Ég þoli stundum ekki að fara inn á mbl.is og lesa fréttirnar frá þeim. Sumir fréttamenn eru greinilega að flýta sér að skrifa fréttirnar og það eru mjög margar stafsetningavillur í textunum hjá þeim. Það sem fer reyndar meira í taugarnar á mér er að það skuli ekki vera hægt að senda ábendingar, þá myndi ég nefnilega alltaf vera að senda þeim ábendingar um villurnar. Mér finnst að fréttablöð/vefir eigi að sjá sóma sinn í því að hafa allt rétt stafsett. Ég hef líka tekið eftir aukningu í að hafa hástafi fremst í öllum orðum í auglýsingum og það þoli ég ekki. Þetta er mikið notað í Bandaríkjunum en þetta er ekki samkvæmt íslenskri rithefð og þess vegna á ekki að nota hástafina. Get alveg orðið hoppandi brjáluð þegar að ég sé svona auglýsingar.
En út í aðra sálma, ég varð árinu eldri á mánudaginn og fékk nokkrar vinkonur í heimsókn. Sólveig systir átti m.a.s. stórafmæli sama dag og varð 45 ára. Einungis 16 ár á milli okkar :). Hún og börnin eru einmitt að flytja heim seinna í mánuðinum, oh hlakka svo til að fá þau og ekki spillir fyrir að þau flytja auðvitað aftur í Hafnarfjörðinn, bara rétt hjá okkur. Verður gott að hafa barnapíu svona nálægt, þ.e.a.s Evu frænku en Benedikt gjörsamlega dýrkar hana :).
Annars prófaði ég að kíkja í tvö partý á laugardaginn, ég komst klakklaust í annað partýið en stoppaði ekki lengi. Ég var svo að labba inn í hitt partýið þegar að Árni hringdi og sagði að ég þyrfti að koma heim því að prinsessan á heimilinu neitaði að taka pelann, þvílíkt vesen á henni. Núna verður hún sett í strangar æfingarbúðir og fleiri pelar verða prófaðir því að ég ætla mér ekki að sitja heima öll kvöld allan þann tíma sem ég verð með hana á brjósti. Okkur er boðið í afmæli núna á laugardeginum en Árni fer bara einn í það, tel nú litlar líkur á að hún verði byrjuð að taka pelann þá. En svo er jólahlaðborð 5. desember hjá Íslenskri erfðagreiningu og þá ætla ég að fara. Þarf bara að muna að hringja áður og spyrja hvaða réttir séu ekki með mjólkurdufti í ;). Svo er reyndar annað mál hvort að ég þori að fara í jólahlaðborðið, það er nefnilega haldið á efstu hæð í Turninum og ég er auðvitað alltaf jafn lofthrædd. En maður lætur það ekki stoppa sig :/.
miðvikudagur, nóvember 12, 2008
Birt af Inga Elínborg kl. 11/12/2008 12:10:00 e.h.
|