Það er eitthvað voðalega lítið að gerast hjá mér þessa dagana. Ég er búin að vera í miklu fríi frá skólanum því að það eru einhverjar ráðstefnur og ráðstefnurnar eru alltaf í salnum sem okkur er kennt í. Þannig að nokkrir kennsludagar eru búnir að falla niður. Það er samt alveg fínt, er búin að vera dugleg að læra. Reyndar er ég nú ekki sátt við það að ég keypti mér áherslupenna í síðustu viku og þeir eru allir búnir!! Skil það ekki alveg, hvað þeir endast stutt. Ég er nefnilega þannig að ég get ekki lesið án áherslupenna, bara eitthvað sem ég er búin að venja mig á, þannig að núna get ég ekkert lesið. Verð að bíða þangað til á morgun þegar að ég kemst í bæinn.
Svo er haustfríið bráðum að skella á, verð í fríi frá 7. - 17. október. Það verður voðalega næs, en ætli maður verði ekki bara heima að lesa. Við getum örugglega ekki skroppið til Kaupmannahafnar vegna þess að Árni er að fara í próf og þarf að skila ritgerð um leið og haustfríið endar.
Reyndar kvíði ég fyrir því þegar að þriðji kúrsinn minn byrjar. Þá fer ég í Vinnusálfræði. Málið er bara að þessi kúrs byrjar 22. október. Þetta eru semsagt umræðutímar þannig að ég verð að gjöra svo vel að skilja dönskuna alveg (og tala hana) því að einkunnin byggist einungis á virkri þátttöku í tímum. Og það er svo stutt í hann og ég er ekki alveg komin á það stig að skilja dönskuna fullkomlega, hvað þá að tjá mig á henni. En þetta hlýtur að reddast, vonum það allavega.
fimmtudagur, september 23, 2004
Birt af Inga Elínborg kl. 9/23/2004 10:16:00 f.h.
|