þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Ég þarf virkilega að passa blóðþrýstinginn þessa dagana. Það eru allir að tala um Frjálslynda flokkinn og nýju stefnuna hans. Það sem ég er að æsa mig yfir er nokkurn veginn tengt því. Ég skil mjög vel að þar sem að Íslendingar finnist þeir vera of fínir til að vera í afgreiðslustörfum að verslunareigendur þurfi að ráða útlendinga.

Það sem fer í taugarnar á mér er að útlendingar séu ekki skyldaðir til að læra tungumálið okkar. Íslenskunámskeiðin eiga auðvitað að vera ókeypis (þau eru það reyndar núna en bara af því að stjórnvöld ákváðu það svona rétt fyrir kosningar). Mér finnst að þeir eiga ekkert að geta komið hingað og farið í ýmis þjónustustörf nema kunna íslensku. Þá er ég ekki að meina að kunna hana reiprennandi enda skiptir æfingin öllu máli en allavega að þeir geti reddað sér. Ég samþykki allavega ekki að fara út í búð/út að borða og geta ekki talað við afgreiðslufólkið á MINNI tungu í mínu HEIMALANDI. Svo er fólk að segja að íslenskan sé svo svínslega erfið að það sé nú ekki hægt að ætlast til að fólk læri þetta. Halló, ekkert annað land samþykkir að afgreiðslufólkið tali ekki þá tungu sem er opinbera tungumálið í hverju landi. Við erum að taka við fólki inn í okkar land og þau eiga að aðlaga sig að okkar menningu, þ.m.t. málinu.

Reyndar hef ég nú verið flokkuð sem fanatísk á íslenskt tungumál, ég samþykki t.d. ekki að skammstafa orð til að spara pláss, hvorki þegar að ég skrifa sms, msn eða í tölvupóstum. Íslenskan á alveg nógu erfitt fyrir og þess vegna eigum við að vera stolt af tungumálinu okkar og hjálpa útlendingum enn betur að ná tökum á því. Við eigum hins vegar ekki að leyfa þeim að komast upp með að tala það ekki og hananú!!! Það eru ekki bara við sem græðum á því heldur útlendingarnir sjálfir líka, þeir geta þá betur fylgst með hvaða rétt þeir eiga hér á landi, falla betur inn í samfélagið o.s.frv.

Ekki skánaði svo ástandið þegar að ég sá að Árni Johnsen lenti í 2. sæti í prófkjörinu. Þetta sýnir bara hvað við lifum í rotnu samfélagi. Maðurinn braut af sér í embætti og það er verið að kjósa hann í embætti aftur. Jú, hann hefur beitt sér mikið fyrir Vestmannaeyinga og það var mikil þörf á því en hversu langt á þessi maður að geta gengið. Hann iðrast ekki einu sinni, telur einhvern veginn að það hafi verið brotið á sér. Maðurinn er siðblindur, það er það eina sem er hægt að segja um hann og ég skil ekki hvernig fólk gat kosið hann aftur.