4 dagar í jól og allt ennþá á hvolfi í íbúðinni. Þurftum að taka geymsluna í gegn vegna þess að hún var full en okkur vantaði stað til að setja allt dótið sem var í herberginu hans Benedikt. Við byrjuðum semsagt á því í gær og hentum alveg heilmiklu en svo vildi Árni endilega kaupa hillur og við fengum þær ekki afhentar fyrr en seint í gær, sem þýddi að við náðum bara að setja þær saman í gær en kassarnir eru ennþá út um alla íbúð. Þar sem að Árni er mikið betri í að raða en ég, fékk ég þau skilaboð að ég mætti ekki byrja á þessu fyrr en hann kæmi heim. Mjög gaman. Ekki skánaði heldur ástandið þegar að málningin á einum útveggnum byrjaði að bólgna. Við hringdum auðvitað í tryggingafélagið okkar sem sendi mann og það er semsagt búið að reka þessa bólgu alveg upp á efstu hæð og þeir segja að við fyrstu sýn virðist vera að húsið leki. Það var samt tekið alveg í gegn að utan rétt áður en við fluttum inn sem var fyrir einu og hálfu ári. En tryggingafélagið er búið að taka myndir þannig að þetta er allavega komið í gang, svo kemur bara í ljós hvað af þessu verður bætt.
Þannig að jólaskapið er ekki komið ennþá en vonandi náum við að klára þetta í kvöld og þá get ég tekið jólahreingerninguna á morgun, það er nefnilega allt frekar skítugt hérna eftir málningarstúss og tiltekt seinasta mánuðinn. Ég hef aldrei verið svona sein að þrífa fyrir jólin, eins gott að við séum löngu búin að kaupa jólagjafirnar og pakka þeim inn. Ég hefði farið yfirum ef það væri ennþá eftir. Enda er ég búin að tilkynna Árna að við munum aldrei aftur fara í endurbætur rétt fyrir jól. Ég hef fulla trú á því að ég komist í jólaskapið þegar að íbúðin verður orðin fín.
En ég ætla mér nú samt að hafa það rólegt og kósý um jólin með litlu fjölskyldunni minni, hlakka endalaust mikið til að sjá hvernig Benedikt bregst við pökkunum sem hann fær. Hann virðist nú hafa mjög mikinn áhuga á þeim þegar að búið er að pakka þeim inn, vill snerta slaufurnar og svona en ég held að það nægi honum einn pakki allt kvöldið :).
fimmtudagur, desember 20, 2007
Birt af Inga Elínborg kl. 12/20/2007 02:24:00 e.h.
|