föstudagur, febrúar 03, 2006

Ég og Árni eigum 6 ára afmæli í dag. Vá hvað tíminn líður hratt. Í tilefni dagsins ætlum við að fara út að borða, eigum reyndar eftir að ákveða staðinn en við ætlum bara að labba meðfram síkinu og sjá hvaða stað okkur líst best á.

Jæja, ekki gekk það eftir hjá strákunum að vinna Norðmenn, því miður. Ég er nú samt rosa stolt af þeim, 7. sæti á EM sem er næstbesti árangur okkar á því móti. En þeir standa sig bara betur næst og hafa þá alla sína leikmenn í toppstandi. Alexander og Einar meiðast það mikið að þeir geta ekki spilað meira, Óli missti af tveimur leikjum og þurfti alltaf að fá staðdeyfingu til að geta spilað og Garcia var aldrei inni í myndinni út af táaðgerð, ekki beint draumastaða.

Á morgun koma svo tengdamamma og Fjóla, systir hennar í örheimsókn. Ég held að við höfum aldrei fengið styttri heimsókn, þ.e.a.s. þegar að gestirnir gista hjá okkur. Þær koma líklegast um níuleytið á laugardagskvöldið og fara um sjöleytið á sunnudagsmorgni. Þær eru semsagt að fara á sýningu í Herning varðandi búðina sína. Hlökkum til að sjá þær þótt að það sé svona stutt.

Var næstum búin að gleyma aðalfréttunum, erum semsagt búin að segja upp íbúðinni og þurfum að skila henni 3. apríl sem þýðir að við komum heim 4. eða 5. apríl, jibbí. Erum reyndar ekki búin að kaupa miðana en förum að gera það fljótlega.

Annars er ég rosalega ánægð með Energi Danmark. Fengum ávísun frá þeim fyrir viku síðan upp á 800 dk. Í bréfi sem fylgdi með var sagt að veltan hjá þeim hefði verið það mikil að þeir endurgreiddu öllum viðskiptavinum sínum ákveðið hlutfall af notkun. Í gær kom svo önnur ávísun frá þeim upp á 2.200 dk. og var það vegna þess að við höfum greitt of mikið til þeirra á seinasta ári. Alltaf gaman að fá endurgreitt :).