mánudagur, mars 26, 2007

Það er sko aldeilis ástand á litlu fjölskyldunni í dag. Allir meira og minna veikir. Benedikt er þvílíkt kvefaður, með stíflað nef og síhóstandi. Pabbi er hálfslappur með hita og mamma svaf eitthvað skakkt um nóttina þannig að hún er alveg stíf í bakinu og hálsinum og getur varla haldið á litla stubbinum sínum. Ekki neitt voðalega gaman.

Hinsvegar var rosa gaman um helgina. Benedikt fór í sína fyrstu næturpössun til afa og ömmu í Kópavogi og það gekk bara svona svaka vel. Við hjónin fórum saman í fordrykkinn fyrir árshátíðina hjá Árna (þar sem að sumir voru orðnir vel í því um sjöleytið, nefni engin nöfn) en svo skildu leiðir, ég fór í partý og Árni á árshátíðina. Ég var nú bara frekar róleg, kíkti reyndar aðeins á Glaum en það var ömurleg tónlist þar þannig að ég fór fljótlega heim. Var líka dauðþreytt og var búin að sjá rúmið mitt í hyllingum allt kvöldið. Árni var semsagt komin heim um tólfleytið og sofnaði strax en ég kom heim um tvö og svo sváfum við til hálftólf, ekkert smá gott. Frekar skrýtið samt að hafa engan til að vekja sig nokkrum sinnum um nóttina en samt sem áður vöknuðum við tvisvar-þrisvar af gömlum vana.

mánudagur, mars 19, 2007

Ég varð græn af öfund þegar að ég las þessa frétt, hefði svo sannarlega viljað vera á þessari árshátíð.

Árni kom heim á föstudagskvöldið við mikinn fögnuð :). Hann keypti myndavél í fríhöfninni þannig að við getum skilað myndavélinni sem við vorum með í láni til tengdó. Alveg nauðsynlegt að eiga myndavél þegar að lítill stubbur er búinn að bætast við fjölskylduna. Árni keypti líka nokkrar DVD myndir, t.d. Gremlins 1+2, ekkert smá gaman að horfa á þær aftur. Gismo alltaf jafn sætur.

Árni sá svo alveg um Benedikt bæði á föstudags- og laugardagsnóttina sem þýddi að ég fékk 10 tíma svefn á föstudagsnóttina, ekki alveg samfelldan en nærri því. Alveg nauðsynlegt að fá svona langan svefn af og til til að hlaða batteríin. Áður fyrr snérist bloggið um spítalaferðir en núna snýst það um svefn :).

föstudagur, mars 16, 2007

Ég fékk mér pylsur í hádegismat í dag og fór þá að hugsa um hvað Árni hneyklast alltaf á mér þegar að ég fæ mér pylsur, hann er alltaf að tala um að ég setji sósurnar ekki rétt á pylsurnar. Að hans mati þá eiga hrái laukurinn, steikti laukurinn, tómatsósan og remúlaðið að fara undir pylsuna en sinnepið á pylsuna sjálfa. Mér gæti nefnilega ekki verið meira sama um hvernig ég set þetta á og set þetta bara á eftir því hvað er næst hendinni. Árni hneyklast alltaf svo á mér þegar að ég geri þetta ekki "rétt" að hans mati. Mér finnst þetta bara svo fyndið að ég geri eiginlega meira í því að setja þetta "vitlaust" á, bara til að hann geti tuðað aðeins um þetta :). Það er greinilegt að ég er búin að hafa nógan tíma til að hugsa um mörg mikilvæg málefni þessa dagana, finnst ykkur ekki?

Annars hlakka ég þvílíkt til næstu viku, er að fara í klippingu+strípur á fimmtudaginn, fótsnyrtingu á laugardaginn og svo í útskriftarpartý til Eddu um kvöldið. Var einmitt að tala við Jósu í gær og við ætlum að fá okkur smá í glas, jibbí. Þar sem að ég er alveg hætt með Benedikt á brjósti og líka hætt að mjólka mig þá get ég alveg fengið mér áhyggjulaus í glas. Reyndar er árshátíð hjá Íslenskri erfðagreiningu sama kvöld en mig langar meira að fara í partýið þannig að Árni fer bara einn á árshátíðina. Benedikt fer semsagt aftur í pössun en Árni ætlar líklegast að koma fyrr heim svo að ég geti jafnvel kíkt niður í bæ. Þetta verður svoooo gaman.

þriðjudagur, mars 13, 2007

Árni fór út í gærmorgun þannig að við mæðginin erum bara ein heima þessa dagana. Ég bað Siggu systir um að koma og líta aðeins eftir Benedikt á meðan ég færi út í búð. Ég fer semsagt út í búð og það vantaði mest bleiur og blautþurrkur en snillingurinn ég gleymi auðvitað að kaupa það :). Eitthvað voða utan við mig þessa dagana en Sigga bauðst bara til þess að fara aftur út í búð fyrir mig og kaupa þetta tvennt.

Mér finnst voða skrýtið að vera ein með Benedikt. Ég stend sjálfa mig að því að líta á klukkuna og hugsa: Núna eru bara 2 tímar þangað til Árni kemur heim úr vinnunni en átta mig svo á því að hann kemur ekkert aftur fyrr en á föstudag. Ekki það að ég nenni ekki að vera með Benedikt, bara leiðinlegt að vera ein heima allan daginn og allt kvöldið líka.

miðvikudagur, mars 07, 2007

Eins og mér finnst skemmtilegt þegar að veturinn kemur þá finnst mér vorið alveg æðislegt líka :). Daginn er byrjað að lengja, sólin skín meira og allir komast í betra skap.
Mér líður semsagt aðeins betur en þegar að ég bloggaði seinast. Búin að sætta mig við að brjóstagjöfin gekk ekki, þýðir víst lítið að velta sér upp úr hlutum sem maður ræður ekki við. Ég held líka að ég verði að komast meira út en ég geri, fer eiginlega ekkert nema stöku sinnum út í búð. En við ætlum allavega að fara í mat til tengdó í kvöld, saumó annað kvöld og svo ætlum við að kíkja í heimsókn til mömmu og pabba um helgina.

Árni fer svo í vinnuferð á mánudaginn og verður fram á föstudagsmorgunn, þannig að heimsóknir til okkar eru vel þegnar. Sem betur fer verð ég með bílinn þannig að við mæðginin getum nú farið eitthvert ef við viljum.

föstudagur, mars 02, 2007

Er búið að líða mjög illa undanfarna daga, skrifaði heillangan pistil á síðuna hans Benedikts um það enda tengist þetta brjóstagjöfinni. Þannig að ef þið viljið lesa það, kíkið þá bara á síðuna hans. Skrifa meira seinna þegar að mér líður betur.