miðvikudagur, júlí 12, 2006

Jarðarförin hennar ömmu var á mánudaginn. Margar minningar hafa rifjast upp undanfarna daga. T.d. það að ég hefði líklegast aldrei lært að lesa nema með hennar hjálp enda var ég oft hjá henni þegar að ég var yngri, sat á stofugólfinu við bókaskápinn og las bækurnar hennar. Ég hef líklegast líka erft stundvísina frá henni en hún var alltaf tilbúin hálftíma áður en hún átti að leggja af stað, var m.a.s. komin stundum út á gangstétt og beið eftir þeim sem var að sækja hana korteri áður en von var á þeim. Amma var ein af viljasterkustu og þrjóskustu konum sem ég hef þekkt en alltaf jafn yndisleg þrátt fyrir það. Takk fyrir allt elsku amma.

Við systkinin ákváðum að setja ljóð í Morgunblaðið til minningar um hana og er það hér fyrir neðan.

Með þessu ljóði kveðjum við elsku ömmu.
Guð blessi minningu hennar.

Við kistu þína kveðjumst við í dag,
í kirkju hljómar ómþýtt sorgarlag.
Þú leggur upp í langa gönguför,
þín leið er greið að drottins fótaskör.

Við höfum ótal margt að þakka þér,
þakklátt auga minninganna sér
myndir koma minn á hugarskjá,
já, margt er gott sem hugarfylgsnið á.
(Hörður Zóphaníasson.)

Þín barnabörn
Matthías, Sólveig, Sigríður Elín, Bjarklind og Inga Elínborg.