3 dagar eftir í frí, reyndar ekki í frí vegna þess að ég fer strax að vinna. En vinnan er nú skárri heldur en að vera að læra undir próf. Byrja semsagt að vinna 16. maí, vinn þá í einn dag og svo kemur helgi. Helgin verður nú örugglega ekkert spes vegna þess að Árni er að vinna alla helgina, greyið. En svo um Eurovision helgina er hann í fríi og þá verður vonandi gert eitthvað, allavega var Rannveig að tala um að halda smá partý. Það verður frábært að hitta alla vinina aftur, allir búnir í prófum og Inga og Biggi komin aftur heim frá London. Þau eru einmitt bæði búin í prófum í dag, til hamingju með það krúsur.
Ég var alveg sátt við úrslit kosninganna, ég kaus rétt! Reyndar kannski alveg rétt hjá Rannveigu að það þurfi breytingar en ég var ekki alveg tilbúin til að leyfa Samfylkingunni að komast að, veit ekki af hverju. Ég kaus nú Ingibjörgu í borgarstjórann í seinustu kosningum.
Svo í gær þá fórum við til tengdamömmu og mömmu vegna þess að það var mæðradagurinn. Keyptum rosalega flotta blómvendi handa þeim báðum og þær voru ekkert smá ánægðar. Svo fór ég með mömmu til ömmu, greyið hún er orðin dálítið mikið kölkuð. Hún var alltaf að segja að við þyrftum að fara vegna þess að hún væri að fara að sofa, klukkan var sko fjögur um daginn! Hún var líka alltaf að tönglast á því að það væri svo mikið að gera í vinnunni hjá henni við að selja. Hún væri sko söluhæsti sölumaðurinn. Við bara já já. Ég var reyndar í kasti allan tímann, kannski á maður ekki að hlæja að þessu en hún svarar manni bara svo fyndið. Það fyrsta sem hún sagði við mig var: Mikið rosalega ertu lítil! Svo spurði hún mig hvað ég væri að gera og ég sagði að ég væri í skóla og þá sagði hún: Þá gerirðu semsagt ekki neitt og sálfræðin væri svo leiðinlegt fag. Það er samt rosalega erfitt að sjá ömmu sína vera svona og þá kannski sérstaklega erfitt fyrir mömmu að sjá mömmu sína vera orðna svona. En þetta er víst lífið. Ekki mikið hægt að gera við því.
mánudagur, maí 12, 2003
Birt af Inga Elínborg kl. 5/12/2003 11:53:00 f.h.
|