þriðjudagur, júlí 25, 2006

Bara nóg að gerast þessa dagana. Árni tók þá ákvörðun að fresta ritgerðarskilum, gengur ekki alveg nógu vel hjá honum þannig að hann byrjar að vinna 1. ágúst í stað 1. september. Hann miðar svo við að skila einhvern tímann um áramótin. Þótt að það sé pínku hættulegt að byrja að vinna áður en maður skilar þá er það nú talsvert betra en að sitja fyrir framan tölvuna og ná engu niður á blað. En honum líður allavega mikið betur núna og seinasti mánuðurinn af sumrinu verður líklegast aðeins fjörmeiri vegna þess að hann þarf ekki að vera allar helgar uppí skóla að læra.

Við fórum svo í heimsókn til Hildar og Konna í gær. Ekkert smá æðislegt að sjá þau, erum búin að sakna þeirra alveg svakalega mikið.

Á fimmtudaginn ætlum við svo að fara í smá útilegu. Ætlum að gista í Skaftafelli þá nótt og keyra til Bergþórs pabba á Bakkafirði á föstudag. Á laugardaginn ætlum við að keyra á Kárahnjúka, mig langar að sjá alla náttúruna sem fer undir vatn en Árni er nú reyndar spenntari fyrir því að sjá stífluna sjálfa. Á sunnudaginn leggjum við aftur af stað frá Bakkafirði og planið er að skoða Kröflu og Víti. Við ætlum svo að koma við í Búðardal til að hitta Hildi og Konna aftur en við náum líklegast ekkert að hitta þau meira meðan þau verða á landinu. En allavega, skemmtileg helgi framundan.

föstudagur, júlí 21, 2006

Ég er búin að vera að fylgjast með Rockstar: Supernova, örugglega eins og flestir Íslendingar og ég er svo stolt af Magna. Hann syngur auðvitað frábærlega vel, kemur mjög vel fyrir og er alveg laus við allan hroka. Íslendingahjartað mitt tók svo stóran kipp þegar að ég sá að hann er sigursælastur í netkosningu um hver sigrar í keppninni. Er greinilega vinsæll hjá fleiri en Íslendingum.

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Sigga systir á afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku Sigga mín. Njóttu dagsins :).

Voðalega mikill mánudagur í mér, bæði í gær og í dag. Var ekki að nenna að mæta í vinnuna í morgun en maður lét sig nú hafa það.

Er byrjuð að telja niður í flutningana, bara 45 dagar þangað til að við fáum afhent sem þýðir að það eru einungis 48 dagar þangað til að við getum tekið Snúddsa strák til okkar, hlakka endalaust mikið til að geta knúsað hann daginn út og daginn inn.

mánudagur, júlí 17, 2006

Helgin var bara hin fínasta. Það var ættarmót hjá Árna og þar sem að veðrið var svo leiðinlegt ákváðum við að fara bara snemma á laugardagsmorgninum og aftur heim um kvöldið. Mótið heppnaðist bara mjög vel þrátt fyrir veðrið enda var mjög gott að geta farið inn í félagsheimilið þegar að rigningin var of mikil.

Sunnudagurinn fór nú bara í leti, sváfum til hádegis og Árni fór svo upp í skóla að læra meðan að ég horfði á nokkra þætti og naut þess að hafa ekkert að gera. Er alveg að njóta þess að vera í fríi um helgar, reyndar væri nú betra að Árni væri með í fríi með mér en það gerist nú vonandi fljótlega. Allir að senda ritgerðarstrauma til hans, styttist alltaf í skil hjá honum og þ.a.l. styttist líka í að við fáum Snúðinn okkar aftur, afhendingu á íbúðinni og að Árni byrji í vinnunni sinni.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Jarðarförin hennar ömmu var á mánudaginn. Margar minningar hafa rifjast upp undanfarna daga. T.d. það að ég hefði líklegast aldrei lært að lesa nema með hennar hjálp enda var ég oft hjá henni þegar að ég var yngri, sat á stofugólfinu við bókaskápinn og las bækurnar hennar. Ég hef líklegast líka erft stundvísina frá henni en hún var alltaf tilbúin hálftíma áður en hún átti að leggja af stað, var m.a.s. komin stundum út á gangstétt og beið eftir þeim sem var að sækja hana korteri áður en von var á þeim. Amma var ein af viljasterkustu og þrjóskustu konum sem ég hef þekkt en alltaf jafn yndisleg þrátt fyrir það. Takk fyrir allt elsku amma.

Við systkinin ákváðum að setja ljóð í Morgunblaðið til minningar um hana og er það hér fyrir neðan.

Með þessu ljóði kveðjum við elsku ömmu.
Guð blessi minningu hennar.

Við kistu þína kveðjumst við í dag,
í kirkju hljómar ómþýtt sorgarlag.
Þú leggur upp í langa gönguför,
þín leið er greið að drottins fótaskör.

Við höfum ótal margt að þakka þér,
þakklátt auga minninganna sér
myndir koma minn á hugarskjá,
já, margt er gott sem hugarfylgsnið á.
(Hörður Zóphaníasson.)

Þín barnabörn
Matthías, Sólveig, Sigríður Elín, Bjarklind og Inga Elínborg.

laugardagur, júlí 08, 2006

Hildur vinkona á afmæli í dag. Innilega til hamingju með afmælið elsku Hildur og láttu Konna stjana við þig í allan dag :). Hlökkum ótrúlega mikið til að sjá ykkur þegar að þið komið til Íslands.

Við erum svo á leiðinni í afmæli í dag. Ríkey, litla frænka, varð semsagt eins árs í gær. Til hamingju með daginn Ríkey mín.

Fyrir utan þetta er nú mest lítið að frétta, ég geri ekki neitt annað en að vinna og Árni er á fullu í ritgerðinni. Vá, hvað ég hlakka til þegar að hann verður búinn og ég sé hann meira en klukkutíma á dag :). Njótið helgarinnar allir saman og verið góð hvort við annað.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Skrýtnar tilfinningar í gangi þessa dagana. Á sunnudeginum fékk ég þær fréttir að ég væri búin með kandídatsnámið mitt!! Fékk semsagt 10 fyrir lokaritgerðina, er voða stolt af sjálfri mér :). Hinsvegar fannst mér mjög svo skrýtið að vera ánægð með þetta, finnst það einhvern veginn ekki við hæfi þessa dagana. Vonandi get ég fagnað þessu betur þegar í næstu viku þegar að við verðum búin að kveðja ömmu.

Finnst þetta dálítið óraunverulegt, maður er búin að vera í námi samfleytt seinustu 5 ár og allt í einu er þetta öryggisteppi tekið frá manni. Núna er maður orðin stór og þarf að fara að leita sér að framtíðarvinnu, ótrúlega skemmtilegt en samt yfirþyrmandi á einhvern hátt.

sunnudagur, júlí 02, 2006

Dagurinn í gær var yndislegur. Helgan mín var svo falleg í kjólnum sínum, Freyr svaka myndarlegur í jakkafötunum og Hlynur auðvitað algjör dúlla í skírnarkjólnum. Ótrúlega falleg athöfn enda var ég með tárin í augunum mestallan tímann og gat varla sungið sálmana.
Veislan var mjög skemmtileg, góður matur og fullt af ræðum. Ég og Ásta héldum einmitt ræðu sem heppnaðist bara mjög vel :). Eftir veisluna hittumst ég, Karen, Sara og Rannveig heima hjá Söru, tókum eitt Buzz spil og spjölluðum. Mjög skemmtilegur dagur í alla staði.

Hinsvegar er oft stutt á milli hláturs og gráturs. Mamma hringdi í mig í morgun vegna þess að elsku amma mín lést í nótt. Hún var búin að vera svo mikið veik alla vikuna, í hálfgerðu móki og virtist ekkert vita af neinum í kringum sig. Þegar að ég fór til hennar í vikunni hélt hún nú samt í hendina á mér og vildi alls ekki sleppa. En minningarnar um hana lifa ennþá og það er alltaf gott að hugsa til þeirra. Hún er allavega komin til afa núna og líður mun betur.