miðvikudagur, september 29, 2004

Ég á bara yndislegustu foreldra í heimi. Mamma hjálpaði mér rosalega mikið að pakka þegar að við fluttum út og ég var alltaf að finna svona pakka frá þeim inn á milli fatnaðs þegar að ég var að taka upp úr töskunum. Ég er t.d. búin að finna nokkrar úrklippur af Ást er, bók og fleira. En við erum semsagt aldrei búin að taka almennilega úr töskunum og núna var loksins komið nóg pláss til að taka alveg úr töskunum og þá fann ég lítið myndaalbúm með ýmsum myndum af mér og Árna, myndir af mér þegar að ég var lítil, brúðkaupsmyndir af okkur, kisumyndir og auðvitað eldgamlar fjölskyldumyndir.
Það var svo yndislegt að sjá þessar myndir (reyndar fékk Árni hláturskast af sumum myndunum af mér þegar að ég var lítil, skil ekkert í honum, ég var svo sæt með kisugleraugun mín ;)). En ætlaði bara að segja takk elsku mamma og pabbi.

Jæja ég vaknaði í morgun og leið mikið betur og ákvað því að drífa mig í skólann. Fór reyndar með strætó því að ég ætlaði ekki að láta mér slá strax niður. En svo þegar að ég kom heim var auðvitað ekkert til að borða þannig að ég ákvað að hjóla í Fotex og kaupa smá inn. Svo fannst mér eitthvað allt í svo miklu drasli þannig að ég tók aðeins til. Voðalega orkurík eitthvað eftir þessi veikindi.
Árni kom svo heim úr skólanum um fimmleytið og um sjöleytið ákváðum við að hjóla í Ikea og klára loksins að kaupa það sem okkur vantar í heimilið. Við keyptum semsagt sófaborð og hornborð, herðatré og lampa. Einnig keyptum við frekar stóra herðaslá því að það er svo lítið pláss í skápunum okkar að þau föt sem þurfa að hanga á herðatrjám komast ekki öll fyrir. Og við reddum þetta allt heim á hjólunum, geðveikt dugleg. Kassinn utan um herðaslána er t.d. 160 cm langur þannig að þetta var frekar erfitt.
Núna sit ég semsagt og blogga :) á meðan Árni er að setja saman herðaslána.
Svo ætlum við að fara að versla jólagjafir á föstudaginn, vei vei vei. Alveg komin í jólaskapið :).

þriðjudagur, september 28, 2004

Minns er aftur orðinn veikur. Ekki gaman. Ég skil samt ekki að ég sem er aldrei veik er núna búin að vera tvisvar veik á einum og hálfum mánuði.
Mér leið semsagt ekkert alltof vel á föstudaginn, var með smá kvef og höfuðverk en ákvað samt að drífa mig í partý með íslensku sálfræðinemunum. Það var ekkert smá gaman, enginn af strákunum lét sjá sig þannig að þetta var bara ekta stelpupartý, mjög fínt.
En svo á laugardaginn leið mér verr og ég er ekki búin að fara út í fjóra daga, er með dúndrandi höfuðverk allan daginn, hellu fyrir eyrunum og stíflað nef. Ég er nú samt að vona að mér fari að líða betur, ég hata að vera veik. Reyndar er einn kostur við það, Árni gerir allt sem ég bið hann um, fer út í búð að kaupa nammi, eldar og vaskar upp ;). En mér finnst samt betra að vera hraust og gera eitthvað sjálf á heimilinu en að líða svona.
Svo var ég að fá frábærar fréttir. Helga vinkona ætlar líklegast að koma hingað 12. - 14. nóv. Jibbí. Hún kemur semsagt spes til að óska mér til hamingju með afmælið, nei kannski ekki alveg. Hún er að fara að verja lokaritgerðina sína í Svíþjóð vikunni á undan og ætlar að koma með lestinni hingað og fljúga svo bara heim frá Köben. Oh hvað ég hlakka til að sjá hana. Það verður ekkert smá gaman.

fimmtudagur, september 23, 2004

Það er eitthvað voðalega lítið að gerast hjá mér þessa dagana. Ég er búin að vera í miklu fríi frá skólanum því að það eru einhverjar ráðstefnur og ráðstefnurnar eru alltaf í salnum sem okkur er kennt í. Þannig að nokkrir kennsludagar eru búnir að falla niður. Það er samt alveg fínt, er búin að vera dugleg að læra. Reyndar er ég nú ekki sátt við það að ég keypti mér áherslupenna í síðustu viku og þeir eru allir búnir!! Skil það ekki alveg, hvað þeir endast stutt. Ég er nefnilega þannig að ég get ekki lesið án áherslupenna, bara eitthvað sem ég er búin að venja mig á, þannig að núna get ég ekkert lesið. Verð að bíða þangað til á morgun þegar að ég kemst í bæinn.
Svo er haustfríið bráðum að skella á, verð í fríi frá 7. - 17. október. Það verður voðalega næs, en ætli maður verði ekki bara heima að lesa. Við getum örugglega ekki skroppið til Kaupmannahafnar vegna þess að Árni er að fara í próf og þarf að skila ritgerð um leið og haustfríið endar.
Reyndar kvíði ég fyrir því þegar að þriðji kúrsinn minn byrjar. Þá fer ég í Vinnusálfræði. Málið er bara að þessi kúrs byrjar 22. október. Þetta eru semsagt umræðutímar þannig að ég verð að gjöra svo vel að skilja dönskuna alveg (og tala hana) því að einkunnin byggist einungis á virkri þátttöku í tímum. Og það er svo stutt í hann og ég er ekki alveg komin á það stig að skilja dönskuna fullkomlega, hvað þá að tjá mig á henni. En þetta hlýtur að reddast, vonum það allavega.

sunnudagur, september 19, 2004

Þessi helgi er búin að vera frábær. Á föstudaginn fór ég og hitti íslensku sálfræðinemana á fyrsta og öðru ári og það var ekkert smá skemmtilegt. Fórum og fengum okkur að borða og fórum svo á nokkra skemmtistaði. Ég fór reyndar snemma heim (til að ná strætó). Ekkert smá fyndið að taka strætó bæði á djammið og heim líka, mér leið eins og ég væri 17 ára :).
Svo lærði ég aðeins í gær en fór svo til Karenar og við höfðum stelpukvöld sem var ekkert smá næs. Við elduðum pizzu, tókum ekta stelpumynd sem heitir Calendar girls og hún var bara geðveikt góð. Svo borðuðum við líka fullt af nammi og við spjölluðum rosalega mikið. Ég gisti svo bara hjá henni fyrst að við vorum einar um helgina og við vöknuðum ekki fyrr en um tólfleytið, alltof seint :). Núna er ég bara komin heim og ætla að fara að læra. Árni kemur svo heim af fótboltamótinu seinna í dag, hlakka svo til að sjá hann.

miðvikudagur, september 15, 2004


Jæja hérna kemur mynd af snoðuðum Árna :). Hann er ekkert smá sætur, finnst ykkur það ekki?
Ég og Karen fórum niður í bæ í dag og versluðum aðeins, ég fann meira að segja búð sem selur Asti Martini og keypti mér eina, vei vei. Svo settumst við aðeins niður á kaffihúsi og fengum okkur heitt súkkulaði og latte, nammi namm.
Svo á föstudaginn er smá hittingur hjá íslensku sálfræðinemunum. Ég ætla nú að fara og hitta þá, það verður örugglega mjög gaman.

mánudagur, september 13, 2004

Það er nú voðalega lítið að gerast hjá mér þessa dagana. Ég er einhvern veginn ekki kominn í lærugírinn ennþá enda er voðalega skrýtið að vera bara í tveimur fögum (þriðja fagið byrjar ekki fyrr en í október). Þegar að maður hefur lítið að gera þá verður maður eitthvað svo latur.
Við gerðum svo mest lítið um helgina. Karen og Grétar komu reyndar í mat á föstudaginn, ekkert smá gaman að fá þau. Við töluðum bara saman og höfðum það næs. Svo snoðaði Árni sig í gær og er ekkert smá sætur :).
Næstu helgi er svo stelpupartý hjá vinkonu hennar Karenar og mér er boðið með, jei. Það verður örugglega mjög gaman.
Árni er svo kannski að fara með Grétari á eitthvað fótboltamót núna um helgina, ég veit reyndar ekkert hvar það verður en þeir munu gista þar alla helgina. Þannig að ég og Karen ætlum kannski að taka videó og hafa það næs (og borða nammi ;)).

miðvikudagur, september 08, 2004

Mamma mín á afmæli í dag, til hamingju með afmælið elsku mamma. Vildi að ég gæti verið heima og fengið kökur ;).
Svo erum við búin að panta ferð heim, jibbí. Við lendum um hálfellefu 22. des og förum aftur 2. jan klukkan hálfþrjú. Frekar stutt en kerfið hjá Árna er svo skrýtið að hann veit ekkert hvenær hann fer í próf fyrr en í lok október og við getum ekki beðið svo lengi með að panta flugið.
Svo er ég líklegast líka orðin veik, samt ekki með sömu flensu og Árni. Ég er með höfuðverk og virðist vera að fá hálsbólgu.

þriðjudagur, september 07, 2004

Árni er orðinn veikur :(. Ekki gaman. Hann vaknaði í morgun og var að deyja úr beinverkjum og er með hita þannig að hann tók því bara rólega í dag enda átti hann ekkert að mæta í tíma. Við ætluðum að bjóða Karen og Grétari í mat en það verður víst að bíða aðeins.
Ég fór í annan tímann minn í dag og var mjög ánægð að heyra að það eiga ekki að vera æfingatímar á miðvikudögum eins og sagt var. Þannig að ég er í fríi á miðvikudögum, vei vei.

mánudagur, september 06, 2004

Var að fá tölvupóst frá mömmu og pabba og þau eru að segja að Snúðurinn okkar hafi þurft að fara til dýralæknis vegna þess að hann var tvíbitinn á vinstra fæti og þurfti að fá deyfingu og sýklalyf. Æ æ greyið manns, ekki gaman að heyra svona þegar að maður er í öðru landi. En þetta á alveg að lagast, vonum bara það besta. Svo þarf maður að vera inni í þrjá daga, maður er nú örugglega ekkert voðalega sáttur við það.

Það eru tveir sem eiga afmæli í dag. Tengdapabbi er 53 ára, til hamingju með afmælið Einar. Svo er það Snúðurinn minn sem er 2 ára í dag, til hamingju með kisuafmælið elsku Snúður minn. Vildi að ég gæti verið heima og knúsað þig.
Annars var bara mjög gaman í dag, fór í skólann klukkan 2 og var til 5. Skildi nú reyndar mest lítið af því sem kennarinn sagði en það hjálpaði til að kennarinn dreifði útprentuðum glærum og þótt að þær væru á dönsku þá skildi maður aðeins meira en ella.
Svo ætlum við að fara í heimsókn til Karenar og Grétars á eftir og við erum búin að bjóða þeim svo í mat á morgun til að þakka fyrir hjálpsemina í þeim þegar að við fluttum hingað.

föstudagur, september 03, 2004

Vá hvað ég var búin á því í dag. Dagurinn hjá mér byrjaði á því að ég hjólaði og hitti Árna á McDonalds (eftir að hann var búinn í skólanum) og við fengum okkur að borða þar. Svo fórum við í Nettó og keyptum smá inn, fórum heim og skiluðum af okkur vörunum sem við keyptum þar. Eftir það var hjólað í Fotex (til að kaupa það sem ekki var til í Nettó) og hjólað aftur heim með vörur. Svo var hjólað aftur í Fotex, hjólin skilin eftir og við keyptum tvo kassa af bjór (einn kassi er með 30 bjórum og kostar 80 dk). Við röltum svo með það heim í innkaupakörfu, svo var aftur farið í Fotex til að skila körfunni og svo hjólað aftur heim. Og það var svo gott að geta fleygt sér í sófann ;).
Skólinn byrjar á mánudaginn og þá er fríið manns víst búið. Eins gott að reyna að snúa sólarhringnum aftur við svo að maður geti mætt ferskur í skólann.

miðvikudagur, september 01, 2004

Jæja þá er ég búin að komast að þessu varðandi skólann. Ég er semsagt alveg komin inn :) mjög ánægð með það (greinilega bara einhver misskilningur hjá mér) og ég byrja næsta mánudag.
Þetta skólakerfi hérna er samt eitthvað skrýtið, ég valdi á milli klínískrar sálfræði og vinnusálfræði (semsagt hvort ég vildi sérhæfa mig í og ég valdi vinnusálfræði) en samt á ég líka að taka einn kúrs í klínískri. Frekar fyndið, ég spurði hana alveg spes út í það hvort að þetta væri örugglega svona og hún sagði margsinnis já þannig að ég er ekkert að misskilja neitt.
Svo spurði ég hana líka af hverju maður ætti að velja á milli þegar að maður fer svo í bæði og svarið hennar var: Svo að maður geti sérhæft sig. Hjálpaði mér voðalega mikið en ég hef litlar áhyggjur af þessu, ég fer hvort eð er ekkert í vinnusálfræði fyrr en á næstu önn þannig að þá verð ég örugglega búin að skilja þetta kerfi.
Stundaskráin mín er fín, er bara á mánudögum (2-5), þriðjudögum (11-5) og svo á miðvikudögum (11-13), mjög gott.
Svo bætist reyndar nokkrum sinnum við að ég á að fara í skólann á föstudögum og verð þá frá 9-4 og svo líka tvo laugardaga en það verður ekki fyrr en í nóvember.
En allavega, ég er mjög ánægð að þetta skuli vera komið á hreint.
Svo er ég alveg búin að finna uppáhaldsstöðina mína hérna, veit reyndar ekkert hvað hún heitir en hún sýnir gamla Beverly Hills þætti á hverjum degi. Maður liggur í kasti alveg ;).
En ætla að fara að horfa á gamla Sex and The City þætti. Knúsíknús.