þriðjudagur, desember 23, 2008

Held að þetta blogg sé dáið. Finnst alveg nóg að halda úti bloggsíðunni fyrir Benedikt og Berglindi Elnu þannig að ég segi bara takk fyrir samfylgdina og gleðileg jól. Þið getið svo fylgst með hinu æsispennandi lífi okkar á síðunni þeirra :).

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

5 vikur og 1 dagur í jólin og ég er búin að föndra jólakortin :). Voðalega ánægð að vera búin með það, þá getur maður dundað sér við það í rólegheitunum að skrifa á þau. Við hjónin höfum alltaf tekið 1-2 kvöld í desember, hlustað á jólalög, borðað smákökur og drukkið jólaöl meðan að við skrifum á kortin en ég er nú ekki alveg viss um að það virki þessi jólin. Um leið og Benedikt sofnar á kvöldin tekur Berglind Elna oftast við þannig að kvöldin fara fyrir lítið. Reyndar eigum við eftir að taka myndina í jólakortin, ekki það auðveldasta í heimi með einn tæplega tveggja ára og eina þriggja mánaða, sjáum til hvernig það gengur.

Annars eigum við bara eftir að kaupa 4 jólagjafir, erum búin að ákveða þær allar þannig að það verður lítið mál að fara og kaupa þær. Ætlum að setja börnin í pössun næstu helgi og klára þetta. Reyndar á ég svo eftir að kaupa fyrir Árna en er nokkurn veginn búin að ákveða hvað hann fær :).

Þarnæstu helgi ætlum við fjölskyldan að baka piparkökur, oh hvað það verður gaman. Held að Benedikt verði örugglega mjög sáttur við að fá að dreifa hveiti út um allt eldhús. Við keyptum lítið kökukefli og ýmis mót fyrir hann þannig að hann getur gert sínar eigin piparkökur. Ef ég þekki hann rétt vill hann örugglega enga hjálp, er einmitt á þeim aldri þar sem að hann verður að gera allt sjálfur.

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Ég þoli stundum ekki að fara inn á mbl.is og lesa fréttirnar frá þeim. Sumir fréttamenn eru greinilega að flýta sér að skrifa fréttirnar og það eru mjög margar stafsetningavillur í textunum hjá þeim. Það sem fer reyndar meira í taugarnar á mér er að það skuli ekki vera hægt að senda ábendingar, þá myndi ég nefnilega alltaf vera að senda þeim ábendingar um villurnar. Mér finnst að fréttablöð/vefir eigi að sjá sóma sinn í því að hafa allt rétt stafsett. Ég hef líka tekið eftir aukningu í að hafa hástafi fremst í öllum orðum í auglýsingum og það þoli ég ekki. Þetta er mikið notað í Bandaríkjunum en þetta er ekki samkvæmt íslenskri rithefð og þess vegna á ekki að nota hástafina. Get alveg orðið hoppandi brjáluð þegar að ég sé svona auglýsingar.

En út í aðra sálma, ég varð árinu eldri á mánudaginn og fékk nokkrar vinkonur í heimsókn. Sólveig systir átti m.a.s. stórafmæli sama dag og varð 45 ára. Einungis 16 ár á milli okkar :). Hún og börnin eru einmitt að flytja heim seinna í mánuðinum, oh hlakka svo til að fá þau og ekki spillir fyrir að þau flytja auðvitað aftur í Hafnarfjörðinn, bara rétt hjá okkur. Verður gott að hafa barnapíu svona nálægt, þ.e.a.s Evu frænku en Benedikt gjörsamlega dýrkar hana :).

Annars prófaði ég að kíkja í tvö partý á laugardaginn, ég komst klakklaust í annað partýið en stoppaði ekki lengi. Ég var svo að labba inn í hitt partýið þegar að Árni hringdi og sagði að ég þyrfti að koma heim því að prinsessan á heimilinu neitaði að taka pelann, þvílíkt vesen á henni. Núna verður hún sett í strangar æfingarbúðir og fleiri pelar verða prófaðir því að ég ætla mér ekki að sitja heima öll kvöld allan þann tíma sem ég verð með hana á brjósti. Okkur er boðið í afmæli núna á laugardeginum en Árni fer bara einn í það, tel nú litlar líkur á að hún verði byrjuð að taka pelann þá. En svo er jólahlaðborð 5. desember hjá Íslenskri erfðagreiningu og þá ætla ég að fara. Þarf bara að muna að hringja áður og spyrja hvaða réttir séu ekki með mjólkurdufti í ;). Svo er reyndar annað mál hvort að ég þori að fara í jólahlaðborðið, það er nefnilega haldið á efstu hæð í Turninum og ég er auðvitað alltaf jafn lofthrædd. En maður lætur það ekki stoppa sig :/.

miðvikudagur, október 29, 2008

Hér er allt á fullu að undirbúa skírnina sem verður núna á laugardaginn. Þ.e.a.s. við erum rosa dugleg að ákveða hvað þarf að gera en svo tekur aðeins lengri tíma að gera hlutinn :). Sem betur fer ætla tengdó að taka Benedikt á föstudagskvöldið svo að við náum að þrífa og svona. Íbúðin lítur nefnilega oftast út eins og eftir sprengjuárás.

Annars hlakka ég ekkert voðalega mikið til veislunnar því að ég er búin að taka allar mjólkurvörur út úr mínu mataræði. Ég má ekki einu sinni borða skinku því að það er mjólkurduft í henni. Þannig að ég má ekki borða neitt sem verður á boðstólum í veislunni nema flatkökur með hangikjöti (með engu smjöri auðvitað). En litlu skottunni virðist líða aðeins betur þannig að þá er þetta þess virði. Hún er samt ennþá að fá í magann þannig að ég er líka búin að taka út egg og glúten. Sem þýðir að ég lifi á ávöxtum og grænmeti þessa dagana, mjög skemmtilegt. Ef hún lagast ekki af þessu þá er ég gjörsamlega lens með hvað getur hjálpað henni, er búin að prófa allt. Er alveg að gefast upp þessa dagana, alveg ömurlegt að horfa á barnið sitt engjast um af magapínu daginn út og daginn inn og alveg sama hvað maður gerir þá virðist ekkert hjálpa nógu mikið.

sunnudagur, október 19, 2008

Jæja, er ekki fínt að blogga meðan að nýjasti fjölskyldumeðlimurinn sefur voða vært framan á mér í Moby Wrapinu? Það er algjör snilld að geta vafið börnin sín þétt að sér og samt verið með báðar hendur lausar, ætti að gefa manni nægan tíma til að ná að klára húsverkin en það er bara mikið skemmtilegra að vera í tölvunni.

Við hjónin fórum á sælkerakvöld í gær með vinnufélögunum hans Árna, mér leið nú eins og ég væri algjör gikkur. Þurfti að spyrja við hvern rétt hvort að það væru mjólkurvörur eða egg í honum en better safe than sorry. Annars hlakkaði smá í mér í gær, einn vinnufélaginn útbjó lambahjörtu en eins og allir vita er það eitt af mínum uppáhaldsréttum. Árna finnst þetta hinsvegar frekar ógeðslegt og mér hefur aldrei tekist það að fá hann til að smakka þetta. Hinsvegar er sú regla á þessum kvöldum að maður verður að smakka allt og viti menn, Árni kláraði skammtinn sinn. Þannig að núna get ég farið að elda hjörtu, lifur og nýru (sem ég hef ekki mátt elda heima í 8 og hálft ár) og Árni getur ekki sagt neitt.

Ég kíkti svo aðeins í búðir í gær og náði að kaupa tvær jólagjafir, finnst það nú vel af sér vikið miðað við að Berglind Elna drekkur á tveggja tíma fresti og þar sem að hún neitar pelanum þá þarf ég að gjöra svo vel að vera heima eða a.m.k. ekki langt í burtu þegar að hún er orðin svöng. Ætla að reyna að klára allar jólagjafirnar næstu 2-3 helgar, nenni ekki að vera að dandalast í Kringluna/Smáralindina í desember þegar að það er mikið skemmtilegra að jólast með fjölskyldunni minni í ró og næði. Fara á kaffihús og fá sér heitt kakó, fara í Jólaþorpið, baka piparkökur, o.s.frv.

föstudagur, september 12, 2008

Lítið að frétta af okkur, lífið gengur bara sinn vanagang þessa dagana. Berglind Elna er voðalega dugleg að drekka og var orðin 3.850 grömm í seinustu vigtun, er greinilega að flýta sér að stækka. Hún er hinsvegar ekki jafn góð í að sofa á nóttunni og mamman fær lítinn svefn þessa dagana, vonandi fer það nú að lagast. Ef hún ætlar að vera lík bróður sínum þá eru samt ca. 2-3 mánuðir í að ég fái 5-6 tíma samfleyttan svefn.

Mér finnst pínku skrýtið að hugsa til þess að ég fari ekkert aftur að vinna fyrr en í ágúst á næsta ári, ég er rosalega fegin að ætla að vera heima í eitt ár en þetta er voðalega skrýtin tilhugsun.

Annars fórum við með Berglindi í myndatöku á fimmtudaginn, oh ég hlakka svo til að sjá myndirnar næsta miðvikudag. Hún var nú meira vakandi en bróðir sinn (þegar að við fórum með hann í myndatöku á svipuðum aldri) og var nú ekkert alltof sátt við að geta ekki bara sofið, alltaf verið að láta hana í einhverjar stellingar. Eftir myndatökuna fórum við svo á mömmuhitting, alltaf gaman að hitta aðrar mömmur sem eiga börn á svipuðum aldri. Þessir mömmuhittingar verða alltaf á fimmtudögum í vetur, er strax byrjuð að hlakka til næsta :).

þriðjudagur, september 02, 2008

Þá erum við búin að finna nafn á litlu prinsessuna. Þar sem að við vissum að það væri von á stelpu vorum við búin að finna nokkur nöfn og eftir að hafa mátað þau við hana völdum við nafnið Berglind Elna. Berglind er út í loftið en Elna er í höfuðið á mömmu. Vorum að hugsa um að opinbera nafnið þegar að hún verður skírð en þar sem skírnin verður líklegast ekki fyrr en í október vildum við nefna hana strax.

laugardagur, ágúst 30, 2008

Það eru komnar myndir á myndasíðuna hans Benedikts.

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Fórum með litlu prinsessuna í 5 daga skoðun í dag. Hún kom voðalega vel út, er búin að ná fæðingarþyngdinni sinni og 50 gr. betur. Hún er reyndar smá gul þannig að við þurfum að vekja hana á ca. 3 tíma fresti en greinilega ekkert sem þarf að hafa áhyggjur af, fyrst að hún er að þyngjast svona vel.

Reyndar heyrði læknirinn smá smelli í öðrum mjaðmaliðnum og hún þarf að fara í ómun einhvern tímann á næstunni. Ef það kemur eðlilega út þá þarf hún samt sem áður að fara í röntgenmyndatöku þegar hún er 6 mánaða. Læknirinn tók nú samt fram að þetta væri líklegast allt í lagi en vildi bara vera viss.

Annars erum við bara að venjast þessu nýja lífi, mér finnst voðalega skrýtið að ná lítið sem ekkert að vera með Benedikt þessa dagana. Við mæðgurnar erum oftast sofandi þegar að feðgarnir vakna á morgnana þannig að ég sé hann eiginlega ekkert fyrr en eftir leikskólann og þá þarf ég auðvitað oft að vera að sinna litlunni líka. Sem betur fer eru þeir feðgar voða nánir og skemmta sér vel en mömmuhjartað er nú samt frekar lítið í sér og ég hlakka til þegar að ég get farið að vera meira með honum.

Svo finnst mér heldur ekkert skemmtilegt að Árni er búinn að sofa inni hjá honum í ca. 2 vikur. Hann er eitthvað óöruggur og ef Árni er ekki inni hjá honum, vaknar hann 3-4 sinnum á nóttu og er ca. hálftíma að sofna aftur og vaknar svo alveg kl. 6 á morgnana. Hinsvegar sefur hann alveg til 7 - 7:30 þegar að Árni er inni hjá honum og hann þarf alveg á því að halda, annars verður hann svo pirraður í leikskólanum. Þannig að ég sef ein í þessu stóra rúmi á nóttunni (reyndar læt ég nú bara litluna sofa hjá mér) en ég hlakka voða mikið til þegar að ég fæ manninn minn aftur :).

laugardagur, ágúst 23, 2008

Yndislega falleg stelpa leit dagsins ljós í gærmorgun kl. 6:46. Þá voru aðeins liðnir rúmir tveir tímar frá fyrsta verk og foreldrarnir voru einungis búnir að vera hálftíma í Hreiðrinu þegar að hún kom í heiminn. Eins gott að Benedikt var með ömmu sinni og afa í sumarbústaðnum vegna þess að það hefði ekki verið neinn tími að bíða eftir neinum til að líta eftir honum. Þá hefði litla stelpuskottið komið í heiminn annaðhvort heima eða í bílnum. Annars vissum við foreldrarnir að við ættum von á stelpu, við ákváðum semsagt að kíkja í pakkann í 20 vikna sónarnum en sögðum ekki neinum frá :).

Öllum líður vel, mamman og pabbinn eru voðalega stolt og litlan sefur bara og drekkur. Reyndar var nóttin frekar erfið, hún fékk smá í magann og vildi helst bara vera á brjóstinu en þar sem hún er svo dugleg að drekka þá getur maður ekki kvartað. Benedikt kemur svo heim seinna í dag, við hlökkum mjög mikið til að sjá viðbrögðin hans.

Okkur fannst alveg frábært að geta verið í Hreiðrinu, yndislegt andrúmsloft, allir svo rólegir og tilbúnir til að hjálpa. Við vorum þar í 12 tíma en fórum svo heim og erum að njóta þess að kynnast öll betur.

Takk fyrir allar kveðjurnar, þið eruð yndisleg.

Sætasta prinsessanPabbinn svo stolturMamman pínku þreytuleg

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Það bólar ennþá ekkert á krílinu en miðað við stríðnina í föðurfjölskyldu þess þá er alveg bókað að það vilji koma í heiminn kl. 12:15 á morgun svo að mamman missi nú af handboltaleiknum :). Ef það ákveður að koma í heiminn á morgun þá á það sama afmælisdag og Harpa frænka, á laugardag á Einar frændi afmæli, þann 26. á Fjóla frænka hans Árna afmæli og þann 28. (sem er settur dagur) átti langafi hans Árna afmæli. Nóg af dögum til að velja um.

Ég hef hinsvegar pínku áhyggjur ef ég geng framyfir því að ljósmæður eru búnar að boða til sólarhringsverkfalls 5. -6. september og hvað ef maður fer í gang þá?? Er þá engin ljósmóðir starfandi á fæðingargangi/Hreiðrinu? Þann 11. september er ég svo gengin 42 vikur og þá er maður settur í gang en það er einmitt verkfallsboðun hjá þeim 11. -12. sem myndi líklegast þýða að ég yrði ekki sett í gang fyrr en 15. september, ég neita að bíða það lengi eftir krílinu. Plús það að ég vil nú helst ekki fæða 11. september, ekki neitt voðalega skemmtilegur afmælisdagur fyrir litla krílið. Ég trúi nú samt ekki öðru en að ríkið semji fyrir þann tíma, þetta er svo mikilvæg þjónusta og ljósmæður eiga skilið að menntunin þeirra sé metin að verðleikum.

Annars er ég svo stolt af strákunum okkar, ég horfði á seinni hálfleikinn á móti Póllandi meðan að strákarnir mínir sváfu og það var frekar erfitt að mega ekki öskra og láta öllum illum látum. En þar sem að ég verð ein heima á morgun þá get ég hagað mér alveg eins og ég vil ;).

Jæja, ætla að fara að horfa á Grey´s, búin að horfa á 10 seríur af ER, 4 seríur af Friends og er núna byrjuð á Grey´s. Lífið mitt er mjög svo spennandi þessa dagana.

föstudagur, ágúst 15, 2008

Komin 38 vikur og 1 dag. Væri nú alveg til í að litla krílið myndi láta sjá sig mjög fljótlega, er orðin frekar þreytt á þessum fyrirvaraverkjum sem halda fyrir mér vöku næstum hverja nótt. En sem betur fer er ég hætt að vinna þannig að ég get hvílt mig vel á daginn.

Við hjónin áttum fjögurra ára brúðkaupsafmæli seinasta fimmtudag og fórum út að borða á Argentínu í tilefni dagsins. Um að gera að nýta tímann og fá pössun fyrir einungis eitt barn :). Nammi namm, hvað maturinn var góður. Rúsínan í pylsuendanum var auðvitað súkkulaðikakan þeirra, þvílíkt hnossgæti.

Annars er voðalega lítið að frétta, ég er mestmegnis heima þessa dagana, Árni er að vinna og Benedikt er auðvitað í leikskólanum. Þannig að allir að senda góða hríðar- og fæðingarstrauma til mín :).

mánudagur, ágúst 04, 2008

Ég var útskrifuð af sjúkrahúsinu á föstudaginn, mjög ánægð með það. Ekki það að starfsfólkið á meðgöngudeildinni sé ekki yndislegt en heima er best. Núna eru bara 3 dagar í að krílið flokkist ekki sem fyrirburi þannig að ég er ekkert neitt voðalega róleg hérna heima. Árni vill helst að ég liggi uppi í rúmi og hreyfi mig ekki neitt en ég er komin á fulla ferð, þ.e.a.s. hreyfi mig eins mikið eins og bumban leyfir. Ég er nú samt dugleg að setjast niður og hvíla mig enda finnst mér ég verða þreytt við minnsta verk. En það er allt tilbúið fyrir litla krílið þannig að það má alveg fara að koma. Reyndar verður verst ef það kemur frá 6. ágúst - 12. ágúst því að þá er Benedikt í aðlögun á leikskólanum en það reddast nú örugglega einhvern veginn. Ætli það sé ekki týpískt að það komi þá :).

fimmtudagur, júlí 31, 2008

Kannski kominn tími á að uppfæra lesendur aðeins. Er búin að fara 4 sinnum upp á deild vegna verkja, í seinasta skipti í gær. Þá var ég aðeins byrjuð í fæðingarferlinu en því miður þá blæddi dálítið mikið og ég var lögð inn vegna þess að læknarnir höfðu áhyggjur að það væri að blæða frá fylgjunni og að ástæðan fyrir því að ég væri komin af stað væri einhvers konar sýking í leginu. Sem betur fer komu allar prufur vel út og ekkert bendir til sýkingar en ég þarf að vera í eftirliti í sólarhring í viðbót. Ég er nú allavega búin að halda þessu kríli inni lengur en ég náði að ganga með Benedikt þannig að þetta er allt á réttri leið. Eftir viku verður maður svo ekki lengur flokkaður sem fyrirburi þannig að vonandi næ ég að halda því inni svo lengi. Það er sem betur fer hætt að blæða en ef það byrjar aftur að blæða verð ég líklegast sett af stað. Verkirnir eru líka dottnir niður, þannig að allt lofar góðu. Ég leyfi ykkur svo að fylgjast með :).

fimmtudagur, júlí 03, 2008

Ekki skil ég íslensk stjórnvöld þessa stundina. Að reka mann sem er að sækja um pólitískt hæli úr landi einn, tveir og þrír án þess að vera búin að fara yfir umsókn hans. Konan hans fæddi fyrir 6 vikum, maðurinn var eina fyrirvinnan á heimilinu og með þessu er verið að stía fjölskyldunni í sundur. Ég fékk tár í augun þegar að ég sá litla barnið í fréttunum á Stöð 2, finnst þetta alveg hræðilegt. Þetta er til háborinnar skammar fyrir íslensku þjóðina.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Við fjölskyldan fórum í myndatöku í dag, þ.e.a.s. þetta var eiginlega mest bumbumyndataka en Árni og Benedikt voru á nokkrum myndum líka. Hlakka endalaust mikið til að sjá myndirnar, vona að þær komi vel út. Svo förum við aftur þegar að krílið verður 2-3 vikna, eigum tíma í byrjun september, eins gott að ég gangi ekki mikið framyfir :).

Annars hitti ég fæðingalækni í seinustu viku og hún sagði að þótt að það væru örlítið meiri líkur á að ég myndi eiga aftur fyrir tímann þá gæti alveg eins verið að ég myndi ganga fulla meðgöngu núna. Við erum í raun bara að bíða eftir 7. ágúst því að þann dag flokkast krílið ekki lengur sem fyrirburi en svo er auðvitað týpískt að ég gangi jafnvel framyfir. Mér líður alveg svakalega vel þessa dagana, mér finnst ég reyndar líta út eins og hvalur en það munar rosalega miklu að geta farið heim um hádegi og hvílt sig. Árni er líka svo frábærlega æðislegur við mig, rekur mig inn í rúm að leggja mig ef honum finnst ég vera þreytuleg og sér eiginlega um allt á heimilinu. Alveg yndislegur við ófrísku eiginkonuna sína.

Fyrir utan þetta er mest lítið að frétta, bara 13 vinnudagar eftir hjá mér og þá förum við í sumarbústað í viku, hlakka endalaust til.

mánudagur, júní 16, 2008

Leikurinn í gær var svo spennandi, við stóðum meirihlutann af síðustu mínútunum og héldum í vonina að þeir myndu ná að vinna með meira en 8 marka mun. En því miður heppnaðist það ekki en strákarnir okkar stóðu sig alveg svakalega vel. Hlakka til að sjá þá á ÓL í ágúst, reyndar frekar erfiður riðill sem við erum í en við eigum nú alveg að geta komist upp úr honum :).

Annars er nú mest lítið að frétta, fórum í Fjölskyldu- og Húsadýragarðinn um helgina og Benedikt fannst það ekkert smá skemmtilegt. Greinilegt að hann er líkur foreldrum sínum :) sem dýrka að fara í dýragarða. Árni var líka voðalegur duglegur að reka mig inn í rúm þegar að honum fannst kominn tími á að ég myndi hvíla mig. Finn það alveg að ég þarf að hvíla mig meira þessa dagana og það er voðalega þægilegt að geta lagst upp í rúm í smátíma og safna smá kröftum. Enda er ég eiginlega ekkert búin að finna meira fyrir þessum verkjum þannig að ég er að gera eitthvað rétt.

Svo eru bara 5 vinnuvikur eftir og þá erum við fjölskyldan komin í sumarfrí, það verður rosalega næs. Fyrsta skiptið sem við tökum svona langt sumarfrí saman.

þriðjudagur, júní 10, 2008

Jæja, þá er búið að skikka mig í 50% vinnu í viku. Ég var byrjuð að fá svo mikla samdrætti með verkjum í seinustu viku að ljósan mín ráðlagði mér að prófa að minnka við mig vinnuna og athuga hvort að þessir samdrættir myndu ekki hverfa. Árni var svo yndislegur að taka Benedikt í sumarbústaðinn til tengdó á laugardaginn þannig að ég var bara ein heima allan daginn og lá uppi í rúmi að horfa á ER. Alveg frábær hugmynd að hafa keypt þessa þætti þegar að ég þarf að hvíla mig svona mikið. Árni kom svo heim seinnipart laugardags og við fórum í matarboð, vorum nú ekki lengi því að Árni fór aftur í sumarbústaðinn á sunnudag og ég var bara aftur skilin eftir heima :). Þeir feðgar komu svo heim seint um kvöldið.

Ég reyndi að horfa á Ísland-Makedónía en hætti í hálfleik, hafði einhvern veginn ekki taugar í að horfa á hann allan. Maður bíður bara spenntur eftir 15. júní, vonandi náum við að vinna þá með meira en 8 marka mun svo að við komumst áfram. Þó að ég eigi að slappa af þá ætla ég samt að fara á leikinn, hvíli mig bara vel á undan og á eftir. Get nú samt vel ímyndað mér að leikurinn verði mjög taugatrekkjandi.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Alveg æðislegt veður í dag, vona að við fáum nú nokkra svona sumardaga í sumar. Er m.a.s. búin að fjárfesta í tvennum óléttukvartbuxum svo að ég kafni nú ekki úr hita.

Annars er ég voðalega stolt af strákunum okkar, alveg frábær leikur hjá þeim á sunnudaginn og ekki spillir fyrir að vinna Svíana og koma í veg fyrir að þeir komist á stórmót (again!!). Við hjónin erum einmitt búin að kaupa miða á Ísland-Makedónía þann 15. júní. Hlakka svo mikið til að fara þangað og horfa á þá spila. Svo held ég að Ólympíuleikarnir byrji þann 8. ágúst og þá verð ég í fríi þannig að ég get legið uppi í sófa og horft á leikana allan daginn eða þ.e.a.s. þangað til að ég þarf að sækja Benedikt til dagmömmunnar :).

Ég fór í sykurþolspróf í dag, hef nú alveg drukkið betri drykki en sem betur fer hélt ég honum niðri. Niðurstöðurnar voru fínar við fyrstu sýn en ég fæ nákvæmari niðurstöður á fimmtudaginn þegar að ég fer til ljósunnar. En sú sem var að taka blóðið sagði að þetta væru bara frábærar tölur :). Mjög ánægð að heyra það.
Hinsvegar tekur þetta alveg svakalega langan tíma, þær taka nefnilega blóðprufu á hálftíma fresti í 2 tíma. Það var búið að segja við mig að ég fengi stofu til að vera í en það var engin stofa laus í morgun þannig að ég sat allan tímann í biðstofunni, voða gaman. Var nú samt það snjöll að hafa með mér fartölvuna og horfði á ER allan tímann. Vorum nefnilega að panta okkur 10 fyrstu seríurnar, ótrúlega gaman að horfa á þetta aftur.

föstudagur, maí 30, 2008

Við skelltum okkur á Indiana Jones í gær og hún hefði alveg mátt vera betri. Fyrri hlutinn var reyndar mjög trúr gömlu myndunum en svo fór allt út og suður í seinni helmingnum.

Ég var líka svo ósátt við að það var sýnt úr Sex and the city myndinni og ég get liggur við sleppt því að fara á hana núna. Kannski ekki alveg en ég þoli ekki þegar að það er sýnt eiginlega allt það helsta sem gerist í myndinni. En við stelpurnar erum einmitt að fara á hana næsta miðvikudag, hlakka samt mikið til að fara :).

Á morgun eiga Jósa og Danni svo afmæli, sniðugt þegar að makinn á sama afmælisdag þá gleymir maður honum ekki. Þau ætla að halda heljarinnar veislu og Benedikt fer í næturpössun til tengdó, hlakka til að sofa smá út.

Annars misstum við af helstu fréttunum í gær, ég og Árni vorum að keyra þegar að skjálftinn varð og fundum ekki fyrir neinu. Vissum ekki einu sinni að það hefði orðið skjálfti fyrr en mamma hringdi til að spyrja hvort að við hefðum fundið fyrir honum. En sem betur fer skemmdist ekkert hjá tengdó og mikil mildi að enginn meiddist alvarlega.

föstudagur, maí 23, 2008

Miðað við þessi fáu lög sem ég hef heyrt þá ætla ég að spá því að Serbía vinni aftur, finnst lagið þeirra rosalega heillandi. Auðvitað vonar maður að Ísland vinni en ég tel einhvern veginn ekki miklar líkur á því. Samt held ég að við verðum í efstu 10 sætunum. Hinsvegar verð ég alveg hoppandi brjáluð ef Svíþjóð vinnur, finnst lagið alveg óþolandi og það er ekki hægt að horfa á manneskjuna því að hún er svo geimveruleg.

fimmtudagur, maí 22, 2008

Eurovision í kvöld, hlakka svo til að sjá hvernig Eurobandið stendur sig og líka hvort að við komumst í aðalkeppnina. Maður verður nú að hugsa jákvætt. Karen og Grétar ætluðu að koma til okkar í kvöld en svo kemur Karen bara ein því að Grétar ákvað að taka eitthvað ljósmyndanámskeið framyfir okkur, alveg óskiljanlegt :). Ætlum að gera heimagerða pizzu og hafa eitthvað nammigott í eftirrétt.

Fylgdist með keppninni á þriðjudaginn með öðru. Eitthvað hefur áhuginn minnkað á þessu hjá mér, hefði örugglega áður fyrr horft mjög stíft á keppnina og oftast hef ég kunnað flest lögin utanað um þetta leyti en ekki núna. Er alveg búin að heyra eitt og eitt lag en ekkert í líkingu við áður. Hef vanalega verið búin að mynda mér skoðun á því hver sigrar en þar sem að ég hef heyrt svo fá lög þá ætla ég ekkert að fara út í þá sálma. Hinsvegar held ég að Árni sé mjög ánægður með að hin ýmsu Eurovisionlög hljóma ekki mikið á heimilinu núna, nema auðvitað íslenska framlagið.

Annars er ég komin akkúrat 26 vikur í dag, þetta styttist óðfluga enda stækkar bumban og stækkar. Verður alltaf erfiðara að snúa sér á nóttunni, tekur alveg 5 mínútur að snúa sér, koma púðanum aftur fyrir á milli lappanna og koma sér þægilega fyrir. Örugglega mjög fyndið að fylgjast með manni.

föstudagur, maí 16, 2008

Ég þoli ekki hvað matarmál manns verða allra mál þegar að maður er óléttur. Samstarfsfélagar mínir eru mjög duglegir að láta mig vita þegar að ég er ekki að borða nógu hollt að þeirra mati. Ef ég t.d. kaupi mér nammi þá fæ ég að heyra að ég ætti nú helst ekki að vera að borða svona. Í morgun var föstudagskaffi og það er vanalega franskbrauð/heilhveitibrauð en í morgun var ekkert þannig, bara rosalega gróft brauð og ég kem því hreinlega ekki niður. Hef aldrei getað það, bara frá því að ég man eftir mér. Ég segi: Hva, ekkert franskbrauð/heilhveitibrauð í dag og þá er bara sagt á móti: Þetta er mikið hollara fyrir þig, þegiðu bara og borðaðu. Oh, það sauð á mér, ég var svo reið enda lét ég heyra í mig en enginn virtist taka mark á mér. Allir hafa örugglega hugsað að þetta væru bara hormónarnir. Ég á hinsvegar föstudagskaffið næst og ég er alvarlega að spá í að kaupa bara franskbrauð og sjá hvað allir segja þá. Ég var hinsvegar svo reið og sár í morgun að ég bað um frí það sem eftir var dagsins og var heima að slappa af.

fimmtudagur, maí 15, 2008

Við hjónin fórum á Iron man í gær og vá hvað hún er góð. Skemmtum okkur alveg konunglega þrátt fyrir að minnstu munaði að við hefðum misst af byrjuninni. Árni segir við mig að myndin sé í sal 2 og við setjumst þar. Horfum á auglýsingarnar á undan en svo byrjar allt í einu Prom Night sem er einhver hrollvekja. Ég horfi auðvitað stórum augum á Árna sem kíkir á miðana og þá er Iron man í sal 4, ég var nú pínku pirruð á Árna þegar að við vorum að labba á milli salanna en sem betur fer misstum við ekki af neinu. En við mælum alveg með myndinni og Robert Downey jr. er svo flottur :).
Næst verður farið á Indiana Jones og svo Sex and the City, hlakka mikið til.

fimmtudagur, maí 08, 2008

Var í mæðraskoðun nr. 3 í dag og allt kom vel út. Ljósan vildi reyndar senda mig í sykurþolspróf vegna þess að ég var yfir kjörþyngd þegar að ég varð ófrísk og ég fer í það eftir 3 vikur. Allavega betra að vita að vel sé fylgst með manni heldur en hitt.

Annars gengur allt voðalega vel, litli stubburinn reyndar búinn að vera smá veikur. Fékk nefnilega eyrnabólgu í kjölfarið á flensunni en hann er kominn á sýklalyf og líður strax mikið betur.

Fór í afmæli/saumó til Ingibjargar vinkonu í gær, alltaf gaman að hitta vinkonurnar og spjalla saman. Fengum rosa góðan mat og enn betri eftirrétt :). Annað kvöld er svo hittingur hjá öðrum bumbulínuhópnum mínum, hlakka rosa til að hitta þær og spjalla um óléttuna. Svo að maður kaffæri ekki þá í kringum sig (misáhugasama) í ýmsum mjög áhugaverðum pælingum um meðgönguna.

Við fengum úthlutað bústað frá Íslenskri erfðagreiningu í dag, förum í hann 18. júlí eða sama daga og ég fer í sumarfrí. Það verður ekkert smá næs að komast í sumarbústað í heila viku, ekki spillir fyrir að hann er í Hvalfirði þannig að það er ekki langt að keyra.

fimmtudagur, maí 01, 2008

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er fylgi Samfylkingarinnar dottið niður um heil 7% en Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað, þ.e.a.s. miðað við síðustu könnun. Einnig kom fram að vinsælasti ráðherrann er í röðum Samfylkingarinnar en óvinsælasti er úr Sjálfstæðisflokknum. Ég skil ekki þá sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn, þó að allt sé að fara fjandans til í þjóðfélaginu þá "bitnar" það alltaf á samstarfsflokki þeirra. Ég kaus hvorugan flokkinn þannig að þetta fylgistap eru bara góðar fréttir fyrir mig en mér finnst þetta bara svo hallærislegt. Mér finnst að þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn ættu ekki að trúa á hann í blindni (eins og þeir virðast gera), ekki eru þeir að gera góða hluti þessa dagana.

mánudagur, apríl 28, 2008

Nóg að gerast um helgina. Benedikt fór í sumarbústaðinn til tengdó á laugardagsmorguninn og við hjónin eyddum deginum í að þrífa íbúðina almennilega og hengja upp myndir, gardínur og vínrekka sem er búið að bíða síðan um jól. Greinilega mikil framtakssemi á þessu heimili :).
Seinna um daginn fórum við í tveggja ára afmæli til Hlyns, voða skrýtið að fara í barnaafmæli og vera ekki með barn, maður er svo afslappaður. Um kvöldið fórum við út að borða á Austur-Indía félagið með Karen og Grétari, ummm það er svo góður matur þar. Við vorum öll alveg útþanin eftir matinn en ákváðum að kíkja á eitthvað kaffihús og spjalla aðeins meira. Við erum greinilega orðin of gömul fyrir miðbæinn, okkur fannst svo mikill hávaði á Oliver að við löbbuðum þaðan út og entumst í svona hálftíma á Vegamótum en þá fannst okkur bara komið gott.

Benedikt kom svo ekki heim fyrr en um sexleytið í gærkvöldi þannig að við vorum án hans í einn og hálfan sólarhring sem er það lengsta sem við höfum verið án hans. En þegar að hann kom heim var hann kominn með 39,5 stiga hita og er voðalega lítill í sér í dag. Litla grey, vonandi batnar honum fljótt.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Ég er eitthvað svo pirruð þessa dagana, veit að hormónarnir eru á fullu hjá mér en það er náttúrulega engin afsökun. Greyið Árni lendir oftast í tuðinu í mér og ég er nú að reyna að passa mig. Alveg hræðilegt þegar að maður getur tuðað yfir öllu :).

Annars er allt voðalega rólegt hjá okkur, reyndar búið að vera mikið að gera í hittingum hjá mér. Fór á tvo bumbuklúbbahittinga í seinustu viku og svo var saumó í gær. Er líka búin að skrá mig á brjóstagjafanámskeið sem verður í júní. Um að gera að reyna að undirbúa sig sem best ef allt skyldi ekki ganga eins og planað.

Var einmitt að segja við stelpurnar í gær að þetta kríli væri greinilega mjög hlýðið. Ég bað það um að hafa fylgjuna aftaná svo að ég og Árni gætum fundið meiri spörk og viti menn, fylgjan er aftaná :). Svo er ég líka búin að biðja það um að halda sig aðeins lengur inni en Benedikt, þ.e.a.s. allavega fram yfir viku 36 því að þá er maður ekki lengur fyrirburi. Og í það þriðja að brjóstagjöfin myndi ganga betur. Nú er bara svo hversu vel það hlýðir öllu þessu sem mamman er að biðja það um. Auðvitað skiptir samt bara mestu máli að það sé heilbrigt.

mánudagur, apríl 14, 2008

20 vikna sónarinn búinn og sem betur fer kom allt vel út. Litla krílið spriklaði fyrir okkur á fullu, var m.a.s. alltaf að veifa okkur og svo gleypti það legvatn líka. Ekkert smá sætt að sjá það hreyfa sig :). Við fengum að vita að fylgjan er aftaná en með Benedikt var hún framaná. Við erum rosa ánægð með það því að fylgjan er hálfgerður dempari og Árni fann t.d. ekki spörk með Benedikt fyrr en á 30. viku. Hann er hinsvegar strax búinn að finna spörk núna.
En núna er helmingurinn eftir, finnst þessi fyrri helmingur hafa liðið rosalega hratt. Ég er nú reyndar farin að finna meira fyrir bumbunni og er voðalega þreytt þessa dagana. Á laugardagsnóttina svaf ég t.d. í 10 tíma en lagði mig líka um daginn, Árni skilur ekkert hvernig ég get sofið svona mikið.

mánudagur, apríl 07, 2008

Það var svo gaman um helgina. Ég og Benedikt skelltum okkur í sumarbústað í Ölfusborgum með systrum mínum og börnunum þeirra. Það er alltaf svo gott að komast smá í sveitina, sáum fullt af yndislega sætum kanínum, ég var örugglega jafnhrifin af þeim og Benedikt :).

Við komum reyndar heim á laugardaginn því að ég og Árni fórum á árshátíð ÍE um kvöldið en Benedikt fór í næturpössun. Við skemmtum okkur alveg konunglega á árshátíðinni, maturinn var voða fínn, sérstaklega eftirrétturinn og skemmtiatriðin alveg frábær. Palli var DJ og Árni kom m.a.s. á dansgólfið og dansaði og þá er nú mikið sagt :). Alveg nauðsynlegt af og til að setja litla strumpinn í næturpössun og fara bara 2 út saman, njóta þess að vakna um morguninn og geta legið upp í rúmi að lesa og hafa það næs.

Annars er 20 vikna sónarinn á föstudag, getum varla beðið. Trúi varla að meðgangan sé hálfnuð. Vonandi kemur allt vel út en við ætlum heldur ekki að vita kynið á þessari meðgöngu þannig að forvitnir verða að bíða í 20 vikur í viðbót.

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Ég er svo sátt við vörubílstjóra og aðra þá sem standa í mótmælunum þessa dagana. Ég skil hinsvegar ekki fólk sem spyr hvort að það sé ekki komið nóg? Ríkisstjórnin er ekki að taka þessu nógu alvarlega ennþá og mér finnst að þessi mótmæli eigi að halda áfram þangað til að eitthvað verði gert. Jú, samgönguráðherra er búinn að tilkynna að verið sé að athuga úrbætur varðandi hvíldartímann en þeir eru að berjast fyrir svo miklu meira og þeir eru líka að mótmæla fyrir okkur. Mjög stolt af vörubílstjórum í dag :).

sunnudagur, mars 30, 2008

Fór til tannlæknisins á hverjum morgni síðastliðnu viku til þess að skipta um grisju og setja nýja. Tók grisjuna svo sjálf úr í gærmorgun og vonandi er þetta að lagast. Þori eiginlega ekki að segja neitt meira til að "jinxa" ekki neitt.

Annars var vikan voðalega fín, kíkti í Tvö líf á miðvikudaginn og keypti mér rosalega flottan kjól, bol, peysu og óléttunærbuxur. Keypti mér aldrei þannig þegar að ég gekk með Benedikt þannig að þetta var í fyrsta skipti sem ég og Árni sáum svona flíkur. Árni sagði við mig að ég hefði ekkert þurft að kaupa þetta, hefði alveg eins getað notað tjaldið okkar :). En alveg þægilegustu nærbuxur í heimi. Hlakka líka svo til að fara í nýja kjólinn á árshátíð ÍE sem er næstu helgi. Palli verður DJ þannig að þetta verður geðveikt stuð.

Reyndar varð svo litli strumpurinn veikur á fimmtudag, ég var greinilega of fljót að hrósa happi með að hann hefur bara einu sinni verið veikur frá áramótum. En hann er að lagast núna og er svoooo pirraður yfir því að þurfa að hanga heima einn daginn enn. En þar sem að hann var hitalaus í gær þá ætlum við að kíkja eitthvað út á eftir, hann verður örugglega mjög sáttur.

þriðjudagur, mars 25, 2008

Eftir enn eina svefnlausa og verkjamikla nótt (þrátt fyrir að hafa tekið parkódín) fór ég til tannlæknisins míns og fékk græðandi grisju inn í sárið og vá hvað mér líður betur. En ég ákvað hinsvegar, í samráði við tannréttingarfræðinginn minn, að bíða með tannréttingarnar, allavega fram yfir fæðingu. Átti auðvitað að fara í aðra tanntöku á föstudaginn og þótt að það sé mjög ólíklegt að þetta gerist aftur (það á að myndast blóðköggull í sárinu en einhverra hluta vegna myndaðist hann ekki hjá mér) þá vil ég eiginlega ekki taka áhættuna á því. Er búin að taka 9 parkódín töflur á 3 dögum og er með geðveikt samviskubit yfir því. Betra að gera þetta þegar að ég má dæla í mig verkjatöflum :). Þannig að núna verð ég voðalega sæt svona tannlaus. Ekki búast við að ég brosi mikið á næstunni.

sunnudagur, mars 23, 2008

Fór í tanntöku á miðvikudaginn, þarf nefnilega að taka 4 tennur úr mér fyrir tannréttingarnar og það voru 2 teknar. Ég bjóst við að þetta yrði ekkert mál, hef látið taka endajaxl úr mér og fann eiginlega ekkert fyrir því og þessar tennur sem var verið að taka eiga að vera frekar "lausar". Nei nei, ég var tæpa tvo tíma í stólnum, hann var í ca. hálftíma að ná tönninni í efri góm úr og sagði við mig að þær í neðri gómi væru vanalega auðveldari. Hann var í þrjúkorter að ná henni úr. Vanalega væri mér nú alveg sama um verkina en þar sem að ég er ófrísk þá má ég taka voðalega takmarkað af verkjalyfjum. Má taka Paratabs og er búin að vera taka þær en þær slá voðalega lítið á verkina. Á Parkódín líka en hef ekki tekið þær vegna þess að á fylgiseðlinum stendur að það sé takmörkuð vitneskja um áhrif þeirra á fóstur. Ég talaði hinsvegar við tannlækni í dag og hann sagði mér að ég ætti bara að taka Parkódín, sé til hvernig ég verð í nótt. Er nefnilega búin að sofa mjög slitrótt um páskana vegna verkja. Næsta tanntaka verður svo á föstudaginn, get ekki sagt að ég hlakki til þess en það þarf allavega ekki að taka fleiri tennur úr mér.

Annars eru páskarnir búnir að vera voða ljúfir. Fórum í gær í tveggja ára afmæli til Eyrúnar, alltaf gaman að hitta vinina og fá gott að borða.

Í dag fórum við í bústaðinn til tengdó og borðuðum þar. Herbergið okkar er alveg tilbúið, þ.e.a.s. á bara eftir að parketleggja þannig að það styttist í að við getum verið þar yfir nótt.

Málshátturinn sem við fengum passaði mjög vel við okkur: Blessun vex með barni hverju. Það er hinsvegar ekki mikið borðað af páskaeggjum á þessu heimili, ég auðvitað með verki og Árni virðist ekkert vera hrifinn af þessu. Gleðilega páska allir saman.

mánudagur, mars 17, 2008

Jæja, þá er fjölskyldan orðin frísk, þ.e.a.s. ég og Benedikt. Árni er ekki enn orðinn veikur (7-9-13) og við höldum í vonina að þar sem að hann fékk bólusetningu í haust þá muni hún duga. Benedikt varð semsagt veikur í seinustu viku en fór til dagmömmunnar í morgun. Okkur finnst það nú samt gott að þetta er í fyrsta skipti eftir áramót sem hann verður veikur.

Annars er nóg að gera þessa dagana, sérstaklega hvað varðar bumbuna :). Er í tveimur bumbugrúppum á netinu og það var hittingur hjá annarri í seinustu viku og svo hjá hinni á morgun. Voðalega gaman að hitta aðrar bumbulínur og spjalla um óléttuna. Við vorum svo í mæðraskoðun nr. 2 í dag og allt kom vel út. Hjartslátturinn heyrðist strax, sem betur fer.

Í kvöld ætla svo Hildur, Jósa og Edda að kíkja til mín, alltof langt síðan að við höfum hist. Ætla að gera eitthvað nammigott fyrir þær, alltaf gott að fá afsökun til að gera eitthvað "óhollt".

Páskarnir eru á næsta leiti og ég er búin að fá eitt páskaegg nr. 5 frá vinnunni, held að við látum það bara duga. Ég er ekkert fyrir nammi þessa dagana, nammigrísinn sjálfur, sem kemur mér voðalega mikið á óvart. Hinsvegar er ég komin með æði fyrir tómötum og borða alveg upp undir 6 á dag. Benedikt kemur heldur ekki til með að fá páskaegg, allavega ekki frá okkur. Hann er ekki einu sinni búinn að smakka súkkulaði þannig að það er algjör óþarfi.

laugardagur, mars 08, 2008

Þá er ég loksins að stíga upp úr þessari viðbjóðslegu flensu. Reyndar hvarf hitinn á mánudaginn en þá tók hóstinn við. Er semsagt búin að vera hóstandi á fullu í 5 daga. Ljósmóðirin mín vildi endilega að ég myndi láta hlusta mig, fannst ég hljóma eins og ég gæti verið komin með lungnabólgu þannig að á miðvikudagsmorguninn fórum við Árni á Sólvang. Þar var hinsvegar engin laus til að hlusta mig, við vorum þarna um áttaleytið og fengum þau skilaboð að við gætum prófað að mæta aftur um hádegi og þá yrði kannski einhver laus. Ég sagði við hjúkrunarfræðinginn að við myndum bara fara á Bráðamóttökuna en hún var nú ekki sátt við það, sagði að fyrst að ég gæti hreyft mig þá ætti ég ekkert erindi þangað. Við vorum ekki alveg að skilja hana. En við förum semsagt þangað og komumst strax að, ég var sem betur fer ekki með lungnabólgu en þeir vildu endilega láta mig fá næringu í æð vegna þess að ég var búin að vera svo lystarlaus.

Svo komum við heim seinna um daginn og ég held bara áfram að vera veik. Í gær byrjaði svo að blæða, ég var nú ekkert hrædd strax því að ég fékk enga verki en í morgun blæddi meira og þá voru komnir einhverjir verkir þannig að við drifum okkur á Kvennadeildina og þar hlustaði ljósmóðir eftir hjartslættinum í ca. 5 mínútur en ekkert heyrðist. Ég og Árni vorum nú orðin dálítið stressuð en ég var svo sett í sónar og þá sást lítið kríli með hjartslátt. Greinilega prakkari eins og pabbi sinn :). Blæðingin er líklegast bara komin út af áreynslu við að hósta.

Okkur finnst samt rosa skrýtið hvernig það er tekið á móti manni á Kvennadeildinni, ég hringdi í morgun og fékk þau skilaboð að ég ætti ekkert að vera að koma, ætti frekar að fara á Læknavaktina vegna þess að þetta vandamál tengdist Kvennadeildinni ekki neitt. Ég skil þau rök nú ekki. En allavega, ég fór á Sólvang og hitti vakthafandi lækni sem hlustaði á mig í ca. 2 mínútur en sagði svo að hann vildi senda mig á Kvennadeildina. Hann hringdi þangað og reifst hálfgert í símann við þá sem svaraði vegna þess að hún vildi bara alls ekki fá mig. Skil þetta ekki alveg. En allavega, allt er gott sem endar vel.

mánudagur, mars 03, 2008

Helga, Ingibjörg og Karen komu í saumó til mín á fimmtudaginn. Alltaf gaman að hitta þær skvísur, mikið spjallað og borðað. Á föstudaginn fór ég síðan snemma heim úr vinnunni, var hálf slöpp með höfuðverk. Gat lagt mig um daginn og við hjónin ákváðum að kíkja í afmæli til vinar hans Árna um kvöldið. Afmælið var haldið á Nasa og þar sem að þetta var einkasamkvæmi reyktu allir inni, oj oj oj. Reykurinn fór alveg þvílíkt illa í mig enda vorum við ekki lengi.

Á laugardaginn leið mér ágætlega en um hádegið var þessi höfuðverkur kominn aftur ásamt hita þannig að ég eyddi laugardeginum og mestöllum sunnudeginum uppi í rúmi. Var með 39 stiga hita á tímabili og var í hálfgerðu móki allan tímann. En er semsagt núna glaðvakandi klukkan hálfeitt að nóttu til, er ekki með eins háan hita en er komin með kvef og allt sem því fylgir. Ætla ekki í vinnuna á morgun, vil frekar reyna að ná þessu úr mér almennilega í stað þess að láta mér slá niður.

Er bara að vona að Benedikt og Árni smitist ekki, erum að fara með Benedikt í myndatöku á föstudaginn þannig að hann þarf nú helst að vera frískur. Það var samt svo sætt í dag, ég er eiginlega ekkert búin að vera með hann alla helgina, bæði vegna veikindanna og líka til að smita hann ekki. Ég kíkti fram í ca. 10 mínútur í dag og hann skreið strax til mín og knúsaði mig þvílíkt. Awww, litla mömmuhjartað bráðnaði alveg.

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Ég er í þvílíku bloggstuði þessa dagana. Var að lesa gömul blogg (ekkert að gera í vinnunni semsagt) og fékk alveg sælutilfinningu við að lesa um sumarið og hvað maður gerir alltaf mikið þá. Er nú reyndar ekki hrifinn af miklum hita en það er samt alltaf gaman að hafa bjart allan sólarhringinn, fara í ísbíltúra, fara í útilegur og bara njóta þess að vera til og hafa gaman af lífinu.

Annars er ég byrjuð að finna fyrir einhverjum bakverkjum, er að spá í að skella mér í meðgöngujóga/meðgöngusund hjá Mecca Spa. Mér líður auðvitað svo vel í vatni og alltaf fínt að hreyfa sig meira. Hreyfði mig ekkert þegar að ég gekk með Benedikt og væri alveg til í að gera eitthvað meira á þessari meðgöngu :).

þriðjudagur, febrúar 26, 2008

Á seinasta ári ákvað ég að fara loksins í tannréttingar. Búin að fara í alla gagnatöku og er á leiðinni til tannlæknis í mars til að láta taka 4 tennur og var að tala við tannréttingafræðinginn og fékk tíma í teygjur 11. apríl og svo verða spangirnar settar upp 18. apríl. Í lok mars verða semsagt tennurnar teknar og símadaman hjá tannréttingafræðingnum ætlaði ekki að láta mig fá tíma fyrr en 28. apríl. Ég var nú ekki alveg sátt við að vera "tannlaus" í heilan mánuð þannig að ég spurði hvort að ég mætti ekki bara koma aðeins fyrr. Sem betur fer var það ekkert mál. Reyndar á ekki eftir að sjást mikið í neðri góm en í efri góm eiga allir eftir að taka eftir þessu. Þannig að ég verð voðalega sæt í 2 vikur með bil á milli tannanna og svo verð ég ennþá sætari með spangir :). Eins gott að venjast tilhugsuninni um spangir, ég á eftir að vera með þetta í 2 ár. Finnst þetta samt eitthvað óraunverulegt, búin að hugsa um þetta svo lengi og allt í einu er bara komið að þessu.

sunnudagur, febrúar 24, 2008

Það var svo gaman í gær. Ég, Karen, Helga og Ingibjörg hittumst heima hjá Karen og horfðum á Laugardagslögin - ég var mjög sátt við úrslitin, reyndar skil ég ekki þá sem kusu lag Dr. Gunna en þetta er frjálst land :). Eftir mikið spjall var förinni heitið á Nasa á Eurovisionball þar sem Palli var DJ. Það er svo frábært að fara á ball með honum, við vorum á dansgólfinu stanslaust í 2 tíma og meirihlutinn af lögunum voru auðvitað Eurovision lög. Palli sjálfur tók svo nokkur lög og þótt að ég vissi að Eurobandið og fleiri myndu koma og syngja fór ég heim um 2:30. Var eiginlega bara búin á því en ég hef sjaldan skemmt mér jafnvel. Elska að dansa við Eurovision lög.

Strákarnir sem dönsuðu við hliðina á okkur vöktu samt athygli mína. Ef þetta eru metro strákarnir í dag þá hefði mér aldrei dottið í hug (þ.e.a.s. þegar að maður var að svipast um eftir mannsefni :)) að líta tvisvar á svona hrikalega metro stráka. Ég sver það, ég er ekki ennþá viss hvort að þeir voru samkynhneigðir eða ekki og samt voru nokkrir þeirra að dansa mjög svo "áhugaverða" dansa við stelpur. Ekki það að ég vilji ekki að karlmenn hugsi um útlitið en mér fannst þetta bara svo fyndið að ég varð að minnast á það.

Setti inn nokkrar bumbumyndir í albúmið mitt, set link inn á það á síðunni hans Benedikts. Endilega kíkið á þær, finnst ég vera orðin frekar "stór" miðað við meðgöngulengd.

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Loksins fást úrslit úr Laugardalslögunum, þ.e.a.s. eftir tvo daga. Ég hef nú reyndar ekki fylgst neitt alltof vel með þessu, þessi þáttur hefur ekki alveg náð til mín. Hinsvegar er ég búin að mynda mér skoðun um hvaða lag sé best, ég vona að Friðrik Ómar og Regína vinni. Er búin að heyra ensku útgáfuna og finnst hún algjört æði.
Ég er hinsvegar ekki alveg að fíla lagið hans Barða, ef ég hlusta á það í útvarpinu þá finnst mér það fínt en mér fannst það alveg hræðilegt þegar að ég sá þau á sviði.
Ég skil ekki hvernig Ragnheiður Gröndal komst áfram, jú hún syngur þetta voða vel en lagið er alveg hræðilegt að mínu mati.
Ég hlustaði svo á lagið sem Magni syngur og þótt að það sé ekki Eurovision vænt þá finnst mér lagið svaka flott, ekki spillir svo fyrir að mér finnst hann alltaf svo heillandi. Hefði viljað sjá hvernig það kom út þegar að Birgitta var með.
En allavega, ég vil að Friðrik Ómar og Regína vinni þetta, finnst mikill klassi yfir þeim og þetta eru alveg pottþéttir söngvarar sem eiga eftir að standa sig fullkomlega.

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Jæja, er ekki kominn tími á nýja færslu, sérstaklega þar sem að ég er með fréttir. Fjölskyldan okkar er að fara að stækka enn meira í ágúst en þá á ég von á mér. Fórum í 12 vikna sónarinn í dag og ég er komin 12 vikur og 5 daga og er settur dagur 28. ágúst. Þessi fyrsti hluti meðgöngunnar hefði nú alveg mátt vera skárri en mér er búið að vera flökurt allan sólarhringinn í ca. 9 vikur. En sem betur fer er ógleðin í rénum, ég er hinsvegar ennþá alveg svakalega þreytt, fer liggur við að sofa um leið og Benedikt á kvöldin ;).

En krílið lék á alls oddi í sónarnum, sparkaði á fullu en var samt sem áður nógu stillt til að hægt væri að mæla allt sem átti að mæla. Oh, það er svo gaman að allt leit vel út og við getum farið að segja öllum.

mánudagur, febrúar 11, 2008

Oh hvað mig langar til að kasta upp akkúrat núna. Að hlusta á Vilhjálm tala um hvernig hann "hefur lent í þessu máli" og "finnist það rosalega leiðinlegt". Eins og gjörðir hans hafa ekki skipt neinu máli og hann sé bara algjörlega ábyrgðarlaus í öllu þessu veseni. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er ekki að gera sig þessa dagana, algjörlega óþolandi flokkur.

En voðalega lítið að gerast þessa dagana, erum bara að vinna, sofa og vera með Benedikt. Hann er alltaf að þroskast meira og meira þessa dagana og alveg yndislegt að fylgjast með honum. Litla krúttið okkar :). Finnst alveg ótrúlegt að við foreldarnir höfum búið til þennan yndislega strump. Kannski spurning um að hætta áður en lesendur fara að kasta upp af væmni?

mánudagur, febrúar 04, 2008

Mér hefur nú alveg liðið betur en mér leið seinustu viku. Er búin að vera með einhverja kvefpest og það er svo mikið slím upp í mér (voða lekkert, ég veit) að ég kúgast liggur við í hvert skipti sem ég kyngi. Ég var alveg búin á því á miðvikudaginn og fór heim veik úr vinnunni, var svona lala á fimmtudaginn en á föstudaginn var litli snúðurinn orðinn veikur þannig að við mæðginin vorum veik heima saman. Árni var svo yndislegur að vakna með Benedikt báða dagana um helgina svo að ég gæti reynt að ná þessu úr mér. Er í vinnunni en er ennþá með þetta slím.

Ég kíkti reyndar í þrítugsafmæli til Eddu vinkonu á laugardaginn. Þetta var semsagt skvísupartý og ég skemmti mér rosalega vel. Hún átti nú reyndar afmæli á seinasta ári en betra er seint en aldrei að halda upp á afmælið sitt :).

Við hjónin áttum átta ára sambandsafmæli í gær. Alveg ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Við vorum nú eiginlega búin að ákveða að gera ekki neitt út af því að við mæðginin vorum svona hálf veikindalega ennþá. En æðislegi maðurinn minn kom mér á óvart með því að bjóða mér í bíó. Var búin að hringja í mömmu sína og hún kom að passa fyrir okkur. Alltaf svo frábært að láta koma sér á óvart. Fórum á National Treasure: Book of Secrets sem er mjög góð. Skemmtum okkur alveg konunglega :).

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Eitthvað voðalega lítið að gerast hjá mér þessa dagana, fer í vinnuna og er með fjölskyldunni. Reyndar fór ég ekki í vinnuna í dag vegna þess að ég komst ekki í skóna mína. Fékk einhverja leiðinda vörtu á tábergið á annan fótinn og var að láta fjarlægja hana í gær. Er semsagt búin að vera draghölt í allan dag og gat ekki stigið í fótinn, hvað þá keyra í vinnuna. Fór nú reyndar í saumó í gær enda var ég ekki orðin svo slæm þá. Alltaf gaman að hitta vinkonurnar, spjalla saman og gæða sér á gómgæti.

En EM búið hjá okkur, þeir eru nú samt strákarnir okkar og munu alltaf vera það :). Er rosalega stolt af þeim þótt að þeir hefðu nú alveg mátt spila mikið betur. Vonandi komumst við bara á Ólympíuleikana og stöndum okkur vel. Hinsvegar fannst mér alveg sjást að Alfreð var búinn að taka þessa ákvörðun fyrir mótið, fas hans og hegðun er búið að vera allt öðruvísi á EM heldur en áður.

fimmtudagur, janúar 17, 2008

EM 2008 að byrja í dag, vá hvað ég hlakka til. Hildur og Konni ætla að koma til okkar í kvöld og horfa á leikinn á móti Svíum. Geðveikt stuð.

Annars átti Árninn minn auðvitað afmæli seinasta sunnudag, varð þrítugur. Héldum upp á afmælið á Glaumbar og það heppnaðist bara vel. Ég fór nú reyndar snemma heim en afmælisbarnið hélt áfram djamminu til um 5 um morguninn. Vel af sér vikið, miðað við aldurinn :). Nei, segi nú bara svona.

Hrönn vinkona er svo að útskrifast úr HR á laugardaginn og erum við að fara í smá útskriftarboð af því tilefni. Mamma og pabbi ætla að hafa Benedikt yfir nótt og við hjónakornin ætlum að fara í bíó eða gera eitthvað annað skemmtilegt saman eftir útskriftina. Við fáum alltaf pössun þegar að eitthvað er að gerast en maður er alls ekki nógu duglegur að fá pössun til að gera eitthvað tvö saman þannig að við ákváðum að nýta tækifærið núna.

Annars er það bara EM sem kemst að hjá mér þessa dagana, áfram Ísland!!!!

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Þann 9. janúar 2007 kom Benedikt Einar í heiminn. Fyrir ákkurat ári síðan (+12 tímar) lá ég í rúmi á Fæðingardeildinni, Árni við hliðina á mér en litla karlinum var strax rúllað á Vökudeildina til að fylgjast með blóðsykursfalli. Ég gleymi því aldrei þegar að ég fékk hann á bringuna, svona pínulítill en alveg fullkominn. Hann fékk nú reyndar ekki að liggja lengi þar en pabbi hans fékk að halda á honum í ca. 2 mínútur. Barnalæknirinn var nú orðinn dálítið stressaður um að koma honum á Vöku og var alltaf að reyna að segja Árna að hann yrði að fara núna en Árni tímdi ekki að sleppa honum. Þegar að ég var búin að jafna mig fórum við á Vöku, svona aðeins til að kynnast honum betur en hann svaf bara á sínu græna. Við fórum svo á Fæðingardeildina aftur en ljósmóðirin mín var svo mikið yndi að hún samþykkti sko ekki að láta mig fara á Sængurkvennadeildina þar sem að allar konurnar yrðu með börnin sín hjá sér. Við fengum semsagt að sofa í eina nótt á Fæðingardeildinni, reyndar var nú ekki mikið sofið. Við lögðum okkur um 7 en vorum vakin kl. 8 þegar að Benedikt var rúllað inn. Alveg ótrúlegt hvað maður var þreyttur en jafnframt svo hamingjusamur. Fannst nú frekar skrýtið að vera allt í einu orðin mamma, hann kom líka 5 vikum fyrir tímann og þrátt fyrir að ég hafi farið þrisvar af stað þá vorum við t.d. ekki búin að pæla nógu vel í hvernig við vildum hafa fæðinguna og vorum ekki búin að kaupa neitt sem honum vantaði, fyrir utan nokkrar samfellur og buxur. En hann hefur svo sannarlega dafnað vel undanfarið ár og er auðvitað yndislegastur.

Héldum upp á afmælið hans á laugardaginn og auðvitað mætti heill her til að samgleðjast litla strumpinum. Hann var voðalega ánægður með daginn enda fékk hann heilmikið af nýjum leikföngum og fékk að smakka gulrótarköku í fyrsta skipti :).
Árni fór svo á sælkerakvöld með vinnunni um kvöldið en við mæðginin vorum bara heima og slöppuðum af.

Ég byrjaði svo að vinna hjá Landsbankanum á mánudaginn, er í 87% starfi sem er náttúrulega alveg frábært. Er frá 08:30 - 15:30 þannig að ég er ekki í neinu stressi til að fara með/sækja Benedikt.

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Sofnaði kl. 22:30 í kvöld en vaknaði aftur um eittleytið og hef ekki getað sofnað aftur. Fínt að nota þá tímann í að blogga :).

Jólin og áramótin voru alveg yndisleg hjá okkur fjölskyldunni. Benedikt var reyndar dálítið æstur á aðfangadagskvöld, gat opnað þrjá pakka en þá var bara komið of mikið áreiti og hann var ekki sjálfum sér líkur þannig að við lögðum hann niður til svefns og kláruðum pakkaopnunina í rólegheitum. Fengum fullt af fallegum gjöfum og jólakortum, takk allir fyrir okkur. Litli strumpurinn var búinn að jafna sig daginn eftir og finnst voðalega gaman að leika sér að nýju hlutunum.

Jóladagur og annar í jólum liðu í rólegheitum, fyrir utan jólaboðin tvö sem við förum alltaf í, annað hjá minni fjölskyldu og hitt hjá Árna fjölskyldu. Alltaf gaman að hitta fjölskylduna um hátíðar.
Við fjölskyldan erum öll búin að vera í fríi yfir jól og áramót sem er alveg frábært, höfum verið að dúlla okkur saman og njóta lífsins. Árni byrjar að vinna á morgun og ég þann 7. janúar.

Við borðuðum áramótamatinn í fyrsta skipti saman þetta árið, ég hef alltaf farið til foreldra minna og Árni til sinna en ákváðum að vera bara heima núna og það heppnaðist alveg ljómandi vel. Skaupið fannst mér frekar lélegt, þetta Lost dæmi var ekki að gera sig og það eina sem ég hló að var Lýður Oddsson, alveg frábær karakter.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og friðar á nýju ári. Munum að njóta lífsins og lifa fyrir líðandi stund.