þriðjudagur, apríl 22, 2008

Ég er eitthvað svo pirruð þessa dagana, veit að hormónarnir eru á fullu hjá mér en það er náttúrulega engin afsökun. Greyið Árni lendir oftast í tuðinu í mér og ég er nú að reyna að passa mig. Alveg hræðilegt þegar að maður getur tuðað yfir öllu :).

Annars er allt voðalega rólegt hjá okkur, reyndar búið að vera mikið að gera í hittingum hjá mér. Fór á tvo bumbuklúbbahittinga í seinustu viku og svo var saumó í gær. Er líka búin að skrá mig á brjóstagjafanámskeið sem verður í júní. Um að gera að reyna að undirbúa sig sem best ef allt skyldi ekki ganga eins og planað.

Var einmitt að segja við stelpurnar í gær að þetta kríli væri greinilega mjög hlýðið. Ég bað það um að hafa fylgjuna aftaná svo að ég og Árni gætum fundið meiri spörk og viti menn, fylgjan er aftaná :). Svo er ég líka búin að biðja það um að halda sig aðeins lengur inni en Benedikt, þ.e.a.s. allavega fram yfir viku 36 því að þá er maður ekki lengur fyrirburi. Og í það þriðja að brjóstagjöfin myndi ganga betur. Nú er bara svo hversu vel það hlýðir öllu þessu sem mamman er að biðja það um. Auðvitað skiptir samt bara mestu máli að það sé heilbrigt.