Árni er kominn í frí sem er megin ástæðan fyrir lélegu bloggstandi þessa dagana. Við erum búin að vera ágætlega dugleg í fríinu. Byrjuðum á því að fara til Bergþórs pabba seinustu helgi. Hvolparnir hennar Tinnu eru auðvitað langsætastir, var nú reyndar fljótt læknuð af því að fá einn með mér heim því að þeir væla frekar mikið og ég nenni ekki að vakna við þá á nóttunni svona loksins þegar að Benedikt sefur vel :). Það er alltaf jafn æðislegt að komast í sveitasæluna enda er ég algjör sveitakerling. Eftir að við komum heim erum við búin að fara í fyrsta skipti í Smáralindina öll fjölskyldan, niður á tjörn að gefa öndunum og í heimsókn til Þuríðar og Steina til að sjá litla prinsinn þeirra. Í næstu viku er reyndar lítið planað, við kíkjum kannski í einhverja dagsferð út á land og svo langar okkur að fara í Húsdýragarðinn. Það er alveg æðislegt að hafa Árna heima allan daginn, frábært að við getum bara dúllað okkur öll 3 saman.
Við erum búin að vera að kíkja á dagmömmur fyrir Benedikt og fundum eina sem okkur líst mjög vel á. Hún sagði okkur þær "skemmtilegu" fréttir að þar sem að við Árni eigum rétt á 9 mánaða fæðingarorlofi samtals þá byrjar Hafnarfjarðarbær að greiða niður fyrir Benedikt þegar að hann verður 9 mánaða. Þeir ætlast semsagt ekki til að foreldrar taki einhvern hluta eða allt fæðingarorlofið saman. Við lendum nú ekkert svakalega illa í þessu, Árni fer aftur að vinna þegar að Benedikt er 8 og 1/2 mánaða þannig að þetta verða eitthvað um 3 vikur ef að við tökum aðlögunina með. Málið er bara að við vissum þetta alls ekki og þetta kemur ekki neins staðar fram á vef Hafnarfjarðar. Ótrúlega fáránlegt þetta kerfi. Við vorum í raun bara heppin að við skiptum þessu akkúrat svona á milli okkar, við vorum m.a.s. fyrst að spá í að Árni myndi vera heima allan fyrsta mánuðinn með mér en hættum svo við það, vildum frekar að Benedikt yrði eldri þegar að hann færi til dagmömmunnar. En það þýðir víst lítið að velta sér upp úr þessu, okkur finnast bara mjög hallærislegt að þetta komi ekki neins staðar fram.
laugardagur, júní 30, 2007
Birt af Inga Elínborg kl. 6/30/2007 10:33:00 e.h.
|