Oh hvað ég er sár út í sjálfa mig. Ætlaði að gera "Jól í skókassa" eins og í fyrra en tíminn hreinlega flýgur áfram og ég sá að seinasti skiladagur er í dag. Ég er ekki einu sinni komin með kassa, hvað þá eitthvað ofan í þá þannig að ég næ þessu ekki í ár. Mér fannst svo gaman að þessu í fyrra en við setjum bara 2 gjafir undir jólatréð í Kringlunni í staðinn :). Ætla svo innilega að muna eftir þessu fyrir næstu jól.
Annars er ég búin að finna kjól fyrir afmælið mitt, voða flottur, allavega að mínu mati. Hann er reyndar aðeins í fínna laginu en ég verð þá bara langfínust í afmælinu mínu, tíhí. Núna á ég bara eftir að fá skó og þá fer þetta allt að smella saman.
Forlagið var að gefa út nýja bók eftir Arnald Indriðason, ég var fljót að benda Árna á að mig langar í hana í jólagjöf. Hann er auðvitað alveg frábær rithöfundur, hef lesið allar bækurnar hans a.m.k. tvisvar og hlakka alltaf til að lesa nýjar bækur eftir hann. Það er í boði að hala niður fyrstu köflunum í bókinni en ég tími því eiginlega ekki. Veit fátt betra en að skríða upp í rúm að kvöldi aðfangadags með nýja bók og lesa langt fram eftir nóttu.
laugardagur, nóvember 03, 2007
Birt af Inga Elínborg kl. 11/03/2007 09:47:00 f.h.
|