mánudagur, desember 24, 2007Litla fjölskyldan á Ölduslóð sendir bestu jólakveðjur með ósk um gleði, gæfu og frið á komandi ári. Vonandi hafið þið það gott á hátíð ljóss og friðar. Jólaknús á alla.

sunnudagur, desember 23, 2007

Þá er allt nokkurn veginn tilbúið fyrir jólin á þessu heimili. Jólatréð komið upp og búið að setja seríurnar á. Hinsvegar er ekki búið að skreyta það enda er hefðin sú að gera það ekki fyrr en á Þorláksmessukvöld. Ég man hvað ég hlakkaði alltaf til að skreyta jólatréð enda var ég eina barnið heima frá 9 ára aldri og var því einráð með skreytingarnar :).
Það eru m.a.s. nokkrar gjafir komnar undir jólatréð, fórum nefnilega í pakkaútkeyrslu í gær og kláruðum alla fyrir utan fjölskylduna mína. Við hittum svo systkinin heima hjá mömmu og pabba á eftir sem þýðir að við þurfum ekkert að fara út á aðfangadag, heldur getum bara verið að dúlla okkur og hafa það náðugt.

Við erum ekkert búin að heyra frá tryggingunum, vitum semsagt ekkert hvar húsið lekur en það kemur víst allt í ljós nógu snemma. Jólin koma allavega þannig að það er bara um að gera að slappa af og njóta lífsins með þeim sem maður elskar.

fimmtudagur, desember 20, 2007

4 dagar í jól og allt ennþá á hvolfi í íbúðinni. Þurftum að taka geymsluna í gegn vegna þess að hún var full en okkur vantaði stað til að setja allt dótið sem var í herberginu hans Benedikt. Við byrjuðum semsagt á því í gær og hentum alveg heilmiklu en svo vildi Árni endilega kaupa hillur og við fengum þær ekki afhentar fyrr en seint í gær, sem þýddi að við náðum bara að setja þær saman í gær en kassarnir eru ennþá út um alla íbúð. Þar sem að Árni er mikið betri í að raða en ég, fékk ég þau skilaboð að ég mætti ekki byrja á þessu fyrr en hann kæmi heim. Mjög gaman. Ekki skánaði heldur ástandið þegar að málningin á einum útveggnum byrjaði að bólgna. Við hringdum auðvitað í tryggingafélagið okkar sem sendi mann og það er semsagt búið að reka þessa bólgu alveg upp á efstu hæð og þeir segja að við fyrstu sýn virðist vera að húsið leki. Það var samt tekið alveg í gegn að utan rétt áður en við fluttum inn sem var fyrir einu og hálfu ári. En tryggingafélagið er búið að taka myndir þannig að þetta er allavega komið í gang, svo kemur bara í ljós hvað af þessu verður bætt.

Þannig að jólaskapið er ekki komið ennþá en vonandi náum við að klára þetta í kvöld og þá get ég tekið jólahreingerninguna á morgun, það er nefnilega allt frekar skítugt hérna eftir málningarstúss og tiltekt seinasta mánuðinn. Ég hef aldrei verið svona sein að þrífa fyrir jólin, eins gott að við séum löngu búin að kaupa jólagjafirnar og pakka þeim inn. Ég hefði farið yfirum ef það væri ennþá eftir. Enda er ég búin að tilkynna Árna að við munum aldrei aftur fara í endurbætur rétt fyrir jól. Ég hef fulla trú á því að ég komist í jólaskapið þegar að íbúðin verður orðin fín.

En ég ætla mér nú samt að hafa það rólegt og kósý um jólin með litlu fjölskyldunni minni, hlakka endalaust mikið til að sjá hvernig Benedikt bregst við pökkunum sem hann fær. Hann virðist nú hafa mjög mikinn áhuga á þeim þegar að búið er að pakka þeim inn, vill snerta slaufurnar og svona en ég held að það nægi honum einn pakki allt kvöldið :).

sunnudagur, desember 16, 2007

Nóg að gera þessa dagana við að koma íbúðinni í lag eftir breytingarnar. Eigum reyndar ekkert svo mikið eftir, taka geymsluna aðeins í gegn til að koma dóti fyrir, hengja upp nokkrar myndir og svo taka jólaþrifin við :).

Annars fórum við Árni í fertugsafmæli til vinar hans Árna í gær, Benedikt fór í næturpössun þannig að við sváfum bæði út í morgun. Oh það er svo næs að geta það af og til, alveg nauðsynlegt til að hlaða batteríin.

Reyndar er ég í voðalega litlu jólastuði, skil það ekki alveg. Hlakka alveg svakalega til jólanna með Árna, Benedikt og Snúð og að sjá Benedikt með fyrsta pakkann sinn og hvernig hann bregst við jólatrénu o.s.frv. en ég finn einhvern veginn ekki jólastemninguna inni í mér. Veit í raun ekki hvað vantar upp á. Kannski er það að ég er ekki búin að heyra uppáhalds jólalagið mitt á þessari aðventu, set það á núna og athuga hvort að ég komist ekki í jólaskapið :).

þriðjudagur, desember 11, 2007

Búin að vera innilokuð í rúma viku vegna þess að Benedikt náði sér í RS - vírusinn. Hann fór semsagt til dagmömmunnar í dag og var ekkert smá glaður að komast aftur út :). Ég fór hinsvegar bara að útrétta, um að gera að nýta tímann fyrst að maður er í fríi. Fór í Kringluna og setti 2 jólapakka undir Mæðrastyrkstréð. Alltaf gott að geta gefið þeim sem þurfa á því að halda. Það eru greinilega fleiri á þeirri skoðun því að það er gjörsamlega fullt af pökkum undir trénu. Vonandi gleður þetta litlar sálir um jólin.

Annars er ég byrjuð að pússla hið árlega pússl. Árni gaf mér alveg svakalega sætt pússl með hundi, ketti og ungum. Oh ég dýrka að sitja á kvöldin með jólaöl, konfekt og smákökur, hlusta á jólalög og pússla.

föstudagur, desember 07, 2007

Morguninn í dag var alveg yndislegur. Ég fór nefnilega í lúxusandlitsbað sem Helga, Hrönn og Ásta gáfu mér í afmælisgjöf. Ég var líka búin að panta mér vax og litun/plokkun þannig að ég var á snyrtistofunni í tæpa 3 tíma. Þetta andlitsbað er algjört æði, ég sofnaði þegar að hún var að nudda mig og slappaði alveg þvílíkt af. Enda þarf ég á því að halda þessa dagana, ég fúnkera bara ekki með svona mikið drasl í kringum mig og þar sem að Benedikt fer ekki til dagmömmunnar fyrr en á þriðjudaginn í næstu viku þá verður íbúðin okkar í rúst þangað til. En það var semsagt alveg æðislegt að komast aðeins út og láta dekra aðeins við sig :).

mánudagur, desember 03, 2007

Alltaf nóg að gera á þessu heimili. Fórum í þrítugsafmæli til Bigga á föstudaginn, vorum reyndar bæði róleg og vorum komin heim um miðnættið enda var litli grislingurinn ekki í næturpössun. Samt alveg nauðsynlegt að komast út saman öðru hvoru.

Á laugardaginn fór ég svo og pakkaði inn öllum gjöfunum fyrir mömmu og pabba, þ.e.a.s. þeim gjöfum sem þau eru búin að kaupa sem er nú reyndar meirihlutinn.
Restin af helginni fór í að rífa allt út úr herberginu hans Benedikts, erum semsagt loksins að taka það í gegn. Fyrrverandi eigendur skildu dálítið eftir í herberginu, skrifborð og nokkrar hillur og það tók semsagt mest alla helgina og hálfan daginn í dag að losa þetta allt, skrifborðið var m.a.s. boltað fast, einum of mikið fest fyrir okkar leyti. En við hjónin vorum svo heima í dag og máluðum okkar herbergi og ætlum að mála herbergið hans Benedikts á morgun. Voðalega fínt þegar að þetta verður búið, ekki það skemmtilegasta í heimi að hafa drasl alls staðar með svona lítinn strump sem vill skoða allt og verður ekki sáttur þegar að hann fær það ekki :).