laugardagur, janúar 27, 2007

Sá þetta á einni bloggsíðu og varð hreinlega að stela þessu :).

Þú ert 90´s kid ef þú:


Þú getur klárað þessa setningu [ice ice _ _ _ _ ]

Þú manst eftir því þegar það var ennþá spennandi að vakna á laugardagsmorgnum til að horfa á barnaefnið...

Þú færð ennþá "urge" til að segja "NOT" á eftir næstumþví öllu

Það var gert út um málin með "steinn skæri blað" eða "ugla sat á kvisti"...

Þegar lögga og bófi var daglegt brauð

Þegar við fórum í feluleik þangað til við gátum ekki meir

Þegar við vorum vön að hlýða foreldrum okkar...

Þú hlustaðir á útvarpið allan liðlangan daginn til að bíða eftir uppáhaldslaginu þínu, til að taka það upp á kasettutækið..

Þú manst eftir því þegar Super Nindendos og Sega Genisis urðu vinsælir

Þú horfðir alltaf á America's Funniest home videos

Þú horfðir á Home Alone 1, 2, og 3 og reyndir að gera sömu trikk

Þú manst eftir því þegar Jójó voru kúl

Þú horfðir á Batman, Aladín, Turtles og Pónýhestana...

Þú manst eftir sleikjóunum sem voru á hring til að hafa á puttanum..

Þú manst þegar það áttu ekki allir geislaspilara

Þú bjóst til gogg þegar þú varst lítill...

Þú áttir tölvugæludýr

...eða Furbie

Þú hefur ekki alltaf átt tölvu, og það var töff að vera með Netið

Og Windows '95 var best

Michael Jordan var aðal hetjan..

Kærleiksbirnirnir

Þú safnaðir lukkutröllum

Og áttir vasadiskó

Þú kannt Macarena dansinn utanað

Þú veist af hverju 23 er kúl tala

Áður en að Myspace varð vinsælt

Áður en Netið kom og enginn vissi hvað sms var..

Áður en ipod kom til sögunnar

Áður en PlayStation 2 og Xbox voru til

Þegar strigaskór með blikkljósum voru málið

Og þú leigðir spólur, ekki dvd

Og það var eiginlega enginn með símanúmerabirti

Og þegar við hringdum í útvarpið til að reyna að fá uppáhalds lagið okkar spilað til að hlusta á í vasadiskóinu

Áður en við áttuðum okkur á því að allt mundi breytast

Hver hefði getað ímyndað sér að við myndum sakna þessara tíma!

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Strákarnir okkar eru að standa sig svo rosalega vel. Maður datt nú reyndar niður í algjört þunglyndi eftir leikinn gegn Úkraínu en eftir leikina gegn Frökkum og Túnis þá er ég alveg í skýjunum. Ótrúlega vel gert hjá þeim. Hlakka til að horfa á næstu leiki.
Sá svo að EM 2008 verður í Noregi næst, aldrei að vita nema maður skelli sér þangað til að sjá nokkra leiki. Eins mikinn áhuga og ég hef á handbolta þá hef ég nefnilega aldrei farið á landsleik og mig langar þvílíkt að sjá einmitt þetta lið spila, þ.e.a.s. áður en Óli fer að hætta. Ætlaði auðvitað á leikinn gegn Tékkum en var upptekin við annað þá :).

Annars er nú mest lítið að frétta, er reyndar að fara í saumó í kvöld. Fyrsta skiptið sem ég fer frá litla prinsinum en það er nú bara af því góða. Er nefnilega ekkert búin að fara út síðan að við komum heim með hann og maður verður svo grár og gugginn eitthvað af því að vera alltaf inni. Feðgarnir verða semsagt bara tveir einir heima, skemmta sér örugglega mjög vel. Árni er svo að fara í vinnuferð á morgun, fer í Hvalfjörð og verður eina nótt. Það verður mjög svo skrýtið að vera ein með litla kút í ca. einn sólarhring en þetta er fín leið til að æfa sig fyrir þegar að Árni verður byrjaður að vinna allan daginn.

Snúðalíusinn okkar er alls ekki að fíla okkur þessa dagana og sérstaklega ekki þegar að litli kútur er nálægt. Skilur ekkert í þessum öskrum og látum sem fylgja svona lítilli manneskju. Þannig að ég og Árni skiptumst á að klappa manni og veita manni athygli, greyið manns, er ekkert að skilja af hverju hann fær ekki alla okkar athygli eins og áður. Heyrðum af einni kisu sem tók svo nærri sér þegar að lítið barn kom inn á heimilið að það var fugl eða mús í rúminu á hverjum morgni í einhverjar 5-6 vikur, var alveg að reyna að sanna sig fyrir eigundunum. Sem betur fer hefur Snúður nú ekki tekið upp á því.

föstudagur, janúar 19, 2007

Oh hvað ég hlakka til um helgina, HM 2007 er að byrja!!! Alveg það skemmtilegasta sem ég veit er að horfa á íslenska handboltalandsliðið keppa. Spurning um að stíla gjafirnar hjá litla kút inn á leikina þannig að ég geti öskrað og hrópað nógu mikið, ekki vill maður bregða honum þegar að maður er að drekka :).

Annars gengur bara ágætlega með hann, maður er reyndar dálítinn tíma að koma sér inn í þessa tveggja tíma rútínu, þ.e.a.s. gefa manni í hálftíma og svo þarf maður að sofa í tvo tíma. Þannig gengur þetta allan daginn nema á nóttunni þá á maður að sofa í ca. 3-4 tíma. Árni er búinn að vera alveg frábær að hjálpa mér, ég skil ekki hvernig einstæðar mæður fara að, ég væri búin að missa geðheilsuna á ekki lengri tíma. En ætla að fara að njóta þess að eiga "frí" í tvo tíma.

miðvikudagur, janúar 17, 2007


Takk allir fyrir hamingjuóskirnar, við erum öll alveg í skýjunum :). Hérna er ein mynd af manni í nýja rúminu sínu.
Við mæðginin erum semsagt komin heim, fengum reyndar að fara heim á laugardaginn en þurftum að fara í tékk á sunnudaginn. Þá kom í ljós að maður var ekki alveg að losna við guluna þannig að við vorum aftur lögð inn en fengum að fara heim í gær. Fórum svo aftur í tékk í morgun og maður er alveg að losna við guluna þannig að við verðum bara áfram heima, sem betur fer. Heima er best.

Hinsvegar erum við ekki alveg sátt við spítalann núna. Hjúkrunarfræðingurinn var nefnilega að koma í sína vikulegu heimsókn, hún var að vinna á vökudeild í 16 ár þannig að hún ætti nú að vera sérfræðingur í fyrirburum. Við erum búin að vera að gefa manni ábót vegna þess að maður er svo latur og maður verður að fá nóg að drekka til að losna við guluna. Litli kútur þarf að drekka alveg 60 ml. per gjöf og við erum búin að vera ca. einn og hálfan tíma að koma því ofan í hann og enginn á sængurkvennadeildinni hefur sagt neitt um að það sé vitlaust. Hjúkrunarfræðingurinn sagði okkur hinsvegar að við værum að ofþreyta hann með þessu og við eigum bara að miða við að hver gjöf taki hálftíma. Við erum búin að vera semsagt að ofþreyta hann í viku, greyið manns og öllum á deildinni hefur bara fundist þetta allt í lagi. En núna ætti maður að fara að verða betri :). Knús til allra.

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Smá update: Maður er kominn með smá vott af gulu og er því kominn í ljós, alveg mesti hnakkinn í fjölskyldunni :) Þetta þýðir að maður verður líklega aðeins lengur uppá deild. Annars er maður duglegur að drekka þó svo maður sé ennþá doldið latur að taka brjóst en það kemur allt saman. Svona af því maður er svo fullkominn kemur hérna smá mynd í kaupbæti (maður sýnir greinilega strax efnilega nörda takta og er helling að pæla eitthvað).
Þungt hugsi
ps. ætla að senda fleiri myndir í emaili, ef ég gleymi einhverjum þá er það ekkert persónulegt heldur er ég bara klaufi. Sendið mér þá endilega meil ef þið viljið myndir og ég skal senda við fyrsta tækifæri. Svo kem ég þessu öllu saman á netið við betra tækifæri.

pps. þeir sem vilja heimsækja geta gert það næstu daga milli kl. 17 og 19. Það væri gott að hringja aðeins á undan sér og láta vita. Það er rétt að taka fram fyrir þá sem ekki vita að börnum er víst ekki hleypt inn á deildina.

kv, Pabbi

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Nýbakaður pabbi skrifar: Litli drengurinn okkar ákvað að drífa sig svolítið að koma í heiminn og fæddist þann 9. janúar 2007 kl. 02:32. Maður vó tæpar 11 merkur og var 48 cm að lengd (fyrst var mælt eitthvað vitlaust og sagt að maður væri 51.5 cm). Fæðingin gekk ósköp vel og tók ekki nema um 4 tíma :), mamma var svo mikil hetja og heilsast afskaplega vel. Fyrst var maður settur í hitakassa og fór á vökudeildina en það leit allt svo vel út að maður var fljótlega útskrifaður þaðan og fékk að vera bara með mömmu og pabba. Svona var maður sætur á sinni fyrstu mynd:

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Litla krílinu virðist liggja eitthvað mikið á að komast í heiminn. Það endar með því að bloggið fer að snúast um spítalaferðir :). Ég fór semsagt upp á spítala 2. janúar með verki og var aðeins byrjuð í fæðingarferlinu (ætla nú ekkert að fara nánar út í það hérna á veraldarvefnum). Ég fékk einhver lyf sem slógu á verkina og var í athugun í tvo daga hjá þeim. Verkirnir hafa ekki komið aftur, sem betur fer þannig að ég er bara komin heim, má ekki vinna lengur og á að hvíla mig mjög mikið. Ég skil nú ekki hvernig hægt er að hvíla sig meira en ég gerði, ég má ekki gera neitt á heimilinu og ligg mest upp í rúmi og svona. Svo er ekki gott að liggja of mikið, heldur verður maður líka að labba um og liðka sig. Annars er markmiðið að ná að halda krílinu allavega inni fram á viku 37 vegna þess að þá flokkast maður ekki lengur sem fyrirburi. Þannig að það eru bara 2 vikur og 2 dagar í að það náist en auðvitað er alltaf best að maður gangi fulla meðgöngu.

Annars var gamlárskvöld voða rólegt hjá okkur, ég var komin upp í rúm kl. 1, voða nótó. Er einhver veginn dottin úr því stuði að fara að djamma á gamlárskvöld, finnst það ekkert skemmtilegt lengur. En allavega gleðilegt ár allir saman, vona að árið 2007 verði ykkur gæfuríkt og að þið njótið lífsins.