mánudagur, desember 24, 2007



Litla fjölskyldan á Ölduslóð sendir bestu jólakveðjur með ósk um gleði, gæfu og frið á komandi ári. Vonandi hafið þið það gott á hátíð ljóss og friðar. Jólaknús á alla.

sunnudagur, desember 23, 2007

Þá er allt nokkurn veginn tilbúið fyrir jólin á þessu heimili. Jólatréð komið upp og búið að setja seríurnar á. Hinsvegar er ekki búið að skreyta það enda er hefðin sú að gera það ekki fyrr en á Þorláksmessukvöld. Ég man hvað ég hlakkaði alltaf til að skreyta jólatréð enda var ég eina barnið heima frá 9 ára aldri og var því einráð með skreytingarnar :).
Það eru m.a.s. nokkrar gjafir komnar undir jólatréð, fórum nefnilega í pakkaútkeyrslu í gær og kláruðum alla fyrir utan fjölskylduna mína. Við hittum svo systkinin heima hjá mömmu og pabba á eftir sem þýðir að við þurfum ekkert að fara út á aðfangadag, heldur getum bara verið að dúlla okkur og hafa það náðugt.

Við erum ekkert búin að heyra frá tryggingunum, vitum semsagt ekkert hvar húsið lekur en það kemur víst allt í ljós nógu snemma. Jólin koma allavega þannig að það er bara um að gera að slappa af og njóta lífsins með þeim sem maður elskar.

fimmtudagur, desember 20, 2007

4 dagar í jól og allt ennþá á hvolfi í íbúðinni. Þurftum að taka geymsluna í gegn vegna þess að hún var full en okkur vantaði stað til að setja allt dótið sem var í herberginu hans Benedikt. Við byrjuðum semsagt á því í gær og hentum alveg heilmiklu en svo vildi Árni endilega kaupa hillur og við fengum þær ekki afhentar fyrr en seint í gær, sem þýddi að við náðum bara að setja þær saman í gær en kassarnir eru ennþá út um alla íbúð. Þar sem að Árni er mikið betri í að raða en ég, fékk ég þau skilaboð að ég mætti ekki byrja á þessu fyrr en hann kæmi heim. Mjög gaman. Ekki skánaði heldur ástandið þegar að málningin á einum útveggnum byrjaði að bólgna. Við hringdum auðvitað í tryggingafélagið okkar sem sendi mann og það er semsagt búið að reka þessa bólgu alveg upp á efstu hæð og þeir segja að við fyrstu sýn virðist vera að húsið leki. Það var samt tekið alveg í gegn að utan rétt áður en við fluttum inn sem var fyrir einu og hálfu ári. En tryggingafélagið er búið að taka myndir þannig að þetta er allavega komið í gang, svo kemur bara í ljós hvað af þessu verður bætt.

Þannig að jólaskapið er ekki komið ennþá en vonandi náum við að klára þetta í kvöld og þá get ég tekið jólahreingerninguna á morgun, það er nefnilega allt frekar skítugt hérna eftir málningarstúss og tiltekt seinasta mánuðinn. Ég hef aldrei verið svona sein að þrífa fyrir jólin, eins gott að við séum löngu búin að kaupa jólagjafirnar og pakka þeim inn. Ég hefði farið yfirum ef það væri ennþá eftir. Enda er ég búin að tilkynna Árna að við munum aldrei aftur fara í endurbætur rétt fyrir jól. Ég hef fulla trú á því að ég komist í jólaskapið þegar að íbúðin verður orðin fín.

En ég ætla mér nú samt að hafa það rólegt og kósý um jólin með litlu fjölskyldunni minni, hlakka endalaust mikið til að sjá hvernig Benedikt bregst við pökkunum sem hann fær. Hann virðist nú hafa mjög mikinn áhuga á þeim þegar að búið er að pakka þeim inn, vill snerta slaufurnar og svona en ég held að það nægi honum einn pakki allt kvöldið :).

sunnudagur, desember 16, 2007

Nóg að gera þessa dagana við að koma íbúðinni í lag eftir breytingarnar. Eigum reyndar ekkert svo mikið eftir, taka geymsluna aðeins í gegn til að koma dóti fyrir, hengja upp nokkrar myndir og svo taka jólaþrifin við :).

Annars fórum við Árni í fertugsafmæli til vinar hans Árna í gær, Benedikt fór í næturpössun þannig að við sváfum bæði út í morgun. Oh það er svo næs að geta það af og til, alveg nauðsynlegt til að hlaða batteríin.

Reyndar er ég í voðalega litlu jólastuði, skil það ekki alveg. Hlakka alveg svakalega til jólanna með Árna, Benedikt og Snúð og að sjá Benedikt með fyrsta pakkann sinn og hvernig hann bregst við jólatrénu o.s.frv. en ég finn einhvern veginn ekki jólastemninguna inni í mér. Veit í raun ekki hvað vantar upp á. Kannski er það að ég er ekki búin að heyra uppáhalds jólalagið mitt á þessari aðventu, set það á núna og athuga hvort að ég komist ekki í jólaskapið :).

þriðjudagur, desember 11, 2007

Búin að vera innilokuð í rúma viku vegna þess að Benedikt náði sér í RS - vírusinn. Hann fór semsagt til dagmömmunnar í dag og var ekkert smá glaður að komast aftur út :). Ég fór hinsvegar bara að útrétta, um að gera að nýta tímann fyrst að maður er í fríi. Fór í Kringluna og setti 2 jólapakka undir Mæðrastyrkstréð. Alltaf gott að geta gefið þeim sem þurfa á því að halda. Það eru greinilega fleiri á þeirri skoðun því að það er gjörsamlega fullt af pökkum undir trénu. Vonandi gleður þetta litlar sálir um jólin.

Annars er ég byrjuð að pússla hið árlega pússl. Árni gaf mér alveg svakalega sætt pússl með hundi, ketti og ungum. Oh ég dýrka að sitja á kvöldin með jólaöl, konfekt og smákökur, hlusta á jólalög og pússla.

föstudagur, desember 07, 2007

Morguninn í dag var alveg yndislegur. Ég fór nefnilega í lúxusandlitsbað sem Helga, Hrönn og Ásta gáfu mér í afmælisgjöf. Ég var líka búin að panta mér vax og litun/plokkun þannig að ég var á snyrtistofunni í tæpa 3 tíma. Þetta andlitsbað er algjört æði, ég sofnaði þegar að hún var að nudda mig og slappaði alveg þvílíkt af. Enda þarf ég á því að halda þessa dagana, ég fúnkera bara ekki með svona mikið drasl í kringum mig og þar sem að Benedikt fer ekki til dagmömmunnar fyrr en á þriðjudaginn í næstu viku þá verður íbúðin okkar í rúst þangað til. En það var semsagt alveg æðislegt að komast aðeins út og láta dekra aðeins við sig :).

mánudagur, desember 03, 2007

Alltaf nóg að gera á þessu heimili. Fórum í þrítugsafmæli til Bigga á föstudaginn, vorum reyndar bæði róleg og vorum komin heim um miðnættið enda var litli grislingurinn ekki í næturpössun. Samt alveg nauðsynlegt að komast út saman öðru hvoru.

Á laugardaginn fór ég svo og pakkaði inn öllum gjöfunum fyrir mömmu og pabba, þ.e.a.s. þeim gjöfum sem þau eru búin að kaupa sem er nú reyndar meirihlutinn.
Restin af helginni fór í að rífa allt út úr herberginu hans Benedikts, erum semsagt loksins að taka það í gegn. Fyrrverandi eigendur skildu dálítið eftir í herberginu, skrifborð og nokkrar hillur og það tók semsagt mest alla helgina og hálfan daginn í dag að losa þetta allt, skrifborðið var m.a.s. boltað fast, einum of mikið fest fyrir okkar leyti. En við hjónin vorum svo heima í dag og máluðum okkar herbergi og ætlum að mála herbergið hans Benedikts á morgun. Voðalega fínt þegar að þetta verður búið, ekki það skemmtilegasta í heimi að hafa drasl alls staðar með svona lítinn strump sem vill skoða allt og verður ekki sáttur þegar að hann fær það ekki :).

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Voðalega mikið að gerast þessa helgi. Fórum á jólahlaðborð með frændsystkinum hans Árna á föstudaginn. Alltaf gaman að hitta fjölskylduna en við mælum ekki að fara á jólahlaðborð á Hereford, maturinn var gjörsamlega óætur. En við spjölluðum bara þeim mun meira við frændfólkið, flest þeirra hitti Árni seinast fyrir 15 árum eða eitthvað álíka.

Á laugardaginn náðum við að klára jólagjafirnar sem þýðir að við þurfum ekki að stíga fæti inn í Kringluna/Smáralind í desember, oh hvað ég er sátt við það. Finnst alveg nóg af fólki í búðunum núna, hvað þá eftir viku. Um kvöldið fórum við svo á jólahlaðborð á Nordica með Karen og Grétar. Það var svo gaman þar, maturinn náttúrulega æðislegur og félagsskapurinn frábær :). Það sem setti punktinn yfir i-ið var að Stebbi og Eyfi sungu nokkur lög, alveg yndislegt að heyra þá syngja.

Í dag er svo planið að baka jólasmákökur, fyrst að ég er búin að skreyta íbúðina þá verður líka að fylla hana af jólailmi.

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Ég er eitthvað svo týnd þessa dagana varðandi námið mitt og vinnu. Ég veit nákvæmlega ekkert hvað ég vil. Ég lít yfir starfsauglýsingar og sé kannski eitthvað, sem miðað við mitt nám, ætti að vekja áhuga hjá mér en ég finn engan áhuga innan í mér. Skil þetta ekki, mér fannst námið mitt alveg svakalega skemmtilegt og spennandi en ég virðist ekki hafa neinn áhuga á að vinna við það. Ég er alveg komin í hring með það hvað ég á að gera, stakk m.a.s. upp á því við Árna að mig langaði kannski bara aftur í skóla en hinsvegar vissi ég eiginlega ekki hvað mig langaði að læra. Ég hef aldrei á ævinni verið svona óákveðin og mér finnst það ekki gott. Ég veit alveg að ég er ekkert sú eina sem ákveður að fara að læra eitthvað annað en það sem að mér finnst óþægilegt er að ég veit ekkert hvort mig langar að læra meira (og þá hvað) eða þá hvort að mig langi að vinna við sálfræðina eða ekki. Vildi bara að ég gæti ákveðið mig og hætt að velta mér upp úr þessu.

Við kíktum í síðbúinn haustfagnað hjá Íslenskri erfðagreiningu á föstudaginn, þar var m.a. verið að halda upp á nýja vefinn sem Árni var að forrita :), ekkert smá flott hjá þeim. Þetta var semsagt ástæðan fyrir því að hann var eiginlega ekkert heima í 6 vikur, vann m.a.s. í tæpan sólarhring rétt áður en vefurinn fór í loftið.

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Jæja, þá er afmælisdagurinn minn búinn. Alltaf svo gaman að eiga afmæli og ekki verra þegar að vinirnir koma í partý til að samgleðjast. Fékk fullt af fallegum gjöfum, takk allir fyrir mig.
Ég, Helga og Ásta kíktum svo niður í bæ á Glaumbar og dönsuðum smá. Lenti reyndar í því að jakkanum mínum var stolið, ekki góður endir á kvöldinu en það er ekkert við því að gera.

Svo eru næstu 5 helgar allt í einu orðnar fullbókaðar. Síðbúinn haustfagnaður, þrenn jólahlaðborð og 2 þrítugsafmæli. Allt of mikið í einu, reyndar alltaf gaman að komast út og hitta annað fólk en þegar að maður er kominn með lítið kríli þá er ekki svo auðvelt að finna pössun fyrir svona marga atburði :).

laugardagur, nóvember 03, 2007

Oh hvað ég er sár út í sjálfa mig. Ætlaði að gera "Jól í skókassa" eins og í fyrra en tíminn hreinlega flýgur áfram og ég sá að seinasti skiladagur er í dag. Ég er ekki einu sinni komin með kassa, hvað þá eitthvað ofan í þá þannig að ég næ þessu ekki í ár. Mér fannst svo gaman að þessu í fyrra en við setjum bara 2 gjafir undir jólatréð í Kringlunni í staðinn :). Ætla svo innilega að muna eftir þessu fyrir næstu jól.

Annars er ég búin að finna kjól fyrir afmælið mitt, voða flottur, allavega að mínu mati. Hann er reyndar aðeins í fínna laginu en ég verð þá bara langfínust í afmælinu mínu, tíhí. Núna á ég bara eftir að fá skó og þá fer þetta allt að smella saman.

Forlagið var að gefa út nýja bók eftir Arnald Indriðason, ég var fljót að benda Árna á að mig langar í hana í jólagjöf. Hann er auðvitað alveg frábær rithöfundur, hef lesið allar bækurnar hans a.m.k. tvisvar og hlakka alltaf til að lesa nýjar bækur eftir hann. Það er í boði að hala niður fyrstu köflunum í bókinni en ég tími því eiginlega ekki. Veit fátt betra en að skríða upp í rúm að kvöldi aðfangadags með nýja bók og lesa langt fram eftir nóttu.

þriðjudagur, október 30, 2007

Skrifaði undir undirskriftarlista fyrir nokkrum dögum vegna þeirra fáránlegu reglna sem eru hjá ríkinu. Ef öryrki selur hlutabréf og fær ágóða af þeim þá lendir hann í því að bæturnar frá TR eru lækkaðar. Ef að þeir sem eru útivinnandi selja hlutabréf eru launin þeirra lækkuð? Bæturnar eru laun þessa fólks og ekki eru þær nú háar fyrir. Þetta er mér gjörsamlega óskiljanlegt.
Vildi bara biðja alla um að skrifa undir þennan lista, öryrkjar þurfa sannarlega á því að halda.

mánudagur, október 29, 2007

Ég fór í sumarbústaðarferð með leikskólanum á föstudagskvöldið. Rosa flottur bústaður sem rúmaði vel okkur 16 sem fóru. Við gistum eina nótt og það var heljarinnar stuð á okkur.

Á laugardaginn fór ég ásamt Hrönn að reyna að finna á mig kjól og skó fyrir afmælið mitt. Ég fann reyndar engan kjól en hinsvegar fann ég marga fallega skó en þá pössuðu enginn þeirra á mig. 35 var of lítið og 36 of stórt, hatandi þegar að maður lendir á milli númera. Þannig að ég er gjörsamlega lens í hverju ég á að vera í afmælinu mínu.

En það er nú mest lítið að frétta úr Hafnarfirðinum, það er ennþá svona brjálað að gera í vinnunni hjá Árna en það klárast í þessari viku. Enda er ég búin að tilkynna honum að hann verði með Benedikt meirihlutann af næstu helgi. Ætla að fara í búðir með mömmu, ætlum að kaupa jólagjafir og reyna enn betur að finna kjól og skó á mig.

miðvikudagur, október 24, 2007

Þessi veikindi hjá Benedikt eru byrjuð að taka sinn toll af mér. Auðvitað líður honum náttúrulega verst en mér finnst þetta alveg komið gott. Hann er semsagt kominn með ofnæmi fyrir sýklalyfjunum og var mjög svo ólíkur sjálfum sér í kvöld, vildi bara vera í fanginu á mér og svo átti ég að ganga með hann um gólf líka (ekki það auðveldasta í heimi þegar að maður er tæp 10,5 kg). Í næstu viku förum við svo með hann til hjartalæknis í ómskoðun. Greyið Benedikt, þarf alltaf að vera hjá læknum sem pota í mann og eru ekkert góðir :).
Ekki bætir svo úr skák að ég er búin að vera grasekkja í ca. 2 vikur og á eftir að vera þannig 1 viku í viðbót. Það er ekki það besta í heimi þegar að litlu rófunni líður svona illa, mér líður auðvitað illa yfir því og enginn til að deila álaginu með. Ég dáist að einstæðum mæðrum, skil stundum ekki hvernig þær fara að þegar að börnin þeirra eru veik í lengri tíma.

sunnudagur, október 21, 2007

Ég er örugglega vinsælasti starfsmaðurinn á leikskólanum þessa dagana. Á að vera búin að vinna 15 vinnudaga en er bara búin að vinna 9. Fyrst varð ég auðvitað veik og svo varð Benedikt veikur. Ég hélt að þetta væri búið núna en þá er litla rassgatið komið með eyrnabólgu þannig að við Árni verðum eitthvað meira frá vinnu. Við erum reyndar rosa dugleg að skiptast á að vera heima með hann en samt er maður með samviskubit vegna vinnunnar, sérstaklega þegar maður er nýbyrjaður.

Annars keyptum við 3 jólagjafir um helgina og ég byrjaði að föndra jólakortin, ekkert smá dugleg :). Búin að gera öll kortin og á bara eftir að skreyta þau smá þannig að það er ekki mikið eftir. Fínt að vera búin að þessu svona snemma.

miðvikudagur, október 17, 2007

Það virðist enginn endir vera á þessum veikindum í fjölskyldunni. Benedikt er heima í dag út af augnsýkingunni, hann er líka kominn á sýklalyf vegna kvefsins og hóstans þannig að vonandi fer hann að lagast. Mér líður eins og ég sé búin að vera segja "vonandi fer hann að lagast" endalaust lengi en samt er bara einn og hálfur mánuður síðan hann byrjaði hjá dagmömmunni. Hann má hinsvegar ekki fara til dagmömmunnar fyrr en hætt er að renna úr augunum því að þessi augnsýking er víst svakalega smitandi.

Ég er ennþá með kvef og hósta, Árni er búinn að vera með hálsbólgu í nokkra daga og vaknaði í morgun hálf fastur í bakinu. Það er svo brjálað að gera í vinnunni hjá honum að hann hafði ekki samvisku í að vera heima þannig að hann fór í vinnuna frekar sjúskaður. Mér finnst nú að við megum alveg fara að verða frísk :).

sunnudagur, október 14, 2007

Ákvað að fara í Smáralindina í dag og náði að klára 5 jólagjafir, við erum svo búin að ákveða 3 aðrar þannig að við eigum bara 7 eftir. Ætla að klára þær allar fyrir desember vegna þess að ég nenni ekki að fara í búðir þá, sérstaklega ekki þegar að maður er kominn með lítinn grisling sem hefur takmarkaðan áhuga á að vera í kerrunni í búðum :).

Var svo að skoða jólakort á netinu, veit ekki alveg hvort að ég nenni að föndra þau eins og undanfarin ár. Ég nenni því nú svo sem alveg en maður hefur ekki eins mikinn tíma og áður og þessi "prívat" tími sem maður fær er ótrúlega fljótur að líða. Er t.d. eiginlega ekkert búin að komast í að sauma út þannig að jóladagatalið fer líklegast ekki upp á vegg fyrir þessi jól, vonandi þau næstu.

fimmtudagur, október 11, 2007

Loksins er mér farið að líða aðeins betur. Reyndar með alveg svakalegt kvef ennþá og hálsbólgu þannig að Árni skipaði mér eiginlega að vera heima í dag til að ná þessu alveg úr mér. Benedikt smitaðist svo líka þannig að fjölskyldulífið er búið að vera mjög erfitt þessa seinustu daga, sérstaklega fyrir Árna. En sem betur fer var Benedikt hitalaus í gær þannig að hann fór til dagmömmunnar í morgun.

En ætla að fara upp í rúm og reyna að ná þessu kvefi almennilega úr mér.

sunnudagur, október 07, 2007

Minn er orðinn veikur, ætli ég hafi ekki smitast af Árna. Alveg ömurlegt að eyða helgunum í veikindi, Árni var nefnilega veikur frá laugardegi fram á þriðjudag og ég byrjaði að verða slöpp í gær. Einu gleðifréttirnar er að Benedikt er ekki búinn að smitast af okkur (7-9-13) því að þetta er ógeðsleg veiki. Enda er ég vakandi um fjögurleytið vegna þess að mér líður of illa til að geta sofið.

Ég kíkti í partý hjá einni sem er að vinna með mér á föstudagskvöldið. Alltaf gaman að hitta nýja vinnufélaga í öðrum aðstæðum. Skemmti mér bara mjög vel en var ekki lengi því að mér var byrjað að líða hálfilla. Mamma og pabbi litu eftir Benedikt á meðan því að Árni var í óvissuferð, þau voru nú mest sár yfir því að hafa ekki fengið að sjá barnið allt kvöldið :), hann var sofnaður þegar þau komu þannig að þau þurftu ekkert að hafa fyrir honum.

fimmtudagur, október 04, 2007

Fyrsta vikan í nýju vinnunni alveg að verða búin og mér líst bara nokkuð vel á. Reyndar finnst mér ég ekki gera neitt annað en að vera á fundum en það er bara skemmtilegt :). Það er líka pínku skrýtið að aðlaga sig að þeirri stefnu sem er kennd í leikskólanum, þ.e.a.s. við segjum ekki: "Ekki gera þetta" við barnið heldur segjum frekar hvað við viljum að barnið geri. Þetta er auðvitað mikið sniðugra því að börn skilja mun betur þegar að maður segir því hvað það á að gera en þetta virðist bara vera svo fast í okkar menningu að segja "ekki" við öllu sem við viljum að barnið geri ekki. Starfsfólkið er voðalega fínt og allir rosa indælir við mig.

Hlakka nú samt til að fá helgarfrí, maður verður alveg uppgefin á því að vera í svona miklu áreiti allan daginn en dagurinn líður reyndar alveg á ógnarhraða.

Takk fyrir að vera svona dugleg að kommenta, alltaf að vera svona ;).

mánudagur, október 01, 2007

Ætli það sé ekki kominn tími á að endurlífga bloggið mitt? Ég datt bara niður í einhverja "bloggleti" seinustu mánuði en held að ég sé búin að losna við hana núna :).

Allavega er margt búið að gerast síðan síðast, er hætt sem þjónustufulltrúi hjá Kaupþingi og er að fara að vinna sem deildarstjóri á leikskóla í Hafnarfirði, fyrsti dagurinn er einmitt í dag. Þessi vinna er nú aðeins meira tengd menntuninni minni en Kaupþing sem ég er auðvitað mjög sátt við.
Ég held að það skýri út af hverju ég sé vöknuð um fimm að morgni til og komin í tölvuna. Kvíði smá fyrir enda er það bara eðlilegt þegar að maður er að byrja í nýrri vinnu. Kannski líka út af því að ég var nýbyrjuð að komast inn í allt hjá Kaupþingi en þarf svo að fara að læra eitthvað nýtt aftur. Reyndar var ég eitthvað voðalega vinsæl varðandi atvinnu í september, fór í 4 viðtöl og allir vildu ráða mig. Það var pínku skrýtin upplifun að geta valið um störf en jafnframt góð tilfinning því að seinast þegar að ég var að sækja um vinnu var eins og enginn vildi ráða mig.

Reyndar er Árni veikur, með hita, beinverki og svima og Benedikt virðist vera hálfslappur líka. Hann er byrjaður að hósta meira þannig að við vitum ekki alveg hvort að pústið sem hann fékk sé að gera eitthvað gagn. En vonandi fer þessu veikindastandi nú að ljúka, komnar hátt í 5 vikur sem einhver á heimilinu er veikur ;).

En allir að vera duglegir að kommenta.

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Jæja, er komin á þá skoðun að hætta að blogga. Veit ekki alveg hvort það verður tímabundið eða ekki. Sérstaklega þar sem að það virðist enginn lesa bloggið mitt, allavega hefur ekki ein einasta manneskja kvittað við síðustu 4 færslur. Ekki að ég sé að blogga fyrir aðra, væri samt gaman að fá aðeins viðbrögð við því sem maður skrifar :).

En kannski kem ég aftur, þið bíðið auðvitað spennt eftir því, er það ekki?

laugardagur, júní 30, 2007

Árni er kominn í frí sem er megin ástæðan fyrir lélegu bloggstandi þessa dagana. Við erum búin að vera ágætlega dugleg í fríinu. Byrjuðum á því að fara til Bergþórs pabba seinustu helgi. Hvolparnir hennar Tinnu eru auðvitað langsætastir, var nú reyndar fljótt læknuð af því að fá einn með mér heim því að þeir væla frekar mikið og ég nenni ekki að vakna við þá á nóttunni svona loksins þegar að Benedikt sefur vel :). Það er alltaf jafn æðislegt að komast í sveitasæluna enda er ég algjör sveitakerling. Eftir að við komum heim erum við búin að fara í fyrsta skipti í Smáralindina öll fjölskyldan, niður á tjörn að gefa öndunum og í heimsókn til Þuríðar og Steina til að sjá litla prinsinn þeirra. Í næstu viku er reyndar lítið planað, við kíkjum kannski í einhverja dagsferð út á land og svo langar okkur að fara í Húsdýragarðinn. Það er alveg æðislegt að hafa Árna heima allan daginn, frábært að við getum bara dúllað okkur öll 3 saman.

Við erum búin að vera að kíkja á dagmömmur fyrir Benedikt og fundum eina sem okkur líst mjög vel á. Hún sagði okkur þær "skemmtilegu" fréttir að þar sem að við Árni eigum rétt á 9 mánaða fæðingarorlofi samtals þá byrjar Hafnarfjarðarbær að greiða niður fyrir Benedikt þegar að hann verður 9 mánaða. Þeir ætlast semsagt ekki til að foreldrar taki einhvern hluta eða allt fæðingarorlofið saman. Við lendum nú ekkert svakalega illa í þessu, Árni fer aftur að vinna þegar að Benedikt er 8 og 1/2 mánaða þannig að þetta verða eitthvað um 3 vikur ef að við tökum aðlögunina með. Málið er bara að við vissum þetta alls ekki og þetta kemur ekki neins staðar fram á vef Hafnarfjarðar. Ótrúlega fáránlegt þetta kerfi. Við vorum í raun bara heppin að við skiptum þessu akkúrat svona á milli okkar, við vorum m.a.s. fyrst að spá í að Árni myndi vera heima allan fyrsta mánuðinn með mér en hættum svo við það, vildum frekar að Benedikt yrði eldri þegar að hann færi til dagmömmunnar. En það þýðir víst lítið að velta sér upp úr þessu, okkur finnast bara mjög hallærislegt að þetta komi ekki neins staðar fram.

miðvikudagur, júní 20, 2007

Alveg ótrúlegt hvað ég get verið utan við mig þessa dagana. Ég set alltaf á mig rakakrem á morgnana og byrjaði einmitt á því í morgun. Benedikt sat í ömmustólnum sínum og ég var að spjalla við hann á meðan ég bar kremið á mig. Mér fannst kremið eitthvað samt skrýtið, voðalega klesst og gat ég lítið dreift því yfir andlitið. Hugsaði samt ekkert meira um það og hélt bara áfram. Korteri eftir að ég var búin að bera á mig var húðin hálfskrýtin og þá fattaði ég loksins að ég hafði ekki verið að bera á mig rakakrem heldur hreinsikrem! Semsagt búin að vera með hreinsikrem á mér í korter áður en ég áttaði mig á þessu. Túpurnar eru ekki einu sinni líkar í útliti, skil ekki alveg hvernig ég fór að þessu. Árna fannst hinsvegar mjög gaman þegar að ég sagði honum frá þessu enda kallar hann mig oft klaufann sinn :).

þriðjudagur, júní 19, 2007

Það var frábært að vera í Laugardalshöllinni á sunnudaginn og fylgjast með strákunum okkar vinna Serba. Við létum okkar ekki eftir liggja í að hvetja strákana áfram enda vorum við frekar hás í gær :), það voru allir í frábæru skapi og stemningin var ólýsanleg.

Við gerðum nú mest lítið annað á þjóðhátíðardaginn. Árni vaknaði á sunnudaginn og gat voðalega lítið hreyft sig vegna bakverks þannig að við ákváðum bara að vera heima og slappa af.

Voðalega lítið að frétta af mér þessa dagana, bíð bara eftir að Árni komist í frí. Hann átti að byrja í fríi á morgun en það er svo mikið að gera í vinnunni að þeir báðu hann um að vinna út vikuna til að klára öll þau verkefni sem hann er með. Sérstaklega þar sem að hann mætir ekki aftur í vinnuna fyrr en um miðjan september því að hann tekur fæðingarorlofið sitt beint á eftir fríinu. Honum finnst það voðalega skrýtið tilhugsun að mæta ekki aftur í vinnuna fyrr en eftir 3 mánuði :).

föstudagur, júní 15, 2007

Fyrir ca. mánuði síðan ákváðum við að setja Benedikt í sitt eigið herbergi. Það er reyndar ekki búið að gerast enn vegna þess að við eigum ennþá eftir að hengja upp myrkvagardínur í herbergið vegna þess að hann á mjög erfitt með að sofna í mikilli birtu. Ætlunin er að setja þær upp á morgun, alveg ótrúlegt hvað maður getur verið lengi að koma sér að verki hérna á heimilinu.
Mér finnst samt svo skrýtið/fyndið hvernig viðbrögðin eru hjá fólki. Meirihlutinn af þeim sem ég hef sagt þetta finnst við vera vond við hann, ég næ því nú ekki alveg. Hvernig er ég vond við barnið mitt þótt að ég vilji að það sofi í sínu eigin herbergi? Hann sefur vonandi mikið betur og við sofum betur, þannig að það græða allir. Ég vakna nefnilega upp við minnsta hljóð í honum og get þá verið andvaka í einhverja tíma. Þegar að ég segi fólki að ég vakni mjög auðveldlega við hann þá finnst flestum þetta vera í lagi en þeim finnst ekki vera í lagi að við setjum hann í annað herbergi vegna þess að við viljum það. Það var alltaf ætlun okkar að setja hann fyrir 6 mánaða afmælið sitt í eigið herbergi, alveg sama hvort að ég myndi vera að vakna við hann eða ekki.

Annars er skemmtileg helgi framundan, hittingur hjá sálfræðinemunum sem voru í Árósum í kvöld á Tapas. Hlakka mjög mikið til enda er langt síðan að við höfum öll hist og ekki spillir fyrir hvað það er góður matur á Tapas.

Á morgun er Laufey, systir hans Árna að útskrifast úr KHÍ og verður smá boð hjá henni þannig að við ætlum að skella okkur þangað.

17. júní á sunnudaginn. Þar sem að við hjónin hötum bæði að fara í skrúðgöngu (ohh við pössum svo vel saman :)) þá ætlum við ekki að fara með Benedikt í eitthvað þannig. Mig langar hinsvegar að labba bara aðeins niður í bæ og gefa öndunum og svona. Það er alltaf svo skemmtilegt. Ég hlakka líka endalaust til um kvöldið, það verður svo gaman á landsleiknum! Það er orðið uppselt þannig að það verður örugglega frábær stemmning í höllinni.

mánudagur, júní 11, 2007

Fín helgi að baki. Við fjölskyldan fórum í innkaupaleiðangur á laugardaginn og keyptum uppþvottavél, ryksugu og kerru fyrir litla guttann. Við fáum uppþvottavélina heim í dag og ég hlakka svo til. Reyndar finnst mér allt í lagi að vaska upp (ég vaska semsagt alltaf upp en Árni sér um þvottinn) en eftir að Benedikt kom þá hrannast uppvaskið bara upp og maður hefur engan veginn við. Auðvitað er þetta bara leti í manni, mamma komst ágætlega af með enga uppþvottavél og fimm börn!!

Karen og Grétar kíktu til okkar á laugardagskvöldið og við horfðum á Serbía-Ísland. Við hjónin erum einmitt búin að kaupa okkur miða á landsleikinn þann 17. júní. Ísland þarf að vinna með a.m.k. tveggja marka mun til að komast áfram á EM 2008 þannig að þetta verður heljarinnar leikur. Allir að mæta og styðja strákana okkar. Mér finnst alveg frábært að hafa þetta á þjóðhátíðardaginn okkar, allir í svaka stemmningu :).

Magnús Breki þeirra Ingibjargar og Bigga varð svo eins árs í gær og bauð í afmæli. Við vorum nú reyndar stutt, Benedikt var frekar pirraður og nennti ekkert að vera að tala við allt þetta fólk. Stuttu eftir að við komum heim komu vinir hans Árna í heimsókn og það var svo heitt á bakvið hjá okkur að karlarnir skelltu sér út með börnin en ég og Auður röbbuðum bara saman. Semsagt nóg að gera þessa helgina.

Við keyptum okkur miða til Egilsstaða :), förum sunnudaginn 26. júní. Verðum reyndar bara tvær nætur en það er alltaf gott að komast út úr bænum og slappa af, ég tala nú ekki um þegar að maður getur knúsað hvolpa allan tímann. Ég er búin að biðja Árna um að taka mig burt frá hvolpunum þegar að ég vil fá einn með mér heim :). Í fyrsta lagi þá myndi Snúður líklegast fara að heiman ef að við kæmum með hvolp með okkur og mér finnst alveg nóg að sjá um Benedikt, hvað þá einn lítinn hvolp sem nagar allt. Ég veit bara að ég á eftir að gleyma allri rökhugsun þegar að ég sé þá.

mánudagur, júní 04, 2007

Þótt að ég sé ekki lengur með Benedikt á brjósti þá virðist brjóstagjafaþokan ekki alveg hafa yfirgefið mig. Ég fór semsagt út í búð í gær og keypti m.a. tyggjó. Ég var næstum því búin að gleyma að setja það í pokann en mundi eftir því á síðustu stundu. Ég raðaði svo inn í ísskáp og setti einn hlut í frystinn en ekki fann ég tyggjóið. Mér fannst það nú nokkuð skrýtið vegna þess að ég var pottþétt á því að hafa sett það í pokann. Svo opnaði ég frystinn áðan og viti menn, þar lá tyggjóið. Ekki veit ég hvað ég ætlaði að gera við það frosið :).

Í dag eru 15 dagar þangað til að Árni fer í sumarfrí. Oh hvað ég hlakka til, verður endalaust gaman að vera öll 3 saman og hafa það þægilegt. Við ætlum m.a. að fara á Snæfellsnesið í gömlu sveitina mína en þar verður reunion. Fríða (konan sem mamma var hjá í vist) og öll börnin hennar + makar + barnabörn eru að fara að hittast og Fríða bauð okkur öllum að koma líka. Þetta verður enginn smá hópur þar sem að Fríða á 9 börn á lífi og barnabörnin eru auðvitað eitthvað fleiri. Það verður rosa gaman að hitta þau öll í einu, held að það séu um 10-12 ár síðan að ég hitti þau öll saman.

Svo langar mig alveg rosalega að kíkja aðeins til Bergþórs pabba í nokkra daga. Planið er þá að fljúga á Egilsstaði og pabbi myndi sækja okkur þangað. Það eru bara ca. 2 tímar á milli Bakkafjarðar og Egilsstaðar þannig að þetta væri mjög passlegt fyrir Benedikt. Ekki skemmir það svo fyrir að Tinna, hundurinn hans pabba, var að eignast hvolpa á föstudaginn, alveg 6 stykki (reyndar voru þeir 8 en tveir þeirra fæddust andvana). Mig langar svo mikið að sjá þá og knúsa, litlu krúttin. En Árni er ekki alveg viss um þetta, heldur að Benedikt verði eitthvað erfiður en það verður þá bara að hafa það. Ég ætla ekkert að hætta að gera þá hluti sem mig langar til þótt að ég sé komin með börn. En við sjáum bara til, Árna langar auðvitað að fara líka þannig að líkurnar eru nú meiri að við förum en ekki.

Við kíktum svo í bíó í gær, á Spiderman 3. Hún var ekki alveg að gera sig, fannst hún mikið lélegri heldur en hinar 2 og við sáum eiginlega bara eftir peningnum. Hins vegar finnst mér svo pirrandi þegar að foreldrar taka ung börn með sér á svona myndir. Myndin er frekar löng eða ca. 2 og hálfur tími og börnin voru löngu hætt að nenna að sitja kyrr. Það var m.a.s. einn sem stóð allan síðasta hálftímann og var endalaust að vesenast og pabbinn gerði ekki neitt. Og það er nú ekki eins og þessi mynd sé eitthvað barnvæn, mikið af ofbeldi í henni. Skil heldur ekki þegar að foreldrar kenna ekki börnunum sínum að í bíói á ekki að tala. Ég skil mjög vel að börn hafa mikla þörf fyrir að tjá sig þegar að þau sjá eitthvað flott og ég er ekkert að tala um að þau eigi að vera gjörsamlega þögul allan tímann en þegar að þau tjá sig eftir hvert einasta atriði þá er það orðið mjög pirrandi. Og foreldrarnir sussa ekki einu sinni á þau, hugsa greinilega ekki um að það eru fleiri í bíó en bara þau.

föstudagur, maí 25, 2007

Ekki skil ég af hverju þeir vilja fara að flytja inn nýsjálenskt lambakjöt. Við keyptum okkur einu sinni lambakjöt frá Nýja-Sjálandi í Árósum og við vorum fljót að henda því eftir að hafa smakkað fyrsta bitann. Einhvers konar ullarbragð var af því og ég sannfærðist enn betur um að íslenska lambakjötið er best!!

Annars finnst mér þessi nýja stjórn ekki alveg að gera sig. Samfylkingin þurfti að bakka með mikið af sínum aðalmálefnum, t.d. stjóriðjustefnuna og ESB umræðuna. Ég er nú reyndar ekki hlynnt því að ganga í ESB en mér finnst samt á öllu að Samfylkingin hafi "selt sig" til að komast í stjórn, nægir þar að nefna að við vorum ekki tekin af lista hinna vígfúsu þjóða þótt að það standi mjög skýrt hjá þeim að það verði eitt fyrsta verk þeira. Í stjórnarsáttmálanum stendur aðeins að þau harmi ástandið í Írak. Ekki virðist heldur vera mikil samstaða um virkjanamál. Ég er algjörlega á móti frekari virkjunum og Ingibjörg sagði að ekki væri hægt að fara í Norðlingaölduveitu en Geir virðist vera á öðru máli og vitnar þar í stefnuyfirlýsingu nýju stjórnarinnar. Mér finnst að Samfylkingin hafi einfaldlega verið of gráðug til að komast í stjórn og hafi þ.a.l. gefið of mikið eftir.

En svo er skemmtileg helgi framundan, afmælispartý hjá Hrönn vinkonu á morgun. Ætla m.a.s. að fara aðeins að tjútta. Mamma ætlar að koma og vera hjá Benedikt en Árni ætlar svo bara að fara fyrr heim enda hefur hann takmarkaðan áhuga á að fara niður í bæ. Vonandi breytist það nú eftir að reykingabannið tekur gildi, hlakka endalaust mikið til að geta farið að skemmta mér án þess að anga af reykingastybbu.

Á sunnudaginn verður Óli Matti eins árs og förum við fjölskyldan í afmælið til hans. Alltaf gaman að hitta alla fjölskylduna í einu og fá sér eitthvað nammigott.

Svona í lokin, ég er loksins búin að setja inn myndir frá Evrópuferðinni okkar :). Það eru nú einungis tvö ár síðan að við fórum í ferðina þannig að ég er ekkert sein á ferð eða hvað finnst ykkur?

þriðjudagur, maí 22, 2007

Undanfarnar þrjár vikur er ég búin að vakna við minnsta hljóð frá Benedikt og get ekki sofnað aftur. Núna er klukkan t.d. 4:10 og ég er búin að vera vakandi síðan kl. 3:30. Alveg hata ég þegar að þetta kemur fyrir. Loksins þegar að Benedikt er byrjaður að sofa eiginlega alla nóttina þá get ég ekki sofið. Enda fær hann að sofa í eigin herbergi í nótt og vonandi get ég þá sofið betur. Orðin frekar pirruð á að fara að sofa kl. 21 á kvöldin, annars verð ég bara út úr heiminum af þreytu.

Helgin var voðalega fín. Buðum vinnufélögum hans Árna í sælkeraklúbbinn, vorum nú reyndar frekar fá miðað við seinast en við skemmtum okkur mjög vel. Benedikt var settur í næturpössun þannig að ég naut þess að geta sofið heila nótt án þess að vakna :). Á sunnudaginn fór ég í bíó með Hildi og Eddu, fórum á The painted veil með Edward Norton og Naomi Watts. Ekta stelpumynd, frekar róleg en mér fannst hún voða fín. Alltof langt síðan að ég hef farið í bíó, fór seinast þegar að ég var komin ca. 6 mánuði á leið minnir mig.

föstudagur, maí 18, 2007

Í einum þætti af Sex and the city talar Carrie um þetta þrennt í lífinu sem skiptir okkur mestu máli; vinirnir, starfið og makinn. Hún veltir þeirri spurningu fyrir sér af hverju við erum aldrei ánægð með tvennt af þessu þrennu, t.d. frábæra vini og yndislegan maka. Í mínu tilviki vantar mig starf, ekki það að ég sé ekki yfir mig ánægð með Árnann minn og vinina mína. Það sem við störfum er bara svo gríðarlega stór hluti af lífi okkar. Þegar að við kynnumst nýjum aðila þá er vanalega fyrsta spurningin: Hvað gerirðu? Og hvað á maður að segja þegar að maður gerir í raun ekki neitt? Er ekki skilgreindur sem neitt ákveðið?

Ég er hamingjusöm þegar að ég lít á lífið mitt frá sjónarhorni manneskju sem er ánægð með fjölskylduna sína. Ég á frábæran mann sem virðist alltaf skynja hvernig mér líður, getur komið mér til að hlæja þegar mér líður illa og er í raun besti vinur minn . Ég á yndislegan dreng sem vantar allan minn stuðning til að geta orðið hamingjusamur einstaklingur og ég vona að ég geti veitt honum allt sem hann þarf á lífsleiðinni. Ég á æðislega vini, vini sem ég get treyst á að séu til staðar þegar að mig vantar einhvern til að taka utan um mig, hlusta á mig eða hlæja með mér.

Ef ég hinsvegar lít á lífið mitt frá sjónarhorni manneskju sem er búin að mennta sig og vil fara að nýta sér námið í góðu starfi þá er ég ekki hamingjusöm. Ég er mjög niðurdregin, það að fara í viðtöl aftur og aftur og vera alltaf neitað er mjög niðurdrepandi. Mér líður eins og ég sé óhæf, sé búin að eyða 5 árum af lífi mínu í nám sem kannski hentar mér ekki. Fólkið í kringum mig er mjög duglegt að segja að ég eigi ekki að hafa áhyggjur, þetta komi allt með kalda vatninu. Þeir sem þekkja mig hins vegar best vita að það er ekki í mínu eðli að hafa ekki áhyggjur, ég þarf helst að vera komin með vinnu 3 mánuðum áður en ég á að hefja störf. Núna eru ca. 8 vikur þangað til að fæðingarorlofið mitt er búið og ég er ekki komin með starf. Mér líður alls ekki vel. Við fjölskyldan þurfum á því að halda að ég fái starf, við erum með ýmsar fjárhagslegar skuldbindingar sem ekkert er hægt að neita með því að segja: Ég er ekki með vinnu og get því ekki borgað.

Allir virðast líka hafa skoðun á þessu vandamáli mínu. Sumir segja að ég eigi bara að taka hvaða vinnu sem er - ég er hinsvegar ekki sammála því. Ég er búin að mennta mig í ákveðnu fagi í 5 ár og auðvitað vil ég vinna við eitthvað tengt því. Það er nú samt ekki þar með sagt að ég segi nei við vinnu sem er ekki sálfræðitengd, ég ætla mér hinsvegar ekki að fara að vinna við skúringar eða þess háttar. Ég lít alls ekki niður á þá sem vinna þannig vinnu og ég er á engan hátt betri en þeir en ég er með menntun og ég tími ekki að láta hana fara til spillis. Erfiðar spurningar sem hvíla á manni þessa dagana, á ég að halda áfram að leita mér að vinnu sem ég verð ánægð með eða bara sækja um "einhver" störf og láta menntunina lönd og leið?

Það eru örugglega einhverjir sem hugsa: Hvaða röfl er þetta í manneskjunni, ekkert mál að fara bara að vinna einhvers staðar og skipta svo um vinnu. Ég er hinsvegar komin með upp í kok að sætta mig við vinnuna mína, ég gerði það allan þann tíma sem ég var í námi. Ég vann sumarstörf sem mér líkaði í raun ekki við, fannst vinnan hundleiðinleg og gat ekki beðið eftir því að skólinn byrjaði aftur. Mér finnst ég alveg eiga skilið núna að fá vinnu sem ég verð ánægð í.

föstudagur, maí 11, 2007

Jæja, ekki náðum við að komast upp úr undankeppninni. Eiríkur stóð sig samt rosalega vel og má alveg vera stoltur af frammistöðunni. Þetta er greinilega orðið Austur-Eurovision, þ.e.a.s. öll þau 10 lög sem komast áfram eru á því svæði. En þar sem að allar bloggsíður eru uppfullar um þetta efni þá er ég eiginlega komin með upp í kok af þessu umræðuefni. Við ráðum hvort sem er ekki neinu hvort/hvenær keppninni verður breytt þannig að það þýðir voðalega lítið að æsa sig yfir þessu. Hinsvegar finnst mér Sigmar alltaf jafn frábær sem þulur, hann var alveg að brillera með ýmsum skotum á keppendurna/lögin.

Ég fann mér eitt land til að halda með, Serbía. Fannst lagið frá þeim alveg svakalega grípandi og vel sungið. Ég var líka búin að heyra lagið frá Grikklandi og finnst það ekta sumarsmellur þannig að þessi tvö lönd fá mitt atkvæði.

Við vorum búin að bjóða Karen og Grétari í heimsókn annað kvöld og ég var búin að búa til spurningalista um Eurovision (enda algjör nörd þegar að kemur að Eurovision) og smá keppni um fimm efstu sætin. En svo komast þau kannski ekki því að Grétar er hálfveikur, vona nú samt að þau komist :). Alltaf svo gaman að fara í smá keppni um Eurovision.

Kosningar á morgun, ég er nú sammála flestum að mér finnst þessi kosningabarátta hafa verið frekar daufleg. Reyndar skiptir það nú ekki máli fyrir mig þar sem að ég læt ekki stjórnast af auglýsingum rétt fyrir kosningar, hvað þá þegar að stjórnarflokkarnir reyna að ná sér í atkvæði með því að gera eitthvað þremur vikum fyrir kosningar en eru búnir að vera nokkurn veginn aðgerðalausir seinustu 4 ár (og rauninni lengur).

miðvikudagur, maí 09, 2007

Það var svaka gaman á stelpukvöldinu. Við pöntuðum pizzu, drukkum kokteila og jellyskot, fórum í drykkjuleik og dönsuðum út um alla íbúð. Fórum svo niður í bæ um eittleytið, kíktum fyrst á Glauminn en leist ekkert á stemmninguna þar þannig að við fórum á Hressó þar sem að við dönsuðum samfleytt í tvo tíma. Frábær tónlist þar. Ég fór reyndar heim um þrjúleytið en hinar stelpurnar voru eitthvað lengur. Erum að spá í að gera þetta að árlegum viðburði, við skemmtum okkur svo vel.

Annars virðist ég hafa náð mér í einhverja kvefpest, var frekar mikið slöpp í gær en líður betur í dag. Sem betur fer var Árni heima bæði í dag og í gær, var ekki alveg að geta hugsað um Benedikt svona veik, sérstaklega þar sem að mér leið eins og hausinn á mér væri að springa. Ekki alveg það besta í heimi þegar að litli stubburinn æfir söngröddina :).

Svo er það Eurovision á morgun, ég er ekki búin að geta fylgst með undanfara keppninnar eins og ég hef vanalega gert, þannig að ég heyri flest öll lögin í fyrsta skipti á morgun og er þ.a.l. ekki búin að mynda mér skoðun um hvort að við ættum að komast áfram eða ekki. Vona bara að Eiríki takist að koma okkur upp úr undankeppninni.

laugardagur, maí 05, 2007

Árni sýndi mér þennan leik í gær. Allir að fara inn og smella nokkuð oft á takkann :). Alveg ótrúlega ávanabindandi, maður er alltaf að bíða eftir því að sjá Ísland færast upp um sæti en ég hef bara séð það fara neðar.
Ég og Árni erum búin að smella samtals 10.000 sinnum, geggjað lið!! Tek það reyndar fram að við smellum þegar að við erum að horfa á þætti, þannig að við sitjum ekki við tölvuna einungis til að smella.

mánudagur, apríl 30, 2007

Við Árni keyptum okkur bíl á föstudaginn :). Þvílíkt gaman, í rauninni í fyrsta skipti sem ég kaupi mér bíl, orðin 27 ára gömul. Árni átti Golfinn þegar að við byrjuðum saman og við seldum hann þegar að við fórum út. Þegar að við fluttum heim þá var tengdapabbi að kaupa sér nýjan bíl og þar sem að hann sá fram á að geta ekkert selt gamla bílinn þá gaf hann okkur bara hann. Alveg frábært að fá bíl gefins, sérstaklega þegar að maður er nýfluttur aftur heim og þarf að kaupa sér íbúð en bíllinn er ekki alveg upp á sitt besta enda frá árinu 1996. Hann gæti nú alveg dugað okkur lengur en Árni klessti smá á rétt fyrir jólin (sem betur fer sást ekkert á hinum bílnum) þannig að húddið festist og það er ekki hægt að opna það. Það kostar ábyggilega einhvern pening að gera við það og okkur finnst það bara ekki þess virði og fórum þess vegna að leita okkur að öðrum bíl.

Fundum þennan fína bíl, Nissan Note, kóngabláan og árgerð 2006. Alveg yndislegt að keyra hann. Ég og Árni vorum í samningaviðræðum alla helgina um hver fengi að keyra hann þegar að við fórum eitthvað um helgina, mjög skemmtilegt :) og hvert tækifæri nýtt til að komast aðeins út og keyra hann.

Erum svo að fara með Benedikt í ungbarnasund sem byrjar 15. maí. Hlakka mikið til að sjá hvernig honum líkar í vatninu. Vona að þetta verði til þess að hann verði ekki vatnshræddur eins og ég var þegar að ég var lítil. Sem betur fer eltist það af mér en ég var hræðileg á tímabili. Ég var með kúta, bæði um magann og á handleggjunum en samt mátti ekki sleppa mér nema þegar ég hélt mér í bakkann.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Vegna fjölda áskoranna (ehemm, það var nú reyndar bara ein frá Karen) þá ætla ég aðeins að prófa að hafa bloggið lengur.

En um leið og ég settist niður við tölvuna gleymdi ég öllu því sem ég ætlaði að blogga um, hmmm. Ekki alveg nógu gott. Ég gæti bloggað um komandi kosningar eða hvað það fer í taugarnar á mér þegar að fólk styttir íslensk orð. Hvað er málið með að skammstafa orðið fyrir með einum staf? Gjörsamlega hatandi. Eða þegar að fólk segir tvíbbarnir til að spara sér pláss, halló það munar einum staf. Og ammæli er víst orðið voðalega vinsælt, næ þessu ekki. Hverju munar hvort maður skrifar afmæli eða ammæli nema það að annað orðið er rétt, hitt vitlaust. Ég gæti haldið áfram endalaust en það er komið nóg af röfli. Nenni heldur ekki að skrifa um kosningarnar, ég er nokkurn veginn búin að gera upp minn hug og þá er ég sátt :).

Annars erum ég, Helga, Hrönn og Ásta á fullu að skipuleggja stelpukvöldið okkar en það verður þarnæstu helgi. Oh það verður svo gaman. Við erum nefnilega ekki búnar að hittast og hafa ekta stelpukvöld síðan snemma árið 2005!! Fyrst varð Hrönn auðvitað ófrísk, svo Ásta og Helga. Um leið og Helga var búin að eiga varð ég svo ófrísk þannig að það er lítið búið að vera um djamm hjá okkur öllum saman. Við ætlum að gera kokteila, hafa jellyskot, panta okkur mat og bara hafa það gaman, vívíví.

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Ég og Árni fórum á Pabbann seinasta föstudag. Skemmtum okkur alveg svakalega vel. Lágum í kasti meirihlutann af tímanum, könnuðumst svo sannarlega við okkur þegar að hann var að lýsa ýmsu því sem tengist því að verða foreldri.

Annars er nú mest lítið að frétta, Benedikt verður skírður núna á laugardaginn þannig að við erum bara á fullu að undirbúa það. Veislan verður semsagt tvískipt, fyrst nánasta fjölskylda sem telur samt um 25 manns og svo vinirnir seinna um daginn.

Reyndar er ég að spá í að hætta með bloggið mitt, finnst ég hafa voðalega lítið fram að færa þessa dagana. Getur verið að það breytist þegar að ég verð ekki lengur heimavinnandi en allavega núna finnst mér þetta einhvern veginn hálfleiðinlegt blogg. Er samt ekki alveg búin að ákveða mig, kemur allt í ljós.

mánudagur, apríl 09, 2007

Þann 5. apríl var akkúrat ár síðan að við Árni fluttum aftur heim til Íslands, ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Enda hefur í rauninni allt breyst, við erum orðnir foreldrar, komin í okkar eigin íbúð, Árni er kominn með vinnu (og er að rembast við að skrifa ritgerðina sína) og ég er búin með námið mitt (en ekki komin með vinnu).

Það var rosa mikið að gerast um páskana. Á miðvikudagskvöldið hélt Guðlaug vinkona upp á þrítugsafmælið sitt, ég var nú bara róleg og fór snemma heim. Á fimmtudaginn vorum við fjölskyldan bara að slappa af en á föstudaginn komu Ásta og Ívar í heimsókn með Eyrúnu Ólöfu. Árni fékk svo nokkra vini í heimsókn um kvöldið og þeir voru eitthvað að tölvunördast, spila einhverja leiki og svona. Ég var nú bara mest ánægð með að bæði ég og Benedikt vöknuðum ekkert við lætin í þeim :), um að gera að venja börnin við að sofa í gegnum hvað sem er.
Á laugardagskvöldið komu Karen og Grétar í mat, í rauninni fyrsta matarboðið sem við höldum og ekki nema 7 mánuðir síðan við fluttum inn!!! Í gær var svo páskamatur hjá tengdó þannig að við erum vel úthvíld og mjög södd eftir þessa skemmtilegu páska.

Benedikt fékk 2 páskaegg, sitthvort eggið frá ömmum sínum og öfum. Þar sem að hann getur nú ekkert smakkað á þeim erum við foreldrarnir sjálfkjörnir í að borða þau + ástareggið sem við keyptum handa okkur. Einum of mikið af páskaeggjum :).

sunnudagur, apríl 01, 2007

Við fjölskyldan fórum í fyrsta skipti út í göngutúr í gær, foreldarnir fóru að kjósa um stækkun álversins en Benedikt svaf bara á meðan. Ég er voðalega sátt við Hafnfirðinga í dag, sem betur fer var nýja deiliskipulagið ekki samþykkt enda var þetta bara vitleysa út í eitt. En nóg um það, kosningarnar búnar og þá er alveg óþarfi að tala meira um þetta :).

Hildur og Konni eru flutt heim frá Danmörku, ekkert smá gaman og komu í heimsókn til okkar á miðvikudagskvöldið. Ég, Hildur og Edda kíktum svo til Jósu á föstudagskvöldið og skemmtum okkur svaka vel. Við kíktum svo aðeins niður í bæ en aftur varð ég bara að fara heim um tvöleytið, líkaminn þolir greinilega ekki meira þessa dagana. Ég var nú dálítið mikið þreytt á laugardaginn en gat sofið vel í nótt þannig að mér líður betur.

Á laugardaginn hélt Eyrún Ólöf upp á eins árs afmælið sitt. Þar sem Benedikt er búinn að vera veikur þá vildum við nú ekki fara með hann þannig að ég fór bara ein og skemmti mér rosa vel. Alveg yndislegt að sjá öll þessi litlu börn sem eru nýbyrjuð að labba og detta svo til skiptis :).

Hlakka mikið til næstu viku, páskarnir að koma!! Reyndar er nú ekki mikið gert á heimilinu fyrir þá enda einhvern veginn ekki tími til þess en Árni verður þá heima samfleytt í 5 daga, ekkert smá næs.

Það eru allir mjög hjálpsamir að benda mér á hugsa um hvernig heimilislífið væri ef við ættum annað barn fyrir, hugurinn á mér getur nú bara ekki hugsað þá hugsun til enda. Get ekki ímyndað mér ef annað barn þyrfti líka á athygli minni að halda, finnst alveg nóg að vera "bara" með Benedikt. Reyndar er hann mjög erfiður að sofa á nóttunum, mér finnst t.d. mjög erfitt þegar að ég fæ 4 tíma svefn og þá ekki einu sinni samfleytt en ég er alltaf að vona að hann fari nú allavega að sofa í ca. 5 tíma í einu en þar sem maður er ennþá smá stíflaður þá vaknar hann eftir ca. 3-4 tíma og er svo kannski vakandi í 1-2 tíma, ekki alveg að ganga upp.

mánudagur, mars 26, 2007

Það er sko aldeilis ástand á litlu fjölskyldunni í dag. Allir meira og minna veikir. Benedikt er þvílíkt kvefaður, með stíflað nef og síhóstandi. Pabbi er hálfslappur með hita og mamma svaf eitthvað skakkt um nóttina þannig að hún er alveg stíf í bakinu og hálsinum og getur varla haldið á litla stubbinum sínum. Ekki neitt voðalega gaman.

Hinsvegar var rosa gaman um helgina. Benedikt fór í sína fyrstu næturpössun til afa og ömmu í Kópavogi og það gekk bara svona svaka vel. Við hjónin fórum saman í fordrykkinn fyrir árshátíðina hjá Árna (þar sem að sumir voru orðnir vel í því um sjöleytið, nefni engin nöfn) en svo skildu leiðir, ég fór í partý og Árni á árshátíðina. Ég var nú bara frekar róleg, kíkti reyndar aðeins á Glaum en það var ömurleg tónlist þar þannig að ég fór fljótlega heim. Var líka dauðþreytt og var búin að sjá rúmið mitt í hyllingum allt kvöldið. Árni var semsagt komin heim um tólfleytið og sofnaði strax en ég kom heim um tvö og svo sváfum við til hálftólf, ekkert smá gott. Frekar skrýtið samt að hafa engan til að vekja sig nokkrum sinnum um nóttina en samt sem áður vöknuðum við tvisvar-þrisvar af gömlum vana.

mánudagur, mars 19, 2007

Ég varð græn af öfund þegar að ég las þessa frétt, hefði svo sannarlega viljað vera á þessari árshátíð.

Árni kom heim á föstudagskvöldið við mikinn fögnuð :). Hann keypti myndavél í fríhöfninni þannig að við getum skilað myndavélinni sem við vorum með í láni til tengdó. Alveg nauðsynlegt að eiga myndavél þegar að lítill stubbur er búinn að bætast við fjölskylduna. Árni keypti líka nokkrar DVD myndir, t.d. Gremlins 1+2, ekkert smá gaman að horfa á þær aftur. Gismo alltaf jafn sætur.

Árni sá svo alveg um Benedikt bæði á föstudags- og laugardagsnóttina sem þýddi að ég fékk 10 tíma svefn á föstudagsnóttina, ekki alveg samfelldan en nærri því. Alveg nauðsynlegt að fá svona langan svefn af og til til að hlaða batteríin. Áður fyrr snérist bloggið um spítalaferðir en núna snýst það um svefn :).

föstudagur, mars 16, 2007

Ég fékk mér pylsur í hádegismat í dag og fór þá að hugsa um hvað Árni hneyklast alltaf á mér þegar að ég fæ mér pylsur, hann er alltaf að tala um að ég setji sósurnar ekki rétt á pylsurnar. Að hans mati þá eiga hrái laukurinn, steikti laukurinn, tómatsósan og remúlaðið að fara undir pylsuna en sinnepið á pylsuna sjálfa. Mér gæti nefnilega ekki verið meira sama um hvernig ég set þetta á og set þetta bara á eftir því hvað er næst hendinni. Árni hneyklast alltaf svo á mér þegar að ég geri þetta ekki "rétt" að hans mati. Mér finnst þetta bara svo fyndið að ég geri eiginlega meira í því að setja þetta "vitlaust" á, bara til að hann geti tuðað aðeins um þetta :). Það er greinilegt að ég er búin að hafa nógan tíma til að hugsa um mörg mikilvæg málefni þessa dagana, finnst ykkur ekki?

Annars hlakka ég þvílíkt til næstu viku, er að fara í klippingu+strípur á fimmtudaginn, fótsnyrtingu á laugardaginn og svo í útskriftarpartý til Eddu um kvöldið. Var einmitt að tala við Jósu í gær og við ætlum að fá okkur smá í glas, jibbí. Þar sem að ég er alveg hætt með Benedikt á brjósti og líka hætt að mjólka mig þá get ég alveg fengið mér áhyggjulaus í glas. Reyndar er árshátíð hjá Íslenskri erfðagreiningu sama kvöld en mig langar meira að fara í partýið þannig að Árni fer bara einn á árshátíðina. Benedikt fer semsagt aftur í pössun en Árni ætlar líklegast að koma fyrr heim svo að ég geti jafnvel kíkt niður í bæ. Þetta verður svoooo gaman.

þriðjudagur, mars 13, 2007

Árni fór út í gærmorgun þannig að við mæðginin erum bara ein heima þessa dagana. Ég bað Siggu systir um að koma og líta aðeins eftir Benedikt á meðan ég færi út í búð. Ég fer semsagt út í búð og það vantaði mest bleiur og blautþurrkur en snillingurinn ég gleymi auðvitað að kaupa það :). Eitthvað voða utan við mig þessa dagana en Sigga bauðst bara til þess að fara aftur út í búð fyrir mig og kaupa þetta tvennt.

Mér finnst voða skrýtið að vera ein með Benedikt. Ég stend sjálfa mig að því að líta á klukkuna og hugsa: Núna eru bara 2 tímar þangað til Árni kemur heim úr vinnunni en átta mig svo á því að hann kemur ekkert aftur fyrr en á föstudag. Ekki það að ég nenni ekki að vera með Benedikt, bara leiðinlegt að vera ein heima allan daginn og allt kvöldið líka.

miðvikudagur, mars 07, 2007

Eins og mér finnst skemmtilegt þegar að veturinn kemur þá finnst mér vorið alveg æðislegt líka :). Daginn er byrjað að lengja, sólin skín meira og allir komast í betra skap.
Mér líður semsagt aðeins betur en þegar að ég bloggaði seinast. Búin að sætta mig við að brjóstagjöfin gekk ekki, þýðir víst lítið að velta sér upp úr hlutum sem maður ræður ekki við. Ég held líka að ég verði að komast meira út en ég geri, fer eiginlega ekkert nema stöku sinnum út í búð. En við ætlum allavega að fara í mat til tengdó í kvöld, saumó annað kvöld og svo ætlum við að kíkja í heimsókn til mömmu og pabba um helgina.

Árni fer svo í vinnuferð á mánudaginn og verður fram á föstudagsmorgunn, þannig að heimsóknir til okkar eru vel þegnar. Sem betur fer verð ég með bílinn þannig að við mæðginin getum nú farið eitthvert ef við viljum.

föstudagur, mars 02, 2007

Er búið að líða mjög illa undanfarna daga, skrifaði heillangan pistil á síðuna hans Benedikts um það enda tengist þetta brjóstagjöfinni. Þannig að ef þið viljið lesa það, kíkið þá bara á síðuna hans. Skrifa meira seinna þegar að mér líður betur.

mánudagur, febrúar 26, 2007

Núna veit ég af hverju svefnleysi er talið ein af áhrifamestu pyntingaaðferðunum. Frá fimmtudegi og fram á sunnudag fengum ég og Árni voðalega lítinn svefn og ástandið á okkur í gær var vægast sagt hræðilegt. Við gátum varla talað saman af þreytu :) enda fór öll afgangs orka í að hugsa um Benedikt. Í nótt svaf hann sem betur fer aðeins betur enda líður okkur mun betur.

Fyrir utan svefnleysi var voðalega gaman um helgina, það var rosa gott að komast bæði út í einu á laugardagskvöldið og hitta vini hans Árna, spjalla saman um annað en barnauppeldi og bara aðeins að slappa af. Við vorum nú reyndar ekki lengi í burtu, ca. 2 og hálfan tíma en þetta er samt sem áður alveg nauðsynlegt. Benedikt fer svo aftur í pössun í lok mars en þá er árshátíð hjá Árna, fínt að hafa þetta með svona mánaðar millibili.

Annars finnst mér tíminn fljúga áfram í fæðingarorlofinu, mánuðirnir hverfa hreinlega. Í næsta mánuði fer Árni svo í burtu í 4 nætur vegna vinnuferðar, vona svo innilega að Benedikt verði farinn að sofa betur. Kvíði pínku fyrir ef hann verður ennþá svona erfiður allar nætur.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Loksins fékk ég dálítinn svefn, Benedikt svaf í heila fimm tíma samfleytt í nótt. Ég svaf reyndar "bara" í fjóra tíma, sofnaði ca. hálftíma eftir að hann var sofnaður og vaknaði sjálf eftir fjóra tíma, líkaminn var örugglega ekki alveg að skilja af hverju ég var ekki vöknuð fyrr miðað við undanfarnar vikur.

Benedikt fór svo í 6 vikna skoðun í dag og hann er orðinn það þungur að hann má fara út í vagn núna, hlakka voða mikið til þess. Verður fínt að komast út með hann á daginn og ná aðeins að hreyfa sig. Hjúkrunarfræðingurinn kíkti líka aðeins á mig í dag vegna vesenis með brjóstagjöfina og hún sagði bara beint út við mig að ég væri mjög þreytuleg þessa dagana :), alltaf gaman að heyra það.

Hildur vinkona kom til landsins í dag og verður í nokkra daga, ætlar líklega að kíkja á mig á fimmtudaginn. Hlakka ekkert smá mikið til að sjá hana. Það verður svo nóg að gera næstu daga, er að fara í saumaklúbb á fimmtudaginn, litun+plokkun á föstudaginn og svo er þrítugsafmæli hjá vini hans Árna á laugardaginn. Ætlum líklegast að kíkja í 2-3 tíma, oh það verður æðislegt að komast bæði út í einu og hitta annað fólk.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Þá er Benedikt Einar kominn með heimasíðu. Hún er læst en ef það eru einhverjir sem vilja komast inn á hana þá er bara að senda mér tölvupóst á ingaeb@gmail.com. Ákvað að hafa frekar tvær heimasíður svo að þeir sem nenna ekki alltaf að lesa eitthvað barnatengt geti allavega þá farið á mína heimasíðu, tíhí.

Annars er voðalega lítið að frétta, eins og hefur verið undanfarnar vikur. Ég fer ekki neitt og geri voðalega lítið annað en að hugsa um Benedikt en þannig er það þessar fyrstu vikur. Ég er líka alveg endalaust þreytt eftir mjög svo svefnlitlar nætur undanfarið. Vona að það fari að lagast mjög fljótlega því að svefnleysi er það erfiðasta sem ég veit um. Finnst alveg best í heimi að sofa mikið :).

föstudagur, febrúar 09, 2007

Ekkert mikið að gerast þessa dagana hjá mér sem er ástæðan fyrir því að ég er ekkert búin að blogga. Ég og Árni áttum reyndar 7 ára sambandsafmæli þann 3. febrúar, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Allt í einu erum við orðnir foreldrar og lífið búið að gjörbreytast. Maður fær aldrei nægan svefn og lífið snýst algjörlega um þessa litlu manneskju sem er svo háð manni.

Reyndar erum við búin að nefna litla prinsinn eftir nokkrar samningaviðræður ;). Hann heitir semsagt Benedikt Einar. Benedikt er út í loftið en Einar í höfuðið á föðurafanum. Skírnin verður svo líklegast í lok mars en við ákváðum bara að nefna hann strax svo að einhver gælunöfn myndu ekki festast við hann.

föstudagur, febrúar 02, 2007




Maður er nú dálítið mikið sætastur :).

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Ég vorkenndi svo strákunum okkar eftir leikinn á móti Dönum. Ég sat fremst á sófanum alla framlenginguna og var byrjuð að labba um gólf undir það seinasta. Þeir stóðu sig svo vel en því miður þá þurfti aðeins meira til að sigra. En hlakka nú samt til að horfa á leikinn gegn Rússunum, vonandi vinna þeir þann leik og spila þá um 5. sætið á mótinu.

Annars er nú voðalega lítið að frétta, lífið hjá mér snýst um að gefa litla kút og handboltann þessa dagana. Reyndar fórum við í myndatöku með hann á þriðjudaginn og fáum myndirnar í dag. Hlökkum geðveikt til að sjá þær, maður var nú eiginlega sofandi mest allan tímann en það gerir ekkert til. Skelli inn einni eða tveimur myndum seinna í dag.

laugardagur, janúar 27, 2007

Sá þetta á einni bloggsíðu og varð hreinlega að stela þessu :).

Þú ert 90´s kid ef þú:


Þú getur klárað þessa setningu [ice ice _ _ _ _ ]

Þú manst eftir því þegar það var ennþá spennandi að vakna á laugardagsmorgnum til að horfa á barnaefnið...

Þú færð ennþá "urge" til að segja "NOT" á eftir næstumþví öllu

Það var gert út um málin með "steinn skæri blað" eða "ugla sat á kvisti"...

Þegar lögga og bófi var daglegt brauð

Þegar við fórum í feluleik þangað til við gátum ekki meir

Þegar við vorum vön að hlýða foreldrum okkar...

Þú hlustaðir á útvarpið allan liðlangan daginn til að bíða eftir uppáhaldslaginu þínu, til að taka það upp á kasettutækið..

Þú manst eftir því þegar Super Nindendos og Sega Genisis urðu vinsælir

Þú horfðir alltaf á America's Funniest home videos

Þú horfðir á Home Alone 1, 2, og 3 og reyndir að gera sömu trikk

Þú manst eftir því þegar Jójó voru kúl

Þú horfðir á Batman, Aladín, Turtles og Pónýhestana...

Þú manst eftir sleikjóunum sem voru á hring til að hafa á puttanum..

Þú manst þegar það áttu ekki allir geislaspilara

Þú bjóst til gogg þegar þú varst lítill...

Þú áttir tölvugæludýr

...eða Furbie

Þú hefur ekki alltaf átt tölvu, og það var töff að vera með Netið

Og Windows '95 var best

Michael Jordan var aðal hetjan..

Kærleiksbirnirnir

Þú safnaðir lukkutröllum

Og áttir vasadiskó

Þú kannt Macarena dansinn utanað

Þú veist af hverju 23 er kúl tala

Áður en að Myspace varð vinsælt

Áður en Netið kom og enginn vissi hvað sms var..

Áður en ipod kom til sögunnar

Áður en PlayStation 2 og Xbox voru til

Þegar strigaskór með blikkljósum voru málið

Og þú leigðir spólur, ekki dvd

Og það var eiginlega enginn með símanúmerabirti

Og þegar við hringdum í útvarpið til að reyna að fá uppáhalds lagið okkar spilað til að hlusta á í vasadiskóinu

Áður en við áttuðum okkur á því að allt mundi breytast

Hver hefði getað ímyndað sér að við myndum sakna þessara tíma!

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Strákarnir okkar eru að standa sig svo rosalega vel. Maður datt nú reyndar niður í algjört þunglyndi eftir leikinn gegn Úkraínu en eftir leikina gegn Frökkum og Túnis þá er ég alveg í skýjunum. Ótrúlega vel gert hjá þeim. Hlakka til að horfa á næstu leiki.
Sá svo að EM 2008 verður í Noregi næst, aldrei að vita nema maður skelli sér þangað til að sjá nokkra leiki. Eins mikinn áhuga og ég hef á handbolta þá hef ég nefnilega aldrei farið á landsleik og mig langar þvílíkt að sjá einmitt þetta lið spila, þ.e.a.s. áður en Óli fer að hætta. Ætlaði auðvitað á leikinn gegn Tékkum en var upptekin við annað þá :).

Annars er nú mest lítið að frétta, er reyndar að fara í saumó í kvöld. Fyrsta skiptið sem ég fer frá litla prinsinum en það er nú bara af því góða. Er nefnilega ekkert búin að fara út síðan að við komum heim með hann og maður verður svo grár og gugginn eitthvað af því að vera alltaf inni. Feðgarnir verða semsagt bara tveir einir heima, skemmta sér örugglega mjög vel. Árni er svo að fara í vinnuferð á morgun, fer í Hvalfjörð og verður eina nótt. Það verður mjög svo skrýtið að vera ein með litla kút í ca. einn sólarhring en þetta er fín leið til að æfa sig fyrir þegar að Árni verður byrjaður að vinna allan daginn.

Snúðalíusinn okkar er alls ekki að fíla okkur þessa dagana og sérstaklega ekki þegar að litli kútur er nálægt. Skilur ekkert í þessum öskrum og látum sem fylgja svona lítilli manneskju. Þannig að ég og Árni skiptumst á að klappa manni og veita manni athygli, greyið manns, er ekkert að skilja af hverju hann fær ekki alla okkar athygli eins og áður. Heyrðum af einni kisu sem tók svo nærri sér þegar að lítið barn kom inn á heimilið að það var fugl eða mús í rúminu á hverjum morgni í einhverjar 5-6 vikur, var alveg að reyna að sanna sig fyrir eigundunum. Sem betur fer hefur Snúður nú ekki tekið upp á því.

föstudagur, janúar 19, 2007

Oh hvað ég hlakka til um helgina, HM 2007 er að byrja!!! Alveg það skemmtilegasta sem ég veit er að horfa á íslenska handboltalandsliðið keppa. Spurning um að stíla gjafirnar hjá litla kút inn á leikina þannig að ég geti öskrað og hrópað nógu mikið, ekki vill maður bregða honum þegar að maður er að drekka :).

Annars gengur bara ágætlega með hann, maður er reyndar dálítinn tíma að koma sér inn í þessa tveggja tíma rútínu, þ.e.a.s. gefa manni í hálftíma og svo þarf maður að sofa í tvo tíma. Þannig gengur þetta allan daginn nema á nóttunni þá á maður að sofa í ca. 3-4 tíma. Árni er búinn að vera alveg frábær að hjálpa mér, ég skil ekki hvernig einstæðar mæður fara að, ég væri búin að missa geðheilsuna á ekki lengri tíma. En ætla að fara að njóta þess að eiga "frí" í tvo tíma.

miðvikudagur, janúar 17, 2007


Takk allir fyrir hamingjuóskirnar, við erum öll alveg í skýjunum :). Hérna er ein mynd af manni í nýja rúminu sínu.
Við mæðginin erum semsagt komin heim, fengum reyndar að fara heim á laugardaginn en þurftum að fara í tékk á sunnudaginn. Þá kom í ljós að maður var ekki alveg að losna við guluna þannig að við vorum aftur lögð inn en fengum að fara heim í gær. Fórum svo aftur í tékk í morgun og maður er alveg að losna við guluna þannig að við verðum bara áfram heima, sem betur fer. Heima er best.

Hinsvegar erum við ekki alveg sátt við spítalann núna. Hjúkrunarfræðingurinn var nefnilega að koma í sína vikulegu heimsókn, hún var að vinna á vökudeild í 16 ár þannig að hún ætti nú að vera sérfræðingur í fyrirburum. Við erum búin að vera að gefa manni ábót vegna þess að maður er svo latur og maður verður að fá nóg að drekka til að losna við guluna. Litli kútur þarf að drekka alveg 60 ml. per gjöf og við erum búin að vera ca. einn og hálfan tíma að koma því ofan í hann og enginn á sængurkvennadeildinni hefur sagt neitt um að það sé vitlaust. Hjúkrunarfræðingurinn sagði okkur hinsvegar að við værum að ofþreyta hann með þessu og við eigum bara að miða við að hver gjöf taki hálftíma. Við erum búin að vera semsagt að ofþreyta hann í viku, greyið manns og öllum á deildinni hefur bara fundist þetta allt í lagi. En núna ætti maður að fara að verða betri :). Knús til allra.

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Smá update: Maður er kominn með smá vott af gulu og er því kominn í ljós, alveg mesti hnakkinn í fjölskyldunni :) Þetta þýðir að maður verður líklega aðeins lengur uppá deild. Annars er maður duglegur að drekka þó svo maður sé ennþá doldið latur að taka brjóst en það kemur allt saman. Svona af því maður er svo fullkominn kemur hérna smá mynd í kaupbæti (maður sýnir greinilega strax efnilega nörda takta og er helling að pæla eitthvað).
Þungt hugsi
ps. ætla að senda fleiri myndir í emaili, ef ég gleymi einhverjum þá er það ekkert persónulegt heldur er ég bara klaufi. Sendið mér þá endilega meil ef þið viljið myndir og ég skal senda við fyrsta tækifæri. Svo kem ég þessu öllu saman á netið við betra tækifæri.

pps. þeir sem vilja heimsækja geta gert það næstu daga milli kl. 17 og 19. Það væri gott að hringja aðeins á undan sér og láta vita. Það er rétt að taka fram fyrir þá sem ekki vita að börnum er víst ekki hleypt inn á deildina.

kv, Pabbi

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Nýbakaður pabbi skrifar: Litli drengurinn okkar ákvað að drífa sig svolítið að koma í heiminn og fæddist þann 9. janúar 2007 kl. 02:32. Maður vó tæpar 11 merkur og var 48 cm að lengd (fyrst var mælt eitthvað vitlaust og sagt að maður væri 51.5 cm). Fæðingin gekk ósköp vel og tók ekki nema um 4 tíma :), mamma var svo mikil hetja og heilsast afskaplega vel. Fyrst var maður settur í hitakassa og fór á vökudeildina en það leit allt svo vel út að maður var fljótlega útskrifaður þaðan og fékk að vera bara með mömmu og pabba. Svona var maður sætur á sinni fyrstu mynd:

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Litla krílinu virðist liggja eitthvað mikið á að komast í heiminn. Það endar með því að bloggið fer að snúast um spítalaferðir :). Ég fór semsagt upp á spítala 2. janúar með verki og var aðeins byrjuð í fæðingarferlinu (ætla nú ekkert að fara nánar út í það hérna á veraldarvefnum). Ég fékk einhver lyf sem slógu á verkina og var í athugun í tvo daga hjá þeim. Verkirnir hafa ekki komið aftur, sem betur fer þannig að ég er bara komin heim, má ekki vinna lengur og á að hvíla mig mjög mikið. Ég skil nú ekki hvernig hægt er að hvíla sig meira en ég gerði, ég má ekki gera neitt á heimilinu og ligg mest upp í rúmi og svona. Svo er ekki gott að liggja of mikið, heldur verður maður líka að labba um og liðka sig. Annars er markmiðið að ná að halda krílinu allavega inni fram á viku 37 vegna þess að þá flokkast maður ekki lengur sem fyrirburi. Þannig að það eru bara 2 vikur og 2 dagar í að það náist en auðvitað er alltaf best að maður gangi fulla meðgöngu.

Annars var gamlárskvöld voða rólegt hjá okkur, ég var komin upp í rúm kl. 1, voða nótó. Er einhver veginn dottin úr því stuði að fara að djamma á gamlárskvöld, finnst það ekkert skemmtilegt lengur. En allavega gleðilegt ár allir saman, vona að árið 2007 verði ykkur gæfuríkt og að þið njótið lífsins.