fimmtudagur, maí 11, 2006

Þegar að Silvía vann forkeppnina hérna heima þá hélt ég virkilega að hún hefði það mikla sómakennd og virðingu fyrir landinu sínu að hún yrði okkur ekki til skammar. Annað er að koma upp á yfirborðið núna, allavega samkvæmt nýjustu fréttum.

Hvað er Ágústa Eva eiginlega að hugsa? Eins og ég hef margoft sagt þá er allt í lagi að gera grín að keppninni en hún fer svo langt yfir strikið. Það er ekkert hægt að segja að nokkrir (þ.á.m. yfirmenn keppninnar) séu bara ekki að ná gríninu. Ef hún heldur áfram á sinn hátt þá verður okkur mjög líklega vísað úr keppninni. Ég skil ekki hvað næst með því að láta vísa okkur úr keppni, þetta eru ekki reglur sem Eurovision semur heldur er verið að vísa í reglur hjá mörgum þjóðum þar sem blótsyrði mega ekki heyrast í sjónvarpinu. Hún tekur ekki tillit til eins eða neins og mér finnst þetta fáránlegt í alla staði.

Ég held að ég sé ein af fáum sem hata þáttinn hennar og hvernig hún kemur fram (og þá er ég auðvitað að tala um Silvíu en ekki Ágústu) en mér finnst lagið mjög flott og finnst mikill missir ef okkur yrði vísað úr keppni. Ágústa Eva heldur greinilega að hún geti hagað sér hvernig sem hún vill en það gengur ekki þegar að maður er að koma fram fyrir landið sitt, hún þarf að taka sig á og hegða sér sómasamlega, aðeins að dempa Silvíu og þá verður þetta flott.