mánudagur, apríl 30, 2007

Við Árni keyptum okkur bíl á föstudaginn :). Þvílíkt gaman, í rauninni í fyrsta skipti sem ég kaupi mér bíl, orðin 27 ára gömul. Árni átti Golfinn þegar að við byrjuðum saman og við seldum hann þegar að við fórum út. Þegar að við fluttum heim þá var tengdapabbi að kaupa sér nýjan bíl og þar sem að hann sá fram á að geta ekkert selt gamla bílinn þá gaf hann okkur bara hann. Alveg frábært að fá bíl gefins, sérstaklega þegar að maður er nýfluttur aftur heim og þarf að kaupa sér íbúð en bíllinn er ekki alveg upp á sitt besta enda frá árinu 1996. Hann gæti nú alveg dugað okkur lengur en Árni klessti smá á rétt fyrir jólin (sem betur fer sást ekkert á hinum bílnum) þannig að húddið festist og það er ekki hægt að opna það. Það kostar ábyggilega einhvern pening að gera við það og okkur finnst það bara ekki þess virði og fórum þess vegna að leita okkur að öðrum bíl.

Fundum þennan fína bíl, Nissan Note, kóngabláan og árgerð 2006. Alveg yndislegt að keyra hann. Ég og Árni vorum í samningaviðræðum alla helgina um hver fengi að keyra hann þegar að við fórum eitthvað um helgina, mjög skemmtilegt :) og hvert tækifæri nýtt til að komast aðeins út og keyra hann.

Erum svo að fara með Benedikt í ungbarnasund sem byrjar 15. maí. Hlakka mikið til að sjá hvernig honum líkar í vatninu. Vona að þetta verði til þess að hann verði ekki vatnshræddur eins og ég var þegar að ég var lítil. Sem betur fer eltist það af mér en ég var hræðileg á tímabili. Ég var með kúta, bæði um magann og á handleggjunum en samt mátti ekki sleppa mér nema þegar ég hélt mér í bakkann.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Vegna fjölda áskoranna (ehemm, það var nú reyndar bara ein frá Karen) þá ætla ég aðeins að prófa að hafa bloggið lengur.

En um leið og ég settist niður við tölvuna gleymdi ég öllu því sem ég ætlaði að blogga um, hmmm. Ekki alveg nógu gott. Ég gæti bloggað um komandi kosningar eða hvað það fer í taugarnar á mér þegar að fólk styttir íslensk orð. Hvað er málið með að skammstafa orðið fyrir með einum staf? Gjörsamlega hatandi. Eða þegar að fólk segir tvíbbarnir til að spara sér pláss, halló það munar einum staf. Og ammæli er víst orðið voðalega vinsælt, næ þessu ekki. Hverju munar hvort maður skrifar afmæli eða ammæli nema það að annað orðið er rétt, hitt vitlaust. Ég gæti haldið áfram endalaust en það er komið nóg af röfli. Nenni heldur ekki að skrifa um kosningarnar, ég er nokkurn veginn búin að gera upp minn hug og þá er ég sátt :).

Annars erum ég, Helga, Hrönn og Ásta á fullu að skipuleggja stelpukvöldið okkar en það verður þarnæstu helgi. Oh það verður svo gaman. Við erum nefnilega ekki búnar að hittast og hafa ekta stelpukvöld síðan snemma árið 2005!! Fyrst varð Hrönn auðvitað ófrísk, svo Ásta og Helga. Um leið og Helga var búin að eiga varð ég svo ófrísk þannig að það er lítið búið að vera um djamm hjá okkur öllum saman. Við ætlum að gera kokteila, hafa jellyskot, panta okkur mat og bara hafa það gaman, vívíví.

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Ég og Árni fórum á Pabbann seinasta föstudag. Skemmtum okkur alveg svakalega vel. Lágum í kasti meirihlutann af tímanum, könnuðumst svo sannarlega við okkur þegar að hann var að lýsa ýmsu því sem tengist því að verða foreldri.

Annars er nú mest lítið að frétta, Benedikt verður skírður núna á laugardaginn þannig að við erum bara á fullu að undirbúa það. Veislan verður semsagt tvískipt, fyrst nánasta fjölskylda sem telur samt um 25 manns og svo vinirnir seinna um daginn.

Reyndar er ég að spá í að hætta með bloggið mitt, finnst ég hafa voðalega lítið fram að færa þessa dagana. Getur verið að það breytist þegar að ég verð ekki lengur heimavinnandi en allavega núna finnst mér þetta einhvern veginn hálfleiðinlegt blogg. Er samt ekki alveg búin að ákveða mig, kemur allt í ljós.

mánudagur, apríl 09, 2007

Þann 5. apríl var akkúrat ár síðan að við Árni fluttum aftur heim til Íslands, ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Enda hefur í rauninni allt breyst, við erum orðnir foreldrar, komin í okkar eigin íbúð, Árni er kominn með vinnu (og er að rembast við að skrifa ritgerðina sína) og ég er búin með námið mitt (en ekki komin með vinnu).

Það var rosa mikið að gerast um páskana. Á miðvikudagskvöldið hélt Guðlaug vinkona upp á þrítugsafmælið sitt, ég var nú bara róleg og fór snemma heim. Á fimmtudaginn vorum við fjölskyldan bara að slappa af en á föstudaginn komu Ásta og Ívar í heimsókn með Eyrúnu Ólöfu. Árni fékk svo nokkra vini í heimsókn um kvöldið og þeir voru eitthvað að tölvunördast, spila einhverja leiki og svona. Ég var nú bara mest ánægð með að bæði ég og Benedikt vöknuðum ekkert við lætin í þeim :), um að gera að venja börnin við að sofa í gegnum hvað sem er.
Á laugardagskvöldið komu Karen og Grétar í mat, í rauninni fyrsta matarboðið sem við höldum og ekki nema 7 mánuðir síðan við fluttum inn!!! Í gær var svo páskamatur hjá tengdó þannig að við erum vel úthvíld og mjög södd eftir þessa skemmtilegu páska.

Benedikt fékk 2 páskaegg, sitthvort eggið frá ömmum sínum og öfum. Þar sem að hann getur nú ekkert smakkað á þeim erum við foreldrarnir sjálfkjörnir í að borða þau + ástareggið sem við keyptum handa okkur. Einum of mikið af páskaeggjum :).

sunnudagur, apríl 01, 2007

Við fjölskyldan fórum í fyrsta skipti út í göngutúr í gær, foreldarnir fóru að kjósa um stækkun álversins en Benedikt svaf bara á meðan. Ég er voðalega sátt við Hafnfirðinga í dag, sem betur fer var nýja deiliskipulagið ekki samþykkt enda var þetta bara vitleysa út í eitt. En nóg um það, kosningarnar búnar og þá er alveg óþarfi að tala meira um þetta :).

Hildur og Konni eru flutt heim frá Danmörku, ekkert smá gaman og komu í heimsókn til okkar á miðvikudagskvöldið. Ég, Hildur og Edda kíktum svo til Jósu á föstudagskvöldið og skemmtum okkur svaka vel. Við kíktum svo aðeins niður í bæ en aftur varð ég bara að fara heim um tvöleytið, líkaminn þolir greinilega ekki meira þessa dagana. Ég var nú dálítið mikið þreytt á laugardaginn en gat sofið vel í nótt þannig að mér líður betur.

Á laugardaginn hélt Eyrún Ólöf upp á eins árs afmælið sitt. Þar sem Benedikt er búinn að vera veikur þá vildum við nú ekki fara með hann þannig að ég fór bara ein og skemmti mér rosa vel. Alveg yndislegt að sjá öll þessi litlu börn sem eru nýbyrjuð að labba og detta svo til skiptis :).

Hlakka mikið til næstu viku, páskarnir að koma!! Reyndar er nú ekki mikið gert á heimilinu fyrir þá enda einhvern veginn ekki tími til þess en Árni verður þá heima samfleytt í 5 daga, ekkert smá næs.

Það eru allir mjög hjálpsamir að benda mér á hugsa um hvernig heimilislífið væri ef við ættum annað barn fyrir, hugurinn á mér getur nú bara ekki hugsað þá hugsun til enda. Get ekki ímyndað mér ef annað barn þyrfti líka á athygli minni að halda, finnst alveg nóg að vera "bara" með Benedikt. Reyndar er hann mjög erfiður að sofa á nóttunum, mér finnst t.d. mjög erfitt þegar að ég fæ 4 tíma svefn og þá ekki einu sinni samfleytt en ég er alltaf að vona að hann fari nú allavega að sofa í ca. 5 tíma í einu en þar sem maður er ennþá smá stíflaður þá vaknar hann eftir ca. 3-4 tíma og er svo kannski vakandi í 1-2 tíma, ekki alveg að ganga upp.