laugardagur, maí 31, 2003

Voðalega langt síðan að maður hefur skrifað. Enda er ekkert að gerast, maður vaknar, fer í vinnuna og svo aftur heim. Ég er reyndar búin að fá tvær einkunnir í viðbót, fékk 7,0 í Þroska og lífstíðarþróun og svo fékk ég 7,5 í Vinnusálfræði. Bara frekar sátt. Núna ég ég bara eftir að fá 1 einkunn, jibbí. Reyndar kvíði ég dálítið fyrir því en það verður bara að koma í ljós hvernig það fer.
Árni er alveg að mygla á Ítalíu, ég skil hann ekkert smá vel. Hann fékk mail frá skólafélaginu í HR um að það vantaði sumarstarfsmenn í vinnu hjá Hug. Hann sótti auðvitað um þar og fær svar í næstu viku. Núna er bara að vona að hann fái þá vinnu. Ömurlegt að vera á svona vöktum, hann er til dæmis að vinna alla helgina, alveg ótrúlega pirrandi.
Svo er partý á morgun hjá Ingu og Bigga. Karen er búin með ritgerðina sína og skilaði henni í dag, til hamingju krúttið mitt. Þannig að við fáum að sjá hana á morgun. Ég er ekki búin að sjá hana geðveikt lengi, maður rétt sá hana í afmælinu hjá Ingu og svo ekkert meir.
En þetta er svona about it, ég hef bara ekkert meira að segja. Kannski hef ég eitthvað meira að segja eftir partýið á morgun. Góða helgi.

sunnudagur, maí 25, 2003

Eurovision búin þetta árið og Birgitta stóð sig ekkert smá vel. Hún geislaði bara á sviðinu, að mínu mati. Og 8-9. sætið er mjög gott. Samt vorum við öll brjáluð hjá Rannveigu og Sverri, þetta er svo mikil klíka. Eins og til dæmis Belgía og Austurríki, þetta voru hörmuleg, hörmuleg lög. Belgía með eitthvað lag sem var á tilbúnu tungumáli og það er nú ekkert hægt að segja neitt annað um Austurríki en að þetta hafi verið hræðilegt. Vinningslagið var allt í lagi, ég hefði nú samt frekar viljað að Svíþjóð hefði sigrað, en mér fannst nú skárra að Tyrkland sigraði heldur en Belgía eða Rússland. Þetta lag hjá Rússum var alveg eins og eitt lag sem að þær hafa sent frá sér. Mér fannst bara líka skrýtið að miðað við að þær eru búnar að gefa skít í keppnina að samt fá þær geðveik mörg stig og lagið ekki það gott.
En það var rosalega gaman að hittast í grillpartýinu, maður er ekkert búin að sjá vinina svo lengi. Ingibjörg er orðin geðveikt stór, enda á hún bara að eiga eftir 10 vikur. Og þá kemur í fyrsta skipti lítið kríli inn í vinahópinn, gaman gaman.

laugardagur, maí 24, 2003

Við fórum til Hrannar og Axels í gær og borðuðum alveg yndislegan mat. Við grilluðum svínahamborgarahrygg og hann var geðveikt góður. Og ég er meira að segja ekkert það hrifin af grillmat. Svo var spilað og borðaður ís með súkkulaði- og karamellusósu, nammi nammi namm. Okkur var svo boðið í sumarbústað núna á miðvikudaginn. Gaman gaman, núna veit maður að sumarið er komið því að það er byrjað að grilla og maður fer í sumarbústað.
Svo er auðvitað Eurovision í kvöld og það er annað grillpartý hjá Rannveigu og Sverri. Maður verður auðvitað að mæta snemma þangað svo að maður missi ekki af Birgittu. Ég spái henni einhversstaðar í tíu efstu sætin. Maður verður auðvitað að hafa trú á okkar stúlku. En voðalega lítið að segja. Allir bara að skemmta sér vel í kvöld.

miðvikudagur, maí 21, 2003

Við skötuhjúin fórum á Matrix í gær og hún er alveg geðveikt góð. Rosalega mikill hasar og bardagaatriðin eru frábær. Þetta er það eina sem er búið að gerast hjá okkur, maður er ennþá eitthvað svo eftir sig eftir prófin. Maður nennir eiginlega bara að fara heim eftir vinnu og leggjast upp í sófa og gera ekki neitt. Jæja ætlaði bara að tjá mig um Matrix, allir að fara að sjá hana. Skrifa meira þegar að ég hef eitthvað að segja :)

mánudagur, maí 19, 2003

Núna er ég pirruð, ég keypti mér þrjá boli í gær og ég fór í einum þeirra í vinnuna í dag. Þegar að ég kem heim er hann byrjaður að rakna upp og þegar ég tékka á hinum bolunum þá er annar þeirra líka byrjaður að rakna upp. Við fórum í Zöru og þar er okkur sagt að ég megi bara fá aðra í staðinn. Þegar að við athuguðum þá eru til tveir alveg eins bolir og báðir byrjaðir að rakna upp. Þannig að ég fékk bara endurgreitt, takk fyrir takk. Ekkert smá ömurlegt, þetta er ekki í fyrsta skipti sem að þetta kemur fyrir mig í þessari búð. Svo voru þær sem afgreiddu okkur bara frekar pirraðar. En þeirra missir, ég hef allavega voðalega litla löngun til að versla meira þarna.

sunnudagur, maí 18, 2003

Jæja, helgin er búin að vera frekar lengi að líða. Svona er það þegar að maður er einn heima allan daginn, maður nennir ekki að gera neitt. Reyndar fór ég í Zöru í dag og keypti mér þrenna boli sem kostuðu samtals 4.000 kr. Mér fannst það nú ekki mikið, svo er svo gaman að gefa sér eitthvað smá þegar að prófin eru búin.
Ég er samt strax byrjuð að hlakka til næstu helgi, á föstudaginn förum við til Hrannar og Axels og Ásta og Ívar koma líka og við ætlum að grilla hrygg og spila og hafa það geðveikt kósý. Hrönn var nefnilega að vinna rauðvínspottinn í vinnunni sinni (í þriðja sinn!!!) þannig að það verður að drekka það. Reyndar ekki ég og Hrönn af því að við drekkum ekki rauðvín en þá bara eitthvað annað í staðinn.
Svo á laugardaginn verður Eurovisionpartý hjá Rannveigu og Sverri, ég held að það eigi að grilla þar líka þannig að kallinn verður ánægður. Ég er nefnilega ekkert hrifin af grillmat þannig að það er eiginlega aldrei hérna heima. Ég vorkenni honum samt ekki neitt, mamma hans og pabbi eru voðalega dugleg að bjóða okkur í grill af því að þau vorkenna syninum svo mikið!!! En mér finnst það bara fínt af því að ég er svo hrifin af meðlætinu sem er með grillmat, bakaðar kartöflur eru auðvitað bara algjör snilld.
Svo get ég varla beðið eftir þriðjudeginum, þá ætlum við að skella okkur á Matrix reloaded, komumst ekki á mánudeginum af því að þá eru úrslitin í Survivor, geðveikt spennandi.
En ég ætla að fara að fá mér eggjanúðlur með sveppum og papriku, nammi namm. Það er það eina sem ég er búin að elda alla helgina, það er svo leiðinlegt að elda ofan í sig eina. En ég er bara komin með ógeð af súrmjólk, kornflögum og jógúrti þannig að ég ákvað að elda eitthvað smá í kvöld.
Heyrðu, svo var ég geðveikt dugleg um helgina, sippaði 500 sinnum báða dagana og svitinn gjörsamlega lak af mér. Geðveikt góð hreyfing.

föstudagur, maí 16, 2003

Fyrsti vinnudagurinn búinn og hann var alveg ágætur. Fínt að koma í vinnu þar sem að maður kann allt og allir eru voðalega ánægðir að sjá mann aftur. Reyndar var hringt í mig frá Íslandsbanka í dag og mér boðin sumarvinna í þjónustuverinu hjá þeim en ég sagði auðvitað nei. Búin að ráða mig hjá Landsbankanum.
Svo fékk ég fyrstu einkunnina mína í dag, fékk 6,5 í Skynjunarsálfræði. Þetta er kannski ekkert alveg mega einkunn en samt mjög góð miðað við að ég hélt að ég væri fallin í þessu prófi. Kennarinn hlýtur samt að hafa hækkað kúrfuna upp því að allir sem að ég er búin að tala við gekk hörmulega. Það er samt ekki komin nein tölfræði inn á einkunnasíðuna þannig að ég sé ekki hve margir hafa fallið.
Árni fór að vinna klukkan ellefu í dag og verður að vinna til ellefu í kvöld þannig að ég ætla bara að liggja upp í sófa í allt kvöld, fer kannski í heimsókn eða eitthvað. Oh það er svo gaman að geta bara gert eitthvað og hafa ekki neitt samviskubit yfir því að vera ekki að læra.
En ég ætla að fá mér eitthvað að borða. Heyrumst.

fimmtudagur, maí 15, 2003

Ég er búin í prófum, jibbí jibbí jibbí. Og meira jibbí. Seinasta prófið gekk alveg ágætlega, held ég. Það komu semsagt fjórar ritgerðarspurningar og maður átti að velja tvær. Ég gat alveg svarað tveim spurningum en þetta er alltaf svo rosalega huglægt mat, maður veit aldrei hvort að maður er að skrifa akkúrat það sem kennarinn er að leita eftir. En allavega ég er búin í prófum. Strax eftir prófið þurfti ég svo að fara í Bónus, ekki neitt voðalega gaman en ég hef aldrei séð svona lítið í ísskápnum okkar enda erum við ekki búin að fara að versla almennilega í svona viku.
Árni er núna í seinasta prófinu sínu, greyið hann er búinn að vera vakandi í meira en sólarhring, hann kom ekkert heim í nótt. Kom bara heim til að skutla mér í prófið og svo fór hann reyndar í klippingu. Hann byrjar nefnilega að vinna á morgun og verður að líta sómasamlega út. Svo klukkan fjögur er hann búinn í prófum en þá þarf hann að sýna verkefnið sitt og svo eiga þeir eftir að klára um 300 orð af þessari book review. Þannig að þegar að hann kemur heim þá fer hann strax að sofa. Svo byrja ég líka að vinna á morgun. Ég hlakka bara til, sumarið er komið og allir í góðu skapi!!!

miðvikudagur, maí 14, 2003

Á morgun, á morgun er ég búin í prófum!!! Jibbí, það er meira að segja minna en sólarhringur þangað til að prófið byrjar. Ég hlakka svo til að það er ekki eðlilegt.
Það er brjálað að gera hjá Árna núna, hann er búinn að koma heim klukkan fjögur á nóttinni seinustu tvær nætur. Þeir eru að skrifa book review og það má ekki vera minna en 4000 orð, ekkert smá mikið. Svo er hann líka að fara í seinasta prófið sitt á morgun og þarf auðvitað að læra fyrir það en þeir eru ekki alveg búnir þannig að hann getur ekki byrjað strax að læra. Ekkert smá hallærislegt hjá kennaranum að hafa þetta svona mikið.
En ég hef ekkert voðalega mikið annað að segja, ætla að fara að renna núna yfir allt. Ef ég kann þetta ekki núna þá er ekkert að gera við því. En ég vona bara að þetta reddist.

mánudagur, maí 12, 2003

3 dagar eftir í frí, reyndar ekki í frí vegna þess að ég fer strax að vinna. En vinnan er nú skárri heldur en að vera að læra undir próf. Byrja semsagt að vinna 16. maí, vinn þá í einn dag og svo kemur helgi. Helgin verður nú örugglega ekkert spes vegna þess að Árni er að vinna alla helgina, greyið. En svo um Eurovision helgina er hann í fríi og þá verður vonandi gert eitthvað, allavega var Rannveig að tala um að halda smá partý. Það verður frábært að hitta alla vinina aftur, allir búnir í prófum og Inga og Biggi komin aftur heim frá London. Þau eru einmitt bæði búin í prófum í dag, til hamingju með það krúsur.
Ég var alveg sátt við úrslit kosninganna, ég kaus rétt! Reyndar kannski alveg rétt hjá Rannveigu að það þurfi breytingar en ég var ekki alveg tilbúin til að leyfa Samfylkingunni að komast að, veit ekki af hverju. Ég kaus nú Ingibjörgu í borgarstjórann í seinustu kosningum.
Svo í gær þá fórum við til tengdamömmu og mömmu vegna þess að það var mæðradagurinn. Keyptum rosalega flotta blómvendi handa þeim báðum og þær voru ekkert smá ánægðar. Svo fór ég með mömmu til ömmu, greyið hún er orðin dálítið mikið kölkuð. Hún var alltaf að segja að við þyrftum að fara vegna þess að hún væri að fara að sofa, klukkan var sko fjögur um daginn! Hún var líka alltaf að tönglast á því að það væri svo mikið að gera í vinnunni hjá henni við að selja. Hún væri sko söluhæsti sölumaðurinn. Við bara já já. Ég var reyndar í kasti allan tímann, kannski á maður ekki að hlæja að þessu en hún svarar manni bara svo fyndið. Það fyrsta sem hún sagði við mig var: Mikið rosalega ertu lítil! Svo spurði hún mig hvað ég væri að gera og ég sagði að ég væri í skóla og þá sagði hún: Þá gerirðu semsagt ekki neitt og sálfræðin væri svo leiðinlegt fag. Það er samt rosalega erfitt að sjá ömmu sína vera svona og þá kannski sérstaklega erfitt fyrir mömmu að sjá mömmu sína vera orðna svona. En þetta er víst lífið. Ekki mikið hægt að gera við því.

laugardagur, maí 10, 2003

Jæja bara 5 dagar eftir í prófum, ég get varla beðið. Þetta er líka svo ömurlegt fag sem ég er að læra núna, það heitir Persónuleikasálfræði og við erum bara að lesa greinar. Ég hata þannig fög sem er bara með einhverjum greinum, maður fær ekkert nógu góða yfirsýn yfir efnið. Svo er ekki nóg með það að ég þarf að lesa einhverjar 50 greinar heldur er ég að frumlesa þær allar, ég nennti ekkert að lesa í þessu fagi í vetur. Þetta er í fyrsta sinn sem ég er að frumlesa allt efnið og ég er líka frekar stressuð yfir því.
Svo eru auðvitað kosningar í dag. Ég er búin að vera að sveiflast á milli Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins og vissi ekkert hvað ég átti að kjósa. Þannig að ég fór inn á mbl.is og tók svona flokkapróf þar, til að sjá hvaða flokkur ætti best við mig. Niðurstöðurnar komu ekkert á óvart en það er alveg rosalega lítill munur á öllum flokkunum og það kom mér frekar á óvart. Jæja þannig að ég er alveg búin að ákveða hvað ég ætla að kjósa.
Flokkur Samsvörun
Framsóknarflokkur (B) 79%
Nýtt afl (N) 78%
Frjálslyndi flokkurinn (F) 74%
Sjálfstæðisflokkur (D) 73%
Samfylkingin (S) 71%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (U) 70%

Svo ætlaði ég að óska Karen til hamingju með að vera búin í seinasta prófinu sínu í Háskóla Íslands, svo skilar hún bara ritgerð eftir 20 daga og þá er hún komin með B.Sc gráðu í hagfræði, ekkert smá flott.

fimmtudagur, maí 08, 2003

Þriðja og næstseinasta prófið búið og það gekk bara alveg ágætlega. Ég skil samt ekki af hverju maður þarf að hafa 3 heila klukkutíma í að klára 80 krossaspurningar. Ég var búin með allt prófið á hálftíma og var búin að fara yfir allt prófið aftur á 20 mín. Ég þurfti semsagt að bíða í 10 mín til að geta komist út af því að maður þarf að vera inni í prófinu fyrsta klukkutímann. En bara eitt próf eftir og alveg vika í það þannig að ég ætla bara að taka mér frí í dag og í kvöld.
Árni fékk ekki vinnuna hjá Landssímanum, þeir eru bara fífl og aumingjar!!!! Þannig að hann verður að vinna á veitingastaðnum Ítalíu í allt sumar, ekkert voðalega skemmtilegt fyrir hann greyið en samt betra en engin vinna.

miðvikudagur, maí 07, 2003

Jæja ég og Árni fórum í barnaafmælið til Ritu í gær og það hefði nú mátt vera skemmtilegra. Ég hata svona barnaafmæli þar sem að foreldarnir halda að þau þurfi ekkert að hugsa um börnin sín í þann tíma sem afmælið er og standa bara inn í eldhúsi að kjafta. Á meðan eru börnin að leggja allt heimilið í rúst og hlýða ekki neinum. Kannski var ég bara líka svona pirruð af því að ég er í prófum, ég hata þetta helvíti. En núna eru bara 8 dagar eftir.
Við komum heim úr afmælinu eitthvað um sjöleytið og ég sofnaði klukkan átta og svaf alveg til eitt. Þá vaknaði ég við martröð og sofnaði aftur klukkan þrjú og svaf til níu í morgun, mér finnst þetta nú ekki eðlilegt. En eftir því sem maður sefur lengur því þreyttari er maður, það finnst mér allavega. Jæja ætli ég verði ekki að halda áfram að læra, ég fann heimasíðu í gær með krossaspurningum úr einni bókinni og þar sem ég er að fara í krossapróf fannst mér tilvalið að taka próf úr öllum köflunum og mér gekk bara alveg ágætlega í þeim. Sniðugt að hafa svona krossapróf á netinu.

þriðjudagur, maí 06, 2003

Jæja byrjuð að læra fyrir þriðja og næstseinasta prófið mitt. Ég nenni því samt eiginlega ekki. Þetta er nefnilega bara 30% próf og það verða 80 krossaspurningar (ekki dregið niður fyrir rangt svar) í því sem mér finnst bara fínt. Það sem fer í taugarnar á mér að við þurfum að lesa 1200 blaðsíður fyrir þetta próf og það eru tvær heilar bækur. Mér finnst það einum of mikið lesefni fyrir svona lítið vægi. Kennarinn sagði reyndar að hann myndi ekki fara út í smáatriði en samt þá getur maður aldrei treyst kennurum, allavega geri ég það ekki. Ég er samt búin að lesa báðar bækurnar en mér finnst þetta ekkert vera bækur sem hægt er að spyrja út úr með krossum. Ég hata þegar að ég er í einhverjum kúrs á sömu önninni og honum er breytt. Þetta fag hefur nefnilega alltaf verið þannig að það hafa verið tvö ritgerðarpróf þar sem nemendur hafa fengið 10 ritgerðarefni fyrir prófið og svo koma bara 2 af þeim spurningum og þau eiga að svara báðum. Hvert próf gilti semsagt 30%. Núna var semsagt öðru ritgerðarprófinu semsagt breytt í ritgerð sem var allt í lagi en mér finnst rosalega asnalegt að fara í krossapróf úr þessu, sorry hvað ég er pirruð. Bara aðeins að fá útrás.
Rita litla frænka mín á afmæli í dag og er 3 ára, ekkert smá sæt. Til hamingju með afmælið Ritukrútt. Okkur er boðið í afmæli til hennar í dag milli 5-7, ég ætla sko að fara. Reyndar ætla ég ekkert að fá mér neinar kökur af því að ég er í aðhaldi en ég má samt fá mér heita brauðrétti, nammi namm.
Jæja ætli ég verði ekki að fara að renna yfir glósur.

mánudagur, maí 05, 2003

Búin með tvö próf og þá eru bara tvö próf eftir og 10 dagar!!! Jibbí, mér gekk alveg ágætlega í dag, reyndar þoli ég ekki að ég veit aldrei hvernig mér gekk í prófum. En þetta gekk semsagt ágætlega.
Árni er búin að fá út úr 4 fögum og stóð sig ekkert smá vel. Hann fékk 7 í tölvusamskiptum, 7,5 í rekstri upplýsingakerfa, 8 í strjálli stærðfræði og 8,5 í ný tækni, ógeðslega flott hjá honum. Við fórum á Pizza Hut og fengum okkur brauðstangir og pizzu til að fagna þessu, nammi namm.
Ég fór að sjá Adam frænda áðan, hann var að koma úr aðgerð á vörinni og ég var ekkert búin að sjá hann síðan að saumarnir voru teknir úr. Aðgerðin tókst rosalega vel og hann er ekkert smá sætur.
Núna ætla ég að taka mér frí í kvöld og fer svo að læra á morgun fyrir Þroska og lífstíðarþróun en það próf er 8. maí.

sunnudagur, maí 04, 2003

Jæja núna eru kommentin líka komin inn á síðuna mína. Bara að láta ykkur vita.

Heyrðu ég gleymdi að segja í gær að við fórum á X-men á föstudaginn, hún er geðveikt góð og ég mæli með að allir fari á hana.
Eins og ég sagði í gær átti Inga afmæli og við kíktum aðeins til hennar. Það var ekkert smá gaman að hitta alla vinina þótt að það væri bara í stuttan tíma. Það sakaði heldur ekki að fá köku og heitan rétt, ekkert smá gott. Svo var ákveðið að halda grill heima hjá Ingu og Bigga þann 31. maí, ég hlakka ekkert smá til. Þá verður Karen búin með ritgerðina og búin með Háskólann og þá fer maður kannski að sjá hana aðeins meira en maður er búinn að gera.
Svo er ég búin að setja gestabók hérna inn á, beint fyrir neðan linkana á vini mína. Ég ætlaði líka að setja komment en það tókst ekki alveg, kemur bara næst þegar að ég er í stuði að bæta einhverju við. En Rannveig þú hlýtur allavega að vera ánægð með að ég skuli loksins vera komin með gestabók. Og svo eiga auðvitað allir að skrifa í hana, takk fyrir!!!
En núna eru bara 11 dagar eftir, niðurtalningin er það eina sem heldur í mér lífi þessa dagana. En á morgun klukkan hálffimm eru bara tvö próf eftir, þetta fer bráðum að verða búið.
En ég ætla að halda áfram að læra.

laugardagur, maí 03, 2003

Jæja ég er búin að vera geðveikt busy í allan dag. Ég vaknaði snemma og lærði alveg til tólf. Svo fórum ég og Árni til frænda hans Árna sem heitir Einar Loki í afmælisveislu. Svo hitti ég Karen í Kringlunni til að kaupa afmælisgjöf handa Ingu vinkonu, hún á nefnilega afmæli í dag og líka Grétar maðurinn hennar Karenar. Til hamingju með afmælið krúsur. Núna eru þau bæði orðin rosalega gömul eða 24 ára. Híhí ég er bara ennþá lítil 23 ára stelpa.
Svo í kvöld ætlum við aðeins að kíkja til Ingu og Bigga í afmælisveislu, aðeins að hitta vinina, maður sér þá ekki í öllum þessum próflestri enda spjölluðum ég og Karen alveg uppundir þrjúkorter í Kringlunni í dag, aðeins svona að catch up.

föstudagur, maí 02, 2003

Jæja bara 13 dagar eftir af þessu helvíti, ég er samt ekkert í meira lærustuði núna en seinast þegar að ég skrifaði. Maður dettur alveg útúr því að læra þegar að maður er búinn að hafa svona langan tíma fyrir þessi próf, arrg arrg arrg. En það sem er alveg búið að vera að bjarga mér er að Árni náði í tvær fyrstu seríurnar af Sex and The City og ég er búin að vera að horfa á einn og einn þátt. Gott að taka sér frí frá lærdómi og horfa á svona þætti.
Árni var að fá útúr prófinu sem hann var í á miðvikudaginn og hann fékk 10. Ekkert smá flott hjá honum. Svo er hann að fara í enskuprófið vegna vinnunnar í dag, allir að senda góða strauma : )
En jæja ekkert meira að frétta frekar en vanalega. Erum bara að fara í Bónus núna og versla eitthvað fyrir helgina. Ég ætla að kaupa mér nammi svo að mér takist að halda mér vakandi yfir bókunum. See ya.