Þann 5. apríl var akkúrat ár síðan að við Árni fluttum aftur heim til Íslands, ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Enda hefur í rauninni allt breyst, við erum orðnir foreldrar, komin í okkar eigin íbúð, Árni er kominn með vinnu (og er að rembast við að skrifa ritgerðina sína) og ég er búin með námið mitt (en ekki komin með vinnu).
Það var rosa mikið að gerast um páskana. Á miðvikudagskvöldið hélt Guðlaug vinkona upp á þrítugsafmælið sitt, ég var nú bara róleg og fór snemma heim. Á fimmtudaginn vorum við fjölskyldan bara að slappa af en á föstudaginn komu Ásta og Ívar í heimsókn með Eyrúnu Ólöfu. Árni fékk svo nokkra vini í heimsókn um kvöldið og þeir voru eitthvað að tölvunördast, spila einhverja leiki og svona. Ég var nú bara mest ánægð með að bæði ég og Benedikt vöknuðum ekkert við lætin í þeim :), um að gera að venja börnin við að sofa í gegnum hvað sem er.
Á laugardagskvöldið komu Karen og Grétar í mat, í rauninni fyrsta matarboðið sem við höldum og ekki nema 7 mánuðir síðan við fluttum inn!!! Í gær var svo páskamatur hjá tengdó þannig að við erum vel úthvíld og mjög södd eftir þessa skemmtilegu páska.
Benedikt fékk 2 páskaegg, sitthvort eggið frá ömmum sínum og öfum. Þar sem að hann getur nú ekkert smakkað á þeim erum við foreldrarnir sjálfkjörnir í að borða þau + ástareggið sem við keyptum handa okkur. Einum of mikið af páskaeggjum :).
mánudagur, apríl 09, 2007
Birt af Inga Elínborg kl. 4/09/2007 11:31:00 f.h.
|