mánudagur, mars 26, 2007

Það er sko aldeilis ástand á litlu fjölskyldunni í dag. Allir meira og minna veikir. Benedikt er þvílíkt kvefaður, með stíflað nef og síhóstandi. Pabbi er hálfslappur með hita og mamma svaf eitthvað skakkt um nóttina þannig að hún er alveg stíf í bakinu og hálsinum og getur varla haldið á litla stubbinum sínum. Ekki neitt voðalega gaman.

Hinsvegar var rosa gaman um helgina. Benedikt fór í sína fyrstu næturpössun til afa og ömmu í Kópavogi og það gekk bara svona svaka vel. Við hjónin fórum saman í fordrykkinn fyrir árshátíðina hjá Árna (þar sem að sumir voru orðnir vel í því um sjöleytið, nefni engin nöfn) en svo skildu leiðir, ég fór í partý og Árni á árshátíðina. Ég var nú bara frekar róleg, kíkti reyndar aðeins á Glaum en það var ömurleg tónlist þar þannig að ég fór fljótlega heim. Var líka dauðþreytt og var búin að sjá rúmið mitt í hyllingum allt kvöldið. Árni var semsagt komin heim um tólfleytið og sofnaði strax en ég kom heim um tvö og svo sváfum við til hálftólf, ekkert smá gott. Frekar skrýtið samt að hafa engan til að vekja sig nokkrum sinnum um nóttina en samt sem áður vöknuðum við tvisvar-þrisvar af gömlum vana.