Það var svaka gaman á jólahlaðborðinu í gær. Mjög góður matur þótt að ég hafi þurft að sleppa mörgu því sem mér finnst gott vegna óléttunnar :). Hinsvegar var ég ekki ánægð með Ris a la mande grautinn, hann var eiginlega bara einn kekkur og alls ekki góður. Vona að hann verði betri á næsta jólahlaðborði sem verður eftir viku, þá með vinnunni hans Árna. Semsagt nóg að gera í jólahlaðborðum, finnst mjög fínt að þau skuli vera svona snemma í desember.
Annars ætla ég að njóta þess að vera í fríi um helgina, er orðin eitthvað þreytt eftir vikuna. Árni verður líklegast að vinna alla helgina, þarf að skila einhverju verkefni af sér eftir helgi þannig að ég ætla bara að vera heima, baka, pakka inn gjöfum og hlusta á jólalög. Byrjaði einmitt að baka í vikunni og er búin með botnana af Sörunum og á einungis eftir að setja kremið á. Nammi namm, hlakka mikið til þegar að þær kökur verða tilbúnar, eru svo góðar.
Reyndar langar mig alveg rosalega mikið á tónleikana með Magna og félögum í kvöld en þar sem að ég veit að ég fíla mig ekkert svakalega mikið á fjölmennum stöðum með bumbuna út í loftið þá vil ég frekar fara þegar að litla krílið er komið í heiminn. Vona bara að svona tónleikar verði haldnir aftur.
föstudagur, desember 01, 2006
Birt af Inga Elínborg kl. 12/01/2006 08:17:00 f.h.
|