föstudagur, maí 30, 2008

Við skelltum okkur á Indiana Jones í gær og hún hefði alveg mátt vera betri. Fyrri hlutinn var reyndar mjög trúr gömlu myndunum en svo fór allt út og suður í seinni helmingnum.

Ég var líka svo ósátt við að það var sýnt úr Sex and the city myndinni og ég get liggur við sleppt því að fara á hana núna. Kannski ekki alveg en ég þoli ekki þegar að það er sýnt eiginlega allt það helsta sem gerist í myndinni. En við stelpurnar erum einmitt að fara á hana næsta miðvikudag, hlakka samt mikið til að fara :).

Á morgun eiga Jósa og Danni svo afmæli, sniðugt þegar að makinn á sama afmælisdag þá gleymir maður honum ekki. Þau ætla að halda heljarinnar veislu og Benedikt fer í næturpössun til tengdó, hlakka til að sofa smá út.

Annars misstum við af helstu fréttunum í gær, ég og Árni vorum að keyra þegar að skjálftinn varð og fundum ekki fyrir neinu. Vissum ekki einu sinni að það hefði orðið skjálfti fyrr en mamma hringdi til að spyrja hvort að við hefðum fundið fyrir honum. En sem betur fer skemmdist ekkert hjá tengdó og mikil mildi að enginn meiddist alvarlega.

föstudagur, maí 23, 2008

Miðað við þessi fáu lög sem ég hef heyrt þá ætla ég að spá því að Serbía vinni aftur, finnst lagið þeirra rosalega heillandi. Auðvitað vonar maður að Ísland vinni en ég tel einhvern veginn ekki miklar líkur á því. Samt held ég að við verðum í efstu 10 sætunum. Hinsvegar verð ég alveg hoppandi brjáluð ef Svíþjóð vinnur, finnst lagið alveg óþolandi og það er ekki hægt að horfa á manneskjuna því að hún er svo geimveruleg.

fimmtudagur, maí 22, 2008

Eurovision í kvöld, hlakka svo til að sjá hvernig Eurobandið stendur sig og líka hvort að við komumst í aðalkeppnina. Maður verður nú að hugsa jákvætt. Karen og Grétar ætluðu að koma til okkar í kvöld en svo kemur Karen bara ein því að Grétar ákvað að taka eitthvað ljósmyndanámskeið framyfir okkur, alveg óskiljanlegt :). Ætlum að gera heimagerða pizzu og hafa eitthvað nammigott í eftirrétt.

Fylgdist með keppninni á þriðjudaginn með öðru. Eitthvað hefur áhuginn minnkað á þessu hjá mér, hefði örugglega áður fyrr horft mjög stíft á keppnina og oftast hef ég kunnað flest lögin utanað um þetta leyti en ekki núna. Er alveg búin að heyra eitt og eitt lag en ekkert í líkingu við áður. Hef vanalega verið búin að mynda mér skoðun á því hver sigrar en þar sem að ég hef heyrt svo fá lög þá ætla ég ekkert að fara út í þá sálma. Hinsvegar held ég að Árni sé mjög ánægður með að hin ýmsu Eurovisionlög hljóma ekki mikið á heimilinu núna, nema auðvitað íslenska framlagið.

Annars er ég komin akkúrat 26 vikur í dag, þetta styttist óðfluga enda stækkar bumban og stækkar. Verður alltaf erfiðara að snúa sér á nóttunni, tekur alveg 5 mínútur að snúa sér, koma púðanum aftur fyrir á milli lappanna og koma sér þægilega fyrir. Örugglega mjög fyndið að fylgjast með manni.

föstudagur, maí 16, 2008

Ég þoli ekki hvað matarmál manns verða allra mál þegar að maður er óléttur. Samstarfsfélagar mínir eru mjög duglegir að láta mig vita þegar að ég er ekki að borða nógu hollt að þeirra mati. Ef ég t.d. kaupi mér nammi þá fæ ég að heyra að ég ætti nú helst ekki að vera að borða svona. Í morgun var föstudagskaffi og það er vanalega franskbrauð/heilhveitibrauð en í morgun var ekkert þannig, bara rosalega gróft brauð og ég kem því hreinlega ekki niður. Hef aldrei getað það, bara frá því að ég man eftir mér. Ég segi: Hva, ekkert franskbrauð/heilhveitibrauð í dag og þá er bara sagt á móti: Þetta er mikið hollara fyrir þig, þegiðu bara og borðaðu. Oh, það sauð á mér, ég var svo reið enda lét ég heyra í mig en enginn virtist taka mark á mér. Allir hafa örugglega hugsað að þetta væru bara hormónarnir. Ég á hinsvegar föstudagskaffið næst og ég er alvarlega að spá í að kaupa bara franskbrauð og sjá hvað allir segja þá. Ég var hinsvegar svo reið og sár í morgun að ég bað um frí það sem eftir var dagsins og var heima að slappa af.

fimmtudagur, maí 15, 2008

Við hjónin fórum á Iron man í gær og vá hvað hún er góð. Skemmtum okkur alveg konunglega þrátt fyrir að minnstu munaði að við hefðum misst af byrjuninni. Árni segir við mig að myndin sé í sal 2 og við setjumst þar. Horfum á auglýsingarnar á undan en svo byrjar allt í einu Prom Night sem er einhver hrollvekja. Ég horfi auðvitað stórum augum á Árna sem kíkir á miðana og þá er Iron man í sal 4, ég var nú pínku pirruð á Árna þegar að við vorum að labba á milli salanna en sem betur fer misstum við ekki af neinu. En við mælum alveg með myndinni og Robert Downey jr. er svo flottur :).
Næst verður farið á Indiana Jones og svo Sex and the City, hlakka mikið til.

fimmtudagur, maí 08, 2008

Var í mæðraskoðun nr. 3 í dag og allt kom vel út. Ljósan vildi reyndar senda mig í sykurþolspróf vegna þess að ég var yfir kjörþyngd þegar að ég varð ófrísk og ég fer í það eftir 3 vikur. Allavega betra að vita að vel sé fylgst með manni heldur en hitt.

Annars gengur allt voðalega vel, litli stubburinn reyndar búinn að vera smá veikur. Fékk nefnilega eyrnabólgu í kjölfarið á flensunni en hann er kominn á sýklalyf og líður strax mikið betur.

Fór í afmæli/saumó til Ingibjargar vinkonu í gær, alltaf gaman að hitta vinkonurnar og spjalla saman. Fengum rosa góðan mat og enn betri eftirrétt :). Annað kvöld er svo hittingur hjá öðrum bumbulínuhópnum mínum, hlakka rosa til að hitta þær og spjalla um óléttuna. Svo að maður kaffæri ekki þá í kringum sig (misáhugasama) í ýmsum mjög áhugaverðum pælingum um meðgönguna.

Við fengum úthlutað bústað frá Íslenskri erfðagreiningu í dag, förum í hann 18. júlí eða sama daga og ég fer í sumarfrí. Það verður ekkert smá næs að komast í sumarbústað í heila viku, ekki spillir fyrir að hann er í Hvalfirði þannig að það er ekki langt að keyra.

fimmtudagur, maí 01, 2008

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er fylgi Samfylkingarinnar dottið niður um heil 7% en Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað, þ.e.a.s. miðað við síðustu könnun. Einnig kom fram að vinsælasti ráðherrann er í röðum Samfylkingarinnar en óvinsælasti er úr Sjálfstæðisflokknum. Ég skil ekki þá sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn, þó að allt sé að fara fjandans til í þjóðfélaginu þá "bitnar" það alltaf á samstarfsflokki þeirra. Ég kaus hvorugan flokkinn þannig að þetta fylgistap eru bara góðar fréttir fyrir mig en mér finnst þetta bara svo hallærislegt. Mér finnst að þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn ættu ekki að trúa á hann í blindni (eins og þeir virðast gera), ekki eru þeir að gera góða hluti þessa dagana.