sunnudagur, mars 23, 2008

Fór í tanntöku á miðvikudaginn, þarf nefnilega að taka 4 tennur úr mér fyrir tannréttingarnar og það voru 2 teknar. Ég bjóst við að þetta yrði ekkert mál, hef látið taka endajaxl úr mér og fann eiginlega ekkert fyrir því og þessar tennur sem var verið að taka eiga að vera frekar "lausar". Nei nei, ég var tæpa tvo tíma í stólnum, hann var í ca. hálftíma að ná tönninni í efri góm úr og sagði við mig að þær í neðri gómi væru vanalega auðveldari. Hann var í þrjúkorter að ná henni úr. Vanalega væri mér nú alveg sama um verkina en þar sem að ég er ófrísk þá má ég taka voðalega takmarkað af verkjalyfjum. Má taka Paratabs og er búin að vera taka þær en þær slá voðalega lítið á verkina. Á Parkódín líka en hef ekki tekið þær vegna þess að á fylgiseðlinum stendur að það sé takmörkuð vitneskja um áhrif þeirra á fóstur. Ég talaði hinsvegar við tannlækni í dag og hann sagði mér að ég ætti bara að taka Parkódín, sé til hvernig ég verð í nótt. Er nefnilega búin að sofa mjög slitrótt um páskana vegna verkja. Næsta tanntaka verður svo á föstudaginn, get ekki sagt að ég hlakki til þess en það þarf allavega ekki að taka fleiri tennur úr mér.

Annars eru páskarnir búnir að vera voða ljúfir. Fórum í gær í tveggja ára afmæli til Eyrúnar, alltaf gaman að hitta vinina og fá gott að borða.

Í dag fórum við í bústaðinn til tengdó og borðuðum þar. Herbergið okkar er alveg tilbúið, þ.e.a.s. á bara eftir að parketleggja þannig að það styttist í að við getum verið þar yfir nótt.

Málshátturinn sem við fengum passaði mjög vel við okkur: Blessun vex með barni hverju. Það er hinsvegar ekki mikið borðað af páskaeggjum á þessu heimili, ég auðvitað með verki og Árni virðist ekkert vera hrifinn af þessu. Gleðilega páska allir saman.