miðvikudagur, janúar 02, 2008

Sofnaði kl. 22:30 í kvöld en vaknaði aftur um eittleytið og hef ekki getað sofnað aftur. Fínt að nota þá tímann í að blogga :).

Jólin og áramótin voru alveg yndisleg hjá okkur fjölskyldunni. Benedikt var reyndar dálítið æstur á aðfangadagskvöld, gat opnað þrjá pakka en þá var bara komið of mikið áreiti og hann var ekki sjálfum sér líkur þannig að við lögðum hann niður til svefns og kláruðum pakkaopnunina í rólegheitum. Fengum fullt af fallegum gjöfum og jólakortum, takk allir fyrir okkur. Litli strumpurinn var búinn að jafna sig daginn eftir og finnst voðalega gaman að leika sér að nýju hlutunum.

Jóladagur og annar í jólum liðu í rólegheitum, fyrir utan jólaboðin tvö sem við förum alltaf í, annað hjá minni fjölskyldu og hitt hjá Árna fjölskyldu. Alltaf gaman að hitta fjölskylduna um hátíðar.
Við fjölskyldan erum öll búin að vera í fríi yfir jól og áramót sem er alveg frábært, höfum verið að dúlla okkur saman og njóta lífsins. Árni byrjar að vinna á morgun og ég þann 7. janúar.

Við borðuðum áramótamatinn í fyrsta skipti saman þetta árið, ég hef alltaf farið til foreldra minna og Árni til sinna en ákváðum að vera bara heima núna og það heppnaðist alveg ljómandi vel. Skaupið fannst mér frekar lélegt, þetta Lost dæmi var ekki að gera sig og það eina sem ég hló að var Lýður Oddsson, alveg frábær karakter.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og friðar á nýju ári. Munum að njóta lífsins og lifa fyrir líðandi stund.