Þá er ég loksins að stíga upp úr þessari viðbjóðslegu flensu. Reyndar hvarf hitinn á mánudaginn en þá tók hóstinn við. Er semsagt búin að vera hóstandi á fullu í 5 daga. Ljósmóðirin mín vildi endilega að ég myndi láta hlusta mig, fannst ég hljóma eins og ég gæti verið komin með lungnabólgu þannig að á miðvikudagsmorguninn fórum við Árni á Sólvang. Þar var hinsvegar engin laus til að hlusta mig, við vorum þarna um áttaleytið og fengum þau skilaboð að við gætum prófað að mæta aftur um hádegi og þá yrði kannski einhver laus. Ég sagði við hjúkrunarfræðinginn að við myndum bara fara á Bráðamóttökuna en hún var nú ekki sátt við það, sagði að fyrst að ég gæti hreyft mig þá ætti ég ekkert erindi þangað. Við vorum ekki alveg að skilja hana. En við förum semsagt þangað og komumst strax að, ég var sem betur fer ekki með lungnabólgu en þeir vildu endilega láta mig fá næringu í æð vegna þess að ég var búin að vera svo lystarlaus.
Svo komum við heim seinna um daginn og ég held bara áfram að vera veik. Í gær byrjaði svo að blæða, ég var nú ekkert hrædd strax því að ég fékk enga verki en í morgun blæddi meira og þá voru komnir einhverjir verkir þannig að við drifum okkur á Kvennadeildina og þar hlustaði ljósmóðir eftir hjartslættinum í ca. 5 mínútur en ekkert heyrðist. Ég og Árni vorum nú orðin dálítið stressuð en ég var svo sett í sónar og þá sást lítið kríli með hjartslátt. Greinilega prakkari eins og pabbi sinn :). Blæðingin er líklegast bara komin út af áreynslu við að hósta.
Okkur finnst samt rosa skrýtið hvernig það er tekið á móti manni á Kvennadeildinni, ég hringdi í morgun og fékk þau skilaboð að ég ætti ekkert að vera að koma, ætti frekar að fara á Læknavaktina vegna þess að þetta vandamál tengdist Kvennadeildinni ekki neitt. Ég skil þau rök nú ekki. En allavega, ég fór á Sólvang og hitti vakthafandi lækni sem hlustaði á mig í ca. 2 mínútur en sagði svo að hann vildi senda mig á Kvennadeildina. Hann hringdi þangað og reifst hálfgert í símann við þá sem svaraði vegna þess að hún vildi bara alls ekki fá mig. Skil þetta ekki alveg. En allavega, allt er gott sem endar vel.
laugardagur, mars 08, 2008
Birt af Inga Elínborg kl. 3/08/2008 05:26:00 e.h.
|