Þá er allt nokkurn veginn tilbúið fyrir jólin á þessu heimili. Jólatréð komið upp og búið að setja seríurnar á. Hinsvegar er ekki búið að skreyta það enda er hefðin sú að gera það ekki fyrr en á Þorláksmessukvöld. Ég man hvað ég hlakkaði alltaf til að skreyta jólatréð enda var ég eina barnið heima frá 9 ára aldri og var því einráð með skreytingarnar :).
Það eru m.a.s. nokkrar gjafir komnar undir jólatréð, fórum nefnilega í pakkaútkeyrslu í gær og kláruðum alla fyrir utan fjölskylduna mína. Við hittum svo systkinin heima hjá mömmu og pabba á eftir sem þýðir að við þurfum ekkert að fara út á aðfangadag, heldur getum bara verið að dúlla okkur og hafa það náðugt.
Við erum ekkert búin að heyra frá tryggingunum, vitum semsagt ekkert hvar húsið lekur en það kemur víst allt í ljós nógu snemma. Jólin koma allavega þannig að það er bara um að gera að slappa af og njóta lífsins með þeim sem maður elskar.
sunnudagur, desember 23, 2007
Birt af Inga Elínborg kl. 12/23/2007 09:33:00 f.h.
|