfirmanninn minn og hún bað mig um að gera þetta í þetta skipti. Oh ég er svo pirruð, því ef að ég hefði beðið þær um að gera einhverja vitleysu þá hefði ég þurft að leiðrétta sjálf. Ands....... helv...... djö........ Það skiptir nefnilega máli hvort að maður er með titillinn þjónustufulltrúi eða ekki. Þótt að við séum að vinna sömu vinnu.
Í öðrum fréttum þá er Sara búin að fæða og það kom strákur, innilega til hamingju með það Sara og Valgeir. Bara búið að koma tveim strákum í vinahópinn ;)

þriðjudagur, ágúst 12, 2003

Jæja það er eitthvað voðalega lítið að gerast þessa dagana, er bara að telja niður þangað til að vinnan er búin (8 og hálfur dagur eftir).
Ég og Árni fórum að sjá litla pjakkinn í gær og maður svaf bara allan tímann og var rosa rólegur, algjör dúlla.
Svo eru Karen og Grétar að fara til Danaveldis 21. ágúst og af því tilefni ætlum við að hafa smá surprise fyrir Karen núna á föstudaginn. Ég ætla reyndar ekkert að segja hvað við ætlum að gera ef hún skyldi lesa þetta ;) Þið fáið bara söguna eftir helgina.
Svo erum við að fara í brúðkaup á laugardeginum, fósturbróður minn er að fara að gifta sig, gaman gaman. Reyndar byrjar athöfnin frekar seint eða ekki fyrr en 19.00 en fólk hefur brúðkaupið sitt bara eins og það sjálft vill.

laugardagur, ágúst 09, 2003

Það er ekkert smá mikið haustveður í dag, rigning og allt svona dimmt úti. Oh mér finnst það svo gott, ég er nefnilega alls ekki mikil sólarmanneskja, vil frekar vetur og kulda.
En ég var að átta mig á því að ég hef gleymt að segja frá einum öðrum fréttum, Ingibjörg og Biggi eru búin að trúlofa sig, hann bað hennar sama kvöld og litli kom í heiminn. Ekkert smá rómó. Til hamingju með það elskurnar mínar.
Fyrir utan þetta er í rauninni ekkert að frétta, ætla bara að vera heima í dag og horfa á American Wedding. Árni er að vinna seinustu helgina sína á Ítalíu áður en skólinn byrjar aftur. Hann hættir svo 19. ágúst en ég hætti 22. ágúst. Ég hlakka svo til, nenni ekki að vera að vinna þarna lengur ;)

fimmtudagur, ágúst 07, 2003

Sverrir hennar Rannveigar er víst líka kominn með heimasíðu þannig að best að bæta honum líka við ;) Hef bara alltaf gleymt því.

Við vinkonurnar fórum að sjá litla pjakkinn í gær og maður er svo sætur. Hann svaf reyndar bara mestallan tímann en vaknaði svo smá til að fá sér að drekka. Algjört krútt.
Svo er Grétar, kærastinn hennar Karenar kominn með heimasíðu, búin að bæta honum við í linkana þannig að endilega kíkið á hann.

þriðjudagur, ágúst 05, 2003

Jæja það eru komnar myndir af litla pjakkinum inn á heimasíðuna hans. Endilega kíkið á hana, maður er sko langsætastur!!! Hann var 16 og hálf mörk og 52 sentimetrar, algjört krútt og með svart hár alveg eins og foreldarnir.

Lítill strákur er kominn í heiminn, fæddist kl. 19:44 í gær. Oh hvað ég hlakka til að sjá hann. Til hamingju litla fjölskylda.

mánudagur, ágúst 04, 2003

Komin aftur til Reykjavíkur, oh það er svo næs að koma aftur heim til sín. Það var mjög fínt um helgina, okkur tókst að leggja af stað klukkan hálfátta og vorum komin til Bakkafjarðar um hálffimm. Þar var bara fínt, reyndar voru voðalega fáir eitthvað þarna, ég held að ég hafi séð tvo aðila allan tímann. Við vorum bara að slappa af, lágum uppi í rúmi og lásum og svona. Voðalega næs. Reyndar hjálpuðum við Bergþóri pabba líka eitthvað með húsið, vorum að setja um hillusamstæður og svona. Við fengum grillmat alla dagana og ég smakkaði í fyrsta sinn grillaðan steinbít, hann var ekkert smá góður. Svo kíktum við aðeins á Vopnafjörð og Þórshöfn en annars var bara mest legið heima. Svo í morgun lögðum við af stað klukkan hálffimm og vorum komin heim um hálfeitt. Losnuðum við alla umferð, það var rosalega gott.
Hvolpurinn var auðvitað utan í okkur allan tímann, oh hún er svo sæt. (Reyndar heitir hún Tinna en ekki Dimma, smá misskilningur á ferð). Snúður var nú ekki sáttur að vera skilinn svona lengi eftir einn, það var bara komið tvisvar á dag og hann fékk að borða en fyrir utan það var hann bara einn í þrjá og hálfan dag, greyið. Enda var hann rosalega ánægður að sjá okkur aftur.
Svo gerist auðvitað alltaf eitthvað þegar að maður er ekki heima. Inga missti vatnið nótt og er ennþá uppi á fæðingardeild, þannig að maður bíður bara spenntur ;) Gaman gaman.

fimmtudagur, júlí 31, 2003

Jæja bara hálftími eftir í vinnunni og þá er ég komin í fjögurra daga frí, jibbí. Á morgun verður svo bara lagt af stað um sjöleytið (um morguninn sko) og þá verðum við komin svona um fimmleytið til Bakkafjarðar.
Fyrir utan þetta er ekkert að frétta, blogga næst bara þegar að ég verð komin heim. Skemmtið ykkur vel um helgina ;)

miðvikudagur, júlí 30, 2003

Jibbí, við fengum skoðun á bílinn, ekkert smá gaman. Við erum að spá í að halda bílnum þá allavega þangað til að frost kemur og hann verður erfiður í gang.
Svo sofnaði ég klukkan hálftíu í gær (yfir Brúðkaupsþættinum) og svaf alveg til sjö í morgun en þá vaknaði ég við kattarmjálm fyrir utan og þá var það kisan í næsta húsi sem vildi komast inn og borða. Ég var nú ekkert á því að hleypa henni inn en maður mjálmaði svo mikið þannig að ég lét loksins undan og hleypti henni inn og gaf honum að borða.

þriðjudagur, júlí 29, 2003

Já ég gleymdi að segja frá því að Árni er alveg úr í geimleiknum sínum, sem er fínt af því að þá verður hann ekki með áhyggjur allan tímann um verslunarmannahelgina.

Það er nokkurn veginn allt í lagi með hundinn, hún er með einhverjar bólgur í baki og fékk bólguminnkandi sprautur og töflur, þannig að henni ætti að fara að líða betur.
Ég sofnaði ekki fyrr en klukkan hálftvö og svaf auðvitað yfir mig. Ég mætti ekki fyrr en korter yfir átta í vinnuna, ekki nógu gott.
Svo erum við búin að vera að gera við bílinn, búin að kaupa ný dekk, fara með hann á smurstöð og gera við pústið og þetta samtals kostar 35.000. Ekkert smá dýrt. Reyndar getum við sjálfum okkur um kennt því að við höfum ekki hugsað nógu vel um hann en samt, frekar dýrt á tveim dögum. Svo fer Árni með hann í skoðun á eftir og ég er bara að vona að við fáum skoðun. Nenni ekki að standa í meiru svona.

Æ ég var að tala við Bergþór pabba og hann var með Dimmu (hundinn sinn) í bílnum í gær og hundinum tókst einhvern veginn að ýta rúðunni niður og steyptist út úr bílnum meðan bíllinn var á ferð. Greyið, hann ýlfraði svo mikið í alla nótt þannig að pabbi fór með hann til Egilsstaða í morgun til að láta líta á hann. Hún getur reyndar alveg labbað en ætli hún hafi ekki marist eitthvað. Æ maður vorkennir henni svo mikið.

mánudagur, júlí 28, 2003

Dagurinn í dag var rosalega fljótur að líða því að það var mikið að gera í vinnunni (svona til tilbreytingar). Svo fórum við bara heim og elduðum en svo sofnuðum við bæði um sexleytið og vöknuðum ekki aftur fyrr en níu. Þannig að ég sé ekki fram á að sofna fyrr en í fyrsta lagi svona eitt - hálftvö. Ekki alveg að fíla það.
Ennþá fréttist ekkert af krílinu hjá Ingu og Bigga, allir eru voða spenntir og nenna ekkert að bíða lengur ;) Af því að Inga er búin að vera svo lengi heima, út af of háum blóðþrýstingi, þá finnst manni eins og þetta sé orðinn svo langur tími en hún á samt ekkert að eiga fyrr en 4. ágúst. Þannig að við bíðum bara ennþá.
En ég ætla að fara horfa á sjónvarpið og athuga hvort að ég geti ekki sofnað yfir því.
Hey já, kannski fáum við bíl á rekstrarleigu á morgun, tengdapappi er eitthvað að athuga þetta fyrir okkur. Oh ég vona það, mér líður mikið betur að fara á nýjum bíl til Bakkafjarðar. Reyndar erum við búin að vera að gera við bílinn okkar og fara með hann á smurstöð og svona en samt. Maður veit aldrei með svona gamla bíla.

sunnudagur, júlí 27, 2003

Helgin bara búin :(. En reyndar er það allt í lagi af því að þá er styttra þangað til að við förum til Bakkafjarðar.
Ég datt ekkert smá mikið inn í þennan geimleik í gær, mig dreymdi hann meira að segja í alla nótt. Reyndar er Árni í rauninni bara búinn í leiknum því að hann á bara eitt skip eftir (þótt að ég sé búin að vera að gera fullt fyrir hann), ekki gaman. En hann verður bara með næst og veit þá betur en að vera að treysta einhverju pakki sem síðan svíkur hann og ræðst á hann.
En helgin var eitthvað voðalega róleg, kíkti bara í heimsókn til mömmu og pabba í dag. Var þar í smátíma en fór svo bara heim og var eitthvað að dúlla mér og hangsa.

laugardagur, júlí 26, 2003

Jæja kommentakerfið er dottið aftur inn, skil þetta ekki alveg sko.
Ég, Sigga og Adam fórum til Sollýjar í dag og kisan er svoooo sæt, maður er svo lítill, bara 4 mánaða. En svo er maður pínku haltur og hún vill bara sofa af því að hún er svo orkulaus af því að hún er búin að fá svo lítið að borða hjá þessu helv.... pakki sem þykist eiga hana. (Ef maður kemur ekki vel fram við dýrin sín þá á maður þau ekki).
Svo er ég bara búin að vera í geimleiknum sem Árni er í. Leikurinn uppfærist sko á 4 stunda fresti en Árni er auðvitað að vinna í 12 tíma í dag og á morgun þannig að ég þarf að gera fyrir hann. Það er nefnilega stríð byrjað í leiknum þannig að Árni má ekki við því að gera ekki í 12 tíma. Og hann er svo stressaður að geta ekki verið heima og einbeitt sér alveg að þessu. Ég veit að ég er pínku vond en ég er samt að vona að þessi leikur verði búinn fyrir föstudag (eða Árni sé úr) því að hann kemst ekkert í tölvu í 4 daga og getur þá ekkert gert. Og ég get ekki ímyndað mér hvernig hann verður ef leikurinn verður ennþá í gangi, hann á ekki eftir að meika það ;)

föstudagur, júlí 25, 2003

Þetta kommentakerfi er nú ekki alveg að gera sig, dettur út í tíma og ótíma. Núna er það til dæmis búið að vera úti í einhverja 2-3 daga og maður veit ekkert af hverju eða hvort það kemur aftur. Asnalegt.
Annars er helgin bara byrjuð og það er rosalega ljúft. Ætla að hangsa með Siggu systir og Adam frænda á morgun. Ætli við förum ekki að heimsækja kettlinginn hjá Sollý, gaman gaman.
Svo er bara niðurtalningin hafin í Bakkafjörð 2003, frændi minn og kærastan hans koma líka og svo kannski tveir aðrir frændur mínir líka. Þannig að við aukum íbúafjöldann um einhver prósent, get ég ímyndað mér ;) Nei smá grín. Það búa nú um 100 manns þarna (eða það held ég). Ég er búin að vera á netinu og fann nokkrar myndir af Bakkafirði, reyndar eru þetta frekar gamlar myndir þannig að þetta er ekki alveg svona lítið, dálítið mikið af húsum búin að bætast við.

Æ ég var að tala við Sollý systur og hún var að finna lítinn kettling. Eða sko reyndar fann hún hann ekki heldur býr hann þarna nálægt henni en eigendur hans gefa henni aldrei að borða og hafa hana bara úti alltaf. Ég skil ekki hvernig svona fólk getur verið til. Maður getur ekki annað en verið góður við dýr, þau eru svo sæt.
En kettlingurinn semsagt hændist bara að börnunum hjá Sollý og vildi svo bara koma inn með þeim og vera þar. Æ greyið manns, maður var svo svangur þegar að Sollý gaf henni að borða og hún er bara pínkupons og rosalega mjóslegin. Oh ég verð svo pirruð þegar að maður heyrir um svona pakk sem kann ekki að koma almennilega fram við dýr. Svona fólk á bara ekki skilið að vera til. Það ætti bara að refsa svona fólki með því að koma fram við það eins og það kemur fram við dýr, láta það vera úti alla daga í hvaða veðri sem er og gefa því ekkert að borða.

fimmtudagur, júlí 24, 2003

Jæja ég er búin að fá skýringu með þetta frá LÍN. Þetta var semsagt helmingurinn af skólagjaldalánunum hans Árna, þá veit maður það. Líður ykkur ekki mikið betur þegar að þið vitið þetta? ;)
Annars er ekkert að gera í vinnunni, eins og vanalega. Núna bíð ég bara eftir föstudeginum 1. ágúst, jibbí.

Bara tveir vinnudagar eftir og þá er þessi vika búin. Æðislegt!! Og þá eru bara 4 vikur eftir í vinnunni, ennþá skemmtilegra.
Ég og Árni erum að spá í að fara til Bakkafjarðar til Bergþórs pabba um Verslunarmannahelgina. Þótt að bíllinn okkar sé kannski ekki upp á það besta þá hlýtur að vera í lagi að keyra hann þangað, við vonum það allavega. Við ætluðum fyrst að fljúga en það kostar 28.000 að fljúga til Egilsstaða, sem er náttúrulega bara geðveiki. Það er ódýrara að fljúga til Kaupmannahafnar, ógeðslega asnalegt.
Svo í gær var ég að vesenast inn á Heimabankanum okkar þegar að ég sá að LÍN var búið að leggja helling af peningum inn á okkur. Ég ætla að hringja strax og þeir opna (eftir ca. 3 mínútur) og spyrja fyrir hvað þetta sé. Við erum bæði búin að fá námslánin okkar fyrir seinustu önn þannig að ég get ekki ímyndað mér hvað þetta er. Og ég þori ekki að byrja að eyða þessu fyrr en ég veit hvort að þetta eru mistök eða ekki ;)

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Jæja ætli það sé ekki komið nóg í bili ;)

You're Perfect ^^
-Perfect- You're the perfect girlfriend. Which
means you're rare or that you cheated :P You're
the kind of chick that can hang out with your
boyfriend's friends and be silly. You don't
care about presents or about going to fancy
placed. Hell, just hang out. You're just happy
being around your boyfriend.


What Kind of Girlfriend Are You?
brought to you by Quizilla

You represent... naivete.
You represent... naivete.
So innocent and trusting... you can be very shy at
times, but it's only because you're not sure
how to act. You give off that "I need to
be protected vibe." Remember that not all
people are good. Being too trusting will get
you easily hurt.


What feeling do you represent?
brought to you by Quizilla

Og hér koma fleiri niðurstöður:





who's your male wench?

this quiz by belle

Þar sem að það er gjörsamlega minna en ekkert að gera í vinnunni ákvað ég bara að taka próf á netinu og hér koma niðurstöðurnar:


Hvaða teiknimyndavondukall ert ÞÚ?

Jæja ég var rosalega dugleg í gær og fór út að labba, geðveikt stuð. Það er geðveikt langt síðan að ég fór út að labba, held bara um fimm ár ef ekki meira ;)
Ég hef alltaf gleymt að segja að ég horfði á T-3 um helgina og hún er geðveikt góð. Svo horfði ég líka á Pirates of the Caribbean en ég er ekki alveg búin með hana. Oh það er svo skrýtið að sjá Orlando Bloom svona dökkhærðan, hann er nú samt rosalega sætur þannig en ennþá sætari sem Legolas.
Í dag er Helga vinkona að fara til London til Freysa síns, þau eru að fara að skoða sig um og svona. Oh hvað ég væri til í að fara eitthvað þannig. Það eru þrjú ár síðan að ég og Árni fórum út, alltof langt.
Svo ætla ég að kvarta pínku, ég var að athuga flug til Egilsstaða og það kostar (fyrir mig og Árna) 27.960, hvernig er þetta hægt? Ég skil þetta bara ekki. Ekkert smá rosalega dýrt. Þetta er jafndýrt og til London og Kaupmannahafnar með Iceland Express.
En ætli ég verði ekki að halda áfram að vinna.

mánudagur, júlí 21, 2003

Ég fór til gigtarlæknis í dag og góðu fréttirnar eru að ég er ekki með gigt. Hinsvegar er ég með psoriasis sem liggur reyndar bara niðri þannig að ég finn ekkert fyrir því en það er byrjað að koma fram í neglurnar, ekki gaman. Svo vildi læknirinn endilega taka blóðprufu til að athuga hvort að ég væri með sykursýki eða ofvirkni í skjaldkirtlinum. Þannig að ég bíð bara eftir niðurstöðum. Svo sagði hann líka að ég væri með klemmda taug í úlnliðnum og það er ástæðan fyrir fingradofanum og bólgunni. Hann sagði líka að ég þyrfti að grenna mig (sem er nú ekki gaman að heyra) en maður verður líklegast að hlýða lækninum. Samt fór ég og keypti mér pínku nammi ;) Algjör prakkari.
Svo fór ég bara á bókasafnið og tók fjórar bækur og ætla að slappa af í kvöld.

sunnudagur, júlí 20, 2003

Jæja það var mjög fínt í afmælunum í gær. Í barnaafmælinu voru rosalega góðar kökur og heitur réttur, nammi namm. Svo hjá Siggu og Drífu var það eins og þær hefðu búist við 40 manns eða eitthvað af því að það var svo mikið á boðstólum, allt rosalega gott hjá þeim líka. Gaman líka að hitta systkinin öll svona saman og, gerist alltof sjaldan.
Svo fórum við í afmæli til vinar hans Árna og það var í raun bara hundleiðinlegt. Árni þekkti svona fimm manneskjur og ég svona þrjár. Þannig að við fórum bara heim eitthvað um tólf. Ég ætlaði reyndar að hitta stelpurnar en ég nennti ekki að bíða ein niðri í bæ eftir þeim ;)

laugardagur, júlí 19, 2003

Jæja ég fékk frí í vinnunni í gær eftir hádegi og dreif mig í Kringluna og fann mér buxur. Ótrúlegt en satt. Ég keypti þær í Next og þær ná upp í mitti!! Ennþá meira ótrúlegt. Svo fann ég líka skó en þar sem þeir eru voðalega líkir einum skóm sem að ég á og voru ekki heldur á útsölu ákvað ég að kaupa þá ekki. Mig langar líka mikið meira í stígvél.
Svo var stelpudjamm heima hjá Hrönn, það var bara rosalega fínt. Ég fór reyndar ekki með niður í bæ, var eitthvað þreytt eftir vikuna og er líka að fara í þrjú afmæli í dag. Eitt barnaafmæli klukkan tvö og svo tvö partý. Ekki nóg með það heldur er líka stelpnadjamm með Karen, Rannveigu, Helgu og fleirum. Þannig að maður verður geðveikt busy í dag og kvöld. Svo á morgun ætlum við stelpurnar að kíkja til Ingu, hún er orðin geðveikt pirruð á að hanga svona heima og ég skil hana geðveikt vel. Þannig að helgin er bara fullbókuð.
Bergþór pabbi var að fá sér labradorhvolp. Oh hvað ég hefði verið til í að sjá hann en því miður þá gat ég það ekki. Hann fór með hann heim snemma í morgun. Nennti ekki alveg að vakna klukkan átta til að sjá hann en ég sé hann bara næst þegar að þeir koma í bæinn.
En ætli maður verði ekki að fara að gera eitthvað hérna heima, allt í drasli.

föstudagur, júlí 18, 2003

Ég gleymdi að óska Siggu systur til hamingju með afmælið en hún er 35 ára. Til hamingju systa.

Jæja ég er búin með allt sem þarf að gera í dag í vinnunni minni og klukkan er ekki orðin hálftíu. Ég er meira að segja að leysa aðra konu af þannig að þið getið ímyndað ykkur hvað það er lítið að gera.
Deildin okkar bauð okkur upp á ís í gær, nammi namm. Svona smá sárabætur fyrir þá sem eru ekki í fríi í þessu góða veðri.
Ég er orðin rosalega fín eftir litunina hjá Sollý í gær, núna getur maður bara drifið sig út á djammið.
Ég er að spá í að fá frí eftir hádegi í dag og reyna að versla mér einhver föt, reyndar nenni ég ekki að fara í Kringluna og Smáralind en mig vantar svo hrikalega föt. Ég er samt ekkert að fíla tískuna en ég hlýt að geta fundið einhverja boli að minnsta kosti.
Jæja best að fara að láta sér leiðast aðeins meira.

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Það er alveg minna en ekki neitt að gera í vinnunni hjá mér. Og það hafa allir jafn lítið að gera þannig að þegar að maður býðst til að hjálpa einhverjum þá er ekkert til að hjálpa með. Alveg ömurlegt að hanga svona allan daginn.
Árni fór í körfubolta í gær eftir vinnu (fór semsagt klukkan hálfeitt um nótt) og kom ekki aftur heim fyrr en um fjögur. Myndi ég geta þetta, ég væri löngu dottin niður dauð af þreytu á körfuboltavellinum. Og svo vaknaði hann með mér klukkan korter í átta í morgun til að keyra mig í vinnuna og sofnaði ekkert aftur þangað til að hann þurfti að fara að vinna klukkan ellefu. Ég skil hann stundum ekki, hvernig er þetta hægt??
Svo erum ég og mamma að fara í litun og plokkun í dag til Sollýjar systur. Fyrst að maður er orðinn svona fínn með hárið þá verður andlitið líka að vera fínt ;) Þannig að ég bíð bara eftir því að klukkan slái fjögur og maður geti drifið sig héðan út, gaman gaman.

miðvikudagur, júlí 16, 2003

Ég ákvað bara að skella mér í strípur í dag, fékk að fara úr vinnunni klukkan hálftvö og beint inn á hárgreiðslustofu. Þannig að núna er ég bara orðin blondína, ég er ekki að grínast. En það er bara fínt. Ég er líka að fara í nokkur partý um helgina (já nokkur!!) og maður verður að líta vel út.
Á föstudaginn verður stelpupartý hjá Hrönn og svo á laugardag verður afmælispartý hjá Siggu og Hödda sem er vinur hans Árna. Þetta hittist alltaf allt á sömu dagana en þess á milli er ekkert að gera hjá manni. Alveg týpískt.
Ég ákvað að hringja bara í Toppskó í dag, nennti hreinlega ekki að fara og horfa á alla þessa oddmjóu fáranlegu skó. Og viti menn það eru ekki til venjulegir skór hjá þeim, kemur á óvart.
En Helga vinkona var að koma þannig að ég ætla að hætta.

þriðjudagur, júlí 15, 2003

Ég er alltaf svo þreytt, ég skil þetta ekki. Ég var að horfa á þætti sem heita Blue Planet í gær (svona dýralífsþættir) og ég var inni í tölvuherbergi og ég var næstum því sofnuð. Samt sat ég bara á skrifstofustólnum, skil ekki hvernig ég gat sofnað. Svo fór ég fram og lagðist inni í stofu og sofnaði auðvitað strax. Svo klukkan hálfellefu færði ég mig inn í rúm og hélt bara áfram að sofa. Reyndar vaknaði ég klukkan tvö af því að mér var svo geðveikt flökurt og ég gat ekki sofnað aftur fyrr en fjögur. Þannig að ég var frekar þreytt í morgun.
Ég ætla að gera eina lokatilraun til að kaupa mér skó sem eru ekki oddmjóir, ég ætla að fara í Toppskó í dag og athuga þar. Ef ég finn ekkert þar þá get ég bara ekkert keypt mér skó, hrumphf. Pirringur. Það þarf bara að vera til búð sem er með plain föt til sölu, svona svört pils og venjulega skó.

sunnudagur, júlí 13, 2003

Ein enn helgin að verða búin. Ég er bara ánægð með það af því að þá er styttra í það að skólinn byrji aftur. Ég hlakka svo til að byrja aftur til að klára þetta eina ár sem að ég á eftir. Árni hlakkar líka til að byrja aftur í sínum skóla, við erum bæði byrjuð að telja niður þangað til að við hættum að vinna. Hann hættir reyndar að vinna á undan mér því að skólinn byrjar fyrr hjá honum.
Ég og mamma fórum til Bjarklindar og Siggu í dag. Það er svo þægilegt að eyða helgunum í heimsóknir og svona. Svo á Sigga systir afmæli næsta föstudag, verður 35 ára. Af því tilfefni verður partý hjá henni á laugardagskvöldið, gaman gaman.
Sigga og Drífa eru einmitt komnar með heimasíðu, búin að bæta við link á hana, endilega kíkið á hana.

laugardagur, júlí 12, 2003

Ennþá svona lítið að gerast. Var reyndar að horfa á Finding Nemo og hún er ekkert smá sæt.
Bara svo búin að vera að vesenast í dag, fór að máta brúðarkjóla og fór svo í Smáralindina með Sollý systur. Sama og vanalega þar, engin föt sem að ég fíla. Gjörsamlega hatandi. Ég skil ekki hvernig fatahönnuðir halda að allir geti gengið í sömu fötunum, fólk er mismunandi vaxið.

föstudagur, júlí 11, 2003

Eitthvað voðalega lítið að gerast þessa dagana. Helgin bara að koma og ég er búin að fara á bókasafnið og fá bækur þar. Fékk þrjár Danielle Steel bækur þannig að það verður bara legið uppi í rúmi alla helgina og lesið. Oh mér finnst það svo æðislegt. Reyndar hefði ég þurft að þrífa íbúðina en ég veit ekki alveg hvort að ég nenni því ;)

fimmtudagur, júlí 10, 2003

Heyrðu ég gleymdi auðvitað einu. Ég var víst í sjónvarpinu í gær, ekki það að ég sá það, heldur hringdu mamma og pabbi í mig og sögðu mér frá því. Bara orðin fræg ;) Eða ekki.

Við fórum að skoða litla kettlingin í gær og hann var svoooooo sætur!!! Ég og Árni vorum alveg komin á það að taka hann heim en þá var hringt og eigandinn var fundinn. Æ það var fínt, ég gæti ekki ímyndað mér hvernig mér liði ef Snúður myndi týnast.
Svo komum við bara heim og elduðum, við höfðum ekki tíma til að fara til Ingvars Helgasonar til að kíkja á bíla en við ætlum að fara í dag. Ég var líka eitthvað svo þreytt í gær, ég sofnaði klukkan níu fyrir framan sjónvarpið, færði mig svo inn í rúm klukkan hálfellefu og svaf alveg til hálfátta í morgun. Það er ekkert smá næs að sofa svona lengi stundum.
Ég og Hrönn ætlum að fara að skoða og máta brúðarkjóla á laugardaginn. Það verður geðveikt spennandi. Reyndar þurfum við að fara á Brúðarkjólaleigu Katrínar af því að hún er með kjólinn sem mig langar í og Hrönn verður að fá að kíkja aðeins á hann til að vita hvernig hann er saumaður og eitthvað þannig. Það kemur samt alls ekki til greina að ég fari að leigja eitthvað hjá þeim, eins og slör og þannig. Ætla bara að fara og sóa tímanum þeirra aðeins :)

miðvikudagur, júlí 09, 2003

Oh Sigga systir var að hringja og segja mér að þær hefðu fundið lítinn kettling í gær, bara þriggja mánaða sem er týndur. Æ greyið manns. Ég ætla sko að fara beint eftir vinnu og skoða hann hjá þeim. Þær hringdu í Kattholt og það er enginn búinn að spyrjast fyrir um hann þannig að kannski ætla þær að eiga hann. Oh maður er örugglega svo sætastur.

Vá hvað ég var þreytt í morgun, ég nennti alveg ekki í vinnuna. Enda mætti ég fimm mínútum of seint, ekki nógu gott. Að öðru leyti er nú mest lítið að frétta, Árni er búinn að ná í Charlie´s Angels og hún er bara frekar góð. Reyndar segi ég það að ef þær væru ekki svona flottar þá hefði myndin orðið algjört flop.
Ég pantaði Bergþór Pálsson til að syngja í kirkjunni hjá okkur. Ekkert smá gaman. Hann syngur rosalega vel og er ekkert dýr miðað við marga aðra.
Svo ætlum ég og Árni að fara til Ingvars Helgasonar í dag og skoða bíla. Við ætlum nefnilega að taka bíl á rekstrarleigu af því að okkar bíll er alveg að gefa upp öndina, greyið. Þar sem að planið er að fara út til Danmerkur eftir ÁR (vá alltof stuttur tími) þá tekur það sig ekkert að vera að burðast við að kaupa bíl í eitt ár og þurfa svo að reyna að selja hann og svoleiðis. Það gengur bara ekkert upp.
Svo næstu helgi ætlum við að fara og skoða brúðarsvítur. Við ætlum að fara á Hótel Sögu og Nordica hotel. Mig langar nú meira á Nordica af því að þar er jacuzi (veit ekki hvernig þetta er skrifað), geðveikt stuð.
En ætli það sé ekki best að halda áfram að vinna.

mánudagur, júlí 07, 2003

Jæja helgin búin og ég er mætt aftur í vinnuna. Helgin var bara yndisleg, í einu orði.
Á föstudaginn borðuðum við góðan mat hjá Hrönn og Axel og svo spiluðum við Trivial. Reyndar unnu Ásta, Ívar og Axel en ég, Árni og Hrönn tökum þau bara næst. Sóli var líka voðalega ánægður með að sjá okkur af því að hann fékk svo margar gjafir frá okkur, fullt af beinum!!
Svo á laugardaginn fórum við á Laugarvatn og gistum þar eina nótt. Við fórum að sjá Geysi um laugardaginn rétt eftir að við komum og svo var bara legið uppi í rúmi, lesið og slappað af. Um sjöleytið fengum við að borða rosalega góðan mat og svo var bara farið snemma að sofa eða um klukkan tólf. Algjör afslöppun.
Á sunnudeginum fórum við í Dýragarðinn á Slakka. Oh það var svo sætt. Við sáum lömb, folald, kálf, fullt af kanínum og svo mátti maður fara inn í búrið til kettlingana sem voru þarna. Oh þeir voru svo sætir. Mig langaði að taka þá alla með heim. Þetta er samt svo sniðugt hjá þeim að maður má klappa öllum dýrunum og halda á þeim og svona, annað en í þessum Húsdýragarði. Svo kíktum við aðeins til tengdó sem voru í sumarbústað á Flúðum en svo fórum við bara heim. Þannig að við erum bara vel afslöppuð eftir þessa helgi.

fimmtudagur, júlí 03, 2003

Ég ákvað að koma Árna á óvart, ég hringdi í eitt hótel og pantaði eina nótt þar núna á laugardaginn. Ég hringdi reyndar í hann áður til að vita hvort að hann væri búinn að plana eitthvað annað og þannig. Ég sagði honum bara að við værum að fara út á land og yrðum þar yfir nótt. Hann veit semsagt ekkert hvert við erum að fara þannig að ég ætla ekki að segja það hér ;). Ég hlakka svo til, við höfum aldrei farið á hótel hérna á landi tvö ein og við höfum heldur aldrei bara farið tvö ein eithvað út á land, þannig að þetta verður rosalega gaman.
Ég er búin að vera að háma í mig afganginn úr saumaklúbbnum í kvöld, lá uppi í rúmi og borðaði kökuna og heita brauðréttinn, nammi namm. Svo sofnaði ég klukkan átta og vaknaði svo klukkan tíu þannig að það er pottþétt að ég á ekki eftir að geta sofnað aftur strax.
Svo á morgun erum við að fara til Hrannar og Axels og borða grillmat og Ásta og Ívar koma líka. Sóli litli sæti hundurinn þeirra Hrannar og Axels er eins árs í dag og þetta verður einskonar afmælisveisla fyrir hann :). Ekkert smá sætt. Við eigum semsagt að koma með kjöt og svo fær hann beinin. Rosalega heppinn.
Núna er ég að hlusta á nýjasta lagið með Beyonce Knowles: Crazy in love. Ekkert smá flott lag, mæli með því við alla.
En ég verð víst að fara að sækja Árna. Það verður semsagt lítið skrifað um helgina af því að við erum að fara út á land en ég segi ykkur bara frá öllu eftir helgina.

Ég hringdi í Brúðarkjólaleigu Katrínar í gær og ætlaði að panta tíma fyrir Árna í mátun. Hann vill semsagt máta chacket (veit ekkert hvort að þetta er rétt skrifað) og athuga hvernig honum finnst að vera í þannig. Ég hringi og hún spyr hvenær brúðkaupsdagurinn er og ég segi að hann sé ekki fyrr en á næsta ári. Þá segir hún að það þýði ekkert að koma strax því að það verði komin önnur tíska (fyrirgefðu, er ekki alltaf sama tíska hjá strákum, það er ekki eins og smóking og kjólföt og þannig föt breytist frá ári til árs). Ég segi það við hana og þá spyr hún hvaða númer Árni notir, ég segi að hann noti örugglega bara það minnsta. Þá segir hún að þar sem ég viti það ekki megum við koma og skoða, ekki máta. Fyrirgefðu er ekki mátun einmitt til þess að vita í hvaða númeri maður er í!!! Ég sagði nú þá við hana að þetta væri ekkert mjög góð þjónusta og þá segir hún við mig að ég geti bara opnað svona leigu sjálf!!! Talandi um að kunna ekki að afgreiða kúnna.
En svo var saumó í gær. Það var bara mjög gaman nema það að ég gleymdi að bæði Rannveig og Karen borða ekki aspas og heita brauðið mitt var með aspas, ekki alveg nógu gott ;) En þær borðuðu þá bara hitt brauðið og kökuna mína.

miðvikudagur, júlí 02, 2003

Búin að fara til læknisins og hann sagði að ég væri bara með svona geðveika sinaskeiðabólgu og hún leiðir alveg upp í ökklann og kálfann, ekki gott. Hann vildi ekki gera neitt við þessu núna en sagði að ef þetta væri ekki búið að lagast eftir 1-2 vikur ætti ég að koma eftir og láta sprauta í fótinn. Oh ég hlakka ekki til ef ég þarf þess.

Voðalega gekk það vel hjá mér að ætla að skrifa á hverjum degi ;) Ég entist ekki í einn dag, það var nú reyndar ekki af því að ég hafði ekkert að segja heldur var ég bara eitthvað svo þreytt í gær. Enda sofnaði ég fyrir framan sjónvarpið og missti af Brúðkaupsþættinum Já.
Þegar að ég kom heim byrjaði ég nefnilega strax að baka og gera allt fínt fyrir saumó sem verður í kvöld. Ég bakaði súkkulaði-korn marengs og svo gerði ég tvær rúllutertubrauðtertur, nammi namm. Mig langaði nú bara að borða þetta allt strax. Svo eftir þetta þurfti ég að þvo frekar mikið upp, sem betur fer hjálpaði Árni mér. Ég var meira að segja svo busy í gær að ég komst ekki í badminton þannig að Árni, Laufey og Eiður voru bara þrjú.
Svo þegar að ég vaknaði aftur eftir að hafa sofnað þá langaði Árna svo að raða öllum myndunum sem hann er búinn að skrifa upp á síðkastið í stafrófsröð. Og það voru um 130 diskar sem við þurftum að raða. Við vorum að því alveg til svona hálfeitt en þá varð ég bara að fara að leggja mig. En vá hvað við eigum margar myndir, við eigum eitthvað um 350 diska og ég er kannski bara búin að horfa á svona 20 myndir. Og allir þættirnir sem við eigum eru ekki innifaldir í þessari talningu. Er ekki gaman að vita þetta?
Ég fékk að vita í fyrradag að Háskóli Íslands leyfði mér að fá tvö fög sem ég tók í viðskiptafræðinni sem valfög í sálfræðinni þannig að ég er búin með 70 einingar (á bara að vera búin með 60) þannig að ef ég tek 16 einingar á næstu önn þá á ég bara eftir ritgerðina mína á seinustu önninni. Það verður rosalega næs.
En ég ætla víst að fara að vinna. Þarf að fara til læknis á eftir vegna þess að ég missteig mig fyrir svona fjórum vikum og ég er ennþá að deyja í löppinni. Ekki alveg nógu gott.

mánudagur, júní 30, 2003

Jæja ég ætla að fara að reyna að skrifa eitthvað á hverjum degi. Bara búin að vera að skrifa annanhvorn dag eða á lengri fresti og það bara gengur ekki.
Ég, Árni og Laufey fórum í badminton í dag. Eiður ætlaði líka að koma með en hann var því miður bara veikur greyið. Þannig að það var bara spilað einn á móti tveim og það er ekkert smá erfitt að vera sá sem er einn. Ég allavega hljóp fram og aftur um völlinn en náði sjaldnast boltanum ;).
Svo fórum við í mat til tengdó og ég og tengdamamma vorum bara mest að tala um brúðkaup (uppáhaldsumræðuefnið mitt þessa dagana) en Árni og tengdapabbi voru bara í tölvunni mestallan tímann. Það er samt komið á hreint að við fáum bílinn þeirra lánaðan til að vera brúðarbíllinn okkar. Hann er nefnilega svo flottur, alveg dökkblár og með leðursæti. Ekkert smá þægilegt. Mig og Árna langar nefnilega ekkert að fara í limmu, við höfum einu sinni farið í þannig bíl og okkur fannst það bara ekkert spes. Svo fór ég inn á fornbill.is og var að skoða bílana sem eru til leigu þar og mér finnst þeir bara ekkert flottir.
Svo var ég að panta tíma hjá tveim læknum í dag. Ég fékk tíma hjá öðrum þeirra 4. sept!!!! Ekkert smá langt sem að maður þarf að bíða. En samt er þetta þannig læknir að hann er hættur að taka inn nýja sjúklinga þannig að ég er bara heppin að vera hjá honum (þótt að maður þurfi að bíða í þrjá mánuði eftir tíma). En svo hjá hinum er bara þriggja vikna biðtími en því var nú reddað í gegnum klíku. Ég er nefnilega svo hrædd um að ég sé komin með gigt af því að á kvöldin þá verða fingurnir á mér svo bólgnir að þeir eru næstum tvöfaldir og ég verð svo dofinn og þetta er alveg í svona klukkutíma. Ég fór á doktor.is og þar fann ég að þetta gæti verið sóragigt sem er þannig að psoriasis er komið í liðina á manni. Þannig að ég ætla að fara til gigtarlæknis, bara til að vera örugg. Ég er nefnilega alltaf svo móðursjúk með allt svona. Og þar sem pabbi er með gigt þá fékk ég bara tíma hjá lækninum hans. Takk fyrir það pabbi ;)

sunnudagur, júní 29, 2003

Mánudagur á morgun og ég nenni alveg ekki í vinnuna. En svo er reyndar útborgunardagur á þriðjudag, jibbí. Ekki það að maður fái eitthvað mikið af því að Landsbankinn borgar alveg hrikalega!! En það er samt betra að fá ekki neitt ;) Sko hvað ég er bara jákvæð :)
Þetta var nú bara letidagur í dag, fór til Siggu og Drífu með mynd sem ég var að skrifa fyrir þær. Þær voru að koma úr sumarbústaðinum á miðvikudaginn, þær fengu svo leiðinlegt veður að þær ákváðu að koma heim alveg tveim dögum áður en þær þurftu að koma. Ekki gaman fyrir þær. Adam var svo sætur, sat rosa góður hjá frænku sinni og talaði alveg heilmikið. Ekki það að maður skildi hann eitthvað en samt gaman að hlusta á hann.
Maður verður líka alveg veikur að vera svona innan um lítil börn. Sérstaklega þar sem að þrjár af vinkonum mínum eru ófrískar, Inga, Sara og Rakel. Og þær eiga allar að eiga á svipuðum tíma þannig að ég verð alveg umkringd litlum krílum, gaman gaman.
Ég var að horfa á LOTR: The Two Towers í dag (í 4. skipti). Ég hlakka svo til að sjá þriðju myndina að ég get varla beðið. Það er samt geðveikt langt í hana, hún kemur ekki fyrr en seinast í desember. En það verður ekkert smá gaman að sjá hana. Þótt að maður sé búinn að lesa bækurnar og veit alveg um hvernig hún endar og þannig þá er svo gaman að sjá hvernig að leikstjórinn útfærir allt og svona. Svo er auðvitað bætt inn í ýmsum atriðum sem eru ekkert inn í bókinni og það er alltaf gaman að sjá þau. Þessar myndir eru svo mikil snilld að það er bara ekki eðlilegt. Og Aragorn er auðvitað alveg langsætastur (fyrir utan Árna).
Svo núna er ég bara í tölvunni að hlusta á rómó lög og gera word search á netinu, mér finnst það svo gaman. Árni er búinn í vinnunni eftir hálftíma og þá fer ég að sækja hann. Núna á hann bara eftir að vinna fjórar helgar áður en hann byrjar aftur í skólanum, jibbí. Við erum alveg bæði byrjuð að telja niður þangað til að skólinn byrjar aftur, bæði af því að við erum bæði í hundleiðinlegum vinnum en líka út af því að þetta verður seinasta árið okkar í skólanum, geðveikt stuð. Og þá verður bara farið að vinna, samt ekkert smá skrýtin tilhugsun af því að maður er búin að vera svo lengi í skóla. Og þá fær maður að fá sumarfrí á launum og fleira svona næs, alltaf frí um helgar (ekki bara á sumrin) og þannig.
Voðalega þurfti ég eitthvað mikið að tjá mig :) Svona er það þegar að maður er einn mestallan daginn og hefur engan að tala við.

Jæja blogspot komið aftur í lag, það voru einhver vandræði hjá þeim að birta íslenska stafi, ekki alveg nógu gott.
Ég og Árni erum búin að velja salinn fyrir brúðkaupið. Veislan verður semsagt í Félagsheimili Kópavogs, rosalega flottur staður. Laufey systir hans Árna hélt brúðkaupsveisluna sína þar og það kom rosalega vel út. Þannig að við erum í rauninni búin með allt svona sem þarf að panta svona snemma.
Svo fórum ég og mamma í dag að máta brúðarkjóla, ekkert smá skemmtilegt. Mömmu fannst ég alveg rosalega sæt í brúðarkjól, með slör og allt. Reyndar var kjóllinn sem Hrönn ætlar að sauma ekki inni þannig að ég ætla að fara aftur á þriðjudag og máta hann.
Ég fór í heimsókn til Ingu í kvöld. Greyið, hún má ekki vinna neitt meira út af því að hún er með of háan blóðþrýsting, þannig að hún er bara komin í fimm vikna frí. Geðveikt stuð, ég veit nú samt ekki alveg hvort að ég myndi fíla það, er ekkert voðalega svona dúllerímanneskja. En maður verður víst að hlýða læknunum og hugsa vel um barnið og sjálfan sig.
En ég ætla að fara að sinna manninum, hann er kominn heim úr vinnunni og er að fara að vinna aftur á morgun þannig að við ætlum að fara að knúra.

miðvikudagur, júní 25, 2003

Tveir og hálfur vinnudagur liðinn og ég er búin að sofa yfir mig tvisvar, þetta gengur nú bara ekki. Ég er bara eitthvað svo pirruð á vinnunni minni, ég er komin með geðveikt ógeð af henni. Og það eru alveg tveir mánuðir eftir af henni, ég nenni þessu ekki!!!
Ég er semsagt bara búin að fara að synda á mánudaginn, gat ekki farið í gær þar sem að ég svaf yfir mig en svo ætlum ég og Árni að byrja aftur í badminton í dag, gaman gaman.
Mér og Guðlaugu var boðið til Rakelar í gær og við fengum hollustumat hjá henni, niðurskorið grænmeti og geðveika jarðarberjaköku sem ég er að spá í að gera fyrir saumó næsta miðvikudag. Um nammi namm.
En það er nú voðalega lítið að segja og gerast hjá mér, er bara í þessari hundleiðinlegu vinnu minni og er alveg að deyja úr pirringi. Er ég ekki skemmtileg í dag?

mánudagur, júní 23, 2003

Helgin búin og vinnuvikan tekin við. Þetta var bara hin besta helgi, ég, mamma og Árni keyrðum í sumarbústaðinn eftir vinnu á föstudeginum og það var rosalega fínt. Grilluðum og spiluðum og töluðum saman alveg til hálfþrjú og svo var sofið alveg til tólf. Svo var bara spilað meira og slappað af og lagt aftur af stað í bæinn um fimm. Reyndar hefðum við alveg verið til í að vera lengur en við þurftum að mæta í útskriftarveislu hjá Karen klukkan níu
Hjá Karen var bara rosalega fínt, geðveikur matur og frábær félagsskapur. Reyndar fórum við heim um eitt, vorum ennþá eftir okkur eftir sumarbústaðaferðina :). En nú er semsagt fyrsta vinkonan búin að útskrifast, til hamingju með það Karen mín.