fimmtudagur, desember 28, 2006

Oh, jólin voru alveg yndisleg. Ég og Árni nutum þess í botn að vera bara tvö ein í friði og ró, enda örugglega seinustu jólin í bili sem verða svona róleg :). Maturinn heppnaðist svaka vel og við fengum rosa margar fallegar gjafir og jólakort. Takk allir fyrir okkur. Eftir matinn kíktum við svo til foreldra okkar, komum svo heim um miðnættið og ég skreið strax upp í rúm með nýja bók, alveg það besta í heimi.

Hinir jóladagarnir liðu svo bara í rólegheitum, fórum reyndar í jólaboð bæði til tengdó og svo til Bjarklindar systur. Reyndar hefur jólaboðið alltaf verið hjá mömmu og pabba en mamma treysti sér ekki alveg að fá allan þennan skara heim til sín með hendina svona enda skilur maður það mjög vel. Það var bara mjög skemmtilegt að halda matarboðið annars staðar, við systurnar sáum um matinn og hann var bara rosa góður, þó ég segi sjálf frá, tíhí.

Við fórum svo líka að spila með vinum hans Árna, spiluðum nýja Trivial Pursuit og Meistarann. Ég var nú ekki alveg sátt við seinna spilið, spurningarnar voru fínar en það voru stafsetningarvillur út um allt, halló hefur þetta fólk ekki heyrt um prófarkalestur? Þar að auki er spilaborðið voðalega skrýtilega uppsett, allir sömu reitirnar eru hlið við hlið þannig að ef maður fær t.d. fimm þá sleppur maður við allar vísbendingaspurningarnar, voðalega hallærislegt eitthvað.

En ég ætla líka að óska Karen vinkonu til hamingju með afmælið, innilega til hamingju með daginn elsku Karen mín. Það verður einmitt partý á morgun hjá þeim skötuhjúum, hlakka rosa til að mæta þangað. Svo er líka brunch á morgun hjá Hrönn þannig að það er bara nóg að gera í félagslífinu. Er reyndar alveg að passa mig að hvíla mig nóg þessa dagana, viljum ekkert að litla krílið komi svona snemma í heiminn. Reyndar er ég ekkert búin að vera að fá verki aftur en allur er varinn góður.