Mér finnst eitthvað svo skrýtið að jólin séu að koma. Ég er svo vön því að vera í algjöru prófastressi fram í ca. miðjan desember og eiga frí alveg til jóla og eitthvað fram í janúar. Ekki það að mér finnist ekki mikið betra að vera að vinna allan desember, engin próf í gangi og svona en ég þarf bara tíma til að venjast þessu fyrirkomulagi. Þess vegna fannst mér svo skrýtið að vera komin í frí í gær en en jólin eru bara að koma á morgun, ekki eftir nokkra daga eins og síðustu ár :), en ég hlakka samt þvílíkt mikið til.
Mamma varð svo fyrir því óhappi að detta í fyrradag og handleggsbrotna. Greyið hún, var reyndar ekki sett í gips af því að þetta voru "einungis" tvær sprungur í axlarliðnum en hún má ekki hreyfa hendina í ca. 1 viku og verður að vera í fatlanum í 4-5 vikur. Vonandi batnar henni bara fljótt, ef það er einhver sem kann ekki að slappa af (fyrir utan mig) þá er það mamma, alveg hræðilegt að fá hana til að setjast niður svona rétt fyrir jól. Samt er mestallt búið hjá þeim þannig að hún getur alveg slappað af en það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Ég og Árni vorum einmitt hjá þeim í gær og við skreyttum tréð fyrir þau, oh þá komst ég nú í dálítið jólaskap. Kemst örugglega ennþá meira í jólaskap þegar að við skreytum okkar jólatré í dag.
Við systkinin hittumst svo öll heima hjá mömmu og pabba í dag til að skiptast á gjöfum, finnst það ómissandi í öllu jólastússinu. Sollý systir og Colin + börn eru komin til landsins, mjög góð tímasetning að vanda hjá þessari fjölskyldu. Mamma datt einmitt á sama tíma og þau voru að lenda þannig að það var enginn til að taka á móti þeim þegar að þau komu heim til Bjarklindar en sem betur fer komust þau nú inn þannig að það reddaðist alveg.
En ég ætla að fara að vekja Árna og fara svo að skreyta tréð, það verður nefnilega alveg nóg að gera í dag. Þ.e.a.s. Árni hefur nóg að gera, ég fæ að gera svaka lítið fyrir þessi jól annars er ég rekin um leið inn í rúm til að hvíla mig.
laugardagur, desember 23, 2006
Birt af Inga Elínborg kl. 12/23/2006 10:32:00 f.h.
|