föstudagur, janúar 27, 2006

Aftur komin helgi, alveg ótrúlegt hvað tíminn er eitthvað fljótur að líða. Fæ einmitt væg kvíðaköst yfir því hvað er stutt þangað til að ég þarf að skila ritgerðinni minni. Ákvað nefnilega að setja smá pressu á mig og skrifaði í samninginn að ég myndi skila henni fyrir 1. júlí. Þótt að ég geti svo sem breytt þessari dagsetningu ætla ég mér ekki að gera það, vil klára þetta sem fyrst. Er að lesa heimildir núna og ætla mér að vera komin á gott skrið þegar að við flytjum heim.

Annars eru helstu fréttirnar þær að við komum flakkaranum okkar aftur í gang og gátum loksins náð í yfir 15 GB af tónlist sem var þar inni. Vorum orðin dálítið hrædd um að þessi tónlist + ótrúlega mikið magn af þáttum væri ónýtt en sem betur fer virðist allt í besta lagi.

Ég horfði á myndina Pride and Prejudice í fyrradag, yndisleg saga. Ég var alveg ánægð með myndina en fannst hinsvegar að þeim hafi ekki tekist að gera sögunni nógu góð skil á svona stuttum tíma. Verð nú samt að segja að þótt að mér finnist enginn jafnast á við Colin Firth í hlutverki Mr. Darcy náði Matthew Macfayden alveg að heilla mig upp úr skónum í sama hlutverki.
Langaði samt svo að sjá þættina aftur þannig að ég náði í þá og nota þá núna sem gulrót ef ég er búin að vera dugleg að lesa heimildir. Var einmitt að klára fyrsta þáttinn núna og ætla að horfa á annan þáttinn eftir að ég er búin að lesa 3 greinar :). Finnst þættirnar einhvern veginn ná "andanum" mikið betur heldur en kvikmyndin.

En loksins virðist heilsan mín vera í lagi, allavega fórum við út í fyrradag og mér sló ekki niður. Kíktum í Storcenter Nord þar sem að Árni keypti sér tvenna skó í afmælisgjöf (fékk pening bæði frá mömmu & pabba og tengdó). Fórum í uppáhaldsbúðina okkar, Aldo en ég gæti keypt mér hvert einasta skópar í þessari búð. Ótrúlega flott.

Í kvöld ætla ég svo að horfa á Ísland - Danmörk á DR1. Hlakka mjög mikið til þess enda er þetta eini íslenski leikurinn (úr riðlakeppninni) sem verður sýndur. Áfram Ísland!!!