mánudagur, júní 30, 2003

Jæja ég ætla að fara að reyna að skrifa eitthvað á hverjum degi. Bara búin að vera að skrifa annanhvorn dag eða á lengri fresti og það bara gengur ekki.
Ég, Árni og Laufey fórum í badminton í dag. Eiður ætlaði líka að koma með en hann var því miður bara veikur greyið. Þannig að það var bara spilað einn á móti tveim og það er ekkert smá erfitt að vera sá sem er einn. Ég allavega hljóp fram og aftur um völlinn en náði sjaldnast boltanum ;).
Svo fórum við í mat til tengdó og ég og tengdamamma vorum bara mest að tala um brúðkaup (uppáhaldsumræðuefnið mitt þessa dagana) en Árni og tengdapabbi voru bara í tölvunni mestallan tímann. Það er samt komið á hreint að við fáum bílinn þeirra lánaðan til að vera brúðarbíllinn okkar. Hann er nefnilega svo flottur, alveg dökkblár og með leðursæti. Ekkert smá þægilegt. Mig og Árna langar nefnilega ekkert að fara í limmu, við höfum einu sinni farið í þannig bíl og okkur fannst það bara ekkert spes. Svo fór ég inn á fornbill.is og var að skoða bílana sem eru til leigu þar og mér finnst þeir bara ekkert flottir.
Svo var ég að panta tíma hjá tveim læknum í dag. Ég fékk tíma hjá öðrum þeirra 4. sept!!!! Ekkert smá langt sem að maður þarf að bíða. En samt er þetta þannig læknir að hann er hættur að taka inn nýja sjúklinga þannig að ég er bara heppin að vera hjá honum (þótt að maður þurfi að bíða í þrjá mánuði eftir tíma). En svo hjá hinum er bara þriggja vikna biðtími en því var nú reddað í gegnum klíku. Ég er nefnilega svo hrædd um að ég sé komin með gigt af því að á kvöldin þá verða fingurnir á mér svo bólgnir að þeir eru næstum tvöfaldir og ég verð svo dofinn og þetta er alveg í svona klukkutíma. Ég fór á doktor.is og þar fann ég að þetta gæti verið sóragigt sem er þannig að psoriasis er komið í liðina á manni. Þannig að ég ætla að fara til gigtarlæknis, bara til að vera örugg. Ég er nefnilega alltaf svo móðursjúk með allt svona. Og þar sem pabbi er með gigt þá fékk ég bara tíma hjá lækninum hans. Takk fyrir það pabbi ;)

sunnudagur, júní 29, 2003

Mánudagur á morgun og ég nenni alveg ekki í vinnuna. En svo er reyndar útborgunardagur á þriðjudag, jibbí. Ekki það að maður fái eitthvað mikið af því að Landsbankinn borgar alveg hrikalega!! En það er samt betra að fá ekki neitt ;) Sko hvað ég er bara jákvæð :)
Þetta var nú bara letidagur í dag, fór til Siggu og Drífu með mynd sem ég var að skrifa fyrir þær. Þær voru að koma úr sumarbústaðinum á miðvikudaginn, þær fengu svo leiðinlegt veður að þær ákváðu að koma heim alveg tveim dögum áður en þær þurftu að koma. Ekki gaman fyrir þær. Adam var svo sætur, sat rosa góður hjá frænku sinni og talaði alveg heilmikið. Ekki það að maður skildi hann eitthvað en samt gaman að hlusta á hann.
Maður verður líka alveg veikur að vera svona innan um lítil börn. Sérstaklega þar sem að þrjár af vinkonum mínum eru ófrískar, Inga, Sara og Rakel. Og þær eiga allar að eiga á svipuðum tíma þannig að ég verð alveg umkringd litlum krílum, gaman gaman.
Ég var að horfa á LOTR: The Two Towers í dag (í 4. skipti). Ég hlakka svo til að sjá þriðju myndina að ég get varla beðið. Það er samt geðveikt langt í hana, hún kemur ekki fyrr en seinast í desember. En það verður ekkert smá gaman að sjá hana. Þótt að maður sé búinn að lesa bækurnar og veit alveg um hvernig hún endar og þannig þá er svo gaman að sjá hvernig að leikstjórinn útfærir allt og svona. Svo er auðvitað bætt inn í ýmsum atriðum sem eru ekkert inn í bókinni og það er alltaf gaman að sjá þau. Þessar myndir eru svo mikil snilld að það er bara ekki eðlilegt. Og Aragorn er auðvitað alveg langsætastur (fyrir utan Árna).
Svo núna er ég bara í tölvunni að hlusta á rómó lög og gera word search á netinu, mér finnst það svo gaman. Árni er búinn í vinnunni eftir hálftíma og þá fer ég að sækja hann. Núna á hann bara eftir að vinna fjórar helgar áður en hann byrjar aftur í skólanum, jibbí. Við erum alveg bæði byrjuð að telja niður þangað til að skólinn byrjar aftur, bæði af því að við erum bæði í hundleiðinlegum vinnum en líka út af því að þetta verður seinasta árið okkar í skólanum, geðveikt stuð. Og þá verður bara farið að vinna, samt ekkert smá skrýtin tilhugsun af því að maður er búin að vera svo lengi í skóla. Og þá fær maður að fá sumarfrí á launum og fleira svona næs, alltaf frí um helgar (ekki bara á sumrin) og þannig.
Voðalega þurfti ég eitthvað mikið að tjá mig :) Svona er það þegar að maður er einn mestallan daginn og hefur engan að tala við.

Jæja blogspot komið aftur í lag, það voru einhver vandræði hjá þeim að birta íslenska stafi, ekki alveg nógu gott.
Ég og Árni erum búin að velja salinn fyrir brúðkaupið. Veislan verður semsagt í Félagsheimili Kópavogs, rosalega flottur staður. Laufey systir hans Árna hélt brúðkaupsveisluna sína þar og það kom rosalega vel út. Þannig að við erum í rauninni búin með allt svona sem þarf að panta svona snemma.
Svo fórum ég og mamma í dag að máta brúðarkjóla, ekkert smá skemmtilegt. Mömmu fannst ég alveg rosalega sæt í brúðarkjól, með slör og allt. Reyndar var kjóllinn sem Hrönn ætlar að sauma ekki inni þannig að ég ætla að fara aftur á þriðjudag og máta hann.
Ég fór í heimsókn til Ingu í kvöld. Greyið, hún má ekki vinna neitt meira út af því að hún er með of háan blóðþrýsting, þannig að hún er bara komin í fimm vikna frí. Geðveikt stuð, ég veit nú samt ekki alveg hvort að ég myndi fíla það, er ekkert voðalega svona dúllerímanneskja. En maður verður víst að hlýða læknunum og hugsa vel um barnið og sjálfan sig.
En ég ætla að fara að sinna manninum, hann er kominn heim úr vinnunni og er að fara að vinna aftur á morgun þannig að við ætlum að fara að knúra.

miðvikudagur, júní 25, 2003

Tveir og hálfur vinnudagur liðinn og ég er búin að sofa yfir mig tvisvar, þetta gengur nú bara ekki. Ég er bara eitthvað svo pirruð á vinnunni minni, ég er komin með geðveikt ógeð af henni. Og það eru alveg tveir mánuðir eftir af henni, ég nenni þessu ekki!!!
Ég er semsagt bara búin að fara að synda á mánudaginn, gat ekki farið í gær þar sem að ég svaf yfir mig en svo ætlum ég og Árni að byrja aftur í badminton í dag, gaman gaman.
Mér og Guðlaugu var boðið til Rakelar í gær og við fengum hollustumat hjá henni, niðurskorið grænmeti og geðveika jarðarberjaköku sem ég er að spá í að gera fyrir saumó næsta miðvikudag. Um nammi namm.
En það er nú voðalega lítið að segja og gerast hjá mér, er bara í þessari hundleiðinlegu vinnu minni og er alveg að deyja úr pirringi. Er ég ekki skemmtileg í dag?

mánudagur, júní 23, 2003

Helgin búin og vinnuvikan tekin við. Þetta var bara hin besta helgi, ég, mamma og Árni keyrðum í sumarbústaðinn eftir vinnu á föstudeginum og það var rosalega fínt. Grilluðum og spiluðum og töluðum saman alveg til hálfþrjú og svo var sofið alveg til tólf. Svo var bara spilað meira og slappað af og lagt aftur af stað í bæinn um fimm. Reyndar hefðum við alveg verið til í að vera lengur en við þurftum að mæta í útskriftarveislu hjá Karen klukkan níu
Hjá Karen var bara rosalega fínt, geðveikur matur og frábær félagsskapur. Reyndar fórum við heim um eitt, vorum ennþá eftir okkur eftir sumarbústaðaferðina :). En nú er semsagt fyrsta vinkonan búin að útskrifast, til hamingju með það Karen mín.

fimmtudagur, júní 19, 2003

Jæja ég er búin að vera geðveikt dugleg að synda, vakna klukkan hálfsjö alla daga og fer og syndi. Svo fórum ég og Rannveig í Kringluna í dag til að reyna að finna einhver föt fyrir mig til að fara í útskriftina til Karenar. En það gekk bara ekki neitt. Ef maður fílar ekki tískuna sem er núna (og ég fíla hana ekki) þá er ekki hægt að fá neitt annað. Allar búðir eru alveg eins, það er bara nóg að fara í eina búð og þá veit maður hvernig úrvalið er í öllum hinum búðunum. Og hvað er málið með þessa támjóu skó? Hvað með þá sem fíla þá ekki? Eiga þeir þá bara ekkert að kaupa sér skó? Þetta er svo fáránlegt, ég er alveg brjáluð.
En svo verður farið í sumarbústað á morgun og grillað og spilað og drukkið bjór og svona. Nammi namm. Ég hlakka ekkert smá til. En ég nenni ekki að blogga meira, við heyrumst eftir helgina og þá hef ég vonandi eitthvað meira að segja.

mánudagur, júní 16, 2003

Ég var svo dugleg í morgun, vaknaði klukkan hálfsjö og fór og synti 600 metra. Byrjaði nefnilega í átaki núna á laugardaginn, fór þá líka og synti 600 metra. Núna verður það bara átak þangað til á brúðkaupsdaginn. Ég er samt ekkert að meina að ég er hætt að borða, bara að hreyfa sig og reyna að borða rétt. Svo ætlum ég og Árni að byrja aftur í badminton, það er svo geðveikt gaman. Það datt nefnilega aðeins niður hjá okkur meðan við vorum í prófum og svona en núna er það bara harkan sex.
Það er svo þægilegt að hafa helgi og vinna svo í einn dag og svo aftur frí í einn dag. Helgin var nú bara afslöppunarhelgi nema kannski á laugardaginn. Við stelpurnar hittumst í Kringlunni til að kaupa útskriftargjafir handa Karen og Söru, þær eru nefnilega báðar að útskrifast núna á laugardaginn. Það tók nú dálítinn tíma að versla en það hafðist allt. Árni fór að hjálpa foreldrum sínum í einhverjum garði og var að vinna alveg í 6 tíma og brenndist nú dálítið mikið greyið mitt. En það er strax að lagast.
Svo er stelpukvöld í kvöld hjá Rannveigu, Sverrir greyið bara rekinn út og ekki getur hann hitt Árna því að hann er að vinna til alveg 1 í nótt. En svo ætlar hann (semsagt Árni) að kíkja líka eitthvað út. Þetta er nefnilega í fyrsta skipti í allavega 5 ár sem að hann er í fríi á 17. júní. Hann hefur alltaf verið að vinna. Þannig að það verður bara skrýtið að hafa hann heima :)
Svo á Bjarklind systir afmæli á morgun og verður 32 ára, rosalega gömul. Nei nei bara á besta aldri.
Svo um helgina verður farið í sumarbústað á Kirkjubæjarklaustri með Siggu, Drífu, Daníel og Adam. Við getum reyndar bara verið eina nótt því að það er útskriftarveisla/djamm hjá Karen á laugardagskvöldið en það verður samt fínt að komast aðeins útúr bænum, maður slappar svo vel af.
En ætli ég verði ekki að halda áfram að vinna.

miðvikudagur, júní 11, 2003

Jæja þá er búið að ákveða kirkjuna. Fórum að skoða Fríkirkjuna í gær og féllum alveg fyrir henni. Tengdó er líka rosalega ánægð með það því að þau giftu sig þar og bæði Árni og Laufey systir hans voru skírð þar. Þá er einu minna að hafa áhyggjur af. Þetta saladæmi er nefnilega geðveikt vandamál, á einum stað má bara vera með léttvín en ekki bjór (sem virkar ekki alveg af því að við ætlum að bjóða upp á bjór), einn staðurinn var rosalega fínn og ódýr en þá tekur hann ekki nógu marga í sæti og svo var einn annar sem var líka frekar ódýr en þá var skylda að vera með þjóna frá þeim og það kostar meira en salurinn. Alveg fáranlegt.
En bara tveir dagar eftir af vinnuvikunni, í rauninni bara einn og hálfur því á morgun er móttaka fyrir sumarstarfsmenn Landsbankans á Nordica hótel. Við þurfum ekki að mæta fyrr en níu (og verðum til ellefu) þannig að ég get sofið klukkutíma lengur, rosalega þægilegt.
Svo er kaffihús á morgun, er að fara að hitta stelpurnar, ekkert smá gaman. Langt síðan að við höfum farið á kaffihús og spjallað saman og svona skemmtilegt.
En núna eru Helga og Ásta að koma í heimsókn, ætla aðeins að fara að laga til :)

mánudagur, júní 09, 2003

Oh það er svo næs að hafa svona þriggja daga helgi og svo þurfa bara að vinna í fjóra daga. Svo í næstu viku er líka bara fjögurra daga vinnuvika. Árni var í fríi um helgina og er líka í fríi næstu tvær helgar, hann er eitthvað að vinna á hinni vaktinni líka sem vakstjóri og það kemur svona út að hann fær þriggja helga frí í röð, ekkert smá þægilegt. Hann er samt ekkert búinn að heyra með hina vinnuna, hann hringdi þangað á föstudaginn og það var sagt að það hefðu rosalega margir sótt um og þeir ætla bara að ráða tvo en þeir voru ekki búnir að ákveða sig. Þannig að hann fær vonandi að vita um þetta í þessari viku.
Við fórum að líta á kirkjur, fórum í Víðistaðakirkju og Garðakirkju, þær eru báðar svo rosalega sætar. Ég gat semsagt ekki gert upp á milli og Árni var hvoruga búin að sjá þannig að við fórum að sjá þær og ég vonaði að honum myndi finnast önnur þeirra fallegri en þá finnst honum þær báðar líka rosalega fallegar og getur heldur ekki gert upp á milli þeirra. Þannig að við ætlum að fara að skoða Fríkirkjuna næst þegar að hann er fríi. Það er nefnilega svo asnalegt að hann er á sinni vakt núna í dag. Vaktin hans er líka á þriðjudag en svo á hann að vinna bæði miðvikudag og fimmtudag á hinni vaktinni. Þeir voru búnir að segja við hann að á mánudaginn (semsagt í dag) þá myndi hann vinna en fá svo frí á þriðjudaginn og vinna svo miðvikudag og fimmtudag. En svo var hringt í hann í gær og honum sagt að hann ætti að vinna alla fjóra dagana. Hann var nú frekar ósáttur við það og þeir ætla að reyna að fixa það þannig að hann fær frí á morgun. En þeir voru eitthvað að segja að fyrst hann fengi frí þrjár helgar í röð þá ætti hann alveg að geta þetta en come on, Árni var ekkert að biðja um þetta frí, þeir eru sjálfir að færa hann um vaktir, fáránlegt. Frekar hallærislegt.
Svo var Helga að koma heim frá Svíþjóð og verður hérna í allt sumar, vei vei. Hún og Freyr komu einmitt í heimsókn áðan og það var ekkert smá gaman að sjá þau.

föstudagur, júní 06, 2003

Allar einkunnir komnar í hús og ég er búin að ná öllu. Fékk semsagt 6,0 í Persónuleikasálfræði og er bara frekar sátt við það. Þar sem að þetta er ekki mitt sterkasta fag, bara greinar að lesa. En það besta er að ég þarf aldrei að fara aftur til Magnúsar Kristjánssonar kennara. Ég er ekkert smá ánægð með það, tók eitt fag hjá honum á haustönninni og ákvað bara að klára næsta fag strax. Hann er ekki góður kennari, svo ekki meira sé sagt.
En maður er bara á fullu að hringja í kirkjur og sali og allt svona fyrir brúðkaupið. Svo er ég búin að finna kjólinn, var bara að fletta blaði á fasteignasölu og sá hann og féll strax fyrir honum. En ég skrifa auðvitað ekki hvernig hann verður af því að Árni má ekki vita hvernig hann er. En svo verður hann saumaður á mig, Hrönn vinkona ætlar að gera það. Okkur var einmitt boðið í mat þar í kvöld til að hún gæti séð kjólinn og sagt mér hvort að hann hentaði minni líkamsstærð og vexti og hann er víst bara perfect fyrir mig. Ég var ekkert smá ánægð að heyra það. Einu minna að hafa áhyggjur af. Svo ætlar hún líka að sauma á Ritu frænku mína sem verður hringaberi, ekkert smá sætt. Ætlar bara að sauma plain kjól á hana með rauðu bandi um miðjuna (þar sem litaþemað er rautt). Rita verður ekkert smá sæt, 4 ára lítil dúlla.
En jæja ætla að fara að sofa, ætlum að fara að skoða fullt af föndri til að föndra sætamerkingar og borðskraut á morgun og fara í Ikea og margt fleira. Segi ykkur frá því seinna. Sorry, veit að það er mikið talað um brúðkaup en það verður bara að hafa það, ég er nefnilega svo spennt, þið getið huggað ykkur við það að það eru bara 14 mánuðir í það ;)

miðvikudagur, júní 04, 2003

Jæja nú er mikið að segja. Árni bað mín nefnilega í gær, ekkert smá sætur. Við erum semsagt búin að ákveða daginn svona nokkurn veginn, ætlum að gifta okkur 7. ágúst 2004. Eigum samt ennþá eftir að tékka á nánustu ættingjum og svona hvort að þessi dagur henti þeim ekki en það eru nú varla margir búnir að ákveða eitthvað 14 mánuðum fram í tímann. Vonum bara ekki.
Ég er svo spennt að ég er alveg að deyja. Strax búin að gera nafnalistann, þótt að hann verðir líklegast eitthvað skorinn niður, komin strax í 124. Kannski aðeins of mikið.
En verð víst að fara að vinna, get ekki verið að dúlla mér í allan dag. Ég er samt ekkert búin að vinna síðan klukkan átta. Bara búin að segja öllum í vinnunni frá þessu og láta vinkonurnar vita.