laugardagur, júní 30, 2007

Árni er kominn í frí sem er megin ástæðan fyrir lélegu bloggstandi þessa dagana. Við erum búin að vera ágætlega dugleg í fríinu. Byrjuðum á því að fara til Bergþórs pabba seinustu helgi. Hvolparnir hennar Tinnu eru auðvitað langsætastir, var nú reyndar fljótt læknuð af því að fá einn með mér heim því að þeir væla frekar mikið og ég nenni ekki að vakna við þá á nóttunni svona loksins þegar að Benedikt sefur vel :). Það er alltaf jafn æðislegt að komast í sveitasæluna enda er ég algjör sveitakerling. Eftir að við komum heim erum við búin að fara í fyrsta skipti í Smáralindina öll fjölskyldan, niður á tjörn að gefa öndunum og í heimsókn til Þuríðar og Steina til að sjá litla prinsinn þeirra. Í næstu viku er reyndar lítið planað, við kíkjum kannski í einhverja dagsferð út á land og svo langar okkur að fara í Húsdýragarðinn. Það er alveg æðislegt að hafa Árna heima allan daginn, frábært að við getum bara dúllað okkur öll 3 saman.

Við erum búin að vera að kíkja á dagmömmur fyrir Benedikt og fundum eina sem okkur líst mjög vel á. Hún sagði okkur þær "skemmtilegu" fréttir að þar sem að við Árni eigum rétt á 9 mánaða fæðingarorlofi samtals þá byrjar Hafnarfjarðarbær að greiða niður fyrir Benedikt þegar að hann verður 9 mánaða. Þeir ætlast semsagt ekki til að foreldrar taki einhvern hluta eða allt fæðingarorlofið saman. Við lendum nú ekkert svakalega illa í þessu, Árni fer aftur að vinna þegar að Benedikt er 8 og 1/2 mánaða þannig að þetta verða eitthvað um 3 vikur ef að við tökum aðlögunina með. Málið er bara að við vissum þetta alls ekki og þetta kemur ekki neins staðar fram á vef Hafnarfjarðar. Ótrúlega fáránlegt þetta kerfi. Við vorum í raun bara heppin að við skiptum þessu akkúrat svona á milli okkar, við vorum m.a.s. fyrst að spá í að Árni myndi vera heima allan fyrsta mánuðinn með mér en hættum svo við það, vildum frekar að Benedikt yrði eldri þegar að hann færi til dagmömmunnar. En það þýðir víst lítið að velta sér upp úr þessu, okkur finnast bara mjög hallærislegt að þetta komi ekki neins staðar fram.

miðvikudagur, júní 20, 2007

Alveg ótrúlegt hvað ég get verið utan við mig þessa dagana. Ég set alltaf á mig rakakrem á morgnana og byrjaði einmitt á því í morgun. Benedikt sat í ömmustólnum sínum og ég var að spjalla við hann á meðan ég bar kremið á mig. Mér fannst kremið eitthvað samt skrýtið, voðalega klesst og gat ég lítið dreift því yfir andlitið. Hugsaði samt ekkert meira um það og hélt bara áfram. Korteri eftir að ég var búin að bera á mig var húðin hálfskrýtin og þá fattaði ég loksins að ég hafði ekki verið að bera á mig rakakrem heldur hreinsikrem! Semsagt búin að vera með hreinsikrem á mér í korter áður en ég áttaði mig á þessu. Túpurnar eru ekki einu sinni líkar í útliti, skil ekki alveg hvernig ég fór að þessu. Árna fannst hinsvegar mjög gaman þegar að ég sagði honum frá þessu enda kallar hann mig oft klaufann sinn :).

þriðjudagur, júní 19, 2007

Það var frábært að vera í Laugardalshöllinni á sunnudaginn og fylgjast með strákunum okkar vinna Serba. Við létum okkar ekki eftir liggja í að hvetja strákana áfram enda vorum við frekar hás í gær :), það voru allir í frábæru skapi og stemningin var ólýsanleg.

Við gerðum nú mest lítið annað á þjóðhátíðardaginn. Árni vaknaði á sunnudaginn og gat voðalega lítið hreyft sig vegna bakverks þannig að við ákváðum bara að vera heima og slappa af.

Voðalega lítið að frétta af mér þessa dagana, bíð bara eftir að Árni komist í frí. Hann átti að byrja í fríi á morgun en það er svo mikið að gera í vinnunni að þeir báðu hann um að vinna út vikuna til að klára öll þau verkefni sem hann er með. Sérstaklega þar sem að hann mætir ekki aftur í vinnuna fyrr en um miðjan september því að hann tekur fæðingarorlofið sitt beint á eftir fríinu. Honum finnst það voðalega skrýtið tilhugsun að mæta ekki aftur í vinnuna fyrr en eftir 3 mánuði :).

föstudagur, júní 15, 2007

Fyrir ca. mánuði síðan ákváðum við að setja Benedikt í sitt eigið herbergi. Það er reyndar ekki búið að gerast enn vegna þess að við eigum ennþá eftir að hengja upp myrkvagardínur í herbergið vegna þess að hann á mjög erfitt með að sofna í mikilli birtu. Ætlunin er að setja þær upp á morgun, alveg ótrúlegt hvað maður getur verið lengi að koma sér að verki hérna á heimilinu.
Mér finnst samt svo skrýtið/fyndið hvernig viðbrögðin eru hjá fólki. Meirihlutinn af þeim sem ég hef sagt þetta finnst við vera vond við hann, ég næ því nú ekki alveg. Hvernig er ég vond við barnið mitt þótt að ég vilji að það sofi í sínu eigin herbergi? Hann sefur vonandi mikið betur og við sofum betur, þannig að það græða allir. Ég vakna nefnilega upp við minnsta hljóð í honum og get þá verið andvaka í einhverja tíma. Þegar að ég segi fólki að ég vakni mjög auðveldlega við hann þá finnst flestum þetta vera í lagi en þeim finnst ekki vera í lagi að við setjum hann í annað herbergi vegna þess að við viljum það. Það var alltaf ætlun okkar að setja hann fyrir 6 mánaða afmælið sitt í eigið herbergi, alveg sama hvort að ég myndi vera að vakna við hann eða ekki.

Annars er skemmtileg helgi framundan, hittingur hjá sálfræðinemunum sem voru í Árósum í kvöld á Tapas. Hlakka mjög mikið til enda er langt síðan að við höfum öll hist og ekki spillir fyrir hvað það er góður matur á Tapas.

Á morgun er Laufey, systir hans Árna að útskrifast úr KHÍ og verður smá boð hjá henni þannig að við ætlum að skella okkur þangað.

17. júní á sunnudaginn. Þar sem að við hjónin hötum bæði að fara í skrúðgöngu (ohh við pössum svo vel saman :)) þá ætlum við ekki að fara með Benedikt í eitthvað þannig. Mig langar hinsvegar að labba bara aðeins niður í bæ og gefa öndunum og svona. Það er alltaf svo skemmtilegt. Ég hlakka líka endalaust til um kvöldið, það verður svo gaman á landsleiknum! Það er orðið uppselt þannig að það verður örugglega frábær stemmning í höllinni.

mánudagur, júní 11, 2007

Fín helgi að baki. Við fjölskyldan fórum í innkaupaleiðangur á laugardaginn og keyptum uppþvottavél, ryksugu og kerru fyrir litla guttann. Við fáum uppþvottavélina heim í dag og ég hlakka svo til. Reyndar finnst mér allt í lagi að vaska upp (ég vaska semsagt alltaf upp en Árni sér um þvottinn) en eftir að Benedikt kom þá hrannast uppvaskið bara upp og maður hefur engan veginn við. Auðvitað er þetta bara leti í manni, mamma komst ágætlega af með enga uppþvottavél og fimm börn!!

Karen og Grétar kíktu til okkar á laugardagskvöldið og við horfðum á Serbía-Ísland. Við hjónin erum einmitt búin að kaupa okkur miða á landsleikinn þann 17. júní. Ísland þarf að vinna með a.m.k. tveggja marka mun til að komast áfram á EM 2008 þannig að þetta verður heljarinnar leikur. Allir að mæta og styðja strákana okkar. Mér finnst alveg frábært að hafa þetta á þjóðhátíðardaginn okkar, allir í svaka stemmningu :).

Magnús Breki þeirra Ingibjargar og Bigga varð svo eins árs í gær og bauð í afmæli. Við vorum nú reyndar stutt, Benedikt var frekar pirraður og nennti ekkert að vera að tala við allt þetta fólk. Stuttu eftir að við komum heim komu vinir hans Árna í heimsókn og það var svo heitt á bakvið hjá okkur að karlarnir skelltu sér út með börnin en ég og Auður röbbuðum bara saman. Semsagt nóg að gera þessa helgina.

Við keyptum okkur miða til Egilsstaða :), förum sunnudaginn 26. júní. Verðum reyndar bara tvær nætur en það er alltaf gott að komast út úr bænum og slappa af, ég tala nú ekki um þegar að maður getur knúsað hvolpa allan tímann. Ég er búin að biðja Árna um að taka mig burt frá hvolpunum þegar að ég vil fá einn með mér heim :). Í fyrsta lagi þá myndi Snúður líklegast fara að heiman ef að við kæmum með hvolp með okkur og mér finnst alveg nóg að sjá um Benedikt, hvað þá einn lítinn hvolp sem nagar allt. Ég veit bara að ég á eftir að gleyma allri rökhugsun þegar að ég sé þá.

mánudagur, júní 04, 2007

Þótt að ég sé ekki lengur með Benedikt á brjósti þá virðist brjóstagjafaþokan ekki alveg hafa yfirgefið mig. Ég fór semsagt út í búð í gær og keypti m.a. tyggjó. Ég var næstum því búin að gleyma að setja það í pokann en mundi eftir því á síðustu stundu. Ég raðaði svo inn í ísskáp og setti einn hlut í frystinn en ekki fann ég tyggjóið. Mér fannst það nú nokkuð skrýtið vegna þess að ég var pottþétt á því að hafa sett það í pokann. Svo opnaði ég frystinn áðan og viti menn, þar lá tyggjóið. Ekki veit ég hvað ég ætlaði að gera við það frosið :).

Í dag eru 15 dagar þangað til að Árni fer í sumarfrí. Oh hvað ég hlakka til, verður endalaust gaman að vera öll 3 saman og hafa það þægilegt. Við ætlum m.a. að fara á Snæfellsnesið í gömlu sveitina mína en þar verður reunion. Fríða (konan sem mamma var hjá í vist) og öll börnin hennar + makar + barnabörn eru að fara að hittast og Fríða bauð okkur öllum að koma líka. Þetta verður enginn smá hópur þar sem að Fríða á 9 börn á lífi og barnabörnin eru auðvitað eitthvað fleiri. Það verður rosa gaman að hitta þau öll í einu, held að það séu um 10-12 ár síðan að ég hitti þau öll saman.

Svo langar mig alveg rosalega að kíkja aðeins til Bergþórs pabba í nokkra daga. Planið er þá að fljúga á Egilsstaði og pabbi myndi sækja okkur þangað. Það eru bara ca. 2 tímar á milli Bakkafjarðar og Egilsstaðar þannig að þetta væri mjög passlegt fyrir Benedikt. Ekki skemmir það svo fyrir að Tinna, hundurinn hans pabba, var að eignast hvolpa á föstudaginn, alveg 6 stykki (reyndar voru þeir 8 en tveir þeirra fæddust andvana). Mig langar svo mikið að sjá þá og knúsa, litlu krúttin. En Árni er ekki alveg viss um þetta, heldur að Benedikt verði eitthvað erfiður en það verður þá bara að hafa það. Ég ætla ekkert að hætta að gera þá hluti sem mig langar til þótt að ég sé komin með börn. En við sjáum bara til, Árna langar auðvitað að fara líka þannig að líkurnar eru nú meiri að við förum en ekki.

Við kíktum svo í bíó í gær, á Spiderman 3. Hún var ekki alveg að gera sig, fannst hún mikið lélegri heldur en hinar 2 og við sáum eiginlega bara eftir peningnum. Hins vegar finnst mér svo pirrandi þegar að foreldrar taka ung börn með sér á svona myndir. Myndin er frekar löng eða ca. 2 og hálfur tími og börnin voru löngu hætt að nenna að sitja kyrr. Það var m.a.s. einn sem stóð allan síðasta hálftímann og var endalaust að vesenast og pabbinn gerði ekki neitt. Og það er nú ekki eins og þessi mynd sé eitthvað barnvæn, mikið af ofbeldi í henni. Skil heldur ekki þegar að foreldrar kenna ekki börnunum sínum að í bíói á ekki að tala. Ég skil mjög vel að börn hafa mikla þörf fyrir að tjá sig þegar að þau sjá eitthvað flott og ég er ekkert að tala um að þau eigi að vera gjörsamlega þögul allan tímann en þegar að þau tjá sig eftir hvert einasta atriði þá er það orðið mjög pirrandi. Og foreldrarnir sussa ekki einu sinni á þau, hugsa greinilega ekki um að það eru fleiri í bíó en bara þau.