fimmtudagur, janúar 24, 2008

Eitthvað voðalega lítið að gerast hjá mér þessa dagana, fer í vinnuna og er með fjölskyldunni. Reyndar fór ég ekki í vinnuna í dag vegna þess að ég komst ekki í skóna mína. Fékk einhverja leiðinda vörtu á tábergið á annan fótinn og var að láta fjarlægja hana í gær. Er semsagt búin að vera draghölt í allan dag og gat ekki stigið í fótinn, hvað þá keyra í vinnuna. Fór nú reyndar í saumó í gær enda var ég ekki orðin svo slæm þá. Alltaf gaman að hitta vinkonurnar, spjalla saman og gæða sér á gómgæti.

En EM búið hjá okkur, þeir eru nú samt strákarnir okkar og munu alltaf vera það :). Er rosalega stolt af þeim þótt að þeir hefðu nú alveg mátt spila mikið betur. Vonandi komumst við bara á Ólympíuleikana og stöndum okkur vel. Hinsvegar fannst mér alveg sjást að Alfreð var búinn að taka þessa ákvörðun fyrir mótið, fas hans og hegðun er búið að vera allt öðruvísi á EM heldur en áður.

fimmtudagur, janúar 17, 2008

EM 2008 að byrja í dag, vá hvað ég hlakka til. Hildur og Konni ætla að koma til okkar í kvöld og horfa á leikinn á móti Svíum. Geðveikt stuð.

Annars átti Árninn minn auðvitað afmæli seinasta sunnudag, varð þrítugur. Héldum upp á afmælið á Glaumbar og það heppnaðist bara vel. Ég fór nú reyndar snemma heim en afmælisbarnið hélt áfram djamminu til um 5 um morguninn. Vel af sér vikið, miðað við aldurinn :). Nei, segi nú bara svona.

Hrönn vinkona er svo að útskrifast úr HR á laugardaginn og erum við að fara í smá útskriftarboð af því tilefni. Mamma og pabbi ætla að hafa Benedikt yfir nótt og við hjónakornin ætlum að fara í bíó eða gera eitthvað annað skemmtilegt saman eftir útskriftina. Við fáum alltaf pössun þegar að eitthvað er að gerast en maður er alls ekki nógu duglegur að fá pössun til að gera eitthvað tvö saman þannig að við ákváðum að nýta tækifærið núna.

Annars er það bara EM sem kemst að hjá mér þessa dagana, áfram Ísland!!!!

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Þann 9. janúar 2007 kom Benedikt Einar í heiminn. Fyrir ákkurat ári síðan (+12 tímar) lá ég í rúmi á Fæðingardeildinni, Árni við hliðina á mér en litla karlinum var strax rúllað á Vökudeildina til að fylgjast með blóðsykursfalli. Ég gleymi því aldrei þegar að ég fékk hann á bringuna, svona pínulítill en alveg fullkominn. Hann fékk nú reyndar ekki að liggja lengi þar en pabbi hans fékk að halda á honum í ca. 2 mínútur. Barnalæknirinn var nú orðinn dálítið stressaður um að koma honum á Vöku og var alltaf að reyna að segja Árna að hann yrði að fara núna en Árni tímdi ekki að sleppa honum. Þegar að ég var búin að jafna mig fórum við á Vöku, svona aðeins til að kynnast honum betur en hann svaf bara á sínu græna. Við fórum svo á Fæðingardeildina aftur en ljósmóðirin mín var svo mikið yndi að hún samþykkti sko ekki að láta mig fara á Sængurkvennadeildina þar sem að allar konurnar yrðu með börnin sín hjá sér. Við fengum semsagt að sofa í eina nótt á Fæðingardeildinni, reyndar var nú ekki mikið sofið. Við lögðum okkur um 7 en vorum vakin kl. 8 þegar að Benedikt var rúllað inn. Alveg ótrúlegt hvað maður var þreyttur en jafnframt svo hamingjusamur. Fannst nú frekar skrýtið að vera allt í einu orðin mamma, hann kom líka 5 vikum fyrir tímann og þrátt fyrir að ég hafi farið þrisvar af stað þá vorum við t.d. ekki búin að pæla nógu vel í hvernig við vildum hafa fæðinguna og vorum ekki búin að kaupa neitt sem honum vantaði, fyrir utan nokkrar samfellur og buxur. En hann hefur svo sannarlega dafnað vel undanfarið ár og er auðvitað yndislegastur.

Héldum upp á afmælið hans á laugardaginn og auðvitað mætti heill her til að samgleðjast litla strumpinum. Hann var voðalega ánægður með daginn enda fékk hann heilmikið af nýjum leikföngum og fékk að smakka gulrótarköku í fyrsta skipti :).
Árni fór svo á sælkerakvöld með vinnunni um kvöldið en við mæðginin vorum bara heima og slöppuðum af.

Ég byrjaði svo að vinna hjá Landsbankanum á mánudaginn, er í 87% starfi sem er náttúrulega alveg frábært. Er frá 08:30 - 15:30 þannig að ég er ekki í neinu stressi til að fara með/sækja Benedikt.

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Sofnaði kl. 22:30 í kvöld en vaknaði aftur um eittleytið og hef ekki getað sofnað aftur. Fínt að nota þá tímann í að blogga :).

Jólin og áramótin voru alveg yndisleg hjá okkur fjölskyldunni. Benedikt var reyndar dálítið æstur á aðfangadagskvöld, gat opnað þrjá pakka en þá var bara komið of mikið áreiti og hann var ekki sjálfum sér líkur þannig að við lögðum hann niður til svefns og kláruðum pakkaopnunina í rólegheitum. Fengum fullt af fallegum gjöfum og jólakortum, takk allir fyrir okkur. Litli strumpurinn var búinn að jafna sig daginn eftir og finnst voðalega gaman að leika sér að nýju hlutunum.

Jóladagur og annar í jólum liðu í rólegheitum, fyrir utan jólaboðin tvö sem við förum alltaf í, annað hjá minni fjölskyldu og hitt hjá Árna fjölskyldu. Alltaf gaman að hitta fjölskylduna um hátíðar.
Við fjölskyldan erum öll búin að vera í fríi yfir jól og áramót sem er alveg frábært, höfum verið að dúlla okkur saman og njóta lífsins. Árni byrjar að vinna á morgun og ég þann 7. janúar.

Við borðuðum áramótamatinn í fyrsta skipti saman þetta árið, ég hef alltaf farið til foreldra minna og Árni til sinna en ákváðum að vera bara heima núna og það heppnaðist alveg ljómandi vel. Skaupið fannst mér frekar lélegt, þetta Lost dæmi var ekki að gera sig og það eina sem ég hló að var Lýður Oddsson, alveg frábær karakter.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og friðar á nýju ári. Munum að njóta lífsins og lifa fyrir líðandi stund.