þriðjudagur, nóvember 18, 2008

5 vikur og 1 dagur í jólin og ég er búin að föndra jólakortin :). Voðalega ánægð að vera búin með það, þá getur maður dundað sér við það í rólegheitunum að skrifa á þau. Við hjónin höfum alltaf tekið 1-2 kvöld í desember, hlustað á jólalög, borðað smákökur og drukkið jólaöl meðan að við skrifum á kortin en ég er nú ekki alveg viss um að það virki þessi jólin. Um leið og Benedikt sofnar á kvöldin tekur Berglind Elna oftast við þannig að kvöldin fara fyrir lítið. Reyndar eigum við eftir að taka myndina í jólakortin, ekki það auðveldasta í heimi með einn tæplega tveggja ára og eina þriggja mánaða, sjáum til hvernig það gengur.

Annars eigum við bara eftir að kaupa 4 jólagjafir, erum búin að ákveða þær allar þannig að það verður lítið mál að fara og kaupa þær. Ætlum að setja börnin í pössun næstu helgi og klára þetta. Reyndar á ég svo eftir að kaupa fyrir Árna en er nokkurn veginn búin að ákveða hvað hann fær :).

Þarnæstu helgi ætlum við fjölskyldan að baka piparkökur, oh hvað það verður gaman. Held að Benedikt verði örugglega mjög sáttur við að fá að dreifa hveiti út um allt eldhús. Við keyptum lítið kökukefli og ýmis mót fyrir hann þannig að hann getur gert sínar eigin piparkökur. Ef ég þekki hann rétt vill hann örugglega enga hjálp, er einmitt á þeim aldri þar sem að hann verður að gera allt sjálfur.