sunnudagur, apríl 02, 2006

Síðustu dagarnir hérna í Árósum eru búnir að vera algjör snilld. Fór og hitti leiðbeinandann minn á fimmtudaginn, hann er mjög ánægður með það sem ég er komin með en skellti jafnfram þeirri sprengju á mig að ég þarf að skila 1. júní í stað 1. júlí. Hann var meira að segja það bjartsýnn að stinga upp á að kannski vildi ég bara skila 1. maí. En ég þarf semsagt að skila 1. júní vegna þess að hann verður gestafyrirlesari í allt sumar á Ítalíu. Ég fékk nú smá áfall fyrst en eftir að ég skoðaði það sem ég er búin með þá verður þetta minnsta málið :). Hlakka bara meira til að skila henni mánuði fyrr.

Ég kíkti á uppáhaldskaffihúsið mitt með Eddu á föstudaginn þar sem við töluðum um allt mögulegt, alltaf jafn gaman að hitta hana og spjalla aðeins og ekki spillti fyrir að ég gæddi mér á frábæru ostakökunni frá Baresso á meðan :).

Á laugardaginn vorum við hjónin rosa dugleg að pakka og ganga frá ýmsum hlutum en ég ákvað svo að skella mér í afmæli hjá Kötu í sálfræðinni. Vá hvað ég skemmti mér vel. Partýið var frábært, allur hópurinn fór svo niður í bæ á stað sem heitir Römer (minnir mig) og þar var besta tónlist sem ég hef heyrt á skemmtistað hérna í bæ. Við vorum stanslaust á gólfinu í tæpa 3 tíma. Kom heim um hálfsex en var svo vöknuð kl. hálfellefu, ótrúlega hress. Dagurinn í dag fer í að ganga frá stóru hlutunum okkar og svo byrjar helsta skemmtunin, þrifin!!