fimmtudagur, mars 30, 2006

Allt í drasli þessa dagana hjá okkur. Kassar út um allt og dót á öllum borðum sem á eftir að pakka niður :). Finnst tilhugsunin um það að við þurfum að flytja aftur í september og svo aftur þegar að við kaupum okkur íbúð ekkert voðalega heillandi þessa stundina. En vá hvað maður getur safnað að sér miklu drasli á einu og hálfu ári og ótrúlegt hvað kemst fyrir í þessari litlu íbúð. Erum semsagt komin langleiðina með pakkninguna, helgin fer í að taka niður hillur, sparsla og þrífa.

Annars er ég búin með 2/3 af ritgerðinni þannig að ég skilaði inn til skólans staðfestingu á því að ég myndi skila 1. júlí. Rosa fínt að vera búin að ákveða fastan dag og ég hlakka endalaust mikið til þess þegar að ég get skilað henni.

Tilhugsunin um að vera að fara frá Árósum er dálítið blendin, ég er auðvitað búin að hlakka til að flytja til Íslands frá því að við komum en ég á eftir að sakna vinanna ótrúlega mikið. Finnst skrýtið að ég hafi náð að kynnast þeim svona vel á stuttum tíma þar sem að ég hleypi fólki ekki mjög auðveldlega að mér. En þau eru öll svo yndisleg að það er kannski engin furða.

En ætla að halda áfram að pakka og drasla meira til :). Þetta er örugglega í síðasta skipti sem ég blogga frá Árósum, heyrumst aftur á Íslandi.

sunnudagur, mars 26, 2006

Helgin hjá okkur er búin að vera rosalega fín, enda er þetta seinasta helgin sem við höfum í að gera ekki neitt. Árni kíkti út með nokkrum strákum á föstudaginn, þeir skelltu sér á Hereford og drukku nokkrar rauðvínsflöskur. Ég fór svo út í gær með nokkrum sálfræðiskvísum, fórum fyrst á kaffihús og svo á Gaz station. Skemmti mér þvílíkt vel þótt að tónlistin á Gaz hafi ekki alveg verið að gera sig.
Kom heim um þrjúleytið sem var í rauninni um fjögurleytið því að við erum komin á sumartíma hérna í Danmörku. Ekki er nú mjög sumarlegt hjá okkur, það snjóaði í nótt og núna er slydda :).

En næsta vika fer í að pakka og ganga frá öllum okkar málum. Flytjum þarnæsta mánudag, sýnum íbúðina á þriðjudagsmorgninum og fljúgum heim á miðvikudeginum. Hildur og Konni voru svo yndisleg að bjóða okkur að gista hjá þeim seinustu tvær næturnar, rosa þægilegt að þurfa ekki að taka hótelherbergi.

En bara 10 dagar í heimkomu, jibbí. Ætla sko að fara strax í Kattholt og knúsa Snúðinn minn, er búin að sakna hans endalaust mikið.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Kl. 21:44 í gærkvöldi kom prinsessan þeirra Ástu og Ívars í heiminn. Innilega til hamingju með litlu dótturina og við getum ekki beðið eftir að koma heim og knúsa ykkur öll!!

Jæja, þá er annað barnið í þessum vinahóp komið og eftir ca. mánuð kemur það þriðja. Skemmtilegt sumar framundan með fullt af litlum börnum til að knúsa.

laugardagur, mars 18, 2006

Það var svo gaman á stelpudjamminu í gær. Kvöldið byrjaði hjá Hildi þar sem að ég, Víó, Edda og Sigga Lóa fengum rosa góðan fordrykk, Pina Colada með ferskum ananas, nammi namm. Fengum svakalega góðan mat á veitingastaðnum, þeir eru með gómsætasta forréttarhlaðborð sem að ég hef smakkað, hummus, djúpsteika smokkfiska, sushi, prosciutto og margt fleira. Ég fæ bara vatn í munninn við tilhugsunina. Fórum svo til Eddu og allt í einu var klukkan orðin svo margt að við komumst aldrei á kokkteilabarinn, fórum bara beint á Gaz station til að dansa. Fórum heim um fjögurleytið, enda byrjaði djammið klukkan hálfsex :). Takk fyrir frábært kvöld, stelpur.

Í dag eru svo bara 18 dagar þangað til að við komum heim, tíminn líður ekkert smá hratt. Ritgerðin hjá mér gengur bara vel, ég er búin með fræðilega hlutann af skýrslunni minni og er meira en hálfuð blaðsíðulega séð. Hlakka nú samt til þegar að þetta verður búið :). Annars finnst mér ég hafa ekkert að segja þessa dagana, enda er það ástæðan fyrir því að það líður svona langt á milli færslna, finnst ég alltaf vera að tönglast á því sama.

mánudagur, mars 13, 2006

Seinasta helgi einkenndist mest af afslöppun, við lærðum eiginlega ekki neitt en slöppuðum þeim mun meira af :). Fórum til Hildar og Konna á laugardagskvöldið og elduðum saman þennan æðislega mat, sátum svo frameftir kvöldi og spiluðum Catan. Alltaf svo gaman að hitta þau.

Er strax byrjuð að hlakka til næstu helgi. Ætlum nefnilega nokkrar skvísur að fara á djammið. Kvöldið byrjar á fordrykk hjá Hildi, svo farið verður út að borða á Cucos sem er grískur staður. Eftir matinn er förinni heitið til Eddu þar sem að stelpupartýi verður slegið upp og svo er planið að fara á kokkteilabar niðri í bæ og fara svo að dansa :). Hljómar ekkert smá vel enda hlakka ég þvílíkt til.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Voðalega lítið að gerast hjá okkur í Árósum, erum bara alla daga að læra. Enda gengur ritgerðin ágætlega, komin með 40 bls. og var að senda leiðbeinandanum mínum helminginn af því til yfirlestrar. Vona bara að hann verði sáttur við það sem komið er.

Ég horfði á March of the penguins um helgina. Ekkert smá yndisleg mynd, ótrúlega flott myndataka og alltaf svo skemmtilegt að fylgjast með dýrum :). Þannig að það kom mér nú ekki á óvart að hún skyldi vinna Óskarinn fyrir bestu heimildamyndina, átti það alveg skilið.

Svo styttist nú alltaf í heimkomu, minna en mánuður. Var líka að fatta að það eru 3 mánuðir þangað til að við förum til Mallorca með tengdafjölskyldunni minni. Verðum í húsi með sér sundlaug og alles, ekkert smá gaman. Ætla að njóta þess að liggja við sundlaugarbakkann, með sólhlíf og lesa bækur. Markmiðið er einmitt að vera búin með ritgerðina þá enda verða þá bara tvær vikur í skil.

föstudagur, mars 03, 2006

Sjaldan er ein báran stök. Mágur hans pabba, Maggi, lést núna á þriðjudaginn. Maggi var giftur Laufeyju sem lést fyrir þremur vikum. Maður getur nú varla ímyndað sér hvernig börnunum þeirra líður, nýbúin að missa mömmu sína og þá kveður pabbi þeirra þennan heim. Örugglega mikil sorg á heimilum þeirra núna, allóþyrmileg minning á hvað þetta líf er stundum óskiljanlegt.