Við hjónin fórum í dag og heimsóttum Helgu, Frey og litla prinsinn á spítalann. Oh maður er ekkert smá sætur, alveg eins og mamma sín :).
Annars fór mestallur dagurinn í að hjálpa Sollý systur að tæma íbúðina sína en hún flytur til Englands á þriðjudaginn. Frekar skrýtið að hugsa til þess að hún og börnin hennar séu að flytja til annars lands og missa af uppvexti barnanna en maður verður bara að vera duglegur að heimsækja þau. Vona bara að þeim eigi eftir að líða vel.
Á morgun er svo afmælisboð hjá Ingibjörgu skvís, alltaf gaman að vera boðin í afmæli og hitta vinkonurnar. Ingibjörg er orðin svaka myndarleg enda komin ca. 32 vikur á leið með annað barnið sitt. Það eru allir annaðhvort ófrískir eða með nýfædd börn í kringum okkur þessa dagana :) sem er bara skemmtilegt því að það er svo yndislegt að knúsa þessi litlu kríli.
laugardagur, apríl 29, 2006
Birt af Inga Elínborg kl. 4/29/2006 11:03:00 e.h. |
fimmtudagur, apríl 27, 2006
Pabbi minn á afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku pabbi. Við erum einmitt á leiðinni þangað í smá afmæliskaffi, alltaf svo gaman að hitta öll systkinin og systkinabörnin í einu :).
Annars komu stelpurnar til mín í gær og við byrjuðum að plana gæsapartýið hennar Helgu, oh hvað við skemmtum okkur vel við að skipuleggja. Verðum nú ekkert alltof kvikindislegar en samt smá, tíhí.
En vonandi eigið þið öll góða helgi, helgin hjá mér samanstendur af flutningum og ritgerðarskrifum, ótrúlega skemmtilegt.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/27/2006 05:48:00 e.h. |
miðvikudagur, apríl 26, 2006
Kl. 1:03 í nótt kom litli prinsinn þeirra Helgu og Freys í heiminn, 17 merkur og 54 cm. Innilega til hamingju með soninn og við hlökkum mikið til að sjá þann litla og knúsa ykkur öll.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/26/2006 09:40:00 f.h. |
sunnudagur, apríl 23, 2006
Það er enginn tími til að skrifa þessa blessuðu ritgerð því að maður er alltaf svo upptekinn við að hitta annað fólk :). Skemmti mér þvílíkt vel á miðvikudaginn með Jósu, fórum fyrst á Kaffibrennsluna og spjölluðum um heima og geima. Ég spurði hana svo hvert hana langaði að fara og hún sagði Glaumbar (greinilega búin að smita hana) þannig að við kíktum þangað. Reyndar var nú eitthvað voðalega dauft þar inni þannig að við fórum bara fljótlega heim.
Á föstudaginn buðu Helga og Freyr okkur og Karen & Grétari í mat. Reyndar komst Árni ekki vegna deadline á einhverju í sambandi við ritgerðina en við skemmtum okkur bara líka fyrir hann. Helga er orðin þvílíkt mikil um sig enda komin viku framyfir í dag, þeim er nú eitthvað farið að lengja eftir litla krílinu.
Í gær var svo þrítugsafmæli hjá henni Beggu, geðveik íbúð sem þau búa í, frábærar veitingar og vínið flæddi út um allt. Fórum svo niður í bæ þar sem að ég hitti Hrönn og við skelltum okkur einu sinni enn á Glaumbar og dönsuðum eins og við fengjum borgað fyrir það. Ekkert smá gaman.
Svona í lokin þá langar mig:
* að fá Snúðinn okkar aftur á heimilið, minnst 9 mánuðir í að það gerist :(
* að eiga einhvern pening og fara þá til Bandaríkjanna í verslunarferð
* að geta keypt okkur bíl
* að geta keypt okkur íbúð
* að ég væri búin með ritgerðina og komin með framtíðarvinnu
En þegar að maður lítur á björtu hliðarnar:
* á ég yndislegan mann sem tekst alltaf að peppa mig upp þegar að ég er í svartsýniskasti
* á ég frábæra vini og fjölskyldu
* við erum flutt aftur til Íslands
* erum við alveg að verða búin með námið okkar
* bara mánuður eftir af ritgerðarvinnu
* er sumarið alveg að koma og með því fylgir grillmatur, matarboð, útilegur o.fl.
* er ég komin með sumarvinnu
Og þar sem að peningar geta ekki keypt hamingju eða vini & fjölskyldu sem styðja okkur í öllu sem að við gerum og alltaf er hægt að leita til þá vega björtu hliðarnar þó nokkuð mikið meira og því verður maður bara að vona að allt hitt reddist að lokum.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/23/2006 07:40:00 e.h. |
miðvikudagur, apríl 19, 2006
Jæja, páskarnir búnir þetta árið. Það var nóg að gera alla páskana, vorum nú reyndar bara heima á föstudaginn langa en á laugardaginn fórum við í partý hjá Söru skvís. Skemmtum okkur rosalega vel og ég söng m.a.s. nokkur lög í Singstar. Hélt að það myndi aldrei gerast :).
Á páskadag var svo páskaeggjabingó með tengdafjölskyldunni minni þar sem við hjónin unnum samtals 6 egg nr. 1, alveg alltof mikið. Við vorum svo líka búin að kaupa okkur tvö lítil páskaegg þannig að við stóðum á beit eiginlega allan páskadag. Málshátturinn minn passaði rosalega vel við mig: Þangað kemur kötturinn sem honum er klórað.
Svo fór ég í rannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag. Ætla nú ekkert að vera að opinbera af hverju ég fór í rannsókn en langaði bara að tjá mig um hvað starfsfólkið hjá þeim er yndislegt. Þakkaði mér margsinnis fyrir að gefa kost á mér í rannsóknina, Árni þurfti að bíða eftir mér í nokkurn tíma og það var alltaf verið að bjóða honum eitthvað að drekka eða borða og það er svo þægilegt andrúmsloft þarna. Maður býst nefnilega ekki við þessu því að starfsmenn á heilbrigðissviðinu eru nú ekki með besta orðsporið varðandi framkomu.
En svo gengur þetta ekki lengur með ritgerðina mína. Ég er einhvern veginn ekki að komast í gírinn með að klára hana. Átti að senda leiðbeinandanum mínum niðurstöðurnar mínar strax eftir páska en er ekki búin að því ennþá. Ætla að miða við að senda honum þær á föstudaginn. En þegar að niðurstöðurnar eru búnar þá er nú einungis umræðan eftir og það er ekkert erfitt að skrifa hana. Verð bara að vera duglegri :).
Hinsvegar ætla ég nú að kíkja út í kvöld, með henni Jósu sálfræðigellu. Hlakka endalaust mikið til að sjá hana og spjalla enda erum við ekkert búnar að hittast síðan í janúar. Fáum okkur kannski nokkra bjóra og svona. Á laugardaginn er svo þrítugsafmæli hjá vinkonu hans Árna þannig að það er bara feikinóg að gera í félagslífinu hjá okkur enda er það langskemmtilegast.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/19/2006 06:03:00 e.h. |
föstudagur, apríl 14, 2006
Búin að ætla að vera svo dugleg að læra en það hefur ekki alveg gengið eftir.
Fór með Helgu til Ástu og Ívars á miðvikudaginn til að skoða litlu snúlluna þeirra. Maður er sko langsætastur með mikið rautt hár og alveg eins og pabbi sinn. Í gær var hún skírð og fékk nafnið Eyrún Ólöf, innilega til hamingju með fallega nafnið þitt snúllan mín. Hún var nú bara hin rólegasta í skírninni nema rétt á meðan þegar verið var að skíra hana.
Um kvöldið fórum við svo til Karenar og Grétars og spiluðum Buzz í Playstation. Þvílíkt skemmtilegur leikur og við veltumst um af hlátri meiri hlutann af kvöldinu. Það er alltaf svo gaman að hitta þau enda söknuðum við þeirra endalaust mikið þegar að þau fluttu frá Árósum.
Í dag er svo stefnan tekin á sumarbústað rétt hjá Flúðum. Ég, Sigga systir og Adam ætlum að kíkja á Bjarklindi og Vigga. Það er svo næs að komast aðeins út í sveitina þótt að það sé bara einn dagur.
En vonandi njótið þið öll páskana. Ég ætla sko alveg að njóta þess að hafa afsökun til að læra ekki en svo byrjar lærdómurinn aftur á mánudag.
Birt af Inga Elínborg kl. 4/14/2006 10:02:00 f.h. |
mánudagur, apríl 10, 2006
Það er svo yndislegt að vera flutt heim. Búið að vera nóg að gera síðan að við komum, hittum m.a. Karen og Grétar í hádegismat á Vegamótum, fórum í kvöldmat til Helgu sem á nú bara að fara að eiga á næstu dögum enda orðin þvílíkt stór :), heimsókn til Hrannar og Axels og kveðjupartý hjá Sollý systur en hún er að flytja til Englands í lok mánaðarins. Við systurnar skelltum okkur einmitt á Glaumbar eftir partýið og tókum nokkur dansspor, alltaf gaman að fara á Glaum. Hinsvegar eigum við ennþá eftir að knúsa Snúðinn okkar, komumst ekki til þess í seinustu viku þannig að ég hlakka svaka mikið til að hitta hann á eftir.
Reyndar dó Sóli, hundurinn þeirra Hrannar og Axels, á fimmtudagsnótt. Greyið manns, maður var orðinn svo veikur en við gátum því miður ekki kvatt hann. En honum líður allavega betur núna.
Svo er pínku skrýtið að hugsa til þess að maður þurfi að fara að læra. Alltaf þegar að við höfum komið til Íslands þá höfum við verið í fríi en nú þýðir það ekki. Aðeins 45 dagar þangað til að ég þarf að senda ritgerðina til Danmerkur. En hinsvegar verður nóg að gera næstu daga til að lyfta sér upp. Skírn hjá Ástu og Ívari á fimmtudag, spilakvöld á fimmtudagskvöld, partý á laugardag og svo auðvitað páskaeggin :).
Birt af Inga Elínborg kl. 4/10/2006 10:05:00 f.h. |
fimmtudagur, apríl 06, 2006
Jæja þá erum við lent á Íslandinu góða :). Þvílíka rokið sem tók á móti okkur, alveg ekta íslenskt veður. Enda fann ég alveg svona: Ég er komin heim tilfinningu, kannski smá væmið en hey maður má það stundum.
Annars voru síðustu dagarnir okkar rosalega fínir. Mánudagurinn var náttúrulega bara rugl, vöknuðum kl. 7 og vorum á fullu allan daginn að flytja og þrífa. Edda var svo yndisleg að koma og hjálpa okkur að þrífa, takk aftur Edda mín. Bjargaðir okkur alveg. Vorum svo ekki komin til Hildar og Konna fyrr en um hálftíu um kvöldið. Rotuðumst um leið og höfuðið snerti koddann.
Þriðjudagurinn var rosalega næs, ég og Hildur röltum niður í bæ og kíktum í nokkrar búðir. Fórum svo á CuCos um kvöldið þar sem að við hámuðum í okkar þennan geðveika mat. Fékk mér svo girnilega súkkulaðiköku í eftirrétt að allir fylgdust með hverjum bita sem ég setti upp í mig :). Svo var bara farið heim til Hildar og Konna þar sem Árni hélt sirkussýningu fyrir okkur, smá einkahúmor. Vöknuðum kl. 6 á miðvikudeginum og fórum í lestina. Takk enn og aftur elsku Hildur og Konni fyrir að leyfa okkur að gista, skemmtum okkur geðveikt vel með ykkur. Fullkominn endir á Árósardvölinni :).
Birt af Inga Elínborg kl. 4/06/2006 09:42:00 f.h. |
sunnudagur, apríl 02, 2006
Síðustu dagarnir hérna í Árósum eru búnir að vera algjör snilld. Fór og hitti leiðbeinandann minn á fimmtudaginn, hann er mjög ánægður með það sem ég er komin með en skellti jafnfram þeirri sprengju á mig að ég þarf að skila 1. júní í stað 1. júlí. Hann var meira að segja það bjartsýnn að stinga upp á að kannski vildi ég bara skila 1. maí. En ég þarf semsagt að skila 1. júní vegna þess að hann verður gestafyrirlesari í allt sumar á Ítalíu. Ég fékk nú smá áfall fyrst en eftir að ég skoðaði það sem ég er búin með þá verður þetta minnsta málið :). Hlakka bara meira til að skila henni mánuði fyrr.
Ég kíkti á uppáhaldskaffihúsið mitt með Eddu á föstudaginn þar sem við töluðum um allt mögulegt, alltaf jafn gaman að hitta hana og spjalla aðeins og ekki spillti fyrir að ég gæddi mér á frábæru ostakökunni frá Baresso á meðan :).
Á laugardaginn vorum við hjónin rosa dugleg að pakka og ganga frá ýmsum hlutum en ég ákvað svo að skella mér í afmæli hjá Kötu í sálfræðinni. Vá hvað ég skemmti mér vel. Partýið var frábært, allur hópurinn fór svo niður í bæ á stað sem heitir Römer (minnir mig) og þar var besta tónlist sem ég hef heyrt á skemmtistað hérna í bæ. Við vorum stanslaust á gólfinu í tæpa 3 tíma. Kom heim um hálfsex en var svo vöknuð kl. hálfellefu, ótrúlega hress. Dagurinn í dag fer í að ganga frá stóru hlutunum okkar og svo byrjar helsta skemmtunin, þrifin!!
Birt af Inga Elínborg kl. 4/02/2006 10:03:00 f.h. |