Fórum með litlu prinsessuna í 5 daga skoðun í dag. Hún kom voðalega vel út, er búin að ná fæðingarþyngdinni sinni og 50 gr. betur. Hún er reyndar smá gul þannig að við þurfum að vekja hana á ca. 3 tíma fresti en greinilega ekkert sem þarf að hafa áhyggjur af, fyrst að hún er að þyngjast svona vel.
Reyndar heyrði læknirinn smá smelli í öðrum mjaðmaliðnum og hún þarf að fara í ómun einhvern tímann á næstunni. Ef það kemur eðlilega út þá þarf hún samt sem áður að fara í röntgenmyndatöku þegar hún er 6 mánaða. Læknirinn tók nú samt fram að þetta væri líklegast allt í lagi en vildi bara vera viss.
Annars erum við bara að venjast þessu nýja lífi, mér finnst voðalega skrýtið að ná lítið sem ekkert að vera með Benedikt þessa dagana. Við mæðgurnar erum oftast sofandi þegar að feðgarnir vakna á morgnana þannig að ég sé hann eiginlega ekkert fyrr en eftir leikskólann og þá þarf ég auðvitað oft að vera að sinna litlunni líka. Sem betur fer eru þeir feðgar voða nánir og skemmta sér vel en mömmuhjartað er nú samt frekar lítið í sér og ég hlakka til þegar að ég get farið að vera meira með honum.
Svo finnst mér heldur ekkert skemmtilegt að Árni er búinn að sofa inni hjá honum í ca. 2 vikur. Hann er eitthvað óöruggur og ef Árni er ekki inni hjá honum, vaknar hann 3-4 sinnum á nóttu og er ca. hálftíma að sofna aftur og vaknar svo alveg kl. 6 á morgnana. Hinsvegar sefur hann alveg til 7 - 7:30 þegar að Árni er inni hjá honum og hann þarf alveg á því að halda, annars verður hann svo pirraður í leikskólanum. Þannig að ég sef ein í þessu stóra rúmi á nóttunni (reyndar læt ég nú bara litluna sofa hjá mér) en ég hlakka voða mikið til þegar að ég fæ manninn minn aftur :).
fimmtudagur, ágúst 28, 2008
Birt af Inga Elínborg kl. 8/28/2008 04:36:00 e.h.
|