mánudagur, febrúar 26, 2007

Núna veit ég af hverju svefnleysi er talið ein af áhrifamestu pyntingaaðferðunum. Frá fimmtudegi og fram á sunnudag fengum ég og Árni voðalega lítinn svefn og ástandið á okkur í gær var vægast sagt hræðilegt. Við gátum varla talað saman af þreytu :) enda fór öll afgangs orka í að hugsa um Benedikt. Í nótt svaf hann sem betur fer aðeins betur enda líður okkur mun betur.

Fyrir utan svefnleysi var voðalega gaman um helgina, það var rosa gott að komast bæði út í einu á laugardagskvöldið og hitta vini hans Árna, spjalla saman um annað en barnauppeldi og bara aðeins að slappa af. Við vorum nú reyndar ekki lengi í burtu, ca. 2 og hálfan tíma en þetta er samt sem áður alveg nauðsynlegt. Benedikt fer svo aftur í pössun í lok mars en þá er árshátíð hjá Árna, fínt að hafa þetta með svona mánaðar millibili.

Annars finnst mér tíminn fljúga áfram í fæðingarorlofinu, mánuðirnir hverfa hreinlega. Í næsta mánuði fer Árni svo í burtu í 4 nætur vegna vinnuferðar, vona svo innilega að Benedikt verði farinn að sofa betur. Kvíði pínku fyrir ef hann verður ennþá svona erfiður allar nætur.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Loksins fékk ég dálítinn svefn, Benedikt svaf í heila fimm tíma samfleytt í nótt. Ég svaf reyndar "bara" í fjóra tíma, sofnaði ca. hálftíma eftir að hann var sofnaður og vaknaði sjálf eftir fjóra tíma, líkaminn var örugglega ekki alveg að skilja af hverju ég var ekki vöknuð fyrr miðað við undanfarnar vikur.

Benedikt fór svo í 6 vikna skoðun í dag og hann er orðinn það þungur að hann má fara út í vagn núna, hlakka voða mikið til þess. Verður fínt að komast út með hann á daginn og ná aðeins að hreyfa sig. Hjúkrunarfræðingurinn kíkti líka aðeins á mig í dag vegna vesenis með brjóstagjöfina og hún sagði bara beint út við mig að ég væri mjög þreytuleg þessa dagana :), alltaf gaman að heyra það.

Hildur vinkona kom til landsins í dag og verður í nokkra daga, ætlar líklega að kíkja á mig á fimmtudaginn. Hlakka ekkert smá mikið til að sjá hana. Það verður svo nóg að gera næstu daga, er að fara í saumaklúbb á fimmtudaginn, litun+plokkun á föstudaginn og svo er þrítugsafmæli hjá vini hans Árna á laugardaginn. Ætlum líklegast að kíkja í 2-3 tíma, oh það verður æðislegt að komast bæði út í einu og hitta annað fólk.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Þá er Benedikt Einar kominn með heimasíðu. Hún er læst en ef það eru einhverjir sem vilja komast inn á hana þá er bara að senda mér tölvupóst á ingaeb@gmail.com. Ákvað að hafa frekar tvær heimasíður svo að þeir sem nenna ekki alltaf að lesa eitthvað barnatengt geti allavega þá farið á mína heimasíðu, tíhí.

Annars er voðalega lítið að frétta, eins og hefur verið undanfarnar vikur. Ég fer ekki neitt og geri voðalega lítið annað en að hugsa um Benedikt en þannig er það þessar fyrstu vikur. Ég er líka alveg endalaust þreytt eftir mjög svo svefnlitlar nætur undanfarið. Vona að það fari að lagast mjög fljótlega því að svefnleysi er það erfiðasta sem ég veit um. Finnst alveg best í heimi að sofa mikið :).

föstudagur, febrúar 09, 2007

Ekkert mikið að gerast þessa dagana hjá mér sem er ástæðan fyrir því að ég er ekkert búin að blogga. Ég og Árni áttum reyndar 7 ára sambandsafmæli þann 3. febrúar, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Allt í einu erum við orðnir foreldrar og lífið búið að gjörbreytast. Maður fær aldrei nægan svefn og lífið snýst algjörlega um þessa litlu manneskju sem er svo háð manni.

Reyndar erum við búin að nefna litla prinsinn eftir nokkrar samningaviðræður ;). Hann heitir semsagt Benedikt Einar. Benedikt er út í loftið en Einar í höfuðið á föðurafanum. Skírnin verður svo líklegast í lok mars en við ákváðum bara að nefna hann strax svo að einhver gælunöfn myndu ekki festast við hann.

föstudagur, febrúar 02, 2007




Maður er nú dálítið mikið sætastur :).

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Ég vorkenndi svo strákunum okkar eftir leikinn á móti Dönum. Ég sat fremst á sófanum alla framlenginguna og var byrjuð að labba um gólf undir það seinasta. Þeir stóðu sig svo vel en því miður þá þurfti aðeins meira til að sigra. En hlakka nú samt til að horfa á leikinn gegn Rússunum, vonandi vinna þeir þann leik og spila þá um 5. sætið á mótinu.

Annars er nú voðalega lítið að frétta, lífið hjá mér snýst um að gefa litla kút og handboltann þessa dagana. Reyndar fórum við í myndatöku með hann á þriðjudaginn og fáum myndirnar í dag. Hlökkum geðveikt til að sjá þær, maður var nú eiginlega sofandi mest allan tímann en það gerir ekkert til. Skelli inn einni eða tveimur myndum seinna í dag.