sunnudagur, október 19, 2008

Jæja, er ekki fínt að blogga meðan að nýjasti fjölskyldumeðlimurinn sefur voða vært framan á mér í Moby Wrapinu? Það er algjör snilld að geta vafið börnin sín þétt að sér og samt verið með báðar hendur lausar, ætti að gefa manni nægan tíma til að ná að klára húsverkin en það er bara mikið skemmtilegra að vera í tölvunni.

Við hjónin fórum á sælkerakvöld í gær með vinnufélögunum hans Árna, mér leið nú eins og ég væri algjör gikkur. Þurfti að spyrja við hvern rétt hvort að það væru mjólkurvörur eða egg í honum en better safe than sorry. Annars hlakkaði smá í mér í gær, einn vinnufélaginn útbjó lambahjörtu en eins og allir vita er það eitt af mínum uppáhaldsréttum. Árna finnst þetta hinsvegar frekar ógeðslegt og mér hefur aldrei tekist það að fá hann til að smakka þetta. Hinsvegar er sú regla á þessum kvöldum að maður verður að smakka allt og viti menn, Árni kláraði skammtinn sinn. Þannig að núna get ég farið að elda hjörtu, lifur og nýru (sem ég hef ekki mátt elda heima í 8 og hálft ár) og Árni getur ekki sagt neitt.

Ég kíkti svo aðeins í búðir í gær og náði að kaupa tvær jólagjafir, finnst það nú vel af sér vikið miðað við að Berglind Elna drekkur á tveggja tíma fresti og þar sem að hún neitar pelanum þá þarf ég að gjöra svo vel að vera heima eða a.m.k. ekki langt í burtu þegar að hún er orðin svöng. Ætla að reyna að klára allar jólagjafirnar næstu 2-3 helgar, nenni ekki að vera að dandalast í Kringluna/Smáralindina í desember þegar að það er mikið skemmtilegra að jólast með fjölskyldunni minni í ró og næði. Fara á kaffihús og fá sér heitt kakó, fara í Jólaþorpið, baka piparkökur, o.s.frv.