þriðjudagur, maí 31, 2005

Karen og Grétar komu í mat í kvöld. Eftir matinn var sest niður og spilaður póker. Þetta var semsagt í fyrsta sinn sem ég spila póker og það verður bara að segjast að ég hef sjaldnast skemmt mér eins vel í spili. Árni, Karen og Grétar skemmtu sér líka mjög vel yfir spilastílnum mínum, því að ég fór sjaldnast eftir spilunum þegar að ég ákvað hversu miklu ég ætti að veðja. Enda endaði það með því að ég tapaði :). En allavega, frábært spil.
Svo var þetta nokkurn veginn kveðjustund líka. Ég og Karen ætlum reyndar að hittast í hádegismat þegar að ég verð búin að skila ritgerðunum mínum en svo sjáumst við líklegast bara ekkert fyrr en í lok ágúst. Það er búið að vera alveg frábært að hitta þau svona oft og við verðum bara að vera jafndugleg að hittast þegar að við verðum öll komin á Ísland aftur :).

föstudagur, maí 27, 2005

Hrönn vinkona á afmæli í dag, til hamingju með afmælið elsku Hrönn :).
Annars skilaði ég heimaprófinu mínu í gær, voða gaman. Svo á ég að skila ritgerðunum mínum eftir 6 daga og þá er ég bara búin. Hlakka rosa mikið til þess. Ætla einmitt að reyna að klára ritgerðirnar um helgina og hafa mánudag og þriðjudag til að versla aðeins fyrir Evrópuferðina.

mánudagur, maí 23, 2005

Eva Sóley frænka mín á afmæli í dag, til hamingju með 8 ára afmælið elsku Eva mín.
Annars er nú allt voðalega rólegt hjá okkur núna. Árni fór í eina prófið sitt á þessari önn í morgun og núna eru bara verkefni eftir hjá honum.
Ég er bara á fullu í heimaprófinu mínu og á að skila því núna á fimmtudaginn. Í heimaprófinu eigum við að setja okkur í spor skólasálfræðings sem fær inn á borð til sín vandamál varðandi hana Idu. Við fáum svo lýsingu með bæði frá kennurum og foreldrum um hvað þeim finnst vera að og út frá því eigum við að mynda okkur skoðun á því hvernig við myndum reyna að laga þetta vandamál. Bara frekar gaman að pæla í þessu.

laugardagur, maí 21, 2005

Jæja Eurovision búið þetta árið. Vinningslagið var svona lala að mínu mati. Ég vildi svo innilega að Noregur myndi vinna, alveg frábært lag hjá þeim :).
En tókuð þið samt eftir því að þau 4 lönd sem eru alltaf örugg inn, þ.e.a.s Spánn, England, Þýskaland og Frakkland röðuðu sér í neðstu sætin?? Hmmm, af hverju eiga þau ekki að þurfa að taka þátt í forkeppninni, finnst þetta svo hallærislegar reglur að þau séu alltaf sjálfkrafa inni í aðalkeppninni.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Er bara frekar sár að við komumst ekki áfram :(. Mér fundust ömurlegt lög komast áfram eins og Króatía, Sviss og Ungverjaland. En mjög gaman hinsvegar að bæði Noregur og Danmörk komust áfram, stóðu sig mjög vel.
Kenni reyndar Árna um að Króatía komst áfram, hann kaus þá nefnilega óvart ;), mjög vinsælt sko. Alveg hægt að ímynda sér að það munaði bara einu atkvæði, tíhí.

Alltaf styttist í Eurovision! Er einmitt að hlusta núna á gömul Eurovisionlög - eins og Diggi Loo Diggi Ley og Nína - þvílíkt stuð.
Annars hlýtur Selma að komast áfram í kvöld. Ég er samt eiginlega ekkert búin að hugsa um þann möguleika á því að við komumst ekki áfram. Maður verður auðvitað að halda í íslensku hefðina og halda að við vinnum!! Og hafa áhyggjur af því að við höfum ekki efni á því að halda keppnina, haha. En allavega, skemmtið ykkur vel í kvöld :), veit að ég geri það.

mánudagur, maí 16, 2005

Jæja, þá fæ ég heimaprófið mitt á morgun. Hlakka nú ekkert voðalega til þess en vonandi gengur þetta allt. Ég sat einmitt út í glugga (glugginn opnast semsagt alveg upp á gátt og er svona 1 meter á hæð) í gær og var að læra í sólinni, voða þægilegt.
Svo styttist alltaf í Eurovision, hlakka ekkert smá til. Ég fylgist einmitt alltaf með blogginu frá Kænugarði, alveg frábært að lesa það sem Gísli Marteinn skrifar. Svo þurfti auðvitað að minna mig á það að við getum kosið Ísland í keppninni, mjög gott :).
Við náðum í bíómiðana fyrir Star Wars í fyrradag, vei vei. Svo er ein stöðin hérna að sýna allar hinar myndirnar núna um hvítasunnuhelgina, voða næs. Mynd nr. II verður einmitt sýnd í kvöld, gott að geta horft á hana og rifjað aðeins upp það sem er búið að gerast.
Hrönn og Axel áttu eins árs brúðkapsafmæli í gær, mér finnst svo stutt síðan að þau giftu sig :). Til hamingju krúsurnar mínar. Sem þýðir líka að bráðum er komið eitt ár síðan að við fórum til Flórida, væri sko alveg til í að fara til Bandaríkjanna aftur og versla. En það verður víst aðeins að bíða, þá verður bara skemmtilegra þegar að maður fer næst.

föstudagur, maí 13, 2005

Það er búið að vera æðislegt veður hérna í Árósum, bæði í dag og í gær, heiðskírt og þvílíkt heitt. Ég ákvað einmitt að skella mér aðeins í skólann í dag og hitta sálfræðinemana í hádegismat, það var voða næs að komast aðeins út og spjalla. Svo fórum við aðeins upp á þak og vorum þar í sólbaði :).
Svo er planið að fara út að borða með sálfræðinemunum 2. júní (sama dag og við eigum að skila ritgerðunum), það verður örugglega rosa gaman. Enda á ég ekkert eftir að hitta fólkið aftur fyrr en einhvern tímann í nóvember.

fimmtudagur, maí 12, 2005

Ummm, ég elska lyktina af nýslegnu grasi :).

miðvikudagur, maí 11, 2005

Það er nú bara ekkert að gerast hjá okkur hjónunum þessa dagana, erum heima að læra og förum varla út úr húsi. Enda eru bara 6 dagar þangað til að heimaprófið byrjar.
Annars er ég búin að setja inn niðurtalningar hérna til hægri (þær halda í mér lífinu þessa dagana), get varla beðið eftir að skólinn verði búinn.
En svo verður nú smá gaman þarnæstu helgi, Eurovision auðvitað bæði 19. og 21. maí og svo ætlum við að skella okkur á Star Wars 20. maí. Reyndar verð ég í heimaprófinu alla þessa daga en það hlýtur að reddast.

föstudagur, maí 06, 2005

Ríta Margit frænka mín á 5 ára afmæli í dag, til hamingju með afmælið elsku Ríta mín. Oh hvað ég væri til í að komast í afmælið til hennar á laugardaginn. Bjarklind systir (mamma hennar Rítu) gerir nefnilega bestu ostaköku í heimi, nammi namm. Svo er bara líka svo langt síðan að ég fór í barnaafmæli og gat hitt alla fjölskylduna. Ég á semsagt 9 frændsystkini en ég er bara búin að komast í eitt afmæli síðan í ágúst, ekki alveg að fíla það.

þriðjudagur, maí 03, 2005

Það eru tveir sem eiga afmæli í dag :). Grétar baunabúi og Ingibjörg vinkona, innilega til hamingju með daginn bæði tvö. Vona að dagurinn verði góður hjá ykkur.
Annars er fyrirlesturinn minn búinn og hann gekk bara rosa vel. Var reyndar frekar stressuð og stelpurnar sögðu að ég hefði talað rosa hratt en það skildist allt sem betur fer.
Svo er ég alveg að verða búin með ritgerðina í Vinnusálfræði mína og ég er ekkert smá ánægð með það því að ég er alveg að mygla yfir þessum ritgerðum. Á samt aðeins eftir að laga ritgerðina fyrir Átraskanir.
En svo á morgun er seinasti fyrirlesturinn minn í sálfræðináminu, vei vei :).