fimmtudagur, júlí 31, 2008

Kannski kominn tími á að uppfæra lesendur aðeins. Er búin að fara 4 sinnum upp á deild vegna verkja, í seinasta skipti í gær. Þá var ég aðeins byrjuð í fæðingarferlinu en því miður þá blæddi dálítið mikið og ég var lögð inn vegna þess að læknarnir höfðu áhyggjur að það væri að blæða frá fylgjunni og að ástæðan fyrir því að ég væri komin af stað væri einhvers konar sýking í leginu. Sem betur fer komu allar prufur vel út og ekkert bendir til sýkingar en ég þarf að vera í eftirliti í sólarhring í viðbót. Ég er nú allavega búin að halda þessu kríli inni lengur en ég náði að ganga með Benedikt þannig að þetta er allt á réttri leið. Eftir viku verður maður svo ekki lengur flokkaður sem fyrirburi þannig að vonandi næ ég að halda því inni svo lengi. Það er sem betur fer hætt að blæða en ef það byrjar aftur að blæða verð ég líklegast sett af stað. Verkirnir eru líka dottnir niður, þannig að allt lofar góðu. Ég leyfi ykkur svo að fylgjast með :).

fimmtudagur, júlí 03, 2008

Ekki skil ég íslensk stjórnvöld þessa stundina. Að reka mann sem er að sækja um pólitískt hæli úr landi einn, tveir og þrír án þess að vera búin að fara yfir umsókn hans. Konan hans fæddi fyrir 6 vikum, maðurinn var eina fyrirvinnan á heimilinu og með þessu er verið að stía fjölskyldunni í sundur. Ég fékk tár í augun þegar að ég sá litla barnið í fréttunum á Stöð 2, finnst þetta alveg hræðilegt. Þetta er til háborinnar skammar fyrir íslensku þjóðina.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Við fjölskyldan fórum í myndatöku í dag, þ.e.a.s. þetta var eiginlega mest bumbumyndataka en Árni og Benedikt voru á nokkrum myndum líka. Hlakka endalaust mikið til að sjá myndirnar, vona að þær komi vel út. Svo förum við aftur þegar að krílið verður 2-3 vikna, eigum tíma í byrjun september, eins gott að ég gangi ekki mikið framyfir :).

Annars hitti ég fæðingalækni í seinustu viku og hún sagði að þótt að það væru örlítið meiri líkur á að ég myndi eiga aftur fyrir tímann þá gæti alveg eins verið að ég myndi ganga fulla meðgöngu núna. Við erum í raun bara að bíða eftir 7. ágúst því að þann dag flokkast krílið ekki lengur sem fyrirburi en svo er auðvitað týpískt að ég gangi jafnvel framyfir. Mér líður alveg svakalega vel þessa dagana, mér finnst ég reyndar líta út eins og hvalur en það munar rosalega miklu að geta farið heim um hádegi og hvílt sig. Árni er líka svo frábærlega æðislegur við mig, rekur mig inn í rúm að leggja mig ef honum finnst ég vera þreytuleg og sér eiginlega um allt á heimilinu. Alveg yndislegur við ófrísku eiginkonuna sína.

Fyrir utan þetta er mest lítið að frétta, bara 13 vinnudagar eftir hjá mér og þá förum við í sumarbústað í viku, hlakka endalaust til.