mánudagur, júní 16, 2008

Leikurinn í gær var svo spennandi, við stóðum meirihlutann af síðustu mínútunum og héldum í vonina að þeir myndu ná að vinna með meira en 8 marka mun. En því miður heppnaðist það ekki en strákarnir okkar stóðu sig alveg svakalega vel. Hlakka til að sjá þá á ÓL í ágúst, reyndar frekar erfiður riðill sem við erum í en við eigum nú alveg að geta komist upp úr honum :).

Annars er nú mest lítið að frétta, fórum í Fjölskyldu- og Húsadýragarðinn um helgina og Benedikt fannst það ekkert smá skemmtilegt. Greinilegt að hann er líkur foreldrum sínum :) sem dýrka að fara í dýragarða. Árni var líka voðalegur duglegur að reka mig inn í rúm þegar að honum fannst kominn tími á að ég myndi hvíla mig. Finn það alveg að ég þarf að hvíla mig meira þessa dagana og það er voðalega þægilegt að geta lagst upp í rúm í smátíma og safna smá kröftum. Enda er ég eiginlega ekkert búin að finna meira fyrir þessum verkjum þannig að ég er að gera eitthvað rétt.

Svo eru bara 5 vinnuvikur eftir og þá erum við fjölskyldan komin í sumarfrí, það verður rosalega næs. Fyrsta skiptið sem við tökum svona langt sumarfrí saman.

þriðjudagur, júní 10, 2008

Jæja, þá er búið að skikka mig í 50% vinnu í viku. Ég var byrjuð að fá svo mikla samdrætti með verkjum í seinustu viku að ljósan mín ráðlagði mér að prófa að minnka við mig vinnuna og athuga hvort að þessir samdrættir myndu ekki hverfa. Árni var svo yndislegur að taka Benedikt í sumarbústaðinn til tengdó á laugardaginn þannig að ég var bara ein heima allan daginn og lá uppi í rúmi að horfa á ER. Alveg frábær hugmynd að hafa keypt þessa þætti þegar að ég þarf að hvíla mig svona mikið. Árni kom svo heim seinnipart laugardags og við fórum í matarboð, vorum nú ekki lengi því að Árni fór aftur í sumarbústaðinn á sunnudag og ég var bara aftur skilin eftir heima :). Þeir feðgar komu svo heim seint um kvöldið.

Ég reyndi að horfa á Ísland-Makedónía en hætti í hálfleik, hafði einhvern veginn ekki taugar í að horfa á hann allan. Maður bíður bara spenntur eftir 15. júní, vonandi náum við að vinna þá með meira en 8 marka mun svo að við komumst áfram. Þó að ég eigi að slappa af þá ætla ég samt að fara á leikinn, hvíli mig bara vel á undan og á eftir. Get nú samt vel ímyndað mér að leikurinn verði mjög taugatrekkjandi.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Alveg æðislegt veður í dag, vona að við fáum nú nokkra svona sumardaga í sumar. Er m.a.s. búin að fjárfesta í tvennum óléttukvartbuxum svo að ég kafni nú ekki úr hita.

Annars er ég voðalega stolt af strákunum okkar, alveg frábær leikur hjá þeim á sunnudaginn og ekki spillir fyrir að vinna Svíana og koma í veg fyrir að þeir komist á stórmót (again!!). Við hjónin erum einmitt búin að kaupa miða á Ísland-Makedónía þann 15. júní. Hlakka svo mikið til að fara þangað og horfa á þá spila. Svo held ég að Ólympíuleikarnir byrji þann 8. ágúst og þá verð ég í fríi þannig að ég get legið uppi í sófa og horft á leikana allan daginn eða þ.e.a.s. þangað til að ég þarf að sækja Benedikt til dagmömmunnar :).

Ég fór í sykurþolspróf í dag, hef nú alveg drukkið betri drykki en sem betur fer hélt ég honum niðri. Niðurstöðurnar voru fínar við fyrstu sýn en ég fæ nákvæmari niðurstöður á fimmtudaginn þegar að ég fer til ljósunnar. En sú sem var að taka blóðið sagði að þetta væru bara frábærar tölur :). Mjög ánægð að heyra það.
Hinsvegar tekur þetta alveg svakalega langan tíma, þær taka nefnilega blóðprufu á hálftíma fresti í 2 tíma. Það var búið að segja við mig að ég fengi stofu til að vera í en það var engin stofa laus í morgun þannig að ég sat allan tímann í biðstofunni, voða gaman. Var nú samt það snjöll að hafa með mér fartölvuna og horfði á ER allan tímann. Vorum nefnilega að panta okkur 10 fyrstu seríurnar, ótrúlega gaman að horfa á þetta aftur.