fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Það bólar ennþá ekkert á krílinu en miðað við stríðnina í föðurfjölskyldu þess þá er alveg bókað að það vilji koma í heiminn kl. 12:15 á morgun svo að mamman missi nú af handboltaleiknum :). Ef það ákveður að koma í heiminn á morgun þá á það sama afmælisdag og Harpa frænka, á laugardag á Einar frændi afmæli, þann 26. á Fjóla frænka hans Árna afmæli og þann 28. (sem er settur dagur) átti langafi hans Árna afmæli. Nóg af dögum til að velja um.

Ég hef hinsvegar pínku áhyggjur ef ég geng framyfir því að ljósmæður eru búnar að boða til sólarhringsverkfalls 5. -6. september og hvað ef maður fer í gang þá?? Er þá engin ljósmóðir starfandi á fæðingargangi/Hreiðrinu? Þann 11. september er ég svo gengin 42 vikur og þá er maður settur í gang en það er einmitt verkfallsboðun hjá þeim 11. -12. sem myndi líklegast þýða að ég yrði ekki sett í gang fyrr en 15. september, ég neita að bíða það lengi eftir krílinu. Plús það að ég vil nú helst ekki fæða 11. september, ekki neitt voðalega skemmtilegur afmælisdagur fyrir litla krílið. Ég trúi nú samt ekki öðru en að ríkið semji fyrir þann tíma, þetta er svo mikilvæg þjónusta og ljósmæður eiga skilið að menntunin þeirra sé metin að verðleikum.

Annars er ég svo stolt af strákunum okkar, ég horfði á seinni hálfleikinn á móti Póllandi meðan að strákarnir mínir sváfu og það var frekar erfitt að mega ekki öskra og láta öllum illum látum. En þar sem að ég verð ein heima á morgun þá get ég hagað mér alveg eins og ég vil ;).

Jæja, ætla að fara að horfa á Grey´s, búin að horfa á 10 seríur af ER, 4 seríur af Friends og er núna byrjuð á Grey´s. Lífið mitt er mjög svo spennandi þessa dagana.