Mér finnst svo æðislegt hvað Íslendingar standa vel við bakið á Magna. Það er alveg yndislegt að vera frá svona litlu landi og upplifa samkenndina og hvað við erum að rifna úr monti þegar að einhverjum Íslending gengur vel út í hinum stóra heimi. Ég var svo stolt í gærkvöld þegar að Magni gat einn setið öruggur um að komast áfram en allir hinir höfðu einhvern tímann verið í neðstu þremur sætunum, alveg frábært í alla staði :).
Við hjónin ákváðum svo að kaupa okkur miða til Árósa í október. Förum á fimmtudegi og komum aftur á sunnudegi. Hildur og Konni ætla að vera svo yndisleg að leyfa okkur að gista hjá þeim. Ég hlakka svo til að hitta vinina, labba Strikið, fara á Baresso og fá mér ostaköku, kíkja í H&M og bara hafa það náðugt.
Annars fáum við íbúðina afhenta á morgun, ótrúlegt hvað tíminn er búinn að líða hratt. Fáum íbúðina afhenta á hádegi og Árni fékk frí eftir hádegi á morgun, býst við að hann fari bara í það að ferja alla kassana sem stellið okkar er í. Vil helst ekki að aðrir komi nálægt þeim kössum, held að ég sé dálítið lík Monicu í Friends stundum :).
fimmtudagur, ágúst 31, 2006
Birt af Inga Elínborg kl. 8/31/2006 07:50:00 e.h. |
miðvikudagur, ágúst 30, 2006
Árni fór að spila með strákunum í gær og kom ekki heim fyrr en um þrjú. Ég glaðvaknaði þegar að hann kom heim þannig að ég ákvað bara að fara á netið og kjósa Magnííí. Horfði líka á hann syngja og vá hvað þetta var flott hjá honum. Live er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum og mér finnst hann syngja ótrúlega líkt söngvaranum. Ég er nú reyndar frekar þreytt í dag, sofnaði nefnilega ekki aftur fyrr en um fimm. En alveg þess virði :).
Birt af Inga Elínborg kl. 8/30/2006 08:19:00 f.h. |
þriðjudagur, ágúst 29, 2006
Ég skemmti mér svaka vel um helgina, verst hvað hún leið fljótt. Það var rosa gaman að fara í þrítugsafmælið og hitta alla fjölskylduna, suma hefur maður ekki séð í mörg ár.
Á sunnudaginn var litli kúturinn skírður og fékk nafnið Ólafur Matti. Ólafur í höfuðið á móðurafanum og Matti í höfuðið á pabba sínum. Innilega til hamingju með fallega nafnið þitt, sæti strákur. Í veislunni var hann svo tekinn úr kjólnum og settur í matrósaföt, alveg algjör dúlla.
En bara 3 dagar í afhendingu, þetta er alveg að bresta á. Fórum í Ikea í gær og keyptum okkur nýtt áklæði á sófann okkar. Það átti að kosta 40.000 en þar sem að bara sýnishornaeintakið var eftir fengum við 40% afslátt og það sést ekkert á því. Ógó gaman að spara alltaf dálítið.
Birt af Inga Elínborg kl. 8/29/2006 08:06:00 f.h. |
föstudagur, ágúst 25, 2006
Ég er svo ánægð með að það sé kominn föstudagur. Það verður nefnilega nóg að gera um helgina, annað kvöld er þrítugsafmæli hjá frænda mínum og á sunnudaginn verður litli kútur þeirra Matta og Þórdísar skírður. Hlakka svo til að vita hvað hann á að heita. Skírnin verður í Þingvallakirkju og veislan á Hótel Valhöll, alltaf gaman að fara þangað.
En annars er bara vika í afhendingu, trúi varla að það sé svona stutt í þetta. Við fórum einmitt til Snúðsins okkar í fyrradag, í seinasta skipti áður en við tökum hann til okkar. Fengum leyfi til að sækja hann sunnudaginn 3. september svo að hann fái smá tækifæri til að venjast okkur aftur. Hann er nú reyndar orðinn algjör feitabolla, ekki skrýtið þar sem að hann fær ekkert að fara út. Vona bara að hann eigi eftir að þýðast okkur aftur, reyndar kemur hann alltaf til okkar þegar að við komum að heimsækja hann og vill að við klöppum sér þannig að þetta verður vonandi lítið vandamál.
Birt af Inga Elínborg kl. 8/25/2006 09:42:00 f.h. |
þriðjudagur, ágúst 22, 2006
Helgin var svaka fín. Fórum fyrst út að borða með Karen og Grétari á Enricos, fengum voða gott að borða. Sýningin sjálf var rosa flott, skemmtum okkur alveg mjög vel yfir henni. Náði einmitt í nokkur lög úr sýningunni þegar að við komum heim :).
Á sunnudaginn kíktum við svo í Tekk og löbbuðum út með 6 borðstofustóla og eitt borðstofuborð :). Fengum 40% afslátt og erum bara svaka ánægð með það. Alltaf svo gaman að kaupa húsgögn, sérstaklega á svona góðum afslætti.
En annars styttist alltaf í flutninga, jei jei jei. Get varla beðið eftir að sofa í íbúðinni okkar og knúsa Snúðinn okkar endalaust mikið.
Birt af Inga Elínborg kl. 8/22/2006 08:50:00 f.h. |
föstudagur, ágúst 18, 2006
Í fyrsta skipti í 20 ár er ég ekki að fara í skóla í haust. Það er svoooo skrýtin tilfinning. Mér fannst alltaf svo gaman að kaupa bækurnar og ég hlakkaði til að byrja að lesa þær, sérstaklega eftir að ég byrjaði í sálfræðinni. Reyndar varð maður alltaf pínku leiður á að vera í skóla, ef maður fékk slæma próftöflu eða verkefnin hrúguðust upp en á heildina litið var þetta æðislegur tími. Ef maður nennti ekki í tíma þá gat maður bara sofið út og hvílt sig en það er ekki hægt þegar að maður er að vinna. Mér finnst samt pínku erfitt að venjast tilhugsuninni að ég verð "bara" að vinna næstu mánuði. En það er líka gott að hugsa til þess að ég á frí um allar helgar og þarf ekki að hafa áhyggjur af prófum eða skrifa ritgerð.
Annars er vikan búin að vera rosalega fín. Kvefið er eiginlega alveg farið, sem betur fer. Fór með Jósu út að borða á þriðjudaginn, alltaf svo gaman að hitta hana og spjalla, takk fyrir kvöldið skvís. Í kvöld verður svo farið á Footloose með Karen og Grétari, hlakka rosa mikið til þess. Það eru alveg ár og dagar síðan að ég hef farið í leikhús. Svo er aldrei að vita nema maður kíki niður í bæ á morgun, allavega til að sjá flugeldasýninguna. En vonandi njótið þið helgarinnar, ég veit að ég ætla að gera það :).
Birt af Inga Elínborg kl. 8/18/2006 09:40:00 f.h. |
þriðjudagur, ágúst 15, 2006
Mér finnst alltaf jafn yndislegt þegar að sumarið er að verða búið. Það verður fyrr dimmt á kvöldin, maður getur byrjað að kveikja á kertum og mér finnst ég finna einhverja haustlykt. Ekki spillir svo fyrir að eftir haustið er svo stutt í jólin sem eru minn uppáhaldstími. Baka, kaupa jólagjafir, skreyta íbúðina, lesa bækur og pússla á meðan maður drekkur jólaöl og borðar konfekt. Ummm, hljómar allt svo kósý. Ég er alveg komin í einhvern nostalgíufíling hérna :). Hlakka líka endalaust mikið til að halda jólin á okkar eigin heimili, við erum ekki búin að geta það síðan árið 2002.
Birt af Inga Elínborg kl. 8/15/2006 06:35:00 f.h. |
sunnudagur, ágúst 13, 2006
Mér hefur sjaldan liðið eins illa eins og undanfarna daga. Á miðvikudagskvöldið fylltist ég allt í einu af kvefi og fékk þvílíkan hita í kaupbæti. Á fimmtudaginn var svo búið að bæta við beinverkjum og hálsbólgu og þar sem að ég gat komið voða litlu niður þá var maginn ekki alveg sáttur við mig þannig að ég kastaði nokkrum sinnum upp. Á föstudaginn leið mér aðeins skár en ákvað að vera bara heima alla helgina til að taka enga sjénsa, vil sko ekki láta mér slá niður.
En það þýðir að ég missti af ballinum með Páli Óskari sem átti að vera á laugardaginn. Við vinkonurnar vorum búnar að plana að fara fyrir löngu síðan en svo fór nú reyndar þannig að þær fóru ekki heldur. Maður er greinilega svo ómissandi, tíhí :).
En semsagt bara veikindafréttir þessa dagana, erum reyndar alveg byrjuð að telja niður í flutningana, styttist óðum. Fórum einmitt í Ikea á þriðjudaginn og skoðuðum fullt. Oh það er svo gaman að flytja í sína eigin íbúð, bara 19 dagar þangað til að við fáum afhent, jibbí!!
Birt af Inga Elínborg kl. 8/13/2006 08:43:00 e.h. |
þriðjudagur, ágúst 08, 2006
Helgin var ekkert smá skemmtileg. Fórum í matarboð til Ástu og Ívars á föstudaginn, fengum geðveikt góðan mat. Sátum svo bara frameftir og spjölluðum saman. Á laugardagskvöldið fórum við á Pirates of the Caribbean, mæli alveg með henni, mjög góð. Á sunnudaginn var svo partý hjá Söru skvís, það var svo gaman hjá okkur að það var ekki farið niður í bæ fyrr en um eittleytið. Reyndar fórum við Árni bara heim því að gærdagurinn var frátekinn fyrir tveggja ára brúðkaupsafmælið okkar.
Ég átti semsagt að sjá um að skipuleggja daginn því að Árni sá um það á seinasta ári. Ég fór með hann í Töfragarðinn á Stokkseyri, ekkert smá sætur garður. Við sáum kettlinga, lömb, geitur, hvolpa, hreindýr og fleira. Alveg yndislegt :). Um kvöldið fórum við svo á Hafið bláa sem er við ósa Ölfusár. Ótrúlega fallegt útsýni og maturinn alveg geggjaður. Árni fékk sér humarsúpu í forrétt og fiskiþrennu í aðalrétt en ég fékk mér humarsúpuna í aðalrétt og ísköku með ferskum ávöxtum í eftirrétt. Nammi namm. Við kíktum svo við hjá Hrönn og Axel á leiðinni heim og spjölluðum aðeins við þau. Alveg frábær dagur.
Birt af Inga Elínborg kl. 8/08/2006 09:34:00 f.h. |
þriðjudagur, ágúst 01, 2006
Við skemmtum okkur ekkert smá vel um helgina, fengum æðislegt veður í Skaftafelli - algjört blankalogn og hiti. Við þræddum svo Austfirðina daginn eftir í geðveikum hita og sól. Vorum komin á Bakkafjörð kl. 6 um daginn og ákváðum að við nenntum eiginlega ekki að vera að keyra alla leið á Kárahnjúka daginn eftir enda hefði það tekið um 7 tíma báðar leiðir. Við vorum svo bara í góðu yfirlæti á Bakkafirði, lögðum af stað snemma á sunnudagsmorgninum og komum við í Búðardal. Fórum í heita pottinn með Hildi og Konna og borðuðum með þeim, ekkert smá gaman. Vorum svo komin heim kl. hálftíu enda vorum við nú frekar þreytt daginn eftir. En rosa skemmtileg ferð.
Árni byrjaði svo hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag, líst svaka vel á vinnustaðinn. Í dag er líka mánuður þangað til að við fáum íbúðina okkar afhenta og 33 dagar þangað til að Snúðurinn okkar kemur til okkar.
Reyndar mun fjölskyldan okkar stækka þann 11. febrúar en þá á litla krílið okkar að koma í heiminn. Við fórum í 12 vikna sónar í dag, fengum að heyra hjartsláttinn og sjá það hreyfa sig. Ekkert smá gaman :). Ég er nú alveg búin að eiga í erfiðleikum með að þaga yfir þessu í 8 vikur en loksins er þessi tími liðinn og maður getur sagt öllum þetta.
Birt af Inga Elínborg kl. 8/01/2006 02:22:00 e.h. |