sunnudagur, nóvember 25, 2007

Voðalega mikið að gerast þessa helgi. Fórum á jólahlaðborð með frændsystkinum hans Árna á föstudaginn. Alltaf gaman að hitta fjölskylduna en við mælum ekki að fara á jólahlaðborð á Hereford, maturinn var gjörsamlega óætur. En við spjölluðum bara þeim mun meira við frændfólkið, flest þeirra hitti Árni seinast fyrir 15 árum eða eitthvað álíka.

Á laugardaginn náðum við að klára jólagjafirnar sem þýðir að við þurfum ekki að stíga fæti inn í Kringluna/Smáralind í desember, oh hvað ég er sátt við það. Finnst alveg nóg af fólki í búðunum núna, hvað þá eftir viku. Um kvöldið fórum við svo á jólahlaðborð á Nordica með Karen og Grétar. Það var svo gaman þar, maturinn náttúrulega æðislegur og félagsskapurinn frábær :). Það sem setti punktinn yfir i-ið var að Stebbi og Eyfi sungu nokkur lög, alveg yndislegt að heyra þá syngja.

Í dag er svo planið að baka jólasmákökur, fyrst að ég er búin að skreyta íbúðina þá verður líka að fylla hana af jólailmi.

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Ég er eitthvað svo týnd þessa dagana varðandi námið mitt og vinnu. Ég veit nákvæmlega ekkert hvað ég vil. Ég lít yfir starfsauglýsingar og sé kannski eitthvað, sem miðað við mitt nám, ætti að vekja áhuga hjá mér en ég finn engan áhuga innan í mér. Skil þetta ekki, mér fannst námið mitt alveg svakalega skemmtilegt og spennandi en ég virðist ekki hafa neinn áhuga á að vinna við það. Ég er alveg komin í hring með það hvað ég á að gera, stakk m.a.s. upp á því við Árna að mig langaði kannski bara aftur í skóla en hinsvegar vissi ég eiginlega ekki hvað mig langaði að læra. Ég hef aldrei á ævinni verið svona óákveðin og mér finnst það ekki gott. Ég veit alveg að ég er ekkert sú eina sem ákveður að fara að læra eitthvað annað en það sem að mér finnst óþægilegt er að ég veit ekkert hvort mig langar að læra meira (og þá hvað) eða þá hvort að mig langi að vinna við sálfræðina eða ekki. Vildi bara að ég gæti ákveðið mig og hætt að velta mér upp úr þessu.

Við kíktum í síðbúinn haustfagnað hjá Íslenskri erfðagreiningu á föstudaginn, þar var m.a. verið að halda upp á nýja vefinn sem Árni var að forrita :), ekkert smá flott hjá þeim. Þetta var semsagt ástæðan fyrir því að hann var eiginlega ekkert heima í 6 vikur, vann m.a.s. í tæpan sólarhring rétt áður en vefurinn fór í loftið.

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Jæja, þá er afmælisdagurinn minn búinn. Alltaf svo gaman að eiga afmæli og ekki verra þegar að vinirnir koma í partý til að samgleðjast. Fékk fullt af fallegum gjöfum, takk allir fyrir mig.
Ég, Helga og Ásta kíktum svo niður í bæ á Glaumbar og dönsuðum smá. Lenti reyndar í því að jakkanum mínum var stolið, ekki góður endir á kvöldinu en það er ekkert við því að gera.

Svo eru næstu 5 helgar allt í einu orðnar fullbókaðar. Síðbúinn haustfagnaður, þrenn jólahlaðborð og 2 þrítugsafmæli. Allt of mikið í einu, reyndar alltaf gaman að komast út og hitta annað fólk en þegar að maður er kominn með lítið kríli þá er ekki svo auðvelt að finna pössun fyrir svona marga atburði :).

laugardagur, nóvember 03, 2007

Oh hvað ég er sár út í sjálfa mig. Ætlaði að gera "Jól í skókassa" eins og í fyrra en tíminn hreinlega flýgur áfram og ég sá að seinasti skiladagur er í dag. Ég er ekki einu sinni komin með kassa, hvað þá eitthvað ofan í þá þannig að ég næ þessu ekki í ár. Mér fannst svo gaman að þessu í fyrra en við setjum bara 2 gjafir undir jólatréð í Kringlunni í staðinn :). Ætla svo innilega að muna eftir þessu fyrir næstu jól.

Annars er ég búin að finna kjól fyrir afmælið mitt, voða flottur, allavega að mínu mati. Hann er reyndar aðeins í fínna laginu en ég verð þá bara langfínust í afmælinu mínu, tíhí. Núna á ég bara eftir að fá skó og þá fer þetta allt að smella saman.

Forlagið var að gefa út nýja bók eftir Arnald Indriðason, ég var fljót að benda Árna á að mig langar í hana í jólagjöf. Hann er auðvitað alveg frábær rithöfundur, hef lesið allar bækurnar hans a.m.k. tvisvar og hlakka alltaf til að lesa nýjar bækur eftir hann. Það er í boði að hala niður fyrstu köflunum í bókinni en ég tími því eiginlega ekki. Veit fátt betra en að skríða upp í rúm að kvöldi aðfangadags með nýja bók og lesa langt fram eftir nóttu.