Hugsanir um fæðinguna hringsnúast í hausnum á mér þessa dagana. Húðsjúkdómalæknirinn minn ráðlagði mér að fara í keisara út af húðsjúkdómnum mínum og þar sem að ég treysti henni best í þessum efnum þá ákvað ég bara sjálf að ég myndi fara í keisara. En nei, maður má víst ekki ákveða þetta sjálfur.
Ég er semsagt búin að tala við ljósmóðurina, kvensjúkdómalæknirinn minn og fæðingarlækni. Öll eru þau á þeirri skoðun að ég eigi að "prófa" að fæða. Í fyrsta lagi er ekkert að "prófa" að fæða í mínu tilviki. Það er ekkert hægt að hætta við í miðri fæðingu þegar að kemur í ljós að sjúkdómurinn minn er að gera mér erfitt fyrir, skaðinn verður þá kominn og ekkert hægt að segja: Æ, æ. Í öðru lagi hafa allir þessir fagaðilar viðurkennt fyrir mér að þau vita í raun ekki alveg út á hvað sjúkdómurinn gengur, vegna þess að hann er svo sjaldgæfur. Reyndar ætlar fæðingarlæknirinn að tala við húðsjúkdómalækninn minn og kynna sér þetta allt betur og ég á að hafa samband við hana um miðjan desember. Þvílíkan tíma sem þetta gengur, ég byrjaði að tala við húðsjúkdómalækninn minn um miðjan ágúst og þetta er komið svona stutt.
Svo fórum við á foreldranámskeið í gær og allur fyrsti tíminn fór í að tala um fæðingu þannig að ég fór að hugsa um þetta einu sinni enn. Mér líður svo illa yfir þessu, auðvitað langar mig að fæða barnið mitt en ég veit ekki hvort að ég á að taka áhættuna á því.
Það hjálpar svo ekki þegar að allir ýja að því að ég vilji sleppa auðveldlega út úr þessu með því að fara í keisara og það hefur virkilega verið sagt við mig að ég fái nú mikið stærra ör eftir keisarann og á meira áberandi stað. Það er eins og ég sé að fara fram á keisara út af einhverju fegrunardæmi, ekki vegna sjúkdómsins míns. Mér finnst bara svo skrýtið að konan sjálf geti ekki ákveðið hvort að hún vilji fara í keisara eða ekki. Vona bara að fæðingarlæknirinn komist að sömu niðurstöðu og húðsjúkdómalæknirinn minn, vegna þess að hún virðist ráða þessu.
miðvikudagur, nóvember 15, 2006
Birt af Inga Elínborg kl. 11/15/2006 09:30:00 f.h.
|