fimmtudagur, desember 28, 2006

Oh, jólin voru alveg yndisleg. Ég og Árni nutum þess í botn að vera bara tvö ein í friði og ró, enda örugglega seinustu jólin í bili sem verða svona róleg :). Maturinn heppnaðist svaka vel og við fengum rosa margar fallegar gjafir og jólakort. Takk allir fyrir okkur. Eftir matinn kíktum við svo til foreldra okkar, komum svo heim um miðnættið og ég skreið strax upp í rúm með nýja bók, alveg það besta í heimi.

Hinir jóladagarnir liðu svo bara í rólegheitum, fórum reyndar í jólaboð bæði til tengdó og svo til Bjarklindar systur. Reyndar hefur jólaboðið alltaf verið hjá mömmu og pabba en mamma treysti sér ekki alveg að fá allan þennan skara heim til sín með hendina svona enda skilur maður það mjög vel. Það var bara mjög skemmtilegt að halda matarboðið annars staðar, við systurnar sáum um matinn og hann var bara rosa góður, þó ég segi sjálf frá, tíhí.

Við fórum svo líka að spila með vinum hans Árna, spiluðum nýja Trivial Pursuit og Meistarann. Ég var nú ekki alveg sátt við seinna spilið, spurningarnar voru fínar en það voru stafsetningarvillur út um allt, halló hefur þetta fólk ekki heyrt um prófarkalestur? Þar að auki er spilaborðið voðalega skrýtilega uppsett, allir sömu reitirnar eru hlið við hlið þannig að ef maður fær t.d. fimm þá sleppur maður við allar vísbendingaspurningarnar, voðalega hallærislegt eitthvað.

En ég ætla líka að óska Karen vinkonu til hamingju með afmælið, innilega til hamingju með daginn elsku Karen mín. Það verður einmitt partý á morgun hjá þeim skötuhjúum, hlakka rosa til að mæta þangað. Svo er líka brunch á morgun hjá Hrönn þannig að það er bara nóg að gera í félagslífinu. Er reyndar alveg að passa mig að hvíla mig nóg þessa dagana, viljum ekkert að litla krílið komi svona snemma í heiminn. Reyndar er ég ekkert búin að vera að fá verki aftur en allur er varinn góður.

sunnudagur, desember 24, 2006

Allt tilbúið á þessu heimili fyrir jólin, bara eftir að elda jólamatinn :). Ætla þess vegna að óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári (þó svo að klukkan sé ekki orðin sex). Látið ykkur líða vel yfir hátíðarnar og munið að slappa vel af í jólafríinu.
Knús frá Ingu, Árna, Snúði og bumbubúanum.

laugardagur, desember 23, 2006

Mér finnst eitthvað svo skrýtið að jólin séu að koma. Ég er svo vön því að vera í algjöru prófastressi fram í ca. miðjan desember og eiga frí alveg til jóla og eitthvað fram í janúar. Ekki það að mér finnist ekki mikið betra að vera að vinna allan desember, engin próf í gangi og svona en ég þarf bara tíma til að venjast þessu fyrirkomulagi. Þess vegna fannst mér svo skrýtið að vera komin í frí í gær en en jólin eru bara að koma á morgun, ekki eftir nokkra daga eins og síðustu ár :), en ég hlakka samt þvílíkt mikið til.

Mamma varð svo fyrir því óhappi að detta í fyrradag og handleggsbrotna. Greyið hún, var reyndar ekki sett í gips af því að þetta voru "einungis" tvær sprungur í axlarliðnum en hún má ekki hreyfa hendina í ca. 1 viku og verður að vera í fatlanum í 4-5 vikur. Vonandi batnar henni bara fljótt, ef það er einhver sem kann ekki að slappa af (fyrir utan mig) þá er það mamma, alveg hræðilegt að fá hana til að setjast niður svona rétt fyrir jól. Samt er mestallt búið hjá þeim þannig að hún getur alveg slappað af en það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Ég og Árni vorum einmitt hjá þeim í gær og við skreyttum tréð fyrir þau, oh þá komst ég nú í dálítið jólaskap. Kemst örugglega ennþá meira í jólaskap þegar að við skreytum okkar jólatré í dag.

Við systkinin hittumst svo öll heima hjá mömmu og pabba í dag til að skiptast á gjöfum, finnst það ómissandi í öllu jólastússinu. Sollý systir og Colin + börn eru komin til landsins, mjög góð tímasetning að vanda hjá þessari fjölskyldu. Mamma datt einmitt á sama tíma og þau voru að lenda þannig að það var enginn til að taka á móti þeim þegar að þau komu heim til Bjarklindar en sem betur fer komust þau nú inn þannig að það reddaðist alveg.

En ég ætla að fara að vekja Árna og fara svo að skreyta tréð, það verður nefnilega alveg nóg að gera í dag. Þ.e.a.s. Árni hefur nóg að gera, ég fæ að gera svaka lítið fyrir þessi jól annars er ég rekin um leið inn í rúm til að hvíla mig.

fimmtudagur, desember 21, 2006

Jæja, mætti í vinnuna í morgun og vann bara til 12, fannst frekar skrýtið að vera að fara heim svona snemma en það var hinsvegar voða notalegt. Finn alveg að ég er pínku þreytt þessa dagana þannig að maður verður bara að vera duglegur að hvíla sig nóg. Sem betur fer erum við búin að öllu fyrir jólin, nema skreyta jólatréð og þrífa smá.

Hlakka svo mikið til að vera í okkar eigin íbúð, njóta jólanna með Árna og Snúði (og bumbubúanum líka) og bara hafa það endalaust næs. Ég tók mér þar að auki frí miðvikudaginn 27. desember þannig að ég fæ alveg 5 daga frí. Árni verður nefnilega í fríi frá og með morgundeginum alveg fram til 2. janúar þannig að mér fannst ég mega líka fá smá frí :).

Ætla að fara að slappa meira af, kveikja á kertum og skella mér í heitt bað. Vonandi njótið þið jólaundirbúningsins, ekki stressa ykkur of mikið.

þriðjudagur, desember 19, 2006

Langt síðan að ég hef skrifað enda búið að vera nóg að gera. Á fimmtudaginn fékk ég einhverja verki og fór til ljósmóðurinnar. Hún sendi mig á fæðingardeildina þar sem að kom í ljós að ekkert var að, hafði líklegast bara ofreynt mig og líkaminn var að láta mig vita að ég ætti að hvíla mig. Fór semsagt bara heim og lá eiginlega uppi í rúmi alla helgina. Kíktum reyndar aðeins í fjögurra ára afmælið hans Adams, maður má nú ekki missa af því :). Í gær fór ég bara í vinnuna eins og vanalega en vakna í morgun með svipaða verki og fer því aftur upp á spítala. Aftur finnst ekkert að mér en mér bara ráðlagt að hvíla mig meira og minnka vinnuna í 50%. Vona bara að það dugi, ekkert gaman að vera að fá svona verki.

En fyrir utan þetta er allt hið besta að frétta, hlakka bara til jólanna :).

þriðjudagur, desember 12, 2006

Mér tókst að draga Árna á algjöra stelpumynd í gær, The holiday. Oh hún var svo sæt, þar sem að hormónarnir eru alveg á fullu hjá mér þessa dagana þá láku tárin niður kinnarnar á allmörgum stöðum, hefur örugglega verið mjög fyndið að fylgjast með mér :).

Þegar að við komum heim, blönduðum við okkur jólaöl og sátum með smákökur og konfekt og kláruðum að skrifa jólakortin, rosa kósý hjá okkur. Ekkert smá gott að vera búin með eiginlega allt fyrir jólin, á einungis eftir að skreyta nokkrar gjafir, kaupa jólatréð og skreyta það.

Svo fékk Árni í skóinn í nótt, fékk litla bók sem heitir: Pabbar og svo fæ ég í skóinn í nótt, alltaf gaman að fá í skóinn.

mánudagur, desember 11, 2006

Það eru tveir sem eiga afmæli í dag, Ingibjörg tengdamamma og Lára Dís. Innilega til hamingju með afmælið báðar tvær. Það var semsagt nóg að gera um helgina í afmælisboðum :).
Fórum auðvitað fyrst á jólahlaðborðið með vinnunni hans Árna sem var bara mjög fínt. Á laugardaginn kláraði Árni að mála meðan ég fór að hjálpa mömmu að pakka inn og svo fórum við í mat til tengdó um kvöldið. Við afrekuðum það svo eftir matinn að kíkja í Ikea, rosa sniðugt að fara kl. hálfníu þegar að brjálað veður er úti, það voru ca. 6 manns þar þannig að við röltum bara í gegn í rólegheitunum og versluðum meira að segja smá. Á sunnudaginn fórum við svo í barnaafmæli til Láru. Hengdum svo upp myndir og gerðum allt fínt hjá okkur, ekki seinna vænna því að stelpurnar komu í jólasaumó um kvöldið. Mjög afkastamikil helgi semsagt.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Helga vinkona á afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku Helga mín. Hlakka til að hitta þig á eftir :). Ég, Ásta og Hrönn ætlum nefnilega að kíkja til hennar í hádegismat og borða saman.

Annars er ég svaka ánægð með að það sé að koma helgi, ætla að hvíla mig, er orðin rosalega þreytt þessa dagana enda sofnaði ég kl. 8 í gær og svaf alveg til hálfsjö í morgun. Ekkert smá gott. Kannski var ég svona eftir mig eftir bumbumyndatökuna sem við vorum í, í gær. Hlakka ekkert smá til að sjá hvernig myndirnar koma út, fáum þær á stafrænu formi eftir viku, veljum þær myndir sem okkur finnast fallegastar og þá verða þær framkallaðar. Svo förum við með krílið þegar að það verður svona mánaðargamalt, ógó skemmtilegt.
Ég var samt frekar þreytt eftir myndatökuna, þurfti nefnilega að vera mikið á hnjánum svo að bumban myndi njóta sín sem best og það er ekki alveg að virka fyrir hnéin mín, titraði alveg þegar að ég labbaði út. Árni fékk líka að vera á nokkrum myndum þannig að þetta var fyrsta fjölskyldumyndatakan okkar :).

mánudagur, desember 04, 2006

Ég er eitthvað voðalega andlaus þessa dagana þegar að kemur að blogginu mínu. Finnst ég alltaf vera að skrifa þetta sama :s.

Helgin var reyndar voða fín, kláraði Sörurnar og þær eru bara nokkuð góðar, þó að ég segi sjálf frá :). Kláraði líka að pakka inn öllum jólagjöfunum og þá eigum við bara eftir að skrifa á nokkur jólakort. Eins gott að við séum svona tímanlega í þessu því að Árni bauðst til að halda sælkeraklúbbinn með vinnunni hans næst og þá vill hann endilega að við verðum búin að mála ganginn og stofuna. Ætlum semsagt að gera það núna í vikunni og næstu helgi (þ.e.a.s. Árni málar örugglega meðan að ég skipa fyrir, voða hentugt að mega ekki klifra neitt þessa dagna, ég verð þá bara í þessu auðvelda) þannig að við náum að koma öllum myndum aftur upp fyrir jólin. Það verður reyndar voða fínt að koma öllum myndunum upp, meira en helmingurinn sem kemst ekki fyrir núna vegna þess að við hengdum bara upp á þá nagla sem voru fyrir.

En annars lítur vikan út fyrir að verða mjög skemmtileg. Helga, Freyr og Hlynur ætla að kíkja í mat til okkar í kvöld, Jósa ætlar að koma í heimsókn á morgun og á föstudaginn er jólahlaðborðið með vinnunni hans Árna. Verðum semsagt að vera dugleg að mála á miðvikudag og fimmtudag. Á laugardaginn ætla ég svo til mömmu & pabba og hjálpa þeim að pakka inn gjöfunum, ætli ég skreyti ekki líka. Eftir að ég varð eina barnið sem var ennþá heima þá er þetta orðin svo mikil hefð að ég hjálpi þeim með þetta, mér finnst eitthvað vanta ef ég geri það ekki. Á sunnudaginn verður saumó hjá mér þannig að það er alveg feikinóg að gera.

föstudagur, desember 01, 2006

Það var svaka gaman á jólahlaðborðinu í gær. Mjög góður matur þótt að ég hafi þurft að sleppa mörgu því sem mér finnst gott vegna óléttunnar :). Hinsvegar var ég ekki ánægð með Ris a la mande grautinn, hann var eiginlega bara einn kekkur og alls ekki góður. Vona að hann verði betri á næsta jólahlaðborði sem verður eftir viku, þá með vinnunni hans Árna. Semsagt nóg að gera í jólahlaðborðum, finnst mjög fínt að þau skuli vera svona snemma í desember.

Annars ætla ég að njóta þess að vera í fríi um helgina, er orðin eitthvað þreytt eftir vikuna. Árni verður líklegast að vinna alla helgina, þarf að skila einhverju verkefni af sér eftir helgi þannig að ég ætla bara að vera heima, baka, pakka inn gjöfum og hlusta á jólalög. Byrjaði einmitt að baka í vikunni og er búin með botnana af Sörunum og á einungis eftir að setja kremið á. Nammi namm, hlakka mikið til þegar að þær kökur verða tilbúnar, eru svo góðar.

Reyndar langar mig alveg rosalega mikið á tónleikana með Magna og félögum í kvöld en þar sem að ég veit að ég fíla mig ekkert svakalega mikið á fjölmennum stöðum með bumbuna út í loftið þá vil ég frekar fara þegar að litla krílið er komið í heiminn. Vona bara að svona tónleikar verði haldnir aftur.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Helgin var ótrúlega fín. Fengum ógó góðan mat hjá Karen og Grétari, tókum svo eitt Friends - Scene it spil þar sem að Árni vann, sátum svo bara og spjölluðum. Þvílíkt gaman að sjá hvað íbúðin hjá þeim er orðin flott. Takk aftur fyrir okkur :).

Laugardagskvöldið fór nú bara í að borða, skipulagið á klúbbnum var semsagt þannig að einungis einn réttur var settur á borðið í einu enda stóð borðhaldið yfir frá hálfníu til hálfeitt. Ekkert smá gaman að smakka svona marga rétti sem maður hefur ekki smakkað áður, það voru t.d. grískar kjötbollur, kjúklingaréttur frá Sri Lanka, grafin gæs og kjúklingur með kókos og döðlum. Eftirrétturinn var himneskur, einhvers konar súkkulaðimús með kaffibragði og smá rjóma ofaná. Árni sem borðar ekki rjóma hámaði hann meira að segja í sig. Það sem mér fannst eiginlega skemmtilegast var að mennirnir elduðu réttina og konurnar fengu ekki að koma nálægt matargerðinni :). Planið er svo að deila uppskriftunum og við erum að spá í að hafa eftirréttinn á aðfangadag, nammi namm.

Fjölskyldan kom í afmæli til mín í gær, fékk rosa margt fallegt í afmælisgjöf, takk allir fyrir mig. Ég var auðvitað búin að gera rétti fyrir heilan her en samt var ekkert svo mikið eftir í afgang enda var vel borðað. Ég og Árni vorum nú samt voða ánægð um kvöldið þegar að við gátum sest niður og slappað smá af, alveg nauðsynlegt að gera það um helgar.

Það verður nóg að gera í vikunni, seinasti tíminn í foreldrafræðslunni er á morgun og á fimmtudag er jólahlaðborð með vinnunni minni. Hlakka mikið til að fara á jólahlaðborð enda er þetta í fyrsta skipti sem ég fer á þannig, fá góðan mat og skemmta sér aðeins utan vinnunnar.

föstudagur, nóvember 24, 2006

Helgin byrjar bara mjög vel - fékk þær fréttir að um leið og ég er búin að borga eina kröfu frá Heilbrigðismálaráðuneytinu fæ ég starfsleyfið mitt sem sálfræðingur sent í póst :). Ótrúlega ánægð. Það verður svo nóg að gera um helgina. Í kvöld er matarboð hjá Karen og Grétari, hlökkum rosa mikið til að sjá hvað er búið að gerast í íbúðinni síðan seinast.

Annað kvöld er sælkeraklúbbur hjá deildinni hans Árna, allir koma með einhverja gómsæta rétti og allir smakka hjá öllum. Mér finnst alveg frábært hvað vinnufélagarnir hans eru duglegir að hittast enda ná þeir allir ótrúlega vel saman.

Sunnudagurinn fer svo í afmælisboðið mitt, hlakka mikið til þess. Í rauninni í fyrsta skipti sem við bjóðum allri fjölskyldunni formlega í heimsókn eftir að við fluttum inn þannig að það verður svaka gaman. Eins og sjá má er félagslífið alveg í toppi þessa dagana, alltaf skemmtilegt að hafa nóg að gera.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Jæja, kannski kominn tími á skemmtilegra blogg. Ég og Árni fórum á laugardaginn og kláruðum allar jólagjafirnar, ekkert smá dugleg. Ótrúlega gaman að vita til þess að maður þurfi ekki að fara meira í Kringluna eða Smáralindina fyrir þessi jól. Okkur fannst nú alveg nógu mikið fólk í Kringlunni um helgina, hvernig verður það þá fyrir jólin.
Desember getur þá bara farið í að skrifa jólakortin, baka, lesa bækurnar sem ég keypti mér úti, sauma og bara hafa það ótrúlega mikið næs. Fyrsti desembermánuðurinn í langan tíma sem fer bara í dund og ekkert skólavesen, alveg yndisleg tilhugsun.

Næsta sunnudag kemur fjölskyldan svo í afmælisboð þannig að maður þarf að vera duglegur að baka í vikunni :). Ekki það að mér finnist það leiðinlegt. Þarnæstu helgi ætla ég svo að baka sörur og marengstoppa, ásamt því að skreyta íbúðina. Hlakka svo mikið til.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Hugsanir um fæðinguna hringsnúast í hausnum á mér þessa dagana. Húðsjúkdómalæknirinn minn ráðlagði mér að fara í keisara út af húðsjúkdómnum mínum og þar sem að ég treysti henni best í þessum efnum þá ákvað ég bara sjálf að ég myndi fara í keisara. En nei, maður má víst ekki ákveða þetta sjálfur.
Ég er semsagt búin að tala við ljósmóðurina, kvensjúkdómalæknirinn minn og fæðingarlækni. Öll eru þau á þeirri skoðun að ég eigi að "prófa" að fæða. Í fyrsta lagi er ekkert að "prófa" að fæða í mínu tilviki. Það er ekkert hægt að hætta við í miðri fæðingu þegar að kemur í ljós að sjúkdómurinn minn er að gera mér erfitt fyrir, skaðinn verður þá kominn og ekkert hægt að segja: Æ, æ. Í öðru lagi hafa allir þessir fagaðilar viðurkennt fyrir mér að þau vita í raun ekki alveg út á hvað sjúkdómurinn gengur, vegna þess að hann er svo sjaldgæfur. Reyndar ætlar fæðingarlæknirinn að tala við húðsjúkdómalækninn minn og kynna sér þetta allt betur og ég á að hafa samband við hana um miðjan desember. Þvílíkan tíma sem þetta gengur, ég byrjaði að tala við húðsjúkdómalækninn minn um miðjan ágúst og þetta er komið svona stutt.

Svo fórum við á foreldranámskeið í gær og allur fyrsti tíminn fór í að tala um fæðingu þannig að ég fór að hugsa um þetta einu sinni enn. Mér líður svo illa yfir þessu, auðvitað langar mig að fæða barnið mitt en ég veit ekki hvort að ég á að taka áhættuna á því.
Það hjálpar svo ekki þegar að allir ýja að því að ég vilji sleppa auðveldlega út úr þessu með því að fara í keisara og það hefur virkilega verið sagt við mig að ég fái nú mikið stærra ör eftir keisarann og á meira áberandi stað. Það er eins og ég sé að fara fram á keisara út af einhverju fegrunardæmi, ekki vegna sjúkdómsins míns. Mér finnst bara svo skrýtið að konan sjálf geti ekki ákveðið hvort að hún vilji fara í keisara eða ekki. Vona bara að fæðingarlæknirinn komist að sömu niðurstöðu og húðsjúkdómalæknirinn minn, vegna þess að hún virðist ráða þessu.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Ég þarf virkilega að passa blóðþrýstinginn þessa dagana. Það eru allir að tala um Frjálslynda flokkinn og nýju stefnuna hans. Það sem ég er að æsa mig yfir er nokkurn veginn tengt því. Ég skil mjög vel að þar sem að Íslendingar finnist þeir vera of fínir til að vera í afgreiðslustörfum að verslunareigendur þurfi að ráða útlendinga.

Það sem fer í taugarnar á mér er að útlendingar séu ekki skyldaðir til að læra tungumálið okkar. Íslenskunámskeiðin eiga auðvitað að vera ókeypis (þau eru það reyndar núna en bara af því að stjórnvöld ákváðu það svona rétt fyrir kosningar). Mér finnst að þeir eiga ekkert að geta komið hingað og farið í ýmis þjónustustörf nema kunna íslensku. Þá er ég ekki að meina að kunna hana reiprennandi enda skiptir æfingin öllu máli en allavega að þeir geti reddað sér. Ég samþykki allavega ekki að fara út í búð/út að borða og geta ekki talað við afgreiðslufólkið á MINNI tungu í mínu HEIMALANDI. Svo er fólk að segja að íslenskan sé svo svínslega erfið að það sé nú ekki hægt að ætlast til að fólk læri þetta. Halló, ekkert annað land samþykkir að afgreiðslufólkið tali ekki þá tungu sem er opinbera tungumálið í hverju landi. Við erum að taka við fólki inn í okkar land og þau eiga að aðlaga sig að okkar menningu, þ.m.t. málinu.

Reyndar hef ég nú verið flokkuð sem fanatísk á íslenskt tungumál, ég samþykki t.d. ekki að skammstafa orð til að spara pláss, hvorki þegar að ég skrifa sms, msn eða í tölvupóstum. Íslenskan á alveg nógu erfitt fyrir og þess vegna eigum við að vera stolt af tungumálinu okkar og hjálpa útlendingum enn betur að ná tökum á því. Við eigum hins vegar ekki að leyfa þeim að komast upp með að tala það ekki og hananú!!! Það eru ekki bara við sem græðum á því heldur útlendingarnir sjálfir líka, þeir geta þá betur fylgst með hvaða rétt þeir eiga hér á landi, falla betur inn í samfélagið o.s.frv.

Ekki skánaði svo ástandið þegar að ég sá að Árni Johnsen lenti í 2. sæti í prófkjörinu. Þetta sýnir bara hvað við lifum í rotnu samfélagi. Maðurinn braut af sér í embætti og það er verið að kjósa hann í embætti aftur. Jú, hann hefur beitt sér mikið fyrir Vestmannaeyinga og það var mikil þörf á því en hversu langt á þessi maður að geta gengið. Hann iðrast ekki einu sinni, telur einhvern veginn að það hafi verið brotið á sér. Maðurinn er siðblindur, það er það eina sem er hægt að segja um hann og ég skil ekki hvernig fólk gat kosið hann aftur.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Alltaf gaman að halda upp á afmælið sitt, stelpurnar komu á miðvikudagskvöldið og við spjölluðum og borðuðum nammigott. Takk fyrir samveruna krúttur. Þar sem að síminn minn virkar svo ekki í USA þá biðu mín fullt af sms-um þegar að ég kom heim í gærmorgun, takk allir sem sendu mér kveðjur, alltaf gaman að vita að einhver sé að hugsa til manns.

Það var svo skemmtilegt í Boston!! Ótrúlega falleg borg, ég væri alveg til í að fara þangað aftur og hafa þá einhvern tíma í að skoða borgina sjálfa. Það var enginn tími til þess núna, hinsvegar er ég nokkuð góð í verslunum borgarinnar :). Náði að klára allar jólagjafirnar fyrir systkinabörnin og þá eigum við bara 3 jólagjafir eftir, jibbí.

Hinsvegar var ég nú alveg sátt við að fara heim núna, var orðin rosalega þreytt á því að vera bara í verslunum samfleytt í tvo daga. En ég náði líka að versla smá inn fyrir litla krílið, finnst ótrúlega skrýtið að taka þessi pínkupons föt upp og ganga frá þeim.

Við fórum svo á Cheesecake factory og oh my god hvað ostakökurnar eru góðar þar. Ég fékk mér karamelluostaköku og þetta bráðnar bara uppi í manni. Miðað við stærðirnar sem maður fékk á öllum stöðum þá er ekki skrýtið að Bandaríkjamenn séu svona feitir, engin af okkur gat klárað ostakökuna, skildum meira en helming eftir. Við skemmtum okkur semsagt rosalega vel, væri alveg til í að fara í aðra svona ferð eftir ca. ár, þegar að maður er búinn að gleyma hvað það er þreytandi að versla svona mikið inn í einu :).

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Oh það er svo mikil jólasnjókoma úti, alveg yndislegt :). Enda er ég búin að vera að raula "Snjókorn falla" í allan morgun.

Hlakka einmitt svo mikið til að geta klárað jólagjafirnar í Boston. Hef aldrei verið svona sein eins og núna, er vanalega búin um miðjan nóvember en núna er ég einungis búin með 2. Annars er allt tilbúið fyrir förina, búin að fá nýja passann minn og ætla að "pakka" í kvöld áður en vinkonurnar koma í smá afmælisboð. Þar sem ég verð nú aðeins í tvo daga þarf ég nú voðalega lítið að pakka, ætla að taka með mér minnstu töskuna, raða ofan í hana og setja hana svo í stærri töskuna.

Kvöldið verður rosa skemmtilegt, allt er tilbúið fyrir boðið þannig að ég kem bara heim og bíð eftir að stelpurnar mæti. Best að óska Sollý systur til hamingju með afmælið núna, við gerum eitthvað skemmtilegt fyrir okkur báðar úti í Boston, þú verður bara með í anda :).

mánudagur, nóvember 06, 2006

Púki kemur upp að þér eina nótt og segir: Þetta líf sem þú lifir, þú verður að lifa því óendanlega oft og sérhver sársauki, gleði og hugsun kemur aftur og aftur til þín, alltaf í sömu röð. Það mætti líkja þessu við óendanlegt stundaglas sem er snúið aftur og aftur. Myndir þú gnísta tönnum og bölva þessum púka eða myndir þú ansa: Aldrei hef ég heyrt neitt jafn dásamlegt - Nietzche.

Þótt að maður hafi lent í ýmsu þá hefur líf mitt verið alveg ágætt. Ég er nú samt ekki viss um að ég myndi "nenna" að endurlifa allt mitt líf, enda er alltaf gaman að uppgötva eitthvað nýtt. Á hinn veginn væri ég nú alveg til í að geta upplifað einhverjar stundir í lífi mínu aftur og aftur. Semsagt, erfitt að svara þessu enda held ég að það sé tilgangurinn, um að gera að minna sig á að lifa lífinu til fulls sérhvern dag.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Laufey mágkona á stórafmæli í dag en hún er 35 ára. Innilega til hamingju með afmælið elsku Laufey. Njóttu dagsins og láttu Eið stjana við þig :).

Tvíburunum hjá Einari frænda og Helgu lá svo mikið á að komast í heiminn að þeir ákváðu að láta sjá sig á mánudaginn, aðeins tæplega 29 vikna gamlir. Þetta voru semsagt tvær prinsessur, pínulitlar, önnur um 5 merkur og hin 4 1/2 merkur. Þær voru auðvitað strax settar í súrefniskassa og verða þar líklegast fram á næsta ár. Vona bara að allt gangi vel hjá þeim, þær grétu voða mikið þegar að þær komu í heiminn sem er góðs viti hjá svona litlum börnum.

Annars er allt á fullu hérna í Miðvinnslunni að undirbúa jól í skókassa. Ég ætla að gefa tvo kassa, einn fyrir strák og einn fyrir stelpu. Á bara eftir að ákveða aldurinn, seinasti dagur til að skila er 11. nóvember þannig að ég þarf að klára þetta áður en ég fer út.

mánudagur, október 30, 2006

Mér finnst ég bara blogga um hversu fljótt helgarnar líða :). Á föstudaginn var starfsdagur í vinnunni, það var keyrt í Selvík um hádegið og ýmislegt skemmtilegt gert þar. Dagurinn endaði á fordrykk, þrírétta máltíð og nóg af léttvíni og bjór (ekki það að það skipti máli fyrir mig þessa dagana). Vorum komin aftur í bæinn um hálfellefu.

Á laugardaginn kíktu Hrönn, Axel og Lára Dís í heimsókn og við grilluðum saman. Alltaf gaman að fá gesti. Ég fór svo til mömmu á sunnudaginn þar sem við lágum yfir netinu til að sjá hvað við ætlum að kaupa í Boston, enda bara 9 dagar þangað til að við förum. Þetta verður svooooo skemmtilegt.

Annars ætlaði ég að óska Hildi vinkonu innilega til hamingju með útskriftina, loksins orðin sálfræðingur eins og ég :). Væri alveg til í að komast í útskriftarveisluna en það verður víst að bíða, vesen á þessum skóla að geta ekki stílað einkunnagjöfina inn á þegar að við vorum í heimsókn, tíhí.

fimmtudagur, október 26, 2006

Við skelltum okkur á Mýrina í gær, mæli hiklaust með henni. Ég og Árni skemmtum okkur mjög vel, besta íslenska myndin sem við höfum séð í langan tíma. Ekki spillti svo fyrir að mamma og pabbi sjást í tveimur skotum, þegar að tekið er inni í BSÍ.
Mér fannst Baltasar taka líka svo falleg myndaskot, ótrúlega mikið tekið úr lofti og horft yfir Reykjavík eða Suðurnesin, alltaf gaman að sjá landið sitt frá öðruvísi sjónarhorni.
Þótt að ég hafi ekki verið alveg sátt við Ingvar í hlutverki Erlends fyrst þá get ég ekki ímyndað mér einhvern annan í hlutverki hans núna, stendur sig geðveikt vel. Yfir höfuð fannst mér allir standa sig vel í hlutverkum sínum. Ég var nú reyndar búin að ímynda mér að Sigurður Óli væri ljóshærður og líka að Erlendur ætti að vera kominn með smá ístru en það eru nú bara smáatriði.

mánudagur, október 23, 2006

Skemmtileg helgi liðin. Grillpartýið hjá deildinni hans Árna heppnaðist ekkert smá vel, alltaf gaman að hitta vinnufélaga hans og maka þeirra. Ég var nú reyndar bara róleg og var komin heim um 11, svo að ég myndi nú ekki sofna í sófanum :).

Á laugardaginn fórum við svo í partý til Ástu sem var að útskrifast úr stjórnmálafræðinni í HÍ, innilega til hamingju einu sinni enn elsku Ásta mín.

Á sunnudaginn var Magnús Breki skírður, var algjör dúlla í skírnarkjólnum og það heyrðist nú varla í honum í veislunni. Við kíktum svo aðeins í heimsókn til tengdó þannig að þessi helgi var bara nokkuð afkastamikil.

Það verður mikið að gera í vikunni sem er framundan, afmæli hjá Hjörvari eftir vinnu í dag, saumó á morgun og við hjónin erum að spá í að kíkja á Mýrina á miðvikudagskvöldið. Hlakka ótrúlega mikið til að sjá myndina enda búin að lesa bókina 4 sinnum.

fimmtudagur, október 19, 2006

Ég er búin að vera svo þreytt þessa vikuna, er byrjuð að finna aðeins meira fyrir kúlunni, sérstaklega daginn eftir flugið. Mér leið eins og ég væri ekki búin að sofa í viku :). Ég ætlaði mér semsagt að hvíla mig bara um helgina en það lítur nú ekki út fyrir að það verði auðvelt. Grillpartý á föstudaginn, útskriftarpartý hjá Ástu vinkonu á laugardaginn og skírn hjá Ingibjörgu og Bigga á sunnudaginn. Reyndar þvílíkt gaman að hafa mikið að gera og hitta vinina svona mikið.

Annars kíktum við í mat til Helgu og Freys í gær, fengum ótrúlega góðan pastarétt og sátum svo aðeins og spjölluðum. Fórum reyndar dálítið snemma heim, af því að ég var svo þreytt.

Fyrir utan þetta er nú mest lítið að frétta. Fer til Boston með mömmu og Bjarklindi systur eftir 3 vikur, maður þarf einmitt að byrja að hugsa hvað maður ætli að kaupa og svona.
Svo erum við rosalega stolt af Snúðinum okkar þessa dagana, hann er loksins búinn að læra að fara sjálfur inn og út um kattalúguna sína, allavega á daginn þegar að hann er einn heima. Hann er ekki alveg búinn að læra það á morgnana, vill ennþá að við hleypum honum út þá. Alveg ótrúlega fyndið hvað hann er vanafastur, vekur mig alltaf kl. 5:11 til að ég geti hleypt honum út. Ég er ekki að grínast með þessa tölu, lít nefnilega alltaf á klukkuna þegar að ég hleypi honum út og alltaf er hún 5:11.

mánudagur, október 16, 2006

Það var alveg yndislegt í Árósum. Flugum eldsnemma héðan og lentum í þvílíkum hita og þannig var það alla helgina, 17-18 stiga hiti og sól enda fannst mér einum of heitt. En allir aðrir voru mjög ánægðir með veðrið. Fimmtudagskvöldið fór nú bara í rólegheit en það var farið í bæinn bæði á föstudag og laugardag og verslað dálítið. Ég kíkti líka aðeins í skólann á föstudeginum og heilsaði upp á nokkrar vinkonur þar. Fannst frekar skrýtið að labba aftur inn í skólann :).

Á föstudagskvöldið fórum við Hildur, Jósa og Edda á CuCos, ummmm það er svo góður matur þar. Við kíktum svo á einn kokkteilabar og hittum þar Hákon og Árna en þeir fóru saman út að borða á Hereford, vildu frekar fá steikur heldur en grískan mat, skil ekkert í þeim. Fórum reyndar bara snemma heim, ég verð eitthvað svo fljótt þreytt þessa dagana. Við elduðum svo heima á laugardagskvöldið og spiluðum smá og sunnudagurinn var bara tekinn í algjöra leti áður en við lögðum af stað heim. Alveg frábær helgi í alla staði, takk aftur Hildur og Konni fyrir að leyfa okkur að gista.

Tókum nokkrar myndir, surprise surprise, ekki mikið myndavélafólk hér á ferð, læt ykkur vita þegar að þær verða komnar inn. Stelpur, þið munið svo eftir að senda mér myndirnar sem þið tókuð :). Fínt að láta aðra sjá um þetta, sérstaklega þegar að vinkonurnar eru svona myndavélaóðar, tíhí.

miðvikudagur, október 11, 2006

Það er svo mikið að gera hjá mér áður en ég fer til Árósa að ég tók mér bara frí eftir hádegi í dag. Ætla loksins að fara og sækja um löggildingu á sálfræðináminu mínu, ég útskrifaðist nú fyrir 4 mánuðum þannig að það er alveg kominn tími til þess :).
Eftir það ætla ég svo í fótsnyrtingu og svo í klippingu og strípur. Maður verður nú að líta sómasamlega út þegar að maður kemur til Árósa.

En þar sem að ég vinn bara til hádegis þá verð ég víst að klára verkefnin mín, skemmtið ykkur vel á næstu dögum, ég veit að ég á allavega eftir að gera það.

Update: Hringdi í Heilbrigðismálaráðuneytið til að tékka á því hvort að ég væri ekki með öll gögn fyrir löggildinguna. Nei nei, þegar að ég hringdi fyrir mánuði síðan þá var mér sagt að ég þyrti bara að koma með gögn frá Árósarháskóla, núna þarf ég allt í einu að koma með sakavottorð og prófskírteini frá HÍ og eitthvað fleira. Ég hata þegar að óhæft fólk svarar fyrir eitthvað sem það veit ekki um. Pirr, pirr, pirr, pirr.

þriðjudagur, október 03, 2006

Helgarnar fljúga framhjá manni með þvílíkum hraða. Seinasta helgi leið einmitt ótrúlega hratt. Kíkti í heimsókn til Karenar á föstudagskvöldið, röltum út á videoleigu og tókum okkur eina mynd og birgðum okkur upp af nammi :). Það var ekkert smá gaman að sjá hvað íbúðin þeirra er orðin flott, þrátt fyrir nokkur afturköst.

Á laugardaginn fórum við stelpurnar á Ítalíu til að kveðja Önnu Heiðu sem var að fara aftur til Þýskalands, oh það er svoooo góður matur þarna og ekki var félagsskapurinn síðri. Kíktum svo aðeins á Q-bar, bara nokkuð flottur en ég var reyndar ekki alveg að gúddera hvernig þeir báru fram heita drykki. Í einhvers konar plastglasi sem hitnaði þvílíkt mikið en samt var enginn hanki þannig að maður þurfti að halda á glasinu alveg efst til að geta drukkið úr því :).

Svo er líklegast grillpartý með deildinni hans Árna, annaðhvort núna um helgina eða þarnæstu helgi. Getur m.a.s. verið að það verði haldið heima hjá okkur, Árni er nefnilega alveg háður því að grilla þessa dagana. Ég held nú líka að það spili inn í að þegar hann grillar þá fær hann sér alltaf bjór á meðan :).

föstudagur, september 29, 2006

Voðalega lítið að gera í vinnunni þannig að ég var á fullu að vafra á netinu og fann þetta:

I- You have a fine ass
N- You are absolutely beautiful
G- You never let people tell you what to do
A- You like to drink

Leist nú bara nokkuð vel á þetta :). Hlakka allavega til á næsta ári þegar að litla krílið verður komið í heiminn og ég get fengið mér í glas aftur. Ji, það mætti halda að ég hugsaði bara um að drekka. Einmitt búin að "panta" nokkur djammkvöld með ýmsum aðilum, um að gera að vera tímanlega í þessu hehe.

Nánari útskýring:
A- You like to drink
B- You're a laid back, like to have fun kind of person
C- People tend to judge you because you are popular
D- You have one of the best personalities ever
F- People adore you
E- Damn good kisser
G- You never let people tell you what to do
H- You're loyal to those you love
I- You have a fine ass
J- Everyone loves you
K- You are really silly
L- You live to have fun
M- Success comes easily to you
N- You are absolutely beautiful
O- You are one of the best in bed
P- You are popular with all types of people
Q- You are a hypocrite
R- Fuckin sexy
S- Easy to fall in love with
T- You're loyal to those you love
U- You really like to chill
V- You are not judgemental
W- You are very broad minded
X- You never let people tell you what to do
Y- One of the best bfs/gfs anyone could ask for
Z- Always ready

miðvikudagur, september 27, 2006

Jæja, þá er 20 vikna sónarinn búinn :). Ekkert smá gaman að fara í hann og sjá litla krílið sprikla aðeins. Öll líffæri eru á sínum stað og allt eins og það á að vera, voðalega gott að vita það. Við vildum ekki fá að vita kynið þannig að við hjónin getum haldið áfram að stríða hvort öðru hvort kynið það sé, Árni segir að þetta sé strákur og þá verð ég auðvitað að segja að þetta sé stelpa.

Mér var reyndar flýtt um nokkra daga, er semsagt sett 10. febrúar. En núna er meðgangan akkúrat hálfnuð, bara 20 vikur í viðbót, get nú varla ímyndað mér hvernig maður lítur út í endann. Ekki það að ég sé búin að fitna mikið en maginn er auðvitað búinn að stækka dálítið. Verð örugglega eins og hvalur, tíhí.

sunnudagur, september 24, 2006

Helgin er búin að vera rosa fín. Á föstudaginn buðum við vinkonum mínum + mökum + börnum í grill, alltof langt síðan að við höfum allar hist saman og þetta var líka gott tækifæri til að vígja grillið. Það heppnaðist ekkert smá vel, enduðum kvöldið á að fara aðeins niður í bæ, á Oliver. Mér leist nú ekkert svakalega vel á staðinn, alltof þröngt þarna inni en kannski spilaði inní að tónlistin var ekki góð þetta kvöldið. Ég og Árni fórum nú reyndar bara snemma heim, ég var einhvern veginn ekki alveg að fíla mig þarna með bumbuna út í loftið :)

Restin af helginni er bara búin að fara í rólegheit og afslöppun hjá mér en Árni er á fullu að hjálpa foreldrum sínum að gera nýju íbúðina þeirra tilbúna og þau fluttu líka smá í dag. Voðalega hentugt að vera ólétt þessa dagana, slepp við að flytja, tíhí.

Árni er líka svo ánægður að vera búinn að koma grillinu í gang að við erum búin að grilla alla helgina, ekkert smá næs. Veðrið búið að vera geðveikt, mér finnst m.a.s. bara nokkuð heitt úti.

laugardagur, september 16, 2006

Það var svo gaman í gær. Föðuramma hans Árna varð áttræð í gær og öll stórfjölskyldan var búin að ákveða að hittast í Perlunni og koma henni á óvart. Hún hélt að dóttir sín ætlaði að bjóða sér í Perluna í tilefni dagsins en svo þegar að þær komu þá biðum við öll þarna eftir henni. Hún varð svo ánægð, fékk alveg tár í augun af gleði og þetta kom henni líka svo á óvart. Þvílíkt gaman.

Í kvöld er svo fertugsafmæli hjá yfirmanni hans Árna, það er svo fyndið hvernig atburðir raðast alltaf á sömu helgina. Það er kannski ekkert að gera hjá manni margar helgar í röð en svo gerist allt sömu helgina. En það verður allavega gaman að fara í kvöld og hitta þá sem Árni er að vinna með.

En fyrir utan þetta er nú mest lítið að frétta, erum rosalega ánægð í íbúðinni okkar og dagarnir bara fljúga áfram. Mér finnst dagarnir vera fljótari að líða núna þegar að við erum bæði að vinna en þegar að við vorum bæði í skóla. Skil samt eiginlega ekki af hverju.

miðvikudagur, september 13, 2006

Jæja þá fer Magna-æðið að vera búið. Gat nú ekki haldið mér vakandi í gær þannig að ég horfði á smá í vinnunni, fannst Magni standa sig mjög vel sem og Toby. Nennti ekki að horfa á Lukas eða Dilönu, finnst þau bæði svo leiðinleg. Er samt einhvern veginn að vona að Magni lendi í öðru sæti og Toby vinni :), einfaldlega vegna þess að ég er ekkert viss um að Magna langi til að spila með hljómsveitinni. Í einhverju viðtalinu þá sagði hann einmitt sjálfur að hann þekkti gaurana nákvæmlega ekki neitt og gæti þ.a.l. ekki myndað sér skoðun um hvort að honum langaði að spila með þeim. Þetta viðtal var nú reyndar fyrir þremur vikum þannig að kannski hefur eitthvað breyst. En alveg óháð hvaða sæti hann lendir í, þá er hann búinn að sanna að hann er ótrúlega góður söngvari.

föstudagur, september 08, 2006

Mamma á afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku mamma mín og njóttu dagsins :).

Oh hvað ég er ánægð að það sé komin helgi, ætla að njóta þess að sofa út og reyna að koma seinasta dótinu fyrir. Svo verður auðvitað afmælisveisla hjá mömmu um helgina, hlakka til að fá góðar kökur og heita brauðrétti, nammi namm.

En vonandi skemmtið þið ykkur öll vel um helgina, um að gera að njóta dagsins í dag því að maður veit aldrei hvað næsti dagur ber í skauti sér.

miðvikudagur, september 06, 2006

Það eru tveir sem eiga afmæli í dag. Sætasti kisinn og tengdapabbi, innilega til hamingju með afmælið báðir tveir :). Annars erum við alveg í skýjunum þessa dagana, æðislegt að geta knúsað Snúðinn sinn þegar að maður vill og ekki verra að vera í sinni eigin íbúð.

Reyndar vekur Snúður okkur á hverjum morgni um fimm en það er bara vegna þess að hann vill fara út. Fórum einmitt með hann út í beisli í gær til þess að leyfa honum að kynnast umhverfinu og miðum við að setja hann út í fyrsta skipti einan um helgina. Held að maður verði rosa sáttur við það. Hann er rosalega háður okkur þessa dagana, eltir mann á klósettið vegna þess að hann heldur að við séum að fara frá honum aftur, algjör dúlla. Svo er alveg æðislegt þegar að hann sefur uppí hjá okkur og malar hástöfum.

Annars gengur bara ágætlega að koma okkur fyrir, erum eiginlega búin að taka upp úr öllum kössum og núna er mesti höfuðverkurinn hvar við eigum að hengja myndirnar upp. Erum nefnilega ekki alveg sammála um það en það leysist fljótlega. Allir velkomnir í heimsókn!!

Hinsvegar finnst mér rosa erfitt að venjast því að þurfa að leggja af stað korteri fyrr í vinnuna, erum alveg hálftíma frá Hafnarfirði og niður í bæ. Okkur finnst nefnilega svo gott að snooza þannig að klukkan er alltaf orðin svo margt. Sváfum yfir okkur í gær, þ.e.a.s. vöknuðum ekki fyrr en hálfátta sem þýddi að ég kom 20 mínútum of seint í vinnuna því að við vorum 40 mínútur á leiðinni.

Svo fórum við til ljósmóðurinnar í fyrradag og fengum að heyra hjartsláttinn hjá litla krílinu, alveg yndislegt. Það er nú smá byrjað að sjást á mér, sérstaklega á kvöldin. Svo er 20 vikna sónarinn 27. sept, hlökkum rosa mikið til þess. Ætlum ekki að fá að vita kynið, viljum bara láta þetta koma á óvart.

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Mér finnst svo æðislegt hvað Íslendingar standa vel við bakið á Magna. Það er alveg yndislegt að vera frá svona litlu landi og upplifa samkenndina og hvað við erum að rifna úr monti þegar að einhverjum Íslending gengur vel út í hinum stóra heimi. Ég var svo stolt í gærkvöld þegar að Magni gat einn setið öruggur um að komast áfram en allir hinir höfðu einhvern tímann verið í neðstu þremur sætunum, alveg frábært í alla staði :).

Við hjónin ákváðum svo að kaupa okkur miða til Árósa í október. Förum á fimmtudegi og komum aftur á sunnudegi. Hildur og Konni ætla að vera svo yndisleg að leyfa okkur að gista hjá þeim. Ég hlakka svo til að hitta vinina, labba Strikið, fara á Baresso og fá mér ostaköku, kíkja í H&M og bara hafa það náðugt.

Annars fáum við íbúðina afhenta á morgun, ótrúlegt hvað tíminn er búinn að líða hratt. Fáum íbúðina afhenta á hádegi og Árni fékk frí eftir hádegi á morgun, býst við að hann fari bara í það að ferja alla kassana sem stellið okkar er í. Vil helst ekki að aðrir komi nálægt þeim kössum, held að ég sé dálítið lík Monicu í Friends stundum :).

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Árni fór að spila með strákunum í gær og kom ekki heim fyrr en um þrjú. Ég glaðvaknaði þegar að hann kom heim þannig að ég ákvað bara að fara á netið og kjósa Magnííí. Horfði líka á hann syngja og vá hvað þetta var flott hjá honum. Live er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum og mér finnst hann syngja ótrúlega líkt söngvaranum. Ég er nú reyndar frekar þreytt í dag, sofnaði nefnilega ekki aftur fyrr en um fimm. En alveg þess virði :).

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Ég skemmti mér svaka vel um helgina, verst hvað hún leið fljótt. Það var rosa gaman að fara í þrítugsafmælið og hitta alla fjölskylduna, suma hefur maður ekki séð í mörg ár.

Á sunnudaginn var litli kúturinn skírður og fékk nafnið Ólafur Matti. Ólafur í höfuðið á móðurafanum og Matti í höfuðið á pabba sínum. Innilega til hamingju með fallega nafnið þitt, sæti strákur. Í veislunni var hann svo tekinn úr kjólnum og settur í matrósaföt, alveg algjör dúlla.

En bara 3 dagar í afhendingu, þetta er alveg að bresta á. Fórum í Ikea í gær og keyptum okkur nýtt áklæði á sófann okkar. Það átti að kosta 40.000 en þar sem að bara sýnishornaeintakið var eftir fengum við 40% afslátt og það sést ekkert á því. Ógó gaman að spara alltaf dálítið.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Ég er svo ánægð með að það sé kominn föstudagur. Það verður nefnilega nóg að gera um helgina, annað kvöld er þrítugsafmæli hjá frænda mínum og á sunnudaginn verður litli kútur þeirra Matta og Þórdísar skírður. Hlakka svo til að vita hvað hann á að heita. Skírnin verður í Þingvallakirkju og veislan á Hótel Valhöll, alltaf gaman að fara þangað.

En annars er bara vika í afhendingu, trúi varla að það sé svona stutt í þetta. Við fórum einmitt til Snúðsins okkar í fyrradag, í seinasta skipti áður en við tökum hann til okkar. Fengum leyfi til að sækja hann sunnudaginn 3. september svo að hann fái smá tækifæri til að venjast okkur aftur. Hann er nú reyndar orðinn algjör feitabolla, ekki skrýtið þar sem að hann fær ekkert að fara út. Vona bara að hann eigi eftir að þýðast okkur aftur, reyndar kemur hann alltaf til okkar þegar að við komum að heimsækja hann og vill að við klöppum sér þannig að þetta verður vonandi lítið vandamál.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Helgin var svaka fín. Fórum fyrst út að borða með Karen og Grétari á Enricos, fengum voða gott að borða. Sýningin sjálf var rosa flott, skemmtum okkur alveg mjög vel yfir henni. Náði einmitt í nokkur lög úr sýningunni þegar að við komum heim :).

Á sunnudaginn kíktum við svo í Tekk og löbbuðum út með 6 borðstofustóla og eitt borðstofuborð :). Fengum 40% afslátt og erum bara svaka ánægð með það. Alltaf svo gaman að kaupa húsgögn, sérstaklega á svona góðum afslætti.

En annars styttist alltaf í flutninga, jei jei jei. Get varla beðið eftir að sofa í íbúðinni okkar og knúsa Snúðinn okkar endalaust mikið.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Í fyrsta skipti í 20 ár er ég ekki að fara í skóla í haust. Það er svoooo skrýtin tilfinning. Mér fannst alltaf svo gaman að kaupa bækurnar og ég hlakkaði til að byrja að lesa þær, sérstaklega eftir að ég byrjaði í sálfræðinni. Reyndar varð maður alltaf pínku leiður á að vera í skóla, ef maður fékk slæma próftöflu eða verkefnin hrúguðust upp en á heildina litið var þetta æðislegur tími. Ef maður nennti ekki í tíma þá gat maður bara sofið út og hvílt sig en það er ekki hægt þegar að maður er að vinna. Mér finnst samt pínku erfitt að venjast tilhugsuninni að ég verð "bara" að vinna næstu mánuði. En það er líka gott að hugsa til þess að ég á frí um allar helgar og þarf ekki að hafa áhyggjur af prófum eða skrifa ritgerð.

Annars er vikan búin að vera rosalega fín. Kvefið er eiginlega alveg farið, sem betur fer. Fór með Jósu út að borða á þriðjudaginn, alltaf svo gaman að hitta hana og spjalla, takk fyrir kvöldið skvís. Í kvöld verður svo farið á Footloose með Karen og Grétari, hlakka rosa mikið til þess. Það eru alveg ár og dagar síðan að ég hef farið í leikhús. Svo er aldrei að vita nema maður kíki niður í bæ á morgun, allavega til að sjá flugeldasýninguna. En vonandi njótið þið helgarinnar, ég veit að ég ætla að gera það :).

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Mér finnst alltaf jafn yndislegt þegar að sumarið er að verða búið. Það verður fyrr dimmt á kvöldin, maður getur byrjað að kveikja á kertum og mér finnst ég finna einhverja haustlykt. Ekki spillir svo fyrir að eftir haustið er svo stutt í jólin sem eru minn uppáhaldstími. Baka, kaupa jólagjafir, skreyta íbúðina, lesa bækur og pússla á meðan maður drekkur jólaöl og borðar konfekt. Ummm, hljómar allt svo kósý. Ég er alveg komin í einhvern nostalgíufíling hérna :). Hlakka líka endalaust mikið til að halda jólin á okkar eigin heimili, við erum ekki búin að geta það síðan árið 2002.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Mér hefur sjaldan liðið eins illa eins og undanfarna daga. Á miðvikudagskvöldið fylltist ég allt í einu af kvefi og fékk þvílíkan hita í kaupbæti. Á fimmtudaginn var svo búið að bæta við beinverkjum og hálsbólgu og þar sem að ég gat komið voða litlu niður þá var maginn ekki alveg sáttur við mig þannig að ég kastaði nokkrum sinnum upp. Á föstudaginn leið mér aðeins skár en ákvað að vera bara heima alla helgina til að taka enga sjénsa, vil sko ekki láta mér slá niður.

En það þýðir að ég missti af ballinum með Páli Óskari sem átti að vera á laugardaginn. Við vinkonurnar vorum búnar að plana að fara fyrir löngu síðan en svo fór nú reyndar þannig að þær fóru ekki heldur. Maður er greinilega svo ómissandi, tíhí :).

En semsagt bara veikindafréttir þessa dagana, erum reyndar alveg byrjuð að telja niður í flutningana, styttist óðum. Fórum einmitt í Ikea á þriðjudaginn og skoðuðum fullt. Oh það er svo gaman að flytja í sína eigin íbúð, bara 19 dagar þangað til að við fáum afhent, jibbí!!

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Helgin var ekkert smá skemmtileg. Fórum í matarboð til Ástu og Ívars á föstudaginn, fengum geðveikt góðan mat. Sátum svo bara frameftir og spjölluðum saman. Á laugardagskvöldið fórum við á Pirates of the Caribbean, mæli alveg með henni, mjög góð. Á sunnudaginn var svo partý hjá Söru skvís, það var svo gaman hjá okkur að það var ekki farið niður í bæ fyrr en um eittleytið. Reyndar fórum við Árni bara heim því að gærdagurinn var frátekinn fyrir tveggja ára brúðkaupsafmælið okkar.

Ég átti semsagt að sjá um að skipuleggja daginn því að Árni sá um það á seinasta ári. Ég fór með hann í Töfragarðinn á Stokkseyri, ekkert smá sætur garður. Við sáum kettlinga, lömb, geitur, hvolpa, hreindýr og fleira. Alveg yndislegt :). Um kvöldið fórum við svo á Hafið bláa sem er við ósa Ölfusár. Ótrúlega fallegt útsýni og maturinn alveg geggjaður. Árni fékk sér humarsúpu í forrétt og fiskiþrennu í aðalrétt en ég fékk mér humarsúpuna í aðalrétt og ísköku með ferskum ávöxtum í eftirrétt. Nammi namm. Við kíktum svo við hjá Hrönn og Axel á leiðinni heim og spjölluðum aðeins við þau. Alveg frábær dagur.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Við skemmtum okkur ekkert smá vel um helgina, fengum æðislegt veður í Skaftafelli - algjört blankalogn og hiti. Við þræddum svo Austfirðina daginn eftir í geðveikum hita og sól. Vorum komin á Bakkafjörð kl. 6 um daginn og ákváðum að við nenntum eiginlega ekki að vera að keyra alla leið á Kárahnjúka daginn eftir enda hefði það tekið um 7 tíma báðar leiðir. Við vorum svo bara í góðu yfirlæti á Bakkafirði, lögðum af stað snemma á sunnudagsmorgninum og komum við í Búðardal. Fórum í heita pottinn með Hildi og Konna og borðuðum með þeim, ekkert smá gaman. Vorum svo komin heim kl. hálftíu enda vorum við nú frekar þreytt daginn eftir. En rosa skemmtileg ferð.

Árni byrjaði svo hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag, líst svaka vel á vinnustaðinn. Í dag er líka mánuður þangað til að við fáum íbúðina okkar afhenta og 33 dagar þangað til að Snúðurinn okkar kemur til okkar.

Reyndar mun fjölskyldan okkar stækka þann 11. febrúar en þá á litla krílið okkar að koma í heiminn. Við fórum í 12 vikna sónar í dag, fengum að heyra hjartsláttinn og sjá það hreyfa sig. Ekkert smá gaman :). Ég er nú alveg búin að eiga í erfiðleikum með að þaga yfir þessu í 8 vikur en loksins er þessi tími liðinn og maður getur sagt öllum þetta.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Bara nóg að gerast þessa dagana. Árni tók þá ákvörðun að fresta ritgerðarskilum, gengur ekki alveg nógu vel hjá honum þannig að hann byrjar að vinna 1. ágúst í stað 1. september. Hann miðar svo við að skila einhvern tímann um áramótin. Þótt að það sé pínku hættulegt að byrja að vinna áður en maður skilar þá er það nú talsvert betra en að sitja fyrir framan tölvuna og ná engu niður á blað. En honum líður allavega mikið betur núna og seinasti mánuðurinn af sumrinu verður líklegast aðeins fjörmeiri vegna þess að hann þarf ekki að vera allar helgar uppí skóla að læra.

Við fórum svo í heimsókn til Hildar og Konna í gær. Ekkert smá æðislegt að sjá þau, erum búin að sakna þeirra alveg svakalega mikið.

Á fimmtudaginn ætlum við svo að fara í smá útilegu. Ætlum að gista í Skaftafelli þá nótt og keyra til Bergþórs pabba á Bakkafirði á föstudag. Á laugardaginn ætlum við að keyra á Kárahnjúka, mig langar að sjá alla náttúruna sem fer undir vatn en Árni er nú reyndar spenntari fyrir því að sjá stífluna sjálfa. Á sunnudaginn leggjum við aftur af stað frá Bakkafirði og planið er að skoða Kröflu og Víti. Við ætlum svo að koma við í Búðardal til að hitta Hildi og Konna aftur en við náum líklegast ekkert að hitta þau meira meðan þau verða á landinu. En allavega, skemmtileg helgi framundan.

föstudagur, júlí 21, 2006

Ég er búin að vera að fylgjast með Rockstar: Supernova, örugglega eins og flestir Íslendingar og ég er svo stolt af Magna. Hann syngur auðvitað frábærlega vel, kemur mjög vel fyrir og er alveg laus við allan hroka. Íslendingahjartað mitt tók svo stóran kipp þegar að ég sá að hann er sigursælastur í netkosningu um hver sigrar í keppninni. Er greinilega vinsæll hjá fleiri en Íslendingum.

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Sigga systir á afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku Sigga mín. Njóttu dagsins :).

Voðalega mikill mánudagur í mér, bæði í gær og í dag. Var ekki að nenna að mæta í vinnuna í morgun en maður lét sig nú hafa það.

Er byrjuð að telja niður í flutningana, bara 45 dagar þangað til að við fáum afhent sem þýðir að það eru einungis 48 dagar þangað til að við getum tekið Snúddsa strák til okkar, hlakka endalaust mikið til að geta knúsað hann daginn út og daginn inn.

mánudagur, júlí 17, 2006

Helgin var bara hin fínasta. Það var ættarmót hjá Árna og þar sem að veðrið var svo leiðinlegt ákváðum við að fara bara snemma á laugardagsmorgninum og aftur heim um kvöldið. Mótið heppnaðist bara mjög vel þrátt fyrir veðrið enda var mjög gott að geta farið inn í félagsheimilið þegar að rigningin var of mikil.

Sunnudagurinn fór nú bara í leti, sváfum til hádegis og Árni fór svo upp í skóla að læra meðan að ég horfði á nokkra þætti og naut þess að hafa ekkert að gera. Er alveg að njóta þess að vera í fríi um helgar, reyndar væri nú betra að Árni væri með í fríi með mér en það gerist nú vonandi fljótlega. Allir að senda ritgerðarstrauma til hans, styttist alltaf í skil hjá honum og þ.a.l. styttist líka í að við fáum Snúðinn okkar aftur, afhendingu á íbúðinni og að Árni byrji í vinnunni sinni.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Jarðarförin hennar ömmu var á mánudaginn. Margar minningar hafa rifjast upp undanfarna daga. T.d. það að ég hefði líklegast aldrei lært að lesa nema með hennar hjálp enda var ég oft hjá henni þegar að ég var yngri, sat á stofugólfinu við bókaskápinn og las bækurnar hennar. Ég hef líklegast líka erft stundvísina frá henni en hún var alltaf tilbúin hálftíma áður en hún átti að leggja af stað, var m.a.s. komin stundum út á gangstétt og beið eftir þeim sem var að sækja hana korteri áður en von var á þeim. Amma var ein af viljasterkustu og þrjóskustu konum sem ég hef þekkt en alltaf jafn yndisleg þrátt fyrir það. Takk fyrir allt elsku amma.

Við systkinin ákváðum að setja ljóð í Morgunblaðið til minningar um hana og er það hér fyrir neðan.

Með þessu ljóði kveðjum við elsku ömmu.
Guð blessi minningu hennar.

Við kistu þína kveðjumst við í dag,
í kirkju hljómar ómþýtt sorgarlag.
Þú leggur upp í langa gönguför,
þín leið er greið að drottins fótaskör.

Við höfum ótal margt að þakka þér,
þakklátt auga minninganna sér
myndir koma minn á hugarskjá,
já, margt er gott sem hugarfylgsnið á.
(Hörður Zóphaníasson.)

Þín barnabörn
Matthías, Sólveig, Sigríður Elín, Bjarklind og Inga Elínborg.

laugardagur, júlí 08, 2006

Hildur vinkona á afmæli í dag. Innilega til hamingju með afmælið elsku Hildur og láttu Konna stjana við þig í allan dag :). Hlökkum ótrúlega mikið til að sjá ykkur þegar að þið komið til Íslands.

Við erum svo á leiðinni í afmæli í dag. Ríkey, litla frænka, varð semsagt eins árs í gær. Til hamingju með daginn Ríkey mín.

Fyrir utan þetta er nú mest lítið að frétta, ég geri ekki neitt annað en að vinna og Árni er á fullu í ritgerðinni. Vá, hvað ég hlakka til þegar að hann verður búinn og ég sé hann meira en klukkutíma á dag :). Njótið helgarinnar allir saman og verið góð hvort við annað.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Skrýtnar tilfinningar í gangi þessa dagana. Á sunnudeginum fékk ég þær fréttir að ég væri búin með kandídatsnámið mitt!! Fékk semsagt 10 fyrir lokaritgerðina, er voða stolt af sjálfri mér :). Hinsvegar fannst mér mjög svo skrýtið að vera ánægð með þetta, finnst það einhvern veginn ekki við hæfi þessa dagana. Vonandi get ég fagnað þessu betur þegar í næstu viku þegar að við verðum búin að kveðja ömmu.

Finnst þetta dálítið óraunverulegt, maður er búin að vera í námi samfleytt seinustu 5 ár og allt í einu er þetta öryggisteppi tekið frá manni. Núna er maður orðin stór og þarf að fara að leita sér að framtíðarvinnu, ótrúlega skemmtilegt en samt yfirþyrmandi á einhvern hátt.

sunnudagur, júlí 02, 2006

Dagurinn í gær var yndislegur. Helgan mín var svo falleg í kjólnum sínum, Freyr svaka myndarlegur í jakkafötunum og Hlynur auðvitað algjör dúlla í skírnarkjólnum. Ótrúlega falleg athöfn enda var ég með tárin í augunum mestallan tímann og gat varla sungið sálmana.
Veislan var mjög skemmtileg, góður matur og fullt af ræðum. Ég og Ásta héldum einmitt ræðu sem heppnaðist bara mjög vel :). Eftir veisluna hittumst ég, Karen, Sara og Rannveig heima hjá Söru, tókum eitt Buzz spil og spjölluðum. Mjög skemmtilegur dagur í alla staði.

Hinsvegar er oft stutt á milli hláturs og gráturs. Mamma hringdi í mig í morgun vegna þess að elsku amma mín lést í nótt. Hún var búin að vera svo mikið veik alla vikuna, í hálfgerðu móki og virtist ekkert vita af neinum í kringum sig. Þegar að ég fór til hennar í vikunni hélt hún nú samt í hendina á mér og vildi alls ekki sleppa. En minningarnar um hana lifa ennþá og það er alltaf gott að hugsa til þeirra. Hún er allavega komin til afa núna og líður mun betur.

föstudagur, júní 30, 2006

Það tekur á taugarnar að bíða eftir einkunninni sinni. Censureringen var í morgun kl. 10 þar sem að leiðbeinandinn minn og censorinn hittust og ræddu rigerðina og hvaða einkunn ég ætti að fá. Ég hefði reyndar líka átt að vera stödd þar en þar sem að ég er nú flutt til Íslands þá var ekkert mál að fá undanþágu.
En ég er semsagt búin að vera á iði í allan dag. Er að bíða eftir því að þetta komi inn á einkunnasíðuna mína (sem ég tel nú ekki miklar líkur á, svona alveg strax) eða þá að Mogens sendi mér hvað ég fékk. Hann var búinn að segjast ætla að gera það, vona bara að hann hafi ekki gleymt því.

miðvikudagur, júní 28, 2006

Við fórum og kíktum á íbúðina okkar í gær. Oh hún er svo flott, foreldrar okkar komu með og voru jafnhrifin af henni og við. Hlakka ekkert smá til að fá hana afhenta.

Ég fór svo í heimsókn til Ingibjargar og Bigga í gær til að kíkja á litla nýfædda prinsinn. Ekkert smá sætur og ótrúlega góður, sofnaði m.a.s. í fanginu á mér.

En fyrir utan þetta er nú mest lítið að frétta, ég geri voðalega lítið þessa dagana. Árni er alla daga uppi í skóla að skrifa og ég er á fullu að sauma jólaútsauminn minn :).

föstudagur, júní 23, 2006

Oh hvað ég er ánægð að það skuli vera að koma helgi og að ég geti sofið út næstu tvo daga. Ég er alveg að deyja úr þreytu þessa dagana, búin að fara tvisvar á flugvöllinn í vikunni. Sóttum tengdó á þriðjudagsnótt og svo sótti ég mömmu og pabba í morgun.

En annars hlakka ég bara nokkuð mikið til helgarinnar þó að ég verði ein heima báða dagana. Ég keypti mér jólaútsaum í vikunni, ætla að byrja að sauma hann. Svo bíða mín nokkrir þættir og ein mynd til að horfa á. Planið er semsagt að liggja uppi í rúmi og hvíla sig sem mest :).

Næsta helgi verður hinsvegar fjörmeiri, Helgan mín og Freyr ætla að gifta sig og skíra litla prinsinn 1. júlí. Hlakka rosalega mikið til, sérstaklega að sjá hana í kjólnum, hún verður svo sæt.

laugardagur, júní 17, 2006

Hæ hó jibbí jei og jibbí jei, það er kominn 17. júní :). Ótrúlega skemmtilegur þjóðhátíðardagur, Bjarklind systir á 35 ára afmæli í dag. Innilega til hamingju með afmælið elsku Bjarklind mín.

Við erum svo komin áfram á HM!!! Lögðum Svíagrýluna að velli, þeir komast ekki á HM í fyrsta skipti í sögu mótsins. Maður var nú með í maganum nokkrum sinnum, t.d. þegar að það voru bara 3 Íslendingar á vellinum á móti 5 Svíum. Ótrúlega skemmtilegur leikur og strákarnir okkar eru langbestir :).

Heyrði í Hildi og Jósu í gær. Þær voru á sommerfesti í skólanum og hringdu þegar að uppáhaldslagið mitt heyrðist, bara til að leyfa mér að heyra það :). Fékk smá saknaðartilfinningu, langaði til að vera í Aarhus með vinunum þar, spjalla saman og djamma. Aldrei að vita nema ég skelli mér með Árna í október þegar að hann þarf að verja ritgerðina sína.

fimmtudagur, júní 15, 2006

Ennþá fleiri börn að fæðast í kringum okkur. Gleymdi að segja í gær að litli prinsinn þeirra Ingibjargar og Bigga fæddist þann 10. júní, 16 merkur og 52 cm. Elsku Ingibjörg og Biggi, innilega til hamingju með litla gaurinn. Hlökkum til að sjá ykkur öll.

miðvikudagur, júní 14, 2006

Þá erum við komin aftur frá Mallorca. Fórum m.a. í Go Kart, vatnsrennibrautargarð, Marineland, lágum í leti, spiluðum, borðuðum og drukkum. Voða næs en ég var samt rosa ánægð að sofa aftur í mínu eigin rúmi í nótt með hæfilegan kulda í herberginu. Reyndar svaf ég nú bara ca. 2 tíma því að við lentum ekki fyrr en um þrjú og ég var ekki sofnuð fyrr en fimm. Ég var því frekar þreytt í morgun þegar að ég fór í vinnuna. Reyndar er mjög fínt að byrja vinnuvikuna á miðvikudegi, bara tveir vinnudagar eftir :).

Er nú mest bara að bíða eftir einkunninni minni en ég fæ hana líklegast ekki fyrr en í lok mánaðarins. Árni er á fullu að skrifa sína ritgerð, hlakka voða mikið til þegar að hann verður búinn og kvöldin þurfa ekki að fara í ritgerðarskrif.

mánudagur, júní 05, 2006

Við vinkonurnar gæsuðum Helgu á laugadaginn og það heppnaðist þvílíkt vel. Fórum með hana í magadans hjá Josy í Magadanshúsinu, klæddum hana svo upp sem Sandy úr Grease og létum hana syngja You're the one that I want í beinni á FM, hún fór í viðtal hjá köllunum á X-inu og létum hana gera sig að fífli niður í bæ. Keyrðum svo í Bláa Lónið þar sem að hún fékk nudd og enduðum svo kvöldið í heimahúsi. Frábær dagur í alla staði.

En svo er það Mallorca á morgun. Verður næs að liggja við sundlaugarbakkann undir sólhlíf með skemmtilegar bækur og krossgátur. Heyrumst í næstu viku þegar að ég kem heim. Adios :).

miðvikudagur, maí 31, 2006

Jósa vinkona á afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið Jósa mín. Njóttu dagsins.

Við skötuhjúin skelltum okkur á þriðju X- men myndina í gær, skemmtum okkur mjög vel enda frábær mynd. Vorum að fagna kaupsamningnum á Ölduslóðinni en við skrifuðum undir hann í gær.

Annars er allt á fullu við að leggja lokahönd á gæsunina hennar Helgu. Oh þetta á eftir að vera svo gaman :).

sunnudagur, maí 28, 2006

Ég og mamma fórum og kíktum á nýfædda prinsinn í dag. Algjört krútt og alveg eins og pabbi sinn :). Fengum að vita að hann hefði verið 57 cm. en samt tók maður ekkert eftir því að hann væri svona stór og þungur, samsvarar sér mjög vel.

laugardagur, maí 27, 2006

Þá er 9. systkinabarnið mitt komið í heiminn. Matti og Þórdís eignuðust semsagt strák kl. 7.38 í morgun, 18 merkur en lengdin var ekki komin á hreint. Innilega til hamingju elsku Matti og Þórdís, hlökkum endalaust mikið til að sjá "litla" gaurinn :).

Svo á Hrönn vinkona afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku Hrönn.

Annars er nú mest lítið að frétta af mér þessa dagana, held að ég sé ennþá í hálfgerðu spennufalli. Vonandi njótið þið helgarinnar, ég ætla allavega að liggja uppi í rúmi og lesa þjóðsögur Jóns Árnasonar í allan dag, get varla hugsað mér betri letidag.
Ætla ekki einu sinni að fara að kjósa enda er ég ekkert inní kosningamálum hérna í Kópavogi. Er eiginlega bara búin að fylgjast með flokkunum í Reykjavík og er alveg ákveðin hvaða flokk ég myndi kjósa ef ég ætti heima þar. En þar sem að ég á ekki heima í Reykjavík og er að flytja úr Kópavogi eftir 3 mánuði þá ætla ég bara að vera heima.

fimmtudagur, maí 25, 2006

Ég er búin að skila!!! Ákvað bara að skella ritgerðinni strax í póst eftir að ég var búin að prenta hana, vildi ekki taka áhættuna á því að vera að lesa hana yfir (einn einu sinni) og sjá einhverja villu. Ég er samt ekki búin að ná því að þetta sé búið. Það var samt ekkert smá gaman að sjá ritgerð sem maður hefur unnið að seinustu 5 mánuði allt í einu tilbúna, 4 eintök af 120 bls.

Við fórum svo í þrítugsafmæli til Nonna Quest í gær, ótrúlega skemmtilegt afmæli. Þemað var "goth" og ca. helmingurinn í afmælinu var alveg að standa sig í því, með svartmálaðar varir + neglur, hvítir í andliti með svart í kringum augun og svo má ekki gleyma fötunum. Reyndar var vinahópurinn hans Árna minnst að pæla í þessu, mættum eiginlega bara öll í svörtu en ekkert skrýtilega máluð. En þetta var þvílíkt gaman, kíktum svo einn hring á Glaum en svo fór ég bara heim enda hafði ég vaknað kl. 5 um morguninn :).

Svo er bara allt að gerast, við erum búin að kaupa okkur íbúð!! Erum semsagt á leiðinni í Hafnarfjörðinn, keyptum á Ölduslóð. Ótrúlega flott íbúð, er t.d. með sólpalli þannig að það verður gaman að grilla. Við féllum bara fyrir henni um leið og við sáum hana, Árna fannst meira að segja ekkert mál að hún væri í Hafnarfirði. Finnst pínku skrýtið að við höfum keypt þar því að Árni var alltaf búinn að segja að hann vildi sko ekki eiga heima þar. Fáum hana afhenta 1. september. Mjög svo skemmtileg dagsetning fyrir Árna, hann á að skila ritgerðinni þann dag, byrja hjá Íslenskri erfðagreiningu og við fáum íbúðina. Það sem er ennþá betra er að við getum tekið Snúðinn okkar aftur til okkar ca. viku eftir afhendingu, hlakka endalaust mikið til að fá hann.

En ætla að halda áfram að njóta þess að vera í fríi fram á mánudag en þá byrja ég hjá Landsbankanum í sumarvinnu. Þarf einmitt að vera dugleg að sækja um framtíðarvinnu í sumar. Vona bara að það gangi vel :).

mánudagur, maí 22, 2006

Ég og Árni fórum á Da Vinci lykilinn í gær ásamt Hrönn og Axel. Mjög góð mynd, leikararnir eru alveg að gera góða hluti en mér fannst samt sem áður myndin ekki ná "andanum" í bókinni alveg. En mæli samt með henni. Sáum sýnt úr X-Men: The last stand, vá hvað ég hlakka til að sjá hana. Er örugglega geðveik.

Annars held ég að ritgerðin sé búin. Trúi því nú samt varla, Mogens er búin að lesa yfir hana og ég er búin að leiðrétta það sem hann vildi en einhvern veginn líður mér ekki eins og hún sé búin. Er alltaf að renna aftur og aftur yfir hana og athuga hvort að ég sé nú ekki að gleyma neinu. Held að maður geti "betrumbætt" þessa ritgerð endalaust þannig að ég er nokkurn veginn ákveðin í að fara með hana í prentun á miðvikudaginn. Passar líka mjög vel því að það er þrítugsafmæli hjá vini hans Árna á miðvikudagskvöldið. Verður gaman að vera búin að prenta ritgerðina út og þurfa ekkert að hugsa um hana. Planið er svo að liggja í algjörri leti á fimmtudaginn en svo ætla ég að senda hana á föstudaginn.

sunnudagur, maí 21, 2006

Ég er svo ánægð með að Finnar unnu!! Þeir settu m.a.s. nýtt stigamet í keppninni, go Finnland. Frábært lag í alla staði. Við fórum til Karenar og Grétars í gærkvöldi og við fögnuðum þvílíkt þegar kom í ljós að Finnland vann. Við héldum keppni um hvaða lög myndu vera í 1. - 5. sæti. Ég var sú eina sem giskaði á að Finnland myndi vinna og rústaði keppninni, tíhí. Svo vorum við með drykkjuleik líka, drógum 4 lönd og þegar að þau fengu stig þá átti maður að drekka einn sopa. Fyndið hvernig þetta raðaðist hjá okkur, ég var t.d. með Úkraínu, Árni með Rússland, Karen með Svíþjóð og Grétar með Finnland þannig að við þurftum að drekka í hverri einustu stigagjöf :).
Reyndar var nú ágætt að heyra að Silvía lenti í 13. sæti í forkeppninni, aldrei að vita að okkur takist að komast upp úr henni næsta ár :).

Ég og Jósa kíktum út á lífið á föstudag, byrjuðum á Tapas þar sem að maturinn er æðislegur. Fórum svo á pöbbarölt, enduðum á Glaumbar og ég var ekki komin heim fyrr en hálfsex. Skemmtum okkur þvílíkt vel. Var reyndar ekki alveg upp á mitt besta á laugardaginn en það lagaðist þegar að leið á daginn.

Annars er þetta seinasta vikan í ritgerðarskrifum, stefni á að senda hana á föstudaginn. Jibbí, hlakka endalaust mikið til að klára hana.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Jæja, ekki komst Silvía áfram. Mér fannst nú atriðið þeirra alveg geðveikt og hún söng þetta mjög vel. Rúnar og Björn stóðu sig líka frábærlega, "dansinn" þeirra var alveg að gera sig :). Var nú samt að vona að við kæmumst áfram, það hefði verið gaman.

Ég verð nú samt að segja að ég vorkenndi Silvíu Nótt smá að fá svona mikið baul á sig áður en hún byrjaði að syngja, hefur örugglega ekki verið gott fyrir taugarnar. Við horfðum líka á viðtalið við hana á RÚV eftir úrslitin og hún á alveg sínar stundir, það verður ekki tekið af henni. Við allavega lágum í kasti allt viðtalið, bæði yfir henni og strákunum.

Er nú samt búin að ákveða að halda annaðhvort með Finnlandi eða Litháen á laugardaginn, bæði lögin alveg frábær, mátulega mikið grín í þeim.

Forkeppni Eurovision í kvöld, elska að horfa á þessa keppni. Vonandi gengur Silvíu vel, allavega miðað við þær upptökur sem hafa verið sýndar þá var hún ekki alveg að ná sér á strik í söngnum en vonandi smellur allt saman í kvöld. Ætlum að kíkja til Hrannar og Axels í pizzu og horfa á keppnina saman.

Annars er voða mikið í gangi hjá okkur hjónunum þessa dagana. Þar sem að ég er svo hjátrúarfull þá er ég ekki alveg tilbúin að ljóstra því upp strax en ef það gengur upp þá verðið þið fyrst til að vita :). Allir að krossa fingurna fyrir okkur.

Yfirlesturinn á ritgerðinni gengur ágætlega, alltaf hægt að finna eitthvað til að betrumbæta. Er reyndar ekkert búin að heyra í leiðbeinandanum mínum og ég er ekkert voðalega bjartsýn á að geta sett ritgerðina í póst næsta miðvikudag. En ég hef nú alveg til mánudagsins 29. maí að senda hana þannig að þetta ætti að reddast.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Það er mjög ánægjulegt sjá að fleiri eru komnir með nóg af fíflalátunum í henni Silvíu.

laugardagur, maí 13, 2006

Ritgerðin tilbúin til yfirlestrar, jibbí :). Ætla að senda leiðbeindandum mínum hana á morgun og næsta vika fer í fínpússningu og annað í þeim dúr. Ef að Mogens setur ekki alltof mikið út á hana þá bendir allt til þess að ég geti skilað miðvikudaginn 24. maí.

Bíð annars spennt eftir næstu viku. Horfa á Eurovision fimmtudags- og laugardagskvöld. Á föstudaginn ætlum við Jósa út að borða á Tapas og kíkja út á lífið, þvílíkt gaman. Reyndar ekki eins skemmtilegt að hún er að fara aftur til Århus og verður í allt sumar. Skil ekkert í fólki að vera að fara frá Íslandi, tíhí :).

fimmtudagur, maí 11, 2006

Þegar að Silvía vann forkeppnina hérna heima þá hélt ég virkilega að hún hefði það mikla sómakennd og virðingu fyrir landinu sínu að hún yrði okkur ekki til skammar. Annað er að koma upp á yfirborðið núna, allavega samkvæmt nýjustu fréttum.

Hvað er Ágústa Eva eiginlega að hugsa? Eins og ég hef margoft sagt þá er allt í lagi að gera grín að keppninni en hún fer svo langt yfir strikið. Það er ekkert hægt að segja að nokkrir (þ.á.m. yfirmenn keppninnar) séu bara ekki að ná gríninu. Ef hún heldur áfram á sinn hátt þá verður okkur mjög líklega vísað úr keppninni. Ég skil ekki hvað næst með því að láta vísa okkur úr keppni, þetta eru ekki reglur sem Eurovision semur heldur er verið að vísa í reglur hjá mörgum þjóðum þar sem blótsyrði mega ekki heyrast í sjónvarpinu. Hún tekur ekki tillit til eins eða neins og mér finnst þetta fáránlegt í alla staði.

Ég held að ég sé ein af fáum sem hata þáttinn hennar og hvernig hún kemur fram (og þá er ég auðvitað að tala um Silvíu en ekki Ágústu) en mér finnst lagið mjög flott og finnst mikill missir ef okkur yrði vísað úr keppni. Ágústa Eva heldur greinilega að hún geti hagað sér hvernig sem hún vill en það gengur ekki þegar að maður er að koma fram fyrir landið sitt, hún þarf að taka sig á og hegða sér sómasamlega, aðeins að dempa Silvíu og þá verður þetta flott.

sunnudagur, maí 07, 2006

Við hjónin skelltum okkur á M:I:III í gær. Svaka góð mynd, það er ekki hægt að taka af Tom Cruise að hann er ótrúlega góður leikari og ekki spillir fyrir að hann er algjört augnakonfekt. En allavega, ekta sumarmynd, mikill hasar og spenna.

Ég fékk alveg fiðring í magann þegar að sýnt var frá Vatíkaninu í myndinni, St. Péturs torginu og kirkjunni. Gaman að hugsa til þess að maður hafi komið þangað. Okkur langar svo í aðra "road trip", okkur langar báðum að keyra um Bandaríkin (eða allavega hluta þeirra) og svo langar mig rosalega að keyra um Austur-Evrópu, þá aðallega strandarlengjuna. T.d. að keyra um Króatíu, Bosníu, Serbíu & Svartfjallaland og Albaníu alveg niður til Grikklands. Held að það myndi verða geðveikt

Ég horfði á Eurovisionþáttinn í gær og lagið okkar var einmitt sýnt. Ég er svo innilega sammála Selmu um að Silvía verði okkur til sóma en ekki til skammar. Ég fíla lagið út í eitt og allt í lagi að gera smá grín að þessari keppni en hún er auðvitað að koma fram fyrir hönd landsins og mér finnst hún gleyma því alltof oft.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Það eru tveir sem eiga afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku Ingibjörg og Grétar. Njótið dagsins vel :).

Ég fór í keilu í gær með Rakel og Guðlaugu fyrrverandi Landsbankapíum, skemmtum okkur þvílíkt vel. Reyndar tapaði ég báðum leikjunum en það skiptir ekki öllu. Fórum svo í ísbíltúr þar sem að ég fékk mér fyrsta ísinn síðan að ég kom heim, nammi namm.

Í dag eru svo akkúrat þrjár vikur þangað til að ég þarf að senda ritgerðina, ég er ennþá með ritstíflu og veit ekkert hvernig þetta á eftir að verða. Allir að hugsa vel til mín :).

laugardagur, apríl 29, 2006

Við hjónin fórum í dag og heimsóttum Helgu, Frey og litla prinsinn á spítalann. Oh maður er ekkert smá sætur, alveg eins og mamma sín :).

Annars fór mestallur dagurinn í að hjálpa Sollý systur að tæma íbúðina sína en hún flytur til Englands á þriðjudaginn. Frekar skrýtið að hugsa til þess að hún og börnin hennar séu að flytja til annars lands og missa af uppvexti barnanna en maður verður bara að vera duglegur að heimsækja þau. Vona bara að þeim eigi eftir að líða vel.

Á morgun er svo afmælisboð hjá Ingibjörgu skvís, alltaf gaman að vera boðin í afmæli og hitta vinkonurnar. Ingibjörg er orðin svaka myndarleg enda komin ca. 32 vikur á leið með annað barnið sitt. Það eru allir annaðhvort ófrískir eða með nýfædd börn í kringum okkur þessa dagana :) sem er bara skemmtilegt því að það er svo yndislegt að knúsa þessi litlu kríli.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Pabbi minn á afmæli í dag, innilega til hamingju með afmælið elsku pabbi. Við erum einmitt á leiðinni þangað í smá afmæliskaffi, alltaf svo gaman að hitta öll systkinin og systkinabörnin í einu :).

Annars komu stelpurnar til mín í gær og við byrjuðum að plana gæsapartýið hennar Helgu, oh hvað við skemmtum okkur vel við að skipuleggja. Verðum nú ekkert alltof kvikindislegar en samt smá, tíhí.

En vonandi eigið þið öll góða helgi, helgin hjá mér samanstendur af flutningum og ritgerðarskrifum, ótrúlega skemmtilegt.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Kl. 1:03 í nótt kom litli prinsinn þeirra Helgu og Freys í heiminn, 17 merkur og 54 cm. Innilega til hamingju með soninn og við hlökkum mikið til að sjá þann litla og knúsa ykkur öll.

sunnudagur, apríl 23, 2006

Það er enginn tími til að skrifa þessa blessuðu ritgerð því að maður er alltaf svo upptekinn við að hitta annað fólk :). Skemmti mér þvílíkt vel á miðvikudaginn með Jósu, fórum fyrst á Kaffibrennsluna og spjölluðum um heima og geima. Ég spurði hana svo hvert hana langaði að fara og hún sagði Glaumbar (greinilega búin að smita hana) þannig að við kíktum þangað. Reyndar var nú eitthvað voðalega dauft þar inni þannig að við fórum bara fljótlega heim.

Á föstudaginn buðu Helga og Freyr okkur og Karen & Grétari í mat. Reyndar komst Árni ekki vegna deadline á einhverju í sambandi við ritgerðina en við skemmtum okkur bara líka fyrir hann. Helga er orðin þvílíkt mikil um sig enda komin viku framyfir í dag, þeim er nú eitthvað farið að lengja eftir litla krílinu.

Í gær var svo þrítugsafmæli hjá henni Beggu, geðveik íbúð sem þau búa í, frábærar veitingar og vínið flæddi út um allt. Fórum svo niður í bæ þar sem að ég hitti Hrönn og við skelltum okkur einu sinni enn á Glaumbar og dönsuðum eins og við fengjum borgað fyrir það. Ekkert smá gaman.

Svona í lokin þá langar mig:
* að fá Snúðinn okkar aftur á heimilið, minnst 9 mánuðir í að það gerist :(
* að eiga einhvern pening og fara þá til Bandaríkjanna í verslunarferð
* að geta keypt okkur bíl
* að geta keypt okkur íbúð
* að ég væri búin með ritgerðina og komin með framtíðarvinnu

En þegar að maður lítur á björtu hliðarnar:
* á ég yndislegan mann sem tekst alltaf að peppa mig upp þegar að ég er í svartsýniskasti
* á ég frábæra vini og fjölskyldu
* við erum flutt aftur til Íslands
* erum við alveg að verða búin með námið okkar
* bara mánuður eftir af ritgerðarvinnu
* er sumarið alveg að koma og með því fylgir grillmatur, matarboð, útilegur o.fl.
* er ég komin með sumarvinnu

Og þar sem að peningar geta ekki keypt hamingju eða vini & fjölskyldu sem styðja okkur í öllu sem að við gerum og alltaf er hægt að leita til þá vega björtu hliðarnar þó nokkuð mikið meira og því verður maður bara að vona að allt hitt reddist að lokum.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Jæja, páskarnir búnir þetta árið. Það var nóg að gera alla páskana, vorum nú reyndar bara heima á föstudaginn langa en á laugardaginn fórum við í partý hjá Söru skvís. Skemmtum okkur rosalega vel og ég söng m.a.s. nokkur lög í Singstar. Hélt að það myndi aldrei gerast :).

Á páskadag var svo páskaeggjabingó með tengdafjölskyldunni minni þar sem við hjónin unnum samtals 6 egg nr. 1, alveg alltof mikið. Við vorum svo líka búin að kaupa okkur tvö lítil páskaegg þannig að við stóðum á beit eiginlega allan páskadag. Málshátturinn minn passaði rosalega vel við mig: Þangað kemur kötturinn sem honum er klórað.

Svo fór ég í rannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag. Ætla nú ekkert að vera að opinbera af hverju ég fór í rannsókn en langaði bara að tjá mig um hvað starfsfólkið hjá þeim er yndislegt. Þakkaði mér margsinnis fyrir að gefa kost á mér í rannsóknina, Árni þurfti að bíða eftir mér í nokkurn tíma og það var alltaf verið að bjóða honum eitthvað að drekka eða borða og það er svo þægilegt andrúmsloft þarna. Maður býst nefnilega ekki við þessu því að starfsmenn á heilbrigðissviðinu eru nú ekki með besta orðsporið varðandi framkomu.

En svo gengur þetta ekki lengur með ritgerðina mína. Ég er einhvern veginn ekki að komast í gírinn með að klára hana. Átti að senda leiðbeinandanum mínum niðurstöðurnar mínar strax eftir páska en er ekki búin að því ennþá. Ætla að miða við að senda honum þær á föstudaginn. En þegar að niðurstöðurnar eru búnar þá er nú einungis umræðan eftir og það er ekkert erfitt að skrifa hana. Verð bara að vera duglegri :).

Hinsvegar ætla ég nú að kíkja út í kvöld, með henni Jósu sálfræðigellu. Hlakka endalaust mikið til að sjá hana og spjalla enda erum við ekkert búnar að hittast síðan í janúar. Fáum okkur kannski nokkra bjóra og svona. Á laugardaginn er svo þrítugsafmæli hjá vinkonu hans Árna þannig að það er bara feikinóg að gera í félagslífinu hjá okkur enda er það langskemmtilegast.

föstudagur, apríl 14, 2006

Búin að ætla að vera svo dugleg að læra en það hefur ekki alveg gengið eftir.
Fór með Helgu til Ástu og Ívars á miðvikudaginn til að skoða litlu snúlluna þeirra. Maður er sko langsætastur með mikið rautt hár og alveg eins og pabbi sinn. Í gær var hún skírð og fékk nafnið Eyrún Ólöf, innilega til hamingju með fallega nafnið þitt snúllan mín. Hún var nú bara hin rólegasta í skírninni nema rétt á meðan þegar verið var að skíra hana.

Um kvöldið fórum við svo til Karenar og Grétars og spiluðum Buzz í Playstation. Þvílíkt skemmtilegur leikur og við veltumst um af hlátri meiri hlutann af kvöldinu. Það er alltaf svo gaman að hitta þau enda söknuðum við þeirra endalaust mikið þegar að þau fluttu frá Árósum.

Í dag er svo stefnan tekin á sumarbústað rétt hjá Flúðum. Ég, Sigga systir og Adam ætlum að kíkja á Bjarklindi og Vigga. Það er svo næs að komast aðeins út í sveitina þótt að það sé bara einn dagur.

En vonandi njótið þið öll páskana. Ég ætla sko alveg að njóta þess að hafa afsökun til að læra ekki en svo byrjar lærdómurinn aftur á mánudag.

mánudagur, apríl 10, 2006

Það er svo yndislegt að vera flutt heim. Búið að vera nóg að gera síðan að við komum, hittum m.a. Karen og Grétar í hádegismat á Vegamótum, fórum í kvöldmat til Helgu sem á nú bara að fara að eiga á næstu dögum enda orðin þvílíkt stór :), heimsókn til Hrannar og Axels og kveðjupartý hjá Sollý systur en hún er að flytja til Englands í lok mánaðarins. Við systurnar skelltum okkur einmitt á Glaumbar eftir partýið og tókum nokkur dansspor, alltaf gaman að fara á Glaum. Hinsvegar eigum við ennþá eftir að knúsa Snúðinn okkar, komumst ekki til þess í seinustu viku þannig að ég hlakka svaka mikið til að hitta hann á eftir.

Reyndar dó Sóli, hundurinn þeirra Hrannar og Axels, á fimmtudagsnótt. Greyið manns, maður var orðinn svo veikur en við gátum því miður ekki kvatt hann. En honum líður allavega betur núna.

Svo er pínku skrýtið að hugsa til þess að maður þurfi að fara að læra. Alltaf þegar að við höfum komið til Íslands þá höfum við verið í fríi en nú þýðir það ekki. Aðeins 45 dagar þangað til að ég þarf að senda ritgerðina til Danmerkur. En hinsvegar verður nóg að gera næstu daga til að lyfta sér upp. Skírn hjá Ástu og Ívari á fimmtudag, spilakvöld á fimmtudagskvöld, partý á laugardag og svo auðvitað páskaeggin :).

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Jæja þá erum við lent á Íslandinu góða :). Þvílíka rokið sem tók á móti okkur, alveg ekta íslenskt veður. Enda fann ég alveg svona: Ég er komin heim tilfinningu, kannski smá væmið en hey maður má það stundum.

Annars voru síðustu dagarnir okkar rosalega fínir. Mánudagurinn var náttúrulega bara rugl, vöknuðum kl. 7 og vorum á fullu allan daginn að flytja og þrífa. Edda var svo yndisleg að koma og hjálpa okkur að þrífa, takk aftur Edda mín. Bjargaðir okkur alveg. Vorum svo ekki komin til Hildar og Konna fyrr en um hálftíu um kvöldið. Rotuðumst um leið og höfuðið snerti koddann.

Þriðjudagurinn var rosalega næs, ég og Hildur röltum niður í bæ og kíktum í nokkrar búðir. Fórum svo á CuCos um kvöldið þar sem að við hámuðum í okkar þennan geðveika mat. Fékk mér svo girnilega súkkulaðiköku í eftirrétt að allir fylgdust með hverjum bita sem ég setti upp í mig :). Svo var bara farið heim til Hildar og Konna þar sem Árni hélt sirkussýningu fyrir okkur, smá einkahúmor. Vöknuðum kl. 6 á miðvikudeginum og fórum í lestina. Takk enn og aftur elsku Hildur og Konni fyrir að leyfa okkur að gista, skemmtum okkur geðveikt vel með ykkur. Fullkominn endir á Árósardvölinni :).

sunnudagur, apríl 02, 2006

Síðustu dagarnir hérna í Árósum eru búnir að vera algjör snilld. Fór og hitti leiðbeinandann minn á fimmtudaginn, hann er mjög ánægður með það sem ég er komin með en skellti jafnfram þeirri sprengju á mig að ég þarf að skila 1. júní í stað 1. júlí. Hann var meira að segja það bjartsýnn að stinga upp á að kannski vildi ég bara skila 1. maí. En ég þarf semsagt að skila 1. júní vegna þess að hann verður gestafyrirlesari í allt sumar á Ítalíu. Ég fékk nú smá áfall fyrst en eftir að ég skoðaði það sem ég er búin með þá verður þetta minnsta málið :). Hlakka bara meira til að skila henni mánuði fyrr.

Ég kíkti á uppáhaldskaffihúsið mitt með Eddu á föstudaginn þar sem við töluðum um allt mögulegt, alltaf jafn gaman að hitta hana og spjalla aðeins og ekki spillti fyrir að ég gæddi mér á frábæru ostakökunni frá Baresso á meðan :).

Á laugardaginn vorum við hjónin rosa dugleg að pakka og ganga frá ýmsum hlutum en ég ákvað svo að skella mér í afmæli hjá Kötu í sálfræðinni. Vá hvað ég skemmti mér vel. Partýið var frábært, allur hópurinn fór svo niður í bæ á stað sem heitir Römer (minnir mig) og þar var besta tónlist sem ég hef heyrt á skemmtistað hérna í bæ. Við vorum stanslaust á gólfinu í tæpa 3 tíma. Kom heim um hálfsex en var svo vöknuð kl. hálfellefu, ótrúlega hress. Dagurinn í dag fer í að ganga frá stóru hlutunum okkar og svo byrjar helsta skemmtunin, þrifin!!

fimmtudagur, mars 30, 2006

Allt í drasli þessa dagana hjá okkur. Kassar út um allt og dót á öllum borðum sem á eftir að pakka niður :). Finnst tilhugsunin um það að við þurfum að flytja aftur í september og svo aftur þegar að við kaupum okkur íbúð ekkert voðalega heillandi þessa stundina. En vá hvað maður getur safnað að sér miklu drasli á einu og hálfu ári og ótrúlegt hvað kemst fyrir í þessari litlu íbúð. Erum semsagt komin langleiðina með pakkninguna, helgin fer í að taka niður hillur, sparsla og þrífa.

Annars er ég búin með 2/3 af ritgerðinni þannig að ég skilaði inn til skólans staðfestingu á því að ég myndi skila 1. júlí. Rosa fínt að vera búin að ákveða fastan dag og ég hlakka endalaust mikið til þess þegar að ég get skilað henni.

Tilhugsunin um að vera að fara frá Árósum er dálítið blendin, ég er auðvitað búin að hlakka til að flytja til Íslands frá því að við komum en ég á eftir að sakna vinanna ótrúlega mikið. Finnst skrýtið að ég hafi náð að kynnast þeim svona vel á stuttum tíma þar sem að ég hleypi fólki ekki mjög auðveldlega að mér. En þau eru öll svo yndisleg að það er kannski engin furða.

En ætla að halda áfram að pakka og drasla meira til :). Þetta er örugglega í síðasta skipti sem ég blogga frá Árósum, heyrumst aftur á Íslandi.

sunnudagur, mars 26, 2006

Helgin hjá okkur er búin að vera rosalega fín, enda er þetta seinasta helgin sem við höfum í að gera ekki neitt. Árni kíkti út með nokkrum strákum á föstudaginn, þeir skelltu sér á Hereford og drukku nokkrar rauðvínsflöskur. Ég fór svo út í gær með nokkrum sálfræðiskvísum, fórum fyrst á kaffihús og svo á Gaz station. Skemmti mér þvílíkt vel þótt að tónlistin á Gaz hafi ekki alveg verið að gera sig.
Kom heim um þrjúleytið sem var í rauninni um fjögurleytið því að við erum komin á sumartíma hérna í Danmörku. Ekki er nú mjög sumarlegt hjá okkur, það snjóaði í nótt og núna er slydda :).

En næsta vika fer í að pakka og ganga frá öllum okkar málum. Flytjum þarnæsta mánudag, sýnum íbúðina á þriðjudagsmorgninum og fljúgum heim á miðvikudeginum. Hildur og Konni voru svo yndisleg að bjóða okkur að gista hjá þeim seinustu tvær næturnar, rosa þægilegt að þurfa ekki að taka hótelherbergi.

En bara 10 dagar í heimkomu, jibbí. Ætla sko að fara strax í Kattholt og knúsa Snúðinn minn, er búin að sakna hans endalaust mikið.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Kl. 21:44 í gærkvöldi kom prinsessan þeirra Ástu og Ívars í heiminn. Innilega til hamingju með litlu dótturina og við getum ekki beðið eftir að koma heim og knúsa ykkur öll!!

Jæja, þá er annað barnið í þessum vinahóp komið og eftir ca. mánuð kemur það þriðja. Skemmtilegt sumar framundan með fullt af litlum börnum til að knúsa.

laugardagur, mars 18, 2006

Það var svo gaman á stelpudjamminu í gær. Kvöldið byrjaði hjá Hildi þar sem að ég, Víó, Edda og Sigga Lóa fengum rosa góðan fordrykk, Pina Colada með ferskum ananas, nammi namm. Fengum svakalega góðan mat á veitingastaðnum, þeir eru með gómsætasta forréttarhlaðborð sem að ég hef smakkað, hummus, djúpsteika smokkfiska, sushi, prosciutto og margt fleira. Ég fæ bara vatn í munninn við tilhugsunina. Fórum svo til Eddu og allt í einu var klukkan orðin svo margt að við komumst aldrei á kokkteilabarinn, fórum bara beint á Gaz station til að dansa. Fórum heim um fjögurleytið, enda byrjaði djammið klukkan hálfsex :). Takk fyrir frábært kvöld, stelpur.

Í dag eru svo bara 18 dagar þangað til að við komum heim, tíminn líður ekkert smá hratt. Ritgerðin hjá mér gengur bara vel, ég er búin með fræðilega hlutann af skýrslunni minni og er meira en hálfuð blaðsíðulega séð. Hlakka nú samt til þegar að þetta verður búið :). Annars finnst mér ég hafa ekkert að segja þessa dagana, enda er það ástæðan fyrir því að það líður svona langt á milli færslna, finnst ég alltaf vera að tönglast á því sama.

mánudagur, mars 13, 2006

Seinasta helgi einkenndist mest af afslöppun, við lærðum eiginlega ekki neitt en slöppuðum þeim mun meira af :). Fórum til Hildar og Konna á laugardagskvöldið og elduðum saman þennan æðislega mat, sátum svo frameftir kvöldi og spiluðum Catan. Alltaf svo gaman að hitta þau.

Er strax byrjuð að hlakka til næstu helgi. Ætlum nefnilega nokkrar skvísur að fara á djammið. Kvöldið byrjar á fordrykk hjá Hildi, svo farið verður út að borða á Cucos sem er grískur staður. Eftir matinn er förinni heitið til Eddu þar sem að stelpupartýi verður slegið upp og svo er planið að fara á kokkteilabar niðri í bæ og fara svo að dansa :). Hljómar ekkert smá vel enda hlakka ég þvílíkt til.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Voðalega lítið að gerast hjá okkur í Árósum, erum bara alla daga að læra. Enda gengur ritgerðin ágætlega, komin með 40 bls. og var að senda leiðbeinandanum mínum helminginn af því til yfirlestrar. Vona bara að hann verði sáttur við það sem komið er.

Ég horfði á March of the penguins um helgina. Ekkert smá yndisleg mynd, ótrúlega flott myndataka og alltaf svo skemmtilegt að fylgjast með dýrum :). Þannig að það kom mér nú ekki á óvart að hún skyldi vinna Óskarinn fyrir bestu heimildamyndina, átti það alveg skilið.

Svo styttist nú alltaf í heimkomu, minna en mánuður. Var líka að fatta að það eru 3 mánuðir þangað til að við förum til Mallorca með tengdafjölskyldunni minni. Verðum í húsi með sér sundlaug og alles, ekkert smá gaman. Ætla að njóta þess að liggja við sundlaugarbakkann, með sólhlíf og lesa bækur. Markmiðið er einmitt að vera búin með ritgerðina þá enda verða þá bara tvær vikur í skil.

föstudagur, mars 03, 2006

Sjaldan er ein báran stök. Mágur hans pabba, Maggi, lést núna á þriðjudaginn. Maggi var giftur Laufeyju sem lést fyrir þremur vikum. Maður getur nú varla ímyndað sér hvernig börnunum þeirra líður, nýbúin að missa mömmu sína og þá kveður pabbi þeirra þennan heim. Örugglega mikil sorg á heimilum þeirra núna, allóþyrmileg minning á hvað þetta líf er stundum óskiljanlegt.

mánudagur, febrúar 27, 2006

Síðustu dagar eru búnir að vera ótrúlega næs. Laugardagurinn var tekinn í leti en um kvöldið var farið í æðislegan mat + spjall hjá Tótu og Gumma. Takk aftur fyrir okkur :). Í gær var ég bara nokkuð dugleg að læra en í dag fór ég og keypti mér 3 bækur eftir uppáhaldshöfundinn minn og eru þær síðbúin afmælisgjöf frá Hrönn, takk dúllan mín. Ég má reyndar ekki byrja að lesa þær strax því að þá myndi ég ekkert vinna í ritgerðinni en ég hlakka endalaust til þegar að ég get byrjað að lesa þær.

Hitti svo Hildi og Eddu sálfræðigellur á kaffihúsi í dag, sátum í rúmlega tvo tíma og spjölluðum. Þvílíkt skemmtilegt enda alveg kærkomin hvíld að komast aðeins út úr húsi.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Ritgerðin mjakast svona áfram, finnst samt að ég mætti vera duglegri. Er búin að prófa að taka netsnúruna úr sambandi og ég held að það sé bara málið. Fara eitthvert sem hún nær ekki (er samt frekar erfitt því að sá staður er rúmið) og skrifa þar. En svo er auðvitað svo auðvelt að stinga henni í samband aftur :).

Árni er kominn með skrifstofu í skólanum og er þar flestalla daga frá 9-5. Voða gott fyrir hann því að hann getur alls ekki lært heima, hann er semsagt örugglega búin að vera duglegri þessa fjóra daga heldur en allan seinasta mánuð, tíhí. Hann fær nú samt örugglega of stóran skammt af "tali" þegar að hann kemur heim. Ég er með svo uppsafnaða talþörf þegar að hann kemur heim að hann verður uppgefinn á að hlusta á mig.

Annars er ég búin að vera að horfa á Prison Break þættina og oh my god hvað þeir eru góðir. Þeir og Despó deila fyrsta sætinu yfir bestu þættina að mínu mati. Veit að ég er örugglega dálítið sein að fatta þessa þætti en hey, betra seint en aldrei. Ekki spillir svo fyrir hvað aðalleikarinn er svakalega heillandi.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Ég er voðalega dugleg að vafra á netinu um þessar stundir, kem mér einhvern veginn ekki í þann gír að byrja strax á morgana á ritgerðinni. Fann einmitt þessa síðu, endilega kíkið inn á hana og merkið við hvaða 5-6 orð ykkur finnst lýsa mér best, ofsa gaman :).

Hnuss, nú er ég ekki sátt. Síðasta færslan mín (frá 18. feb) virðist bara hafa horfið allt í einu, ég finn hana ekki einu sinni inn á síðunni minni á blogger. Skrýtið.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Ásta vinkona á afmæli í dag. Innilega til hamingju með afmælið elsku Ásta mín. Njóttu dagsins krútta :). Þú færð svo almennilegt afmælisknús í apríl.

Ég horfði á Hotel Rwanda og Crash um helgina. Ég á eiginlega engin orð til að lýsa þessum myndum, mér finnst ekki nægja að segja að þær hafi verið ótrúlega góðar.
Hotel Rwanda er svo átakamikil, ég var með tárin í augunum eiginlega allan tímann meðan að ég horfði á hana. Ekki bara vegna þess sem kom fyrir fólkið heldur líka vegna þess að ég skammaðist mín fyrir að vera hluti af alþjóðasamfélaginu sem gerði nákvæmlega ekki neitt til að hjálpa þessu fólki.
Crash er bara frábær í alla staði, ég held að allir myndu hafa gott að horfa á hana og finna að þeir séu með "innbyggða" fordóma. Ekki vegna þess að þessir fordómar hafa við eitthvað að styðjast heldur er þetta innprentað í mann frá unga aldri, t.d. frá fjölmiðlum. Allavega, mæli með þessum myndum fyrir alla.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Gærkvöldið fór nú aðeins öðruvísi en planað var. Ég og Hildur ákváðum semsagt bara að slá þessu kvöldi upp í allsherjar djamm. Fórum niður í bæ um miðnætti en skildum strákana eftir heima hjá þeim sötrandi rauðvín. Þræddum nokkra staði áður en við enduðum á Gas station og dönsuðum frá okkur allt vit :). Alveg frábært kvöld, skemmti mér þvílíkt vel enda fórum við ekki heim fyrr en um fimmleytið.

Dagurinn í dag er svo bara búinn að fara í rólegheit. Horfði auðvitað á Tíminn líður hratt, dýrka þennan þátt og er einmitt búin að safna nokkrum spurningum í sarpinn fyrir Eurovisionpartý. Forkeppni Dana fyrir Eurovision var einmitt í gær og vann 17 ára stelpa frá Árósum keppnina. Ég man nú ekkert hvað hún heitir því að ég vildi að annað lag myndi vinna sem bar nafnið En som dig. Þvílíkt flott lag en Danir voru greinilega ekki sammála mér og Hildi.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Takk elskurnar, fyrir kveðjurnar í síðustu færslu. Alltaf gott að fá bloggknús :).

Annars erum við hjónin bara heima þessa dagana og erum að vinna í ritgerðinni.
Reyndar fór ég út að borða í gær með nokkrum vinkonum úr MR sem eru líka í námi hérna í Árósum, m.a. ein sem er í sama námi og ég, bara einu ári á eftir. Fórum á Indian Curry House þar sem við fengum nokkuð góðan mat og kíktum eftir það á fredagsbarinn í sálfræðideildinni (þar sem fleiri sálfræðingar bættust í hópinn hjá okkur). Það var nú frekar léleg stemmning þar þannig að við fórum fljótlega á fredagsbar hjá arkitektadeildinni. Enduðum kvöldið svo á að fara á einhvern kokkteilabar niðri í bæ og sátum þar og spjölluðum saman. Rosa skemmtilegt kvöld.

Í kvöld er svo stefnan tekin til Hildar og Konna til að spila Catan, jibbí. Verður örugglega mjög gaman.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Alltaf sorglegt að fá fréttir um að fjölskyldumeðlimur sé dáinn. Mamma og pabbi hringdu í gær til að segja mér að Laufey, systir hans pabba væri látin. Hún lést úr krabbameini aðeins 67 ára gömul. En ég hugga við mig það að henni líður allavega vel núna.
Ég fór að hugsa til þegar að ég var lítil og við keyrðum til Akureyrar og gistum hjá Laufeyju og Magga. Alltaf svo gaman að koma til þeirra, húsið fullt af börnum til að leika við og ég skemmti mér alltaf svo vel.
Ég er nú dálítið sorgmædd yfir því að komast ekki í jarðarförina sem verður á morgun, hugur minn verður allavega hjá fjölskyldunni á morgun.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Þvílíkt gaman að fá tengdamömmu og Fjólu í heimsókn á laugardagskvöldið. Þær komu með íslenskt nammi, graflax + graflaxsósu, ekkert smá gott. Við höfðum það bara næs um kvöldið og þær fóru svo eldsnemma á sunnudagsmorgninum, hefðum alveg viljað hafa þær lengur.

Við hlustuðum svo á Söngvakeppnina á sunnudaginn. Ég hef aldrei fílað Sylvíu Nótt (og mun aldrei koma til með að taka hana í sátt) en ég hinsvegar dýrka lagið hennar. Búin að hlusta á það endalaust oft. Ég er samt á báðum áttum með hvort að ég vilji að hún vinni. Æðislegt lag en hún er ekki besta landkynningin miðað við hvernig hún hagar sér og talar.

Við horfðum líka á spurningakeppninga Tíminn líður hratt, oh hvað ég elska svona þætti sem tengjast Eurovision. Búin að horfa á tvo eldri þættina líka og bíð spennt eftir næsta þætti. Alveg búin að ákveða að ef við höldum Eurovisionpartý í maí þá verður spurningakeppni líka :).

laugardagur, febrúar 04, 2006

Hvet alla til að skrifa undir þessa áskorun.

Við undirrituð skorum á alla alþingismenn að styðja jafnrétti samkynneigðra í verki og samþykkja bæði stjórnarfrumvarp um réttarbætur og breytingartillögu sem veitir forstöðumönnum safnaða heimild til vígslu samkynhneigðra para. Um leið mótmælum við afskiptum biskups af málinu enda óviðunandi að hans afskipti takmarki rétt annara trúfélaga. Það er ekki eftir neinu að bíða. Við styðjum rétt samkynhneigðra til fjölskyldulífs og þar með hjónavígslu og heitum á þingmenn að standa með jafnréttinu og gegn misrétti.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Ég og Árni eigum 6 ára afmæli í dag. Vá hvað tíminn líður hratt. Í tilefni dagsins ætlum við að fara út að borða, eigum reyndar eftir að ákveða staðinn en við ætlum bara að labba meðfram síkinu og sjá hvaða stað okkur líst best á.

Jæja, ekki gekk það eftir hjá strákunum að vinna Norðmenn, því miður. Ég er nú samt rosa stolt af þeim, 7. sæti á EM sem er næstbesti árangur okkar á því móti. En þeir standa sig bara betur næst og hafa þá alla sína leikmenn í toppstandi. Alexander og Einar meiðast það mikið að þeir geta ekki spilað meira, Óli missti af tveimur leikjum og þurfti alltaf að fá staðdeyfingu til að geta spilað og Garcia var aldrei inni í myndinni út af táaðgerð, ekki beint draumastaða.

Á morgun koma svo tengdamamma og Fjóla, systir hennar í örheimsókn. Ég held að við höfum aldrei fengið styttri heimsókn, þ.e.a.s. þegar að gestirnir gista hjá okkur. Þær koma líklegast um níuleytið á laugardagskvöldið og fara um sjöleytið á sunnudagsmorgni. Þær eru semsagt að fara á sýningu í Herning varðandi búðina sína. Hlökkum til að sjá þær þótt að það sé svona stutt.

Var næstum búin að gleyma aðalfréttunum, erum semsagt búin að segja upp íbúðinni og þurfum að skila henni 3. apríl sem þýðir að við komum heim 4. eða 5. apríl, jibbí. Erum reyndar ekki búin að kaupa miðana en förum að gera það fljótlega.

Annars er ég rosalega ánægð með Energi Danmark. Fengum ávísun frá þeim fyrir viku síðan upp á 800 dk. Í bréfi sem fylgdi með var sagt að veltan hjá þeim hefði verið það mikil að þeir endurgreiddu öllum viðskiptavinum sínum ákveðið hlutfall af notkun. Í gær kom svo önnur ávísun frá þeim upp á 2.200 dk. og var það vegna þess að við höfum greitt of mikið til þeirra á seinasta ári. Alltaf gaman að fá endurgreitt :).

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Ég er svo stolt af strákunum okkar. Þótt að þeir hafi ekki sigrað Króatana þá stóðu þeir samt uppi í hárinu á Ólympíumeisturunum. Það sem mér finnst nú samt sárast er að núna er það í höndum annarra hvort að þeir komist áfram í undanúrslitin, þ.e.a.s. þótt að við vinnum Noreg þá þurfa aðrir að tapa til að við komumst áfram. En maður vonar bara það besta.
Hinsvegar er ég ekkert smá fúl út í danska sjónvarpið, þeir sýna eiginlega alltaf tvo leiki á dag en aldrei íslensku leikina, ullabara. Ég ætlaði auðvitað að horfa á þegar að við spiluðum á móti Dönum en sofnaði rétt áður en leikurinn byrjaði (var eitthvað voðalega þreytt það kvöld). Þannig að núna verða strákarnir að komast áfram því að þá get ég vonandi séð þá í sjónvarpinu :).
Annars væri ég alveg til í að vera heima núna, fyrir utan hvað það er gaman að geta horft á leikina í sjónvarpi þá er bara alltaf svo mikil stemmning heima fyrir handboltanum. Reyndar er ég mjög þakklát fyrir að geta hlustað á leikina í gegnum netið, veit ekki hvað ég myndi gera ef það væri ekki hægt.

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Vá hvað strákarnir okkar stóðu sig vel gagnvart Rússum!! Unnu með tveimur stigum, þvílíkt flott hjá þeim. Hlustaði á leikinn í gegnum netið og iðaði í sætinu allan tímann.

Annars er ég að horfa núna á Brokeback Mountain, Heath Ledger og Jake Gyllenhaal sýna báðir stórleik. Skil mjög vel að þessi mynd hafi fengið flestar tilnefningar til Óskarsins, sorgleg en jafnframt ótrúlega góð.

Það er allt vitlaust hérna í Danmörku út af því að Jyllands-Posten birti skopmyndir af Múhameð og hefur þetta vakið mikla reiði hjá múslimum. Þeir hvetja t.d. til þess að fólk í Sádi-Arabíu hætti að kaupa danskar vörur (og í mörgum verslunum hafa allar danskar vörur verið teknar úr hillunum) og Líbýa tilkynnti í gær að sendiráð þeirra í Danmörku myndi loka til að mótmæla þessari birtingu. Þetta er afar viðkvæmt mál og þótt að Jyllands-Posten hafi beðist afsökunar í dag þá virðist það engu máli skipta. Ég ætla nú ekki að taka neina afstöðu í þessu máli, vona bara að þetta leysist fljótlega.

föstudagur, janúar 27, 2006

Aftur komin helgi, alveg ótrúlegt hvað tíminn er eitthvað fljótur að líða. Fæ einmitt væg kvíðaköst yfir því hvað er stutt þangað til að ég þarf að skila ritgerðinni minni. Ákvað nefnilega að setja smá pressu á mig og skrifaði í samninginn að ég myndi skila henni fyrir 1. júlí. Þótt að ég geti svo sem breytt þessari dagsetningu ætla ég mér ekki að gera það, vil klára þetta sem fyrst. Er að lesa heimildir núna og ætla mér að vera komin á gott skrið þegar að við flytjum heim.

Annars eru helstu fréttirnar þær að við komum flakkaranum okkar aftur í gang og gátum loksins náð í yfir 15 GB af tónlist sem var þar inni. Vorum orðin dálítið hrædd um að þessi tónlist + ótrúlega mikið magn af þáttum væri ónýtt en sem betur fer virðist allt í besta lagi.

Ég horfði á myndina Pride and Prejudice í fyrradag, yndisleg saga. Ég var alveg ánægð með myndina en fannst hinsvegar að þeim hafi ekki tekist að gera sögunni nógu góð skil á svona stuttum tíma. Verð nú samt að segja að þótt að mér finnist enginn jafnast á við Colin Firth í hlutverki Mr. Darcy náði Matthew Macfayden alveg að heilla mig upp úr skónum í sama hlutverki.
Langaði samt svo að sjá þættina aftur þannig að ég náði í þá og nota þá núna sem gulrót ef ég er búin að vera dugleg að lesa heimildir. Var einmitt að klára fyrsta þáttinn núna og ætla að horfa á annan þáttinn eftir að ég er búin að lesa 3 greinar :). Finnst þættirnar einhvern veginn ná "andanum" mikið betur heldur en kvikmyndin.

En loksins virðist heilsan mín vera í lagi, allavega fórum við út í fyrradag og mér sló ekki niður. Kíktum í Storcenter Nord þar sem að Árni keypti sér tvenna skó í afmælisgjöf (fékk pening bæði frá mömmu & pabba og tengdó). Fórum í uppáhaldsbúðina okkar, Aldo en ég gæti keypt mér hvert einasta skópar í þessari búð. Ótrúlega flott.

Í kvöld ætla ég svo að horfa á Ísland - Danmörk á DR1. Hlakka mjög mikið til þess enda er þetta eini íslenski leikurinn (úr riðlakeppninni) sem verður sýndur. Áfram Ísland!!!

mánudagur, janúar 23, 2006

Ég er ekki alveg nógu ánægð með heilsuna hjá mér upp á síðkastið. Fór semsagt ekkert út frá þriðjudegi til föstudagskvölds til að vera alveg viss um að ná þessari flensu úr mér og ég hélt að ég væri alveg búin að ná mér. En á laugardagsnótt vaknaði ég með þessa þvílíku magaverki og kastaði upp meirihlutann af sunnudeginum. Ekki alveg nógu gott. Er búin að vera hálf tuskuleg síðan með bakverki og magaverki, skil þetta ekki.

En fyrir utan veikindin á sunnudag var helgin frábær. Fögnuðum því að bæði Grétar og Karen eru komin með mastersgráðu, þið eruð svo klár :). Til hamingju aftur með árangurinn, við erum svo stolt af ykkur. Fengum geðveikan mat hjá Tótu og Gumma og svo var bara setið og spjallað fram á nótt. Við fórum svo líka til þeirra á laugardagskvöldið og héldum smá spilakvöld. Takk kærlega fyrir okkur, skemmtum okkur þvílíkt vel. Hinsvegar er alltaf leiðinlegt að kveðja Grétar og Karen, hefðum viljum að þau hefðu verið lengur.

Svo er ég búin að fá seinustu einkunnina mína fyrir haustönnina, fékk "staðið" fyrir hugleiðingaritgerðina mína um starfsþjálfunina. Voða sátt við það :).